Íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:34:40 (5813)

1996-05-08 15:34:40# 120. lþ. 133.10 fundur 482. mál: #A íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og þeim þingmanni sem hér tók til máls. Ég get tekið undir hvert orð sem fram kom hjá honum. En það kom fram í máli hæstv. menntmrh. að hér eru ýmsar spurningar á ferð og ýmis álitamál og verkefnin mörg sem fram undan eru. Auðvitað reyna skólarnir að leysa sín mál með ýmsum hætti. M.a. með þeim hætti að hæstv. menntmrh. verði var við nemendurna frá Menntaskólanum við Hamrahlíð sem eru að hlaupa um göturnar í kringum heimili hans og reyna eitthvað að hreyfa sig. Þótt það sé góðra gjalda vert er það ekki fullnægjandi því að á meðan vetur geisar er erfitt að stunda einhverja íþróttakennslu með viti og með skipulagi. Þar á ákveðin uppbygging sér stað sem þarf að fylgja eftir.

Ég get tekið undir að það voru gríðarleg mistök þegar íþróttahúsið var byggt við Hlíðaskóla. Ég man ekki hvernig það kom til, en einhverra hluta vegna kom samvinna ekki til greina. Þetta er auðvitað alveg út í hött og ég veit reyndar ekki hvernig það íþróttahús er nýtt. En yfirleitt eru íþróttahúsin í borginni mjög vel nýtt og það er setið um þau og þau eru að reyna að þjóna almenningi á sama tíma og nemendum. Og eftir því sem ég best veit eru biðlistar og erfitt að komast að. Það er því skortur á þessu húsnæði og þar eiga skólarnir auðvitað að hafa forgang.

Varðandi það sem snýr að borginni er eriftt að átta sig á því máli. Hæstv. menntmrh. hefur haldið þessu fram fyrr og ég get ekki sagt annað en það að ég ætla að kynna mér þetta mál alveg sérstaklega. Ég tel mig hafa nokkuð greiðan aðgang að borgarstjórninni í Reykjavík og það verður auðvitað að kanna þá fullyrðingu sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. um það að borgin standi þróun framhaldsskóla hér í borginni fyrir þrifum. Þarna eru einhver deilumál á ferð um það hver á að gera hvað og auðvitað verður að leysa úr þeim.

En ég vona að íþróttahús við Menntaskólann við Hamrahlíð komist á dagskrá sem allra fyrst en auðvitað þarf að ljúka þeim verkefnum sem fyrir eru. Hins vegar hafa nemendur við þennan skóla beðið í 30 ár og það verður að teljast ansi langur biðtími.