Fyrirkomulag utandagskrárumræðu

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:41:40 (5847)

1996-05-09 12:41:40# 120. lþ. 134.93 fundur 297#B fyrirkomulag utandagskrárumræðu# (um fundarstjórn), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að lýsa óánægju minni með tilhögun þessarar umræðu. Ég vissi ekki betur og ég held margir þingmenn aðrir, en að hér ætti að fara fram venjuleg hálftíma umræða um dagskrármálið. Forseti lýsti því yfir í byrjun fundar að hann mundi jafna ræðutíma út á þingmenn. En svo virðist sem samið hafi verið að verulegu leyti um tilhögunar umræðunnar fyrir fram þannig að það að biðja um orðið í upphafi fundar hafi verið tilgangslaust eða markleysa af hálfu þeirra sem ekki höfðu þá tekið þátt í slíkum fyrirframundirbúningi umræðunnar. Ég kann satt best að segja ekki vel við slíka tilhögun. Það hefur ekki verið samið fyrir mína hönd um það að menn væru ekki jafnsettir þegar þeir bæðu um orðið.

Auk þess finnst mér það orka tvímælis að þegar svo háttar til að málshefjandi og hæstv. ráðherra eru úr sama flokknum, að þá skuli einmitt sérstaklega flestir aðrir óbreyttir þingmenn úr þeim hinum sama flokki fá orðið.

Ég tel líka að þegar svo stendur á að augljóslega er þörf fyrir mun rýmri ræðutíma og meiri tíma til skoðanaskipta en rúmast innan þessa forms, þá séu tilefni til að taka það til skoðunar hvort umræðan eigi ekki að vera rýmri. Ég tel að sé varla boðlegt að neita kannski hátt í 10 mönnum um orðið, mönnum sem sannarlega hafa ástæður til að leggja þar eitthvað til mála, svo sem eins og formanni sjútvn. sem hér talar. Það er þó kannski vel við hæfi að einmitt hann sérstaklega skuli verða fórnarlamb þess að ekki sé hægt að offra þó ekki væri nema 30 sekúndum t.d. á undirritaðan.

Það er svo í stíl við annað að hæstv. sjútvrh. skuli í lok umræðunnar nota ræðutíma sinn til þess að tala um annað en hann átti að gera, þ.e. ráðast á þingmenn sem ekki hafa tækifæri til þess að svara fyrir sig. Ég mótmæli þessu fyrirkomulagi.