Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 17:01:25 (5857)

1996-05-09 17:01:25# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[17:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla hér aðeins um fæðingarorlofsréttinn en varðandi æviráðninguna bíð ég með hana þar til í seinni ræðu minni sem verður sennilega einhvern tíma í næsta mánuði. En varðandi fæðingarorlofið fannst mér þetta mjög fróðleg ræða. Hæstv. ráðherra gefur í skyn að hann þurfi að breyta reglugerð til þess að fæðingarorlofið nái líka til karla. Þá spyr ég ráðherrann hvort hann muni, þegar þessi lög hafa verið samþykkt, vinda sér þá í það að breyta reglugerðinni þannig að fæðingarorlof nái líka til karla og --- það undirstrika ég --- að þeir hafi þá sex mánaða fæðingarorlof líkt og hæstv. fjmrh. sjálfur. Lögin um alþingismenn eru ótvíræð og ef ætti að láta reyna á þetta ákvæði fyrir dómi er ég alveg sannfærð um að það mundi falla þeim í hag sem sækti slíkt mál. Lagaákvæðið er það ótvírætt. Spurning mín er sú: Verður þá opnað fyrir það að fæðingarorlof nái til karla? Munu þeir fá sex mánaða fæðingarorlof líkt og er í lögunum um alþingismenn? Hæstv. ráðherra hefur miklar áhyggjur af að ég ætli að lesa hér upp álit minni hlutans fram í næsta mánuð. En hann verður bara að una því að sitja undir umræðunni svo lengi sem þarf. Og ég vitna auðvitað í þetta ágæta nál. vegna þess að í því eru ýmis efnistariði sem ég komst ekki til að ræða hér. Hæstv. ráðherra veitti svo sannarlega ekki af því að hafa þetta nál. á náttborðinu sínu og lesa það kvölds og morgna.