Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:36:59 (5845)

1996-05-09 12:36:59# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:36]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju með þær jákvæðu undirtektir sem hér hafa komið fram við hvalveiðarnar. Mér sýnist að hjarta Alþingis slái í takt við þjóðarsálina í þessu máli. Ég vísa til föðurhúsanna þeim ummælum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að hér sé um einhvern loddaraleik að ræða og vil upplýsa hv. þm. um það að ég mun halda áfram að tala fyrir þessu máli þangað til það ber árangur.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir taldi að fjölgun hvala hefði ekki áhrif á fiskstofnana. Ég vil með leyfi forseta vísa í ummæli Jóhanns Sigurjónssonar, aðstoðarforstjóra Hafrannsóknastofnunar, þar sem segir að verulegar líkur eru á að afrakstur þorskstofnsins geti minnkað um 10% þegar helstu hvalastofnar hafa náð þeirri stærð sem þeir voru í áður en hvalveiðar hófust.

Hæstv. sjútvrh. talaði um að við hefðum átt í miklum deilum við ýmsar þjóðir í fiskveiðimálum. Það er rétt hjá honum en þær deilur eru af allt öðrum toga spunnar en ágreiningur við aðrar þjóðir um hvalveiðar. Deilurnar um fiskveiðarnar snúast um hagsmuni, gífurlega hagsmuni. Þær snúast um hvernig á að skipta kökunni og hvað hver þjóð á að fá í sinn hlut af tilteknum auðlindum hafsins. Andstaða þjóða við hvalveiðar okkar er af allt öðrum toga spunnin. Hún er í besta falli tilfinningasemi en kannski fyrst og fremst rugl og rökleysa og undanlátssemi við háværa öfgahópa.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að það væri ekki hægt að selja hvalaafurðirnar. Á það hefur ekkert reynt. Það hefur ekkert hvalkjöt verið á heimsmarkaðnum í sex eða átta ár. Það er vitað að það er mikil eftirspurn eftir hvalkjöti í Japan. Ég trúi því að ef hvalkjöt býðst, þá verði það eins og víðar að lögmál markaðarins ráði, framboð og eftirspurn en ekki einhverjar tiktúrur stjórnvalda. Mér finnst ákvörðun Norðmanna um að ætla að tvöfalda hrefnukvóta sinn á þessu ári benda til þess að þeir ætli að fara að hefja útflutning á hvalkjöti. Þeir hafa ekki náð að selja innan lands allt sitt kjöt. Samt ætla þeir að tvöfalda veiðarnar. Það segir manni auðvitað að þeir stefna að útflutningi.

Hæstv. forseti. Ég hvet að lokum hæstv. sjútvrh. til að taka þetta mál upp í ríkisstjórn og flytja till. til þál. um hvalveiðar það tímanlega að hægt verði að samþykkja hana áður en þessu þingi lýkur.