Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:24:51 (5837)

1996-05-09 12:24:51# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:24]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í þessari umræðu að tíminn hefur unnið með okkur Íslendingum í þessu máli. Sú þróun sem átt hefur sér stað á alþjóðavettvangi er öll okkur hliðholl. Það er að renna upp fyrir fólki í æ ríkara mæli en áður að það er fjarstæða að ekki megi nytja öll sjávarspendýr í hafinu eins og aðrar auðlindir hafsins. Það er fjarstæða. Hins vegar hafa málin tekið þá stefnu að ýmsir menn hafa unnið að þessu máli því til framdráttar, þar á meðal sá sem var nefndur hér áðan, Magnús Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður. Og þingmenn hafa þar sem þeir hafa haft aðstöðu til tekið þetta mál upp með þeim árangri sem fram kom í máli málshefjanda. Það hafa náðst mikilvægar samþykktir á vettvangi þingmanna á alþjóðlegum vettvangi um þetta atriði.

En málið er ekki einfalt og við skulum ekki gleyma því að Alþingi gerði þau mistök 1983 að mótmæla ekki hvalveiðibanninu sem þá var sett á og við sitjum uppi með það vandamál. Við eigum sömuleiðis eftir að greiða úr stöðu Íslands gagnvart Alþjóðahvalveiðiráðinu sem við höfum sagt okkur úr. Ég er ekki viss um að það hafi orðið okkur til framdráttar í þessu máli eftir á að hyggja.

Hvað þurfum við að gera núna? Við þurfum að marka skynsamlega stefnu í málinu á næstunni. Ég tel eðlilegt að utanrmn. hafi forgöngu um að ræða þetta mál og móta þar stefnu þannig að Íslendingar geti hafið þessar veiðar. Það er matsatriði hvenær þær eiga að byrja eins og ráðherrann sagði. Það þarf að undirbúa það vel til þess að við lendum ekki í vandræðum gagnvart öðrum þjóðum og gagnvart öðrum afurðum sem Íslendingar flytja út. Við þurfum líka að hafa í huga að það þarf að koma hvalaafurðum í verð.

En stefnan er skýr að því leyti til að það liggur alveg fyrir að Íslendingar munu hefja þessar veiðar á nýjan leik. Við þurfum að koma okkur saman um það hvenær það gerist, undirbúa það skynsamlega, með viðræðum og samþykktum og skynsamlegum undirbúningi á öllum vettvangi sem tiltækur er. En eitt er ljóst. Íslendingar munu hefja þessar veiðar og það fyrr en varir.