Dráttarvextir

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 16:05:01 (5825)

1996-05-08 16:05:01# 120. lþ. 133.12 fundur 473. mál: #A dráttarvextir# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[16:05]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þessari stundu treysti ég mér ekki til að fullyrða að dráttarvextir muni lækka í kjölfar þeirra fyrirhuguðu og hugsanlegu breytinga sem gerðar munu verða á vaxtalögum. Ég sagði einfaldlega að ég teldi rétt að taka þessi mál til endurskoðunar í sumar og hef í hyggju að leggja fram frv. til breytinga á vaxtalögum á komandi þingi, þ.e. á haustþingi. En það er auðvitað útilokað að segja til um hvort dráttarvextir muni lækka bara með því að leggja frv. fram. Gerist það hins vegar að dráttarvextir verði gefnir frjálsir eins og vextir skulum við vona að sú samkeppni sem þá verður til muni leiða til lækkunar dráttarvaxta. En aðalatriðið er að lægri vextir almennt eiga að leiða í núverandi kerfi til lægri dráttarvaxta.

Varðandi það að bankarnir þurfi að skýra að ekki hafi orðið um frekari vaxtalækkanir hjá þeim að ræða í kjölfar þeirrar vaxtalækkunarhrinu sem nú hefur verið í gangi um nokkurn tíma og Seðlabankinn hafði frumkvæði að í aprílmánuði á ég þar einfaldlega við að yfirleitt hafa innlánsvextir bankanna verið talsvert lægri en innlánsvextir eða vextir fimm ára ríkisskuldabréfa. Nú er hins vegar svo komið að innlánsvextir bankanna eru orðnir talsvert hærri en vextir ríkisskuldabréfa. Sú breyting er vegna þess að vaxtalækkunin hefur orðið miklu meiri á markaðnum og bankarnir hafa ekki fylgt henni eftir. Ég tel að bankarnir þurfi að skýra af hverju þeir fylgja ekki markaðnum niður og þeim breytingum sem þar hafa orðið. Það er hins vegar ekki öll nótt úti í þessum efnum enn vegna þess að markaðurinn mun taka örlítið seinna við sér og það tekur ákveðinn tíma að ná vöxtum niður. Ég á von á því að vextir bankanna muni halda áfram að lækka. Það eru allar forsendur til þess og ekki síst þessi sem ég var núna að lýsa. Hún gefur von um það að bæði innláns- og útlánsvextir geti lækkað vegna þess að bankarnir eiga ekki að þurfa á meiri vaxtamun að halda en þeir hafa í dag. Hann væri betur minni en hann þó í raun er.