Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:31:14 (5840)

1996-05-09 12:31:14# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:31]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Hér fer fram umræða um mikilsvert mál undir þröngum tímamörkum. Hér verður því að sleppa mörgu sem ég annars hefði viljað segja. Það er ljóst að það var Alþingi sem samþykkti að lúta því banni sem Alþjóðahvalveiðiráðið setti á hvalveiðar. Það er því jafnljóst að hvalveiðar verða ekki hafnar að nýju hér við land án afskipta Alþingis. Við verðum að koma því skýrt til skila hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir þá nytjastofna sem brauðfætt hafa þessa þjóð öðru fremur ef hvalastofnarnir stækka jafnmikið og verið hefur hin síðari ár. Þar sem ætla má að hvalirnir umhverfis Ísland éti hvorki meira né minna en álíka mikið eða meira en við veiðum sjálfir af þessum fiski.

Þeir sem andmælt hafa hvalveiðum okkar eiga það flestir sameiginlegt að taka hvorki efnislegum né vísindalegum rökum. Öll okkar áform hvað þessar veiðar varðar byggjast á yfirgripsmikilli þekkingu vísindamanna okkar sem tvímælalaust standa fremstir hvað varðar þekkingu á hvalveiðum og öllum vísindum er lúta að þeim.

Virðulegi forseti. Ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. sjútvrh. að hann taki nú þegar á málinu og komi með tillögu þar um þannig að Alþingi geti tekið á þessu þýðingarmikla máli og leitt það farsællega til lykta.