Álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 16:09:26 (5827)

1996-05-08 16:09:26# 120. lþ. 133.8 fundur 453. mál: #A álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[16:09]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kemur mér mjög mikið á óvart ef vörugjaldið hefur ráðið úrslitum um það hvort af þessum viðskiptum varð eða ekki og er sjálfsagt að taka það til athugunar.

Ég vil almennt segja um það vörugjald sem lagt hefur verið á að það er þannig til komið að fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir 1992 ákvað fjárln. að leggja fram frv. um þetta sérstaka vörugjald til þess að standa undir hafnaframkvæmdum víðs vegar um landið. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að hafnarskilyrði eru mjög misjöfn, en við Íslendingar höfum sérstöðu að því leyti að nálega allur innflutningur og nálega allur útflutningur fer um eina höfn, Reykjavíkurhöfn, sem jafnframt er mikil fiskihöfn. Af þeim sökum varð samstaða um það og það þótti eðlilegt að fara þessa leið til þess að afla fjár til hafnargerða úti um land. Það hafa af og til komið upp hugmyndir um að rétt sé að draga úr framlögum ríkissjóðs til hafnargerða. En af því hefur ekki orðið vegna þess að hafnarskilyrði í einstökum sjávarplássum og einstökum kaupstöðum eru mjög misjöfn og augljóst t.d. að Vestmanneyingar og Seltirningar hafa þar aðra og ólíka hagsmuni. Þess vegna er það sem við höfum haldið áfram að styrkja þennan sérstaka þátt sem er í anda heilbrigðrar byggðastefnu og til þess að jafna atvinnuskilyrði sem víðast á landinu.

Það sérstaka mál sem þingmaðurinn bryddar upp á, hvort rétt sé að leita eftir heimild í lögum til þess að fara svo að þegar um umskipun er að ræða, hér er verið að reyna að ná viðskiptum til Grænlands, finnst mér rétt að athuga það. En ég vil líka minna á að samkeppni milli hafna er orðin mjög óvægin upp á síðkastið og þess því miður dæmi að hinar ríkari hafnir neyti aðstöðu sinnar til þess að draga til sín viðskipti með undirboðum sem ekki eru skiljanleg með hliðsjón af almennum hafnargjöldum í viðkomandi höfnum.