Skyldunámsefni í vímuvörnum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:09:01 (5804)

1996-05-08 15:09:01# 120. lþ. 133.9 fundur 479. mál: #A skyldunámsefni í vímuvörnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til menntmrh. um hvort hann hyggist gera fræðsluefni um vímuefnavarnir að skyldunámsgrein. Ég vil gjarnan fjalla örlítið um þörfina fyrir að gera þetta námsefni að skyldugrein.

Á nokkrum þingum flutti þingflokkur Alþfl. þingsályktunartillögur, alhliða tillögur um varnir gegn vímuefnum og einn liður þeirra var að námsefnið vímuefnavarnir yrði hluti skyldunáms í grunnskólum. Á þeim tíma kynnti ég mér mjög vel viðhorf þeirra sem að þessum málum vinna, ekki síst Lionshreyfingarinnar og það átak sem þeir höfðu gert. Ég held að þetta mál hafi verið flutt á þremur þingum og á næsta þingi á eftir lagði heilbrrh. fram frv. sem einnig tók til þátta hjá einum fjórum ráðuneytum. Þar var fjallað um ábyrgð hins opinbera hvað snertir fræðslu um skaðsemi vímuefnaneyslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Það náðist því miður ekki samstaða um framgang þess stjfrv. og ég tel að það hafi verið vegna þess að það tók til margra ráðuneyta. Það er alltaf viðkvæmt þegar einn ráðherra flytur frv. þar sem áætlað er að setja lög sem ná yfir verksvið annarra.

Það hefur verið allt of lítil áhersla á forvarnir hvað varðar áfengi, tóbak og vímuvarnir. Miðað við kostnað við eftirmeðferð vegna afleiðinga af neyslu þessara efna, þá er það ótrúlegt hvað lítið er lagt í forvarnirnar. Það má benda á að í umfjöllun heilbrigðisnefnda um tóbaksfrv. sem þar hefur verið til umfjöllunar kom þessi kostnaður mjög berlega fram.

Ég vil líka vísa til þess, virðulegi forseti, að þegar átakið Stöðvum unglingadrykkju var í gangi, var bók send til 30 þúsund heimila á kostnað átaksins til umhugsunar fyrir foreldra og reynt að beina því til allra sem að slíkum málum koma hversu mikilvægt það er að reyna að taka á þeim málum sem hafa áhrif á drykkju og neyslu barna og ungmenna, ekki síst löggjöfina. Í svörum í skýrslu um vímuefnamál sem nýlega var dreift í þinginu og dreift eftir að ég bar fram þessa fyrirspurn kemur einmitt fram að þrátt fyrir að ákvæði um fíknivarnir í grunnskólum sé í aðalnámskrá, þá eru það fyrst og fremst stóru sveitarfélögin sem hafa skipulega stuðlað að kennslu í fíknivörnum og þá fyrst og fremst í 7. og 8. bekk. En hver og einn grunnskóli ræður þessu og í raun og veru leggur hvert og eitt sveitarfélag fjármagn fram.

Nú hefur það komið í ljós við vinnu allra þeirra fjölmörgu sem eru í áhugavinnu til að stuðla að þessum vörnum, að það er mjög mikilvægt að vera með þessa fræðslu í skólunum og mjög góður árangur að því er talið er í þeim skólum og sveitarfélögum sem hafa kostað til, þó að það sé mat flestra að það þurfi að fara neðar í aldurinn.

Lionsklúbbarnir standa fyrir enn einu átakinu og hvetja til þess að t.d. Lions Quest námsefnið fari inn í alla skóla landsins eða að það verði lögfest að taka þessa fræðslu upp. Mér er engin launung á því að það er sannfæring mín að ef námsefni um þetta efni yrði lögfest í grunnskólum landsins þá værum við að stíga stórt skref í forvörnum. Því spyr ég menntmrh.: Hyggst hann lögfesta þetta námsefni í grunnskólum landsins?