Íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:28:04 (5811)

1996-05-08 15:28:04# 120. lþ. 133.10 fundur 482. mál: #A íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mér er vel kunnugt um ástandið í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég hef átt þar tvö börn sjálfur. Skólinn er í nágrenni við heimili mitt. Ég sé nemendur oft stunda íþróttir utan dyra og tel að það sé ekki beint óhollusta í því að hafa tækifæri til þess eins og þeir gera. Og ég veit að við erfiðar aðstæður í skólanum hafa kennarar lagt sig fram um að nýta þá kosti sem fyrir eru til þess að kenna unga fólkinu sem þar nemur að rækta líkama sinn og stunda heilsurækt þó að íþróttahúsið vanti. Að ýmsu leyti er kannski með slíkri fræðslu lagður grunnur að viðvarandi líkamsrækt sem nýtist mönnum lengur en á skólaaldri sem við vitum þegar fólk lærir að æfa sig utan dyra við göngur og hlaup.

Varðandi spurninguna um það hvenær má vænta þess að bætt verði úr þessu ástandi sem varað hefur í 30 ár, þá vil ég láta þess getið að um þessar mundir eru þrjár stórbyggingar fyrir framhaldsskóla í smíðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er um að ræða viðbyggingu við Menntaskólann í Kópavogi vegna kennslu í matvælagreinum, nýtt skólahús fyrir Fjölbrautaskólann í Garðabæ og hús fyrir nýjan fjölbrautaskóla, Borgarholtsskóla í Grafarvogi sem tekur til starfa á hausti komanda. Langstærst af þessum framkvæmdum er bygging Borgarholtsskóla og er áætlað að henni ljúki að mestu á næsta ári. Á árinu 1998 er því reiknað með að fjárhagslegt svigrúm gefist til að taka til við endurbætur á húsnæði framhaldsskólanna í Reykjavík.

Bygging íþróttahúss við Menntaskólann við Hamrahlíð er eitt þeirra verkefna sem þá munu liggja fyrir, en fleiri fjárfrek úrlausnarefni eru aðkallandi svo sem uppbygging Menntaskólans í Reykjavík, viðbygging við Ármúlaskóla, stórfelldar endurbætur á Sjómannaskólahúsinu og fleira gæti ég talið.

[15:30]

Ekki er hægt á þessum tímapunkti að slá neinu föstu um forgangsröð eða framkvæmdahraða. Kemur þar hvort tveggja til að óvissa er um fjárveitingar og eins að eftir er að semja um hlut Reykjavíkurborgar í uppbyggingu framhaldsskóla í borginni. Það mál að Reykjavíkurborg vill ekki ganga til samninga við menntmrn. eða ríkið um framhaldsskólauppbygginguna í borginni stendur þróuninni í þessum málum æ meira fyrir þrifum. Og það er mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn Reykvíkinga að velta því fyrir okkur hvaða leiðir eru færar til þess að fá Reykjavíkurborg til þátttöku í þessari uppbyggingu. Ég tek sem dæmi Menntaskólann á Akureyri sem er gamall skóli, ekki síður en Menntaskólinn í Reykjavík sem að vísu er eldri. Þar er verið að byggja við og Akureyrarbær tekur þátt í kostnaði við þá uppbyggingu. Ég sé ekki hvernig við getum lagt á ráðin um uppbyggingu framhaldsskólakerfisins í Reykjavík án þess að Reykjavíkurborg ljái a.m.k. máls á viðræðum og komi til samstarfs um það og taki þátt í þessari uppbyggingu. Það eru engin rök að halda því fram að það sé verið að flytja grunnskóla til borgarinnar og þess vegna sé henni sniðinn of þröngur stakkur. Við flytjum einnig fjármuni og meiri fjármuni en við gátum vænst með því að ríkissjóður ætlar að taka þátt í uppbyggingu grunnskólans til þess að einsetningin geti átt sér stað. Það eru því engin rök hjá Reykjavíkurborg að hafna því og standa gegn því að taka þátt í uppbyggingu á framhaldsskólastiginu.

Að lokum vil ég láta þess getið að við Ármúlaskóla er ekkert íþróttahús. Þar er þó íþróttabraut og þar hef ég rætt við nemendur og skólamenn. Þeir óska ekki eftir því að þar verði reist íþróttahús. Þeir telja að aðstaðan sem þeir hafa í Laugardalshöllinni, á Laugardalsvellinum, í Framheimilinu og á fleiri stöðum þar sem þeir stunda sínar íþróttir og sína kennslu í íþróttum sé sú besta sem völ er á í landinu. Þeir kjósa að halda því fyrirkomulagi áfram þannig að það er mismunandi eftir skólum hvernig að þessu er staðið. Raunar er ég þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök þegar íþróttahús var byggt við Hlíðaskóla sem er við hliðina á Hamrahlíðarskólanum að það skyldi ekki hafa verið hugað að því þegar það íþróttahús var byggt rétt við innkeyrsluna í Hamrahlíðarskólann að það nýttist bæði fyrir grunnskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð. Það er of seint að harma það. Það þarf að gera þarna úrbætur og ég tel að bygging íþróttahússins við Menntaskólann við Hamrahlíð hljóti að verða eitt af forgangsverkefnunum þegar þeim stórframkvæmdum sem ég gat um er lokið á höfuðborgarsvæðinu og svigrúm skapast árið 1998.