Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:46:33 (5817)

1996-05-08 15:46:33# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:46]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því atriði sem hann spurði um. Þetta hefur lengi verið mitt áhugamál og ég flutti fyrir nokkrum árum skriflega fyrirspurn um það hvernig meðferð skólahúsa og innbús þeirra væri háttað og fékk greið svör frá menntmrn. þá. Síðan flutti ég þáltill. um að gerðar yrðu tillögur um það hvernig best væri hægt að varðveita arf og eignir húsnæðraskólanna. Sú tillaga var til komin vegna þess að konur víðs vegar að af landinu höfðu sagt mér frá áhyggjum sínum vegna þessara gripa. Við erum að tala um borðbúnað, silfur, dúka, hannyrðir, vefstóla, málverk, styttur og alls konar gjafir sem þessum skólum hafa borist. Vegna hins breytta hlutverks skólanna hafa menn verið í vandræðum með það hvað ætti að gera við þá.

Ég vona að nefndin sem hæstv. menntmrh. skipaði komist að góðri niðurstöðu varðandi þetta mál. Það er auðvitað ekki hægt annað en bíða eftir niðurstöðum hennar.