Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:51:28 (5820)

1996-05-08 15:51:28# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör sem hann gaf hér. Ég vil einnig þakka þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þetta lýsir kannski svolítið breyttum tímum í þjóðfélagi okkar því að einhvern tíma hefði verið talað um að hér væri um kvennagildi eða mjúk mál að ræða. Aldrei þessu vant standa fleiri karlmenn upp en konur til að ræða þessi mál og sýnir það kannski að ... (Gripið fram í: Hinir mjúku karlar.) það eru til, já, mjúkir karlar og að hinn ágæti Kvennalisti hefur ýmsu góðu komið til verka og að menn taka við sér þegar rætt er um mál sem þessi.

Ég tel mjög brýnt, hæstv. menntmrh., að sú nefnd sem hefur verið skipuð um þessi mál ljúki sem allra fyrst störfum. Það er góð regla að þegar nefndir eru skipaðar að setja þeim tímamörk. Ég hvet hæstv. menntmrh. til þess að setja tímamörk þannig að nefndin ljúki störfum sem allra fyrst vegna þess að alveg eins og ég kom inn á áðan er hér um viðkvæm mál að ræða sem hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir mjög marga sem störfuðu eða stunduðu nám við þessa skóla. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur það verið of algengt að ýmsir munir úr þessum ágætu skólum hafi því miður glatast.