Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:39:14 (5846)

1996-05-09 12:39:14# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:39]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda og þakka þann stuðning við meginmarkmið okkar í þessu efni sem hér er fyrir hendi, enda hef ég aldrei efast um að hér væri fullur vilji til að taka á þessu máli þó menn greini kannski á um það hversu hratt eigi að fara.

Vegna gífuryrða hv. 4. þm. Austurl. sem talaði um loddaraskap, kemst ég ekki hjá því að rifja það upp að hann sjálfur skrifaði undir þá skýrslu sem ég var að vitna til þar sem lagt er til að ríkisstjórnin taki tillit til stöðu landsins á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalaafurðir og áhrif hvalveiða á útflutningsmarkað. Svo kemur hv. þm. hér þegar nógu margir áheyrendur eru á pöllunum og segir: ,,Það á ekki að taka tillit til neins af þessu. Það á bara að vaða áfram.`` Ef eitthvað er loddaraskapur þá er það svona málflutningur og hann þjónar ekki okkar hagsmunum. Við eigum hins vegar að fylgja fast og ákveðið fram okkar stefnu í þessu efni, þ.e. að nýta hvalina (Gripið fram í: Hvenær?) eins og aðra stofna svo fljótt sem verða má. Ég hef trú á því að það verði fyrr en síðar. En það má öllum vera ljóst að ákvörðun af þessu tagi þarf að vanda. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hún kostar átök. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að við höfum verið í miklum átökum. Það er auðvitað takmarkað hvað við getum staðið í mörgum deilum í einu á alþjóðavettvangi ef við ætlum að ná árangri. Þess vegna er það fagnaðarefni að við erum að ná samningum. Við höfum núna náð samningum um Reykjaneshrygg og síld. Það skapar okkur nú nýtt svigrúm til þess að fara að takast á við þetta verkefni á nýjan leik. Ég vona að það svigrúm skili þeim árangri sem við erum sameinuð um að stefna að.