Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 15:38:52 (5851)

1996-05-09 15:38:52# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[15:38]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni þessa löngu og ítarlegu ræðu. Mitt mat er að með hverri ræðumínútu af hans hálfu aukist fylgi við þetta mál. Förum nú yfir málflutning hans. Hann spurði fyrst: Hvað er slæmt við æviráðningu? Hann mælti henni bót. Ég hygg að mikill meiri hluti þjóðarinnar og kjósenda sé fylgjandi því að afnema æviráðninguna með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv.

Hann fjallaði líka um biðlaunaréttinn og sagði að það væri verið að afnema hann. Það er ekki verið að afnema biðlaunaréttinn. Það er hins vegar verið að takmarka hann með ákveðnum hætti sem ég hygg líka að meiri hluti þjóðarinnar sé á bak við. Hann talaði líka um að fæðingarorlof og veikindaréttur væru í uppnámi. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós að enginn starfsmaður ríkisins mun nokkurs missa í fæðingarrétti, orlofi eða veikindarétti vegna þessa máls. Hann talaði mikið um viðbótarlaun. Eftir því sem hann býsnast meira um viðbótarlaun, er ég viss um að fleiri og fleiri opinberir starfsmenn eru einmitt að hugsa um það hvernig þeir geti fengið viðbótarlaun.

Hann var að velta því fyrir sér að það væri verið að svipta heilu hópana samningsrétti. Aðalásóknin í þessu máli hefur verið sú að ýmsir starfshópar hafa einmitt viljað verða embættismenn og fara undir kjaranefnd og losna við þessi réttindi. Hins vegar breytti meiri hluti nefndarinnar frv. þannig að viðbótarlaun ná ekki til embættismanna. Þar mun stórlega draga úr þessari ásókn að sjálfsögðu og styrkja þau félög sem hv. þm. ber fyrir brjósti.

Hv. þm. er svartsýnn á stöðu og framtíð BSRB sem hann er formaður fyrir. En ég er sannfærður um að þegar búið er að afgreiða þessi lög verða opinberir starfsmenn margir býsna ánægðir og þá muni draga hið svarta ský frá sólu formannsins jafnhliða.