Fyrirkomulag utandagskrárumræðu

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:43:41 (5848)

1996-05-09 12:43:41# 120. lþ. 134.93 fundur 297#B fyrirkomulag utandagskrárumræðu# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég veit að forseti hefur ekki tök á að grípa inn í mál manna eða hafa stjórn á því. En ég vek athygli á því hvað gerist hér í þessari umræðu undir þessu formi. Bæði málshefjandi og hæstv. ráðherra sjá ástæðu til þess í lok umræðu að veitast að þeim sem hér stendur, að veitast að mér og þá sérstaklega hæstv. ráðherra vitandi það þó að ég átti kannski ekki minnstan þátt í því að það tókst full samstaða um þá skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnar til í sínum málflutningi að allt hvíli á, þá skýrslu sem hann fékk frá fulltrúum þingflokka á Alþingi. Ég get rakið það fyrir ráðherranum við hentugleika hvernig sú vinna þróaðist stig af stigi. Ég tel það ekkert ofmælt það sem ég segi um þetta efni. Þegar ég tala um að hér sé uppi loddaraleikur í þessu máli, þá er það staðreynd, virðulegur forseti, að það er nokkuð reglubundið að undir þinglok í önnum þingsins koma aðilar sem eru stuðningsaðilar ríkisstjórnar fram með kröfur í orði um að nú verði staðið við stóru orðin, en í reynd er ekkert gert af hálfu framkvæmdarvaldsins sem hefur þessi mál í hendi sér.