Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 15:44:36 (5853)

1996-05-09 15:44:36# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[15:44]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. segir að hann sé ekkert á móti því að afnema æviráðningu. Samt talar hann um að það sé allt svo gott við æviráðninguna. Ég held að það væri ágætt að hv. þm. upplýsti hvort hann er með því að afnema æviráðningu eða ekki ef ég hef eitthvað misskilið það.

Hv. þm. segir að það sé verið að afnema biðlaunaréttinn. Ég hygg að fjöldi opinberra starfsmanna muni í framtíðinni fá biðlaun og þá kemur það bara í ljós að hv. þm. hefur eitthvað misskilið þetta mál.

Hv. þm. var eitthvað að efast um það að hópar hefðu komið og haft samband við hv. efh.- og viðskn. til þess að fá að vera áfram embættismenn vegna þess að þeir vildu það. Ég held að ég hafi alveg heyrt það sem viðkomandi aðilar sögðu sem komu á fund nefndarinnar og allir þeir sem í henni sitja.

Síðan er eitt sem ég vil gjarnan nefna. Hv. þm. fjallaði í ræðu sinni um að kjarninn í frv. væri sá að það væri tekið upp ákvæði sem hefur verið í lögum frá 1915 um afskipti embættismanna af kjarasamningum. Ef þetta er kjarninn í frv. er það þá tilfellið að samtök opinberra starfsmanna og öll þessi verkalýðshreyfing gjörvöll hafi bara sofið á verðinum frá 1915 eða fljótlega eftir að hún var stofnuð. Hún var víst ekki til 1915, ekki í þessasri mynd sem hún nú er. Við höfum þá bara lifað við þetta gífurlega brot á stjórnarskránni, að mati hv. þm., allan þennan tíma. Ég verð að segja að ef þetta er kjarninn í frv. og aðalásteytingarsteinninn, þá held ég að þetta mál sé að verða býsna gott.