Íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:25:39 (5810)

1996-05-08 15:25:39# 120. lþ. 133.10 fundur 482. mál: #A íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum vikum birtist hópur nemenda úr Menntaskólanum við Hamrahlíð á Austurvelli í þeim tilgangi að vekja athygli á aðstöðuleysi skóla síns til íþróttakennslu. Í grein sem nemandi í skólanum og fulltrúi í skólastjórn Menntaskólans við Hamrahlíð skrifaði í Morgunblaðið 23. apríl vekur hann athygli á því að þrátt fyrir það að Menntaskólinn við Hamrahlíð verði 30 ára nú í haust, það eru 30 ár liðin frá því að skólinn tók til starfa, hefur ekki verið staðið við neinar þær áætlanir sem hafa verið gerðar til þess að reisa íþróttahús við skólann. Eins og fram kemur í grein hans hefur þrisvar sinnum verið tekin fyrsta skóflustunga að þessu íþróttahúsi. Það liggja fyrir teikningar og það hafa verið gerðar áætlanir um framkvæmdir, en alltaf hafa þær dagað uppi.

Það gefur auga leið að nemendur í ströngu námi hafa mikla þörf fyrir hreyfingu og líkamsrækt. Hún er afar nauðsynleg og því hefur verið haldið fram, m.a. af sjúkraþjálfurum í mín eyru, að íþróttakennsla í skólakerfi okkar sé af allt of skornum skammti og ekki nógu markviss. En það leiðir m.a. til þess að líkamlegt ástand ungs fólks er ekki nógu gott eins og síðar kemur fram á lífsleiðinni. Samkvæmt framhaldsskólalögum á að veita íþróttakennslu. Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur leyst það mál með því að taka á leigu íþróttahús í allnokkurri fjarlægð frá skólanum. Það er augljóst mál að slíkt er býsna erfitt í framkvæmd.

Íþróttakennari sem fylgdi þessum hópi nemenda hingað niður á Austurvöll komst svo að orði að þetta væri að verða algerlega óþolandi ástand. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að bæta úr aðstöðuleysi Menntaskólans við Hamrahlíð til íþróttakennslu?