Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:53:06 (5821)

1996-05-08 15:53:06# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:53]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vona að umræðurnar hafi leitt í ljós að af hálfu ríkisins sem eiganda þessara húsa eða með ráðstöfunarrétt yfir þeim, hafi verið staðið þannig að málum að þau eru öll í notkun eða hugmyndir eru um það hvernig best sé að nýta þau og mörg þeirra þjóna enn góðum tilgangi. Þeir munir sem hér er um að ræða eru vafalaust og vonandi allir í góðra manna höndum og hafa ekki týnst eða glatast. Ég get ekki fullyrt neitt um það og að sjálfsögðu ætla ég ekki að taka það á mig. En hitt er ljóst að það er unnið að þessum málum og það er verið að móta stefnu á vegum þessarar nefndar og fara yfir þau og finna vonandi endanlega niðurstöðu.

En ég vil aðeins láta þess getið að ég hef heimsótt stofur bæði í framhaldsskólanum á Laugum og einnig núna nýlega á Ísafirði. Þar er tónlistarskólinn í því húsi sem stofan er sem ég gat um. Það er umhugsunarefni finnst mér líka, þegar menn fara þar um, hvort það er ekki hægt að nýta þetta húsnæði betur hvað sem verður um munina, því að frá mínum bæjardyrum sé er næsta dapurlegt að koma inn í slíkar stofur sem standa auðar nema þar komi konur saman til minningastunda öðru hverju. Ég held það væri skynsamlegt að taka líka ákvarðanir um að þetta húsnæði yrði nýtt, t.d. á Ísafirði, undir tónlistarskólann og þetta yrði meiri lifandi þáttur í umhverfinu og starfinu hvað sem líður mununum og varðveislu þeirra og menn eigi að treysta öðrum fyrir þeim.

Þetta vildi ég láta koma fram því að ég hef rekist á það að þetta eru svona minningastofur. Það held ég að sé ekki heppilegt heldur fyrir minninguna um þessa skóla og það eigi ekki að geyma þá eins og einhverjar fornminjar. Þeir þjónuðu tilgangi á sínum tíma. Auðvitað þarf menntunin að vera áfram, en henni er miðlað öðruvísi núna. Þetta á líka að vera lifandi hluti af samtíma okkar þó að starfsemin hafi breyst.