Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 15:46:45 (5854)

1996-05-09 15:46:45# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[15:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði hv. formaður efh.- og viðskn. Alþingis, þeirrar nefndar sem hefur átt að fjalla málefnalega um þetta mál. Ef umfjöllunin hefur verið eins og sú sem hér er borin á borð, þá undrar mig ekki að afurðin skuli vera eins og raun ber vitni.

Ég fjallaði lítillega um æviráðningu. Ég benti á að hin almenna regla væri sú að fólk hjá ríkinu, og hefði verið svo um áratuga skeið, væri ráðið með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ég hef ekkert verið að agnúast út í þá hluti. Mörg hver okkar sem höfum fjallað um þessi mál höfum hins vegar bent á að sú hugsun sem býr að baki æviráðningu og byggir á starfsöryggi sé ekki af hinu illa (VE: Ertu með eða á móti æviráðningu?) heldur af hinu góða. Í sumum tilvikum tel ég æviráðningu nauðsynlega. Þannig hefur það t.d. verið á Norðurlöndum varðandi lögreglumenn sem eru að starfa við rannsóknir á erfiðum málum að það hefur ekki þótt fært að láta það vera komið undir geðþótta yfirmannsins hvort þeim er sagt upp. Þeir hafa verið æviráðnir til þess að tryggja öryggi borgarans. Þá er einvörðungu hægt að segja manninum upp hafi hann sannarlega brotið af sér í starfi. Það er hugmyndin að baki æviráðningunni. Þess vegna hafa menn farið inn á þá braut með löggæslustéttir að láta þær búa við æviráðningu. Ef hv. þm. hefur einhvern áhuga á því að fara inn í málefnalega umræðu um þessi mál, þá skulum við gera það og það skal svo sannarlega verða af því að hann fái ítarlegri umræðu um þetta frv. Ég mun að sjálfsögðu nýta mér þann rétt sem ég hef í þinginu til að taka aftur til máls við þessa umræðu málsins.

Varðandi síðan ákvæðið frá 1915, refsiákvæðin væntanlega, þá hef ég verið að benda á það og við höfum mörg hver verið að benda á það að samkvæmt geðþóttaákvörðunum hæstv. ráðherra er hægt að skáka fólki til í réttindakerfunum og múlbinda það síðan með lögum um að það varði við fjársektir og þyngri refsingar ef það hefur afskipti af átökum á vinnumarkaði, afskipti. Þá er að sjálfsögðu verið að tala um afskipti í orði. Við erum að tala um málfrelsi og tjáningarfrelsi á Íslandi. Hv. þm. segir: ,,Ef það er þetta sem menn hafa áhyggjur af, þá veit ég ekki hvert menn eru eiginlega komnir.`` En hvar í ósköpunum er hann staddur sjálfur, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson?