Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 17:07:51 (5860)

1996-05-09 17:07:51# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[17:07]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann létti sér það ok sem hann var að lýsa hér áðan að blasti við að sitja hér undir ræðum og svara þingmönnum fram í lok þessa mánaðar eða fram í næsta mánuð með því að draga þetta frv. til baka og ganga til þess leiks sem ég tel vera heiðarlegan, þ.e. að gefa samningsaðilum möguleika á að semja um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í haust og í vetur á eðlilegan máta. Ég mælist til þess að hann geri það. Ég skal stöðva mitt mál þegar ég verð var við að hann kinki kolli og ég skal gera það strax ef hann kinkar kolli. En ég sé að hann gerir það ekki þannig að hann ætlar sér greinilega að sitja hér fram í næsta mánuð því óþrjótandi er umræðuefnið. Ég hafði aðeins með mér brot af þeim pappír sem fulltrúar þeirra félaga hafa skrifað undir og samið og sent til okkar alþingismanna. Og allt eru þetta mótmæli við þessu plaggi, ósómaplaggi vil ég segja, sem er frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Herra forseti. Mér þykja undarleg viðbrögð stjórnarmeirihlutans með hæstv. fjmrh. og hv. formann efh.- og viðskn. í broddi fylkingar við því að stjórnarandstaðan á þingi leggur sig öll fram sem einn maður um að fá þetta frv. út af borðinu og að ríkisstjórnin taki það aftur til vinnslu að nýju. Viðbrögð þeirra við þessu eru hreint ótrúleg. Þeir reyna að gera lítið úr viðbrögðum stjórnarandstöðu. Þeir reyna að gera lítið úr fundum verkalýðsfélaganna 1. maí. Þeir telja allar álitsgerðir og ályktanir marklaust þvaður. Þeir telja að allir þeir sem lagt hafa mikla vinnu í yfirferð á þessu dæmalausa plaggi, frv. er um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, fari með marklaust þvaður og vinnubrögð við ályktanirnar séu til framdráttar fyrir frv. Hafa menn heyrt annað eins? Ég vil segja, hæstv. ráðherra, að:

  • þótt ráðherrann nefni þetta reiðiraus
  • og rökin mold sem fjúki
  • er umræðugetan endalaus
  • sem engin von er að ljúki.
  • Ég hef unnið með hv. þm. og formanni efh.- og viðskn., Vilhjálmi Egilssyni, að fjölmörgum málum. Hann hefur almennt reynst gaumgæfinn í sínum verkum. Mér þykir miður hvernig þetta frv. um skerðingar gagnvart þúsundum starfsmanna ríkisins er keyrt hér inn í þingið. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé á grundvelli skammtímasjónarmiða tilbúinn til að fórna þeirri sátt og þeim friði sem þolanlegt samkomulag um réttindi og skyldur og stéttarfélög og vinnudeilur hefði getað skapað í þjóðfélaginu. Er hæstv. fjmrh. virkilega svo veruleikafirrtur að hann sjái ekki að í stað skerðinga verður að grípa til ráðstafana til að greiða láglaunafólki mannsæmandi laun? Ég trúi því ekki, herra forseti, að setan í hinum mjúku sessum hafi svipt hann svo sýn eða skyni að hann sé ekki meðvitaður um að fátækt hefur hreiðrað um sig á Íslandi, landi alsnægtanna að mati margra.

    Í allri þeirri súpu mótmæla sem hefur borist í hendur þingmönnum eða í öllum þeim skjölum er m.a. sérstakt bréf eða afrit, dagsett 8. maí 1996, sem var sent til hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

    ,,Á fundi í Prófessorafélagi Háskóla Íslands 25. mars sl. var samþykkt með einu mótatkvæði að vinna að þeirri breytingu á frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að prófessorum yrði bætt inn í upptalninguna á embættismönnum eða með öðrum orðum að þeir yrðu embættismenn. Aðeins þriðjungur prófessoranna var á þessum fundi. Margir sem ekki voru þar telja sig ekki félagsmenn í samtökunum sem ekki er formlegt félag innan Félags háskólakennara. Engu að síður var þessi samþykkt gerð og henni síðan fylgt eftir af miklum skörungsskap eins og alþjóð hefur orðið vitni að síðustu vikur. Félag háskólakennara er enn þá stéttarfélag prófessoranna og gangi þeir úr því hefur það eftirfarandi afleiðingar fyrir þá sem eftir eru:

    Félag háskólakennara er svipt verkfallsvopni sínu þar sem stór hópur félagsmanna má ekki fara í verkfall og mun starfa áfram ef til verkfalls kemur.

    Framgangskerfið sem metið hefur verið til launaprósentna í kjarasamningum háskólakennara undanfarin ár er lagt í rúst.

    Afnám framgangskerfisins mun bitna á öllum yngri starfsmönnum háskólans þar sem konur eru fjölmennastar.

    Háskólaráð þar sem aðeins prófessorar mega sitja sem fulltrúar deilda hefur ályktað þann 28. mars 1996 að staða prófessora sem embættismanna skipti sköpum fyrir þróun Háskóla Íslands sem háskóla og rannsóknastofnunar. Félag háskólakennara hefur borið á móti þessu opinberlega.

    [17:15]

    Undirritaðar`` --- því það eru allt konur, 41 kona sem rita undir þessa ályktun eða þetta bréf --- ,,telja sér skylt að benda á afleiðingar þessara breytinga fyrir jafnréttismál innan Háskóla Íslands. Konur hafa verið vaxandi meiri hluti stúdenta, einkum í hug- og félagsvísindum síðustu árin. Síðasta áratuginn hefur konum sömuleiðis fjölgað í hópi kennara og sérfræðinga Háskóla Íslands en það hefur gengið fremur hægt. Það má nefna sem dæmi að af 72 lektorum við Háskóla Íslands eru konur 35 eða 48,6% en af 134 dósentum eru 24 konur eða 17,9% og af 148 prófessorum eru þær 9 talsins eða 6,1%. Það verður að segjast eins og er að konur hafa átt örðugt uppdráttar innan Háskóla Íslands. Prófessorar einir eiga rétt til setu í æðstu valdastofnunum háskólans og þeir skipa í valdamiklar nefndir þar sem ýmist situr engin kona eða konur eru í miklum minni hluta. Sjónarmið kvenna, bæði hvað varðar stefnumótun háskólans almennt og mótun hans sem vinnustaðar koma lítið fram og jafnréttisumræða hefur verið lítil.``

    Herra forseti. Þetta er m.a. í þessu bréfi þar sem 41 kona undirritar. Þetta bréf lýsir skoðun á áhrifum sem það hefur að bæta prófessorum inn í upptalninguna embættismenn ríkisins. Eins og ég sagði áðan ritar 41 kona undir þetta plagg, allt að sjálfsögðu hinar mætustu manneskjur. Ég trúi því ekki, herra forseti, fyrr en ég tek á því að hæstv. fjmrh. misvirði þessar undirskriftir með því að kalla þær marklaus mótmæli því að þá heggur ef ég skil rétt hæstv. ráðherra í sinn betri helming því að ég sé ekki betur en hér sé nafn eiginkonu hæstv. fjmrh. undir þessu plaggi. (Fjmrh.: Hv. þm. sér mjög vel.) Hv. þm. telur sig geta lesið þetta og ég lít á þetta sem staðfestingu, hæstv. fjmrh., að þessu muni kippt til baka og þessu verði breytt, eitt af mörgu sem hlýtur að verða breytt í þessu frv. ef það verður ekki dregið út af borðinu eins og ég geri mér sterklega vonir um. (HjálmJ: Vertu ekki að spilla á milli þeirra.) Ég treysti því að hv. þm., prestlærður, geti þá einhvers staðar komið inn í það mál og blessað milli hjónanna.

    Að auki við umrætt frv. er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að setja fram önnur frumvörp, svo sem samningsstjórnunarfrv., embættisbústaðasölufrv. o.fl. Allt saman lýtur þetta einhverjum skerðingum samkvæmt þeim umsögnum sem hafa komið um frumvörpin Mér sýnist að svo mörgum frumvörpum ríkisstjórnar sé beint gegn launafólki að það er með hreinum ólíkindum og ég spyr: Er það meining ríkisstjórnarinnar að á einhvern hátt skuli beygja lýðinn, hvort sem það næst fram með brotum á alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að eða í krafti þess valds sem gífurlegur þingmeirihluti skapar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh.?

    Herra forseti. Það væri svo sannarlega maklegt að ræða hvert einasta plagg, hver einustu mótmæli sem þingmönnum hafa borist gegn þessu frv. Að auki er annað eins magn af mótmælum sem hefur borist frá stéttarfélögum á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tel að það væri maklegt vegna þeirra orða sem hafa fallið að aðeins örfáir leggist gegn þessu frv. og einnig gegn frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég hef hugsað mér að láta mér nægja að taka af handahófi nokkur plögg úr þeim bunka sem hefur borist og ég mótmæli því, herra forseti, að þessi plögg séu sett fram aðeins af hlýðni við forustumenn BSRB, KÍ, HÍK, BHMR og fleiri og fleiri sem hafa sent inn þessi mótmæli.

    Frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja er eitt lítið mótmælablað ásamt heilli bók sem ég gæti tekið og lesið og ég leyfi mér að vitna í það. Yfirskriftin er Leiftursókn gegn launafólki. Er það hæstv. ráðherra, marklaust blaður sem hér stendur? Er það marklaust blaður sem þetta fólk hefur lagt svo mikla vinnu í að semja og fara í gegnum þessi frumvörp til þess að mótmæla þeim og ekki bara til þess að mótmæla þeim heldur til þess að mótmæla þeirri aðför sem gerð er að launafólkinu? Með leyfi forseta, vitna ég í þetta plagg:

    ,,Stjórn BSRB hafnar alfarið þeim drögum að frumvörpum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem lögð hafa verið fram til kynningar.`` Þetta var 15. febr. Þetta er bara upphafið. Ég er ekkert farinn að taka stóru bókina. Stjórn bandalagsins samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 15. febr. og ályktunin var kynnt hæstv. fjmrh. Friðrik Sophussyni föstudagsmorguninn 16. febr.:

    ,,Ríkisstjórnin boðar leiftursókn gegn launafólki með þeim drögum að frumvörpum sem kynnt voru þá um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta er leiftursókn til fortíðar.`` -- Hér var sagt áðan úr þessum ræðustól að það væri verið að hverfa, ekki áratugi heldur heila öld aftur í tímann. Menn gerðu sér grein fyrir þessu 15. febr. og hafa enn betur gert sér grein fyrir hvað er að gerast síðan sá dagur var. Stjórn BSRB hafnaði þessum drögum alfarið og stjórn BSRB hafnar frv. alfarið eins og það var. Þess vegna, hæstv. fjmrh., spurði ég í upphafi hvort þú værir ekki tilbúinn að taka þetta frv. og beita þér fyrir því að frumvörpin um stéttarfélög og vinnudeilur væru tekin út af borðinu líka og samið væri um þessi mál á eðlilegan hátt í haust.

    Stjórn BSRB varar við alvarlegum afleiðingum af þessum gjörðum og trúnaðarbresti sem af hlýst og af hefur hlotist því að trúnaðarbrestur er kominn. Hann er alvarlegur og ég nefni það við hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., að trúnaðarbrestur er kominn og hv. þm. væri sómi að standa að því með hæstv. fjmrh. að draga þetta plagg út af borðinu og ég skora á hann að gera það. Ég vitna, með leyfi forseta, í ályktun Félags fréttamanna. Stjórn Félags fréttamanna hefur fjallað um frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þeir segja: ,,Mjög veigamikil atriði í þessu frv. snerta kjör félagsmanna í Félagi fréttamanna. Það hefur ætíð verið samið um kaup á þeim grunni að kjör opinberra starfsmanna að öðru leyti réttlættu lægri laun. Kjörum verður því ekki breytt nema um það verði samið í samningum.`` Það er nákvæmlega þetta sem ég er að fara fram á við hæstv. fjmrh. vegna þeirra athugasemda sem hér eru á plöggunum. Það er verið að biðja um að draga frv. út af borðinu og semja um þessa hluti á eðlilegan máta. ,,Skerðingar á kjörum hlýtur að leiða til hækkunar á taxtalaunum. Þess vegna hlýtur þetta að ganga til samninga. Stjórn Félags fréttamanna mælist því til þess að Alþingi hætti umfjöllun um frv. og um málið verði samið á réttum vettvangi áður en til löggjafans komi. Félag fréttamanna er ekki sátt við einhliða breytingar á kjörum félagsmanna.`` Því er þetta lesið upp og því eru borin fram tilmæli og ég fagna því að hæstv. forsrh. gengur í salinn því að hann hefur áður tekið fram fyrir hendur á hæstv. fjmrh. og dregið ákveðna hluti út af borðinu. Ég vona að það samtal sem nú mun eiga sér stað í hliðarsal verði í þá veru að þetta málefni verði dregið út af borðinu og ég fagna konu forsrh. ef þannig verður.

    Ég vil, með leyfi forseta, vitna í plagg Iðjuþjálfafélags Íslands:

    ,,Iðjuþjálfafélag Íslands vill vekja athygli efh.- og viðskn. Alþingis á eftirfarandi meginatriðum varðandi frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins:

    Fjmrh. hefur ekki haft neitt samráð við heildarsamtök opinberra starfsmanna um endurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna eins og ber skv. 36. gr. laganna.`` Þetta þýðir að verið er að brjóta lög og ég trúi því ekki að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans geti setið og staðið við þær aðgerðir að það sé verið að brjóta lög sem Alþingi hefur samþykkt.

    ,,Frv. miðar einhliða að því að skerða ráðningarréttindi starfsmanna ríkisins og samningsrétt stéttarfélaga þeirra án þess að bæta þá skerðingu með nokkrum hætti. Þvert á móti eru boðuð áform um enn meiri skerðingu á réttindum ríkisstarfsmanna með drögum að frv. um Lífeyrisstjóð starfsmanna ríkisins ...`` Auðvitað má kalla þetta drög því að þetta er eitthvert það lakast unna plagg sem ég hef kynnst síðan ég kom í þingið.

    ,,Frv. miðar að því að afnema ráðningarfestu og biðlaun ríkisstarfsmanna þrátt fyrir að laun þeirra hafi um áratuga skeið verið þeim mun lakari til að greiða fyrir þessi og önnur réttindi starfsmanna.

    Með frv. er gengið á mikilvæg grundvallarmannréttindi starfsmanna ríkisins sem bæði eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland á aðild að``. --- Takið nú eftir, hv. stjórnarþingmenn. Ég trúi því ekki að þeir finni ekki til skyldunnar um að krefjast þess af stjórnendum sínum, hæstv. ráðherrum, að þetta skuli dregið út af borðinu.

    ,,Frv. viðheldur flestum skyldum starfsmanna ríkisins umfram aðra launamenn og eykur þær í sumum tilvikum.

    Með frv. er ýmist beint eða óbeint ýtt til hliðar ákvæðum stjórnsýsluréttar þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ríkisstarfsmönnum ekki tryggð sama vernd gegn misbeitingu valds og öðrum landsmönnum.``

    Herra forseti. Í þeim ályktunum sem ég nú þegar hef lesið koma fram mörg sjónarmið og mörg atriði og margar ábendingar sem ég skora á hv. stjórnarmeirihlutaþingmenn að skoða og lesa og fara eftir þeim ábendingum sem að þeim er beint. (EgJ: Við erum búnir að lesa þetta.) Ég fullyrði, hv. þm. Egill Jónsson, að það hafið þið ekki gert. Ég fullyrði að það hafið þið ekki gert. Hefðuð þið gert það þá væruð þið búnir að beita ykkur fyrir því að stjórnendur ykkar væru búnir að draga þessi frumvörp út af borðinu. Ég fullyrði það. Ég trúi því ekki. Þess vegna er enn frekar ástæða til að lesa hvert einasta plagg því að ég er nú sannfærður um að menn hafa ekki litið á þessi gögn. Hér er ályktun frá Félagi ísl. náttúrufræðinga:

    ,,Félag ísl. náttúrufræðinga hefur margsinnis lýst þeirri skoðun sinni að það sé brýnt að breyta fyrirkomulagi starfsmannahalds ríkisins í þá átt að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana.`` Félagið telur einnig að það sé óeðlilegt að starfs- og launakjör ríkisstarfsmanna og annarra launþega í sambærilegum störfum séu mismunandi þar sem gerðar eru svipaðar kröfur til menntunar og sérhæfni.

    [17:30]

    Félag íslenskra náttúrufræðinga hefur í tengslum við kjarasamninga síðan 1991 margsinnis óskað eftir að ganga til samninga við ríkið um þessi atriði. Hvað gerir þá ríkið? Það sendir inn þetta frv. án nokkurs samráðs og það skal keyrt í gegn án þess að á eðlilegan máta sé um það samið. M.a. segir að ákvæði í frv. um helmingun á áunnum biðlaunarétti á sama tíma og áform eru um að leggja niður starfsemi á stórum stofnunum eins og Orkustofnun séu að þeirra mati gróft brot á stjórnarskrá og kalli á viðbrögð í samræmi við það. Ég hygg að þessir aðilar hefðu ekki sett svo stór orð inn í sína ályktun, þ.e. að tala um stjórnarskrárbrot, ef ekki væri um að ræða sannindi á bak við þau.

    Hér er ályktun frá Stéttarfélagi sjúkraþjálfara sem ég vil vitna í, með leyfi forseta. Þeir segja m.a. að fráleitt sé að halda því fram að frumvarpið jafni réttarstöðuna. Enn eru skyldur starfsmanna ríkisins meiri en annarra launamanna þegar á allt er litið og það er ekki heldur verið að draga úr þeim. Það er verið að auka þær á ýmsa vegu. Þeir segja reyndar að á almennum vinnumarkaði hafi réttindi launamanna aukist hröðum skrefum. Ég er nú ekki viss um að allir séu sammála að það hafi gerst, ekki síst þar sem svo er ásatt að fólk þarf að sæta því á almennum vinnumarkaði að taka 50 þús. kr. laun fyrir fulla vinnu. Það kemst upp í 54 þús. á Verkamannasambandstaxta eftir 10 ára starf. Ég er ekki viss um að þessi orð standist í samræmi við það. En það er hér sagt að engar hliðstæðar framfarir, um réttindi hlýtur að vera átt við, hafi átt sér stað hjá starfsmönnum ríkisins, enda eru þessi réttindi lögbundin og ríkisvaldið hefur hafnað að bæta réttindi starfsmanna með jafnverðmætum breytingum og aðrir vinnuveitendur hafa samið um við starfsmenn sína í kjara- og ráðningarsamningum.

    Áfram frá Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, með leyfi forseta: ,,Starfsmannastefnan eins og henni er lýst á bls. 14--16 í athugasemdum með frv. snýst um að auka völd og ábyrgð stjórnenda gagnvart starfsmönnum með því að veita stjórnendum aukin völd til að segja upp starfsmönnum`` --- og hvað er það kallað að segja upp starfsmönnum? Það er kallað sveigjanleiki í starfsmannahaldi, --- ,,og taka upp geðþóttaákvarðanir um yfirborganir ofan á handónýtt launakerfi (nefnt ,,sveigjanleiki í launakjörum``), Þ.e. að draga úr réttindum starfsmanna. Starfsmannastefnan snýst einnig um að gera meiri kröfur til auka skyldur starfsmanna.``

    Þetta eru aðeins örlítið brot úr hverri ályktun sem ég gríp ofan í. Ég sé nú ekki hv. formann efh.- og viðskn. sá hinn sama og ég taldi að mundi vera hér staðgengill hæstv. fjmrh. sem ég samþykkti að sjálfsögðu að gæti gengi úr sal til að ræða við hæstv. forsrh., ef það skyldi verða til að greiða fyrir því sem ég fór fram á, þ.e. á að málið yrði dregið út af borðinu. En það væri í lagi að hv. formaður efh.- og viðskn. væri viðstaddur þessa umræðu.

    (Forseti (ÓE): Við köllum á hann.)

    Ég vil, með leyfi forseta, vitna í ályktun Hins íslenska kennarafélags:

    ,,Stjórn Hins íslenska kennarafélags skorar á ríkisstjórnina að falla frá áformum um að samþykkja ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og stéttarfélög og vinnudeilur á yfirstandandi þingi.``

    Það eru enn og aftur ítrekaðar áskoranir, tilmæli og beiðnir um að taka þessi frv. sem lúta öll að skerðingum út af borðum þingmanna. Við þessu hefur ekki verið orðið en hæstv. fjmrh. hótaði því hér að hann skyldi sitja fram í næsta mánuð ef þyrfti til að hlusta á skammir okkar stjórnarandstöðuþingmanna því að enginn stjórnarliða treystir sér til þess að fara gegn ofurvaldinu sem er ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar.

    ,,HÍK bendir á að mikill vafi leikur á að frv. um réttindi og skyldur standist stjórnarskrá lýðeldisins að því er varðar félagafrelsi, eignarrétt og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Enn fremur brýtur frv. gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland á aðild að, svo sem skuldbindingu með aðild að 87. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) um félagafrelsi m.a. að hafa ekki afskipti af innri málefnum stéttarfélaga og 98. samþykkt stofnunarinnar um samningsrétt stéttarfélaga. Frv. felur í sér margvíslega skerðingu á atvinnuöryggi og ráðningarkjörum ríkisstarfsmanna sem ekkert færi hefur gefist á að semja um enda kennarar og aðrir launamenn með bundna kjarasamninga til ársloka 1996.``

    Í lokin segir Hið íslenska kennarafélag, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórn Íslands hefur efnt til ófriðar við samtök launamanna með flutningi hvers lagafrumvarpsins á fætur öðru sem fela í sér einhliða skerðingu á kjörum og réttindum launafólks, veikir starfsgrundvöll stéttarfélaga og takmarkar samningsréttinn.`` Þetta er nákvæmlega það sama og ég sagði í upphafi minnar ræðu þegar ég óskaði eftir því við hæstv. fjmrh. að hann drægi þetta frv. og þessi frv. sem um er að ræða út af borðum alþingismanna.

    Og í lokin: ,,Við þetta verður ekki unað og skorar stjórn Hins íslenska kennarafélags á alla alþingismenn hvar í flokki sem þeir standa að íhuga vel hvort þeir vilja leggja nafn sitt við skerðingarfrumvörpin og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við gerð þeirra.

    Stjórn Hins íslenska kennarafélags skorar að lokum á launamenn og samtök þeirra að sameinast um að hrinda árásum ríkisvaldsins og beita til þess öllum tiltækum ráðum.``

    Herra forseti. Hvað þýða þessi orð ,,að beita til þess öllum tiltækum ráðum``? Það er verið að segja að með frumvörpunum er verið að efna til þess mesta ófriðar sem sennilega getur geisað og meiri ófriðar en nokkurn tíma hefur verið á undanförnum áratugum. Og það er óhuggulegt að svo skuli vera komið.

    Að lokum er ályktun frá 29. apríl frá Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands, með leyfi forseta:

    ,,Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands mótmælir sem fyrr frumvörpum ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um stéttarfélög og vinnudeilur og skorar á Alþingi að hafna þeim.``

    Á þennan veg hljóða allar þessar ályktanir sem eru ekki minna en 50--70 síðna bunki, fyrir utan greinargerðir sem fylgja með, sem tæta niður frv. sem hér er til umræðu, hverja einustu grein.

    Og áfram: ,,Frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins felur jafnframt í sér að prófessorar verði gerðir að embættismönnum.`` Ég las í upphafi bréf 41 konu sem undirritaði, ja ég vil kalla það áskorun til hæstv. menntmrh. um að draga þessa liði út úr frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég veit ekki hvort það hefur nokkuð að segja að eiginkona hæstv. fjmrh. er í þessum hópi. Það verður kannski hoggið samt sem áður.

    ,,Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands lýsir furðu sinni á þeirri lítilsvirðingu sem starfsmönnum ríkisins er sýnd með frumvörpunum og skorar á þingmenn að láta ekki knýja slík ólög í gegn á Alþingi. Félagið krefst þess að ríkisstjórnin dragi frumvörpin til baka og taki upp samningaviðræður við samtök opinberra starfsmanna um endurskoðun á réttindum þeirra og kjörum.``

    Ég hlýt að beina þeim tilmælum til forseta að gangast nú fyrir því að gengið verði til þess verks að draga þessi frumvörp til baka sem eru að valda það miklum óróa eins og ég var að lýsa í þjóðfélagi okkar, að sennilega þarf að leita langt aftur til að jafna þar við. Ég skora á virðulegan forseta Alþingis að beita sér í því máli því að hann er maður sem menn taka mjög mark á í þessum efnum og ég trúi því að hann muni ná árangri, beiti hann sér fyrir því.

    Hér ein ályktun Bandalags háskólamanna sem ég vil vitna í, með leyfi forseta:

    ,,Formannafundur Bandalags háskólamanna skorar á Alþingi að koma í veg fyrir að frumvörp um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um stéttarfélög og vinnudeilur verði knúin í gegn á yfirstandandi þingi.

    Frumvörpin fela í sér skerðingu á réttindum sem byggja á kjarasamningum og ganga einnig gegn mannréttindum og alþjóðasamþykktum sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að virða.``

    Ég fullyrði það, herra forseti, að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki lesið þessi orð. Þeir hafa ekki farið í gegnum frv. eins og þarf til þess að skynja hvað verið er að segja með þessum ályktunum.

    ,,Það er krafa formanna aðildarfélaganna til ríkisstjórnarinnar að hún breyti ekki samningum með lögþvingun og það er krafa okkar til alþingismanna að slíkt verði ekki látið yfir félagsmenn ganga.``

    Ég trúi því ekki enn og aftur að þingmenn geti skellt skollaeyrum við þessum sáru köllum og sáru upphrópunum sem felast í þeim ályktunum sem ég hef verið að vitna til.

    ,,Aðildarfélög Bandalags háskólamanna ítreka vilja sinn til þess að hefja sameiginlega vinnu með fjmrh. að endurskoðun á réttindum og kjarasamningum félagsmanna með það fyrir augum að færa réttindi og kjör til nútímalegra horfs.``

    Hvað er þetta annað en ákall, herra forseti? Þetta er ákall og:

    ,,Krafan er skýr: Frumvörpin burt!``

    Ég hef nálgast frv. á þann hátt að gera að umræðu m.a. hverjum það þjónar fyrst og fremst að fá það samþykkt. Ég tel að ríkisstjórn Íslands sé að ganga erinda vinnuveitenda, hvort sem um er að ræða á almennum eða opinberum vettvangi. Ég lýsi því yfir að þessi vinnubrögð eru mér andstæð. Ég tel að það eigi að vera samningar um það á hvern hátt eigi að breyta þessum lögum sem meiningin er að reyna að þröngva í gegnum þingið í krafti öflugs meiri hluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

    Ég krefst þess eins og í upphafi máls míns að frv. verði vísað frá. Þetta frv. er slík árás á réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að ég held að það séu ekki dæmi um annað eins frá upphafi. Það eina sem mér dettur í hug að líkja þessu við er brot á umferðarlögum þegar ekið er yfir á rauðu ljósi. Það ætti auðvitað að sekta fyrir þetta brot eins og gert er í tilviki umferðarlagabrots. Ég reyndar trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þeir fjölmörgu framsóknar- og íhaldsmenn sem kusu þessa ríkisstjórn yfir sig láti þetta yfir sig ganga. Ég trúi því að refsivöndurinn verði í síðasta lagi tekinn fram við næstu kjarasamningagerð og það verður tækifæri bæði í næstu sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum að ganga milli bols og höfuðs á þeirri helmingaskiptastjórn Framsóknar og íhalds sem núna er tröllríða samtökum launafólks í krafti þess að þeir álíta að fólk gleymi þessari misgerð á kjörtímabilinu. Ég trúi ekki öðru en ef eitthvað verður til þess að setja þessa ríkisstjórn af, þá eru það svona gerræði sem af miskunnarleysi --- ég vil kalla það miskunnarleysi, herra forseti --- er steypt yfir landslýð af tillitsleysi, umhyggjuskorti og siðleysi.

    Ég hef sagt áður að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn landslýð kristallist ekki einvörðungu í þessu frv. sem hér er verið að ræða, heldur einnig í frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem liggur fyrir þinginu. Það er auðséð að það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera er að nota sitt fyrsta ár til að þrengja kost hins almenna launamanns með þessum frv. og það á einnig að skerða velferðar- og heilbrigðisframlög og breyta skattalögum þeim efnameiri til góða.

    [17:45]

    Herra forseti. Ég viðurkenni það og veit að þetta er ekki fagur listi sem ég fór hér með eða há einkunn sem hæstv. ríkisstjórn fær. En ég er þess fullviss að þau eru makleg. Orðin eru makleg og einkunnin er makleg. Ríkisstjórn íhalds og framsóknarmanna sem gáfu út stærstu blekkingarvíxla fyrir síðustu alþingiskosningar sem um getur ætlar auðsjáanlega að gæta þeirra sem betur mega sín og láta þá sem lakar eru settir lúta ofurvaldinu. Það læðist sá grunur að mér, hv. þm. Egill Jónsson, að hv. stjórnarþingmenn ætli bara í blindni að fylgja sínum foringjum og samþykkja þessar aðgerðir eins og lömb sem leidd eru til slátrunar. Ég er þess fullviss að aðeins örfáir stjórnarþingmenn hafa lagt mat á áhrif bandormsfrumvarps þess sem er fylgifiskur laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það þarf að gera breytingar á tugum sérlaga sem ekki hafa verið rædd á okkar virðulega Alþingi. Ég mótmæli svona vinnubrögðum, herra forseti. Frv. var rifið út úr hv. efh.- og viðskn. Fulltrúar minni hlutans vildu að málið fengi betri skoðun og óskuðu m.a. eftir að fá hæstv. fjmrh. til viðræðna um málið. Því var hafnað og kvöldið fyrir 1. maí var notað til að valta yfir sjónarmið minni hluta hv. efh.- og viðskn. Þessi vinnubrögð lýsa sennilega betur virðingarleysi ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmunum launamanna í þessu máli en nokkuð annað. Og í þokkabót leyfa einstakir hæstv. ráðherrar sér að segja að talsmenn gegn frv. séu einir á báti og hlusti aðeins á hljóm sinnar eigin raddar þó svo að mörg þúsund manns hafi fylkt liði gegn þeim árásum sem birtast í formi þessa frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ásamt frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og haldið fjölmennari fund á Austurvelli en menn hafa séð í lengri tíma. Þetta er kallað að hér séu aðeins örfáir að hlusta á hljóm sinnar eigin raddar. Þetta er til minnkunar fyrir þá sem leyfa sér að viðhafa slík orð. Mér sýnist að með þessum lögum sem við erum að ræða hérna sé verið að flokka opinbera starfsmenn í mismunandi hópa. Einn hópur lýtur Kjaradómi eða kjaranefnd. Sérstakir embættismenn eins og tollverðir, lögregluþjónar og fangaverðir sem munu njóta réttinda embættismanna sem hafa samningsrétt eiga að raðast í annan hóp. Í þriðja hópinn eiga að fara starfsmenn sem hafa gagnkvæman uppsagnarfrest, samnings- og verkfallsrétt. Hér er verið að búa til tvöfalt launakerfi eða verið að formfesta það. Það er ljóslega verið er að skerða rétt opinberra starfsmanna, m.a. veikindarétt, rétt til fæðingarorlofs og málskotsrétt. Ég vil í þessu sambandi minna á orð hæstv. forsrh. að ekki yrðu skert áunnin réttindi né þau sem starfsmenn mættu vænta í sambandi við lífeyrismál í framtíðinni. Þetta voru orð hæstv. forsrh. og ég trúi því ekki að við þau verði ekki staðið. Ég kannast reyndar ekki við neinar yfirlýsingar í tengslum við þetta frv. Það er þvert á móti verið að ganga á ávinnslurétt opinberra starfsmanna. Það sem ég á sérstaklega við eru áfangaunnin réttindi sem er verið að skerða. Það er, herra forseti, verið að gera róttækar breytingar á réttarstöðu ýmissa starfsmanna ríkisins með því t.d. að það er verið að taka af þeim samnings- og verkfallsrétt og með því að gera þá að embættismönnum. Um þetta hefði að mínu mati átt að semja í komandi kjarasamningum.

    Það er augljóst að með þessum lögum er verið að binda mörg atriði sem eru ólík því sem gerist á almennum markaði og ganga þvert gegn fram settum markmiðum laganna sem var að nálgast það sem gerist á þeim vettvangi. Hér er síst af öllu verið að nálgast það sem gerist og gengur á almennum vettvangi. Ég vil tilnefna þau ákvæði sem eru um skyldu til yfirvinnu, uppsagnir við langvarandi veikindi, framlengingu á uppsagnarfresti og engar stjórnir á bak við forstöðumenn auk ýmissa annarra atriða.

    Ég vil, með leyfi forseta,vitna til álits minni hlutar hv. efh.- og viðskn. Í eftirfarandi kafla er fjallað um skerðingar og misrétti sem frv. hefur í för með sér.

    ,,Frumvarpið ber öll merki þess að hagsmunir ríkisvaldsins sem vinnuveitanda ganga eins og rauður þráður í gegnum það. Það gengur á réttindi starfsmanna og möguleika þeirra til að hafa áhrif á sitt starfsumhverfi. Þetta er siðlaus lagasetning og í andstöðu við nútímastjórnarhætti miðað við hvernig fyrirtækjarekstur og opinber stjórnsýsla hefur þróast í nágrannalöndunum.

    Í frumvarpið vantar algjörlega ákvæði um starfsmannaráð í einstökum stofnunum. Það vantar í það ákvæði um skyldu til samráðs og samstarfs við stéttarfélög eða samtök þeirra þegar kemur að ákvörðunum sem varða starfsmenn sjálfa, svo sem um setningu reglna við yfirborganir. Hafa ber í huga að ríkisstarfsmenn eru 25 þúsund talsins og vitaskuld er mjög mikilvægt að gætt sé eðlilegs samráðs í stjórnsýslunni.

    Frumvarpið er allt of hrátt til að hægt sé að vinna eftir því af nokkru viti. Ítrekaðar ábendingar, bæði minni hlutans og forsvarsmanna stéttarfélaga, um að málið yrði skoðað betur voru hunsaðar. Meiri hlutinn afgreiddi málið löngu áður en það var tilbúið til frekari þinglegrar afgreiðslu.`` --- Þessum orðum er eðlilegt að beina til hv. formanns efh.- og viðskn. --- ,,Í frumvarpinu ríkir mikil óvissa um réttarstöðu ýmissa stétta. Þannig má geta þess að stöðu lögreglumanna, tollvarða og fangavarða er breytt verulega í frumvarpinu og í breytingartillögum meiri hlutans. Ekki hefur verið haft eðlilegt samráð við stéttarfélögin og nauðsynleg umræða hefur ekki farið fram meðal félagsmanna þeirra. Einnig má geta þess að réttarstaða presta og prófasta, en um þá gildir sérstaða í íslenskum rétti, hefur ekki verið skoðuð vandlega.

    Ýmislegt bendir til þess að athuga hefði þurft betur fyrirkomulag á réttarstöðu prófessora og annarra starfsmanna Háskóla Íslands, en ljóst er að fyrirkomulag kjarasamninga á þeim vettvangi gerir það að verkum að ekki er hægt með einhliða hætti að kveða á um breytingar án þess að það sé rætt ítarlega við kjarasamningagerð.

    Í nefndinni var rætt m.a. um að skipa þyrfti einstökum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins stjórnir þar sem það á við til að forstöðumenn með hið aukna vald sitt lytu virku eftirliti. Ekki var neitt tillit tekið til þessara ábendinga þannig að miðstýringarvaldið er látið ná fram að ganga með tillögum meiri hlutans.

    Ekki er tekið á þeirri staðreynd að fjölmargir starfsmenn ríkisins eru með ,,æviráðningu``, þ.e. ekki með gagnkvæman uppsagnarfrest. Þessir menn munu starfa við hlið nýrra starfsmanna ríkisins sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest eða tímabundna ráðningu. Engin tilraun er gerð til að reyna að fella þessi tvö ólíku kerfi saman, t.d. á þann hátt að þeir sem væru með ,,æviráðningu`` á eldri kjörum gætu átt þess kost að fara inn í hið nýja réttarkerfi og þá á hærri launum gegn því að afsala sér æviráðningunni. Engin ákvæði eru í frumvarpinu um slíkan feril.

    Einnig hefur verið bent á að til bóta væri ef forstöðumenn stofnana og fyrirtækja og æðstu embættismenn gerðu nánar grein fyrir starfsemi sinna stofnana, t.d. gagnvart viðkomandi þingnefnd þegar það á við. Enginn slíkur ferill er í frumvarpinu né gert ráð fyrir honum í greinargerð eða í breytingartillögum meiri hlutans.

    Vafasamt er að takmarka auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

    Gerð er alvarleg athugasemd við það að heimilt verður að framlengja stöður yfirmanna ríkisins án auglýsinga þannig að í reynd getur verið um að ræða framlengingu á ráðningu óhæfra yfirmanna í ríkisþjónustu um mörg ár án þess að neitt virkt eftirlit sé með starfseminni.

    Í frv. er skertur möguleiki starfsmanna til að tala máli sínu og skjóta ákvörðun yfirmanns til æðra stjórnsýslustigs. Með þessari útfærslu eru ákvæði nýsettra stjórnsýslulaga gerð óvirk. Þetta er mjög alvarlegt og minni hluti efh.- og viðskn. mótmælir þessum vinnubrögðum og þeirri fyrirætlun að þrengja að eðlilegum lýðræðislegum rétti starfsmanna sem hefur verið tryggður með sérstökum hætti í öðrum lögum.``

    Og í lokin í þessari tilvitnun er talað um aukið vald forstöðumanna.

    ,,Eitt af meginatriðum frumvarpsins, og það sem frumvarpshöfundar lofa hvað mest, er að forstöðumönnum ríkisstofnana er falið meira vald í stjórnsýslunni, þar á meðal til að ákvarða viðbótarlaun til einstakra starfsmanna sem sýnt hafa sérstaka hæfni í starfi.`` --- Að mati hvers? Að mati kunningjans sem er yfirmaður eða hvers? --- ,,Ekki er í frumvarpinu á neinn hátt lýst með hvaða hætti skuli gera þetta og þrátt fyrir ítrekaðar óskir minni hlutans um að fá reglur sem ætlunin er að vinna eftir hefur ekkert slíkt verið lagt fram í nefndinni. Það er bersýnilegt að engar slíkar reglur eru til. Með þessu ákvæði er forstöðumönnum falið mikið vald til eftirlitslausra launaákvarðana og geta þeir hyglað einstökum starfsmönnum án nokkurra afskipta, t.d. af hálfu stéttarfélaganna.``

    Herra forseti. Tilgangur þessa frv. var að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Það átti að auka sjálfstæði forstöðumanna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um stjórnun og starfsmannahald á nútímalegan hátt. Ég trúi því ekki, eins og ég sagði áðan, að nokkur sem les saman fyrri lög, þ.e. þau lög sem í gildi eru, og frv. sem ríkisstjórnin ætlar að þvinga fram í krafti þessa öfluga þingmeirihluta, geti séð út úr þeim lestri að frv. jafni réttarstöðuna. Ég sé ekki annað en það sé verið að auka skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðningaréttindi ríkisstarfsmanna eru lögbundin og ríkisstarfsmenn hafa ekki formlegan samningsrétt um þau. Mér sýnist það blasa við að þeir sem sömdu þetta frv. hafa haldið að ríkisstarfsmenn hafi haft raunverulegan samningsrétt um samnings- og verkfallsrétt en það er alrangt.

    [18:00]

    Ég vil, með leyfi forseta, vitna í umsögn Bandalags háskólamanna um frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir m.a.: ,,Með frumvarpinu eru völd forstöðumanna aukin að því er varðar völd þeirra yfir starfsmönnum. Hins vegar er réttarstaða forstöðumanna og æðstu stjórnsýsluembættismanna stórlega skert gagnvart ráðherrum og hinu stjórnmálalega valdi, bæði með því að taka af ótímabundnar skipanir í störf og með því að heimila ráðherra að veita forstöðumanni umsvifalaust lausn ef hann uppfyllir ekki fyrirmæli ráðherra varðandi gæði, þjónustu, rekstrarhagkvæmni eða árangur í starfi. Það er enginn vafi á því að á meðal siðmenntaðra þjóða þykir nauðsynlegt að hafa öfluga stjórnsýslu og embættismenn til að sporna gegn geðþóttavaldi og spillingu stjórnmálamanna. Ráðningarfesta og starfsöryggi starfsmanna ríkisins er lykilatriði í þessu samhengi, ekki sem hagsmunir starfsmanna frá þessu sjónarhorni heldur til varnar hagsmunum almennings. Geðþóttavald ráðherra sem stöðuveitanda verður þannig stóraukið og verður virkt a.m.k. á fimm ára fresti. Vald ráðherra að setja forstöðumann af sem ekki tekst að hagræða að skapi ráðherra, auka magn eða gæði þjónustu að skapi ráðherra eða sýna meintan, eftirsóknarverðan árangur í starfi getur orðið að kúgunartæki gagnvart forstöðumanni og öllum starfsmönnum þegar sami ráðherra getur gert síauknar kröfur fyrir sífellt minna fé, meira fyrir minna.

    Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja upp forsendur gildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með tilvitnun aftur í umsögn Bandalags háskólamanna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

    ,,Tilgangur gildandi laga. Ástæða er að rifja upp forsendur þeirra laga sem nú gilda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem síðar varð að lögum nr. 38/1954, var upphaflega kynnt á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og leitað samráðs um efni þess en á þeim tíma voru háskólamenn innan BSRB. Í framhaldinu funduðu höfundar laganna með fulltrúum stéttarfélaganna og tókst sátt um mörg mikilvæg atriði og var frv. þannig kynnt í ríkisstjórn. Tilgangur laganna var enda ekki aðeins lögfræðilegs eðlis heldur einnig sá að taka tillit til stéttarlegra sjónarmiða og stjórnmálaatriða. Enda var það skoðun manna að löggjöf af þessu tagi snerist ekki einvörðungu um formleg réttindi manna og skyldur og fjárhagslega hagsmuni, heldur einnig um tilfinninga-, réttlætis- og sjálfstæðismál starfsmanna og stéttarfélaga þeirra.

    Starfsmenn ríkisins hafa litið svo á að með aðdraganda að setningu laga nr. 38/1954 hafi ríkið gert kjarasátt við starfsmenn sína um ráðningarréttindi þeirra. Hvað er verið að gera nú? Það er verið að rjúfa þessa sátt. Það er verið að rjúfa þessa kjarasátt sem menn gerðu. Ávallt síðan hefur verið tekið tillit til þessara ráðningarréttinda þegar laun starfsmanna hafa verið ákvörðuð. Þannig hafa þau legið til grundvallar ákvörðunum launa félagsmanna Bandalags háskólamanna allt til þessa dags, fyrst samkvæmt launalögum og síðan sem viðmiðun fyrir Kjaradóm og frá 1987 sem viðmiðun að baki öllum kjarasamningum. Þungamiðjan í þessu áliti er að starfsmenn hafa staðgreitt þessi réttindi með því að vera á lægri launum en ella. Núna, þegar boðaðir eru tímar einkavæðingar og samdráttar í ríkisrekstri og fyrirsjáanlegar eru uppsagnir fjölda starfsmanna og niðurlagning á störfum þeirra, boðar ríkisstjórnin riftun á þessum kjarasáttmála sem starfsmenn hafa þegar greitt iðgjald fyrir með lægri launum en ella.``

    Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og er tilvitnun lokið að sinni.

    Það er margt sem ekki er unnt að kyngja í fyrirliggjandi frv. og það er gott að hv. formaður efh.- og viðskn. er hér og hlýðir á þetta, hafi hann ekki lesið það sem hér fer á eftir. (VE: Lesið upphátt?) Hafi hv. þm. lesið það upphátt er það gott, ekki veitir af. Hv. þm. þarf ekki bara að lesa þetta upphátt heldur líka í hljóði. Þú þarft að lesa þetta kvölds og morgna og miðjan dag því þú hefur ekki náð að skilja það sem hér stendur.

    (Forseti (ÓE): Ég vil biðja hv. þm. að gæta að ávarpi.)

    Já, herra forseti. Ég mun reyna að gæta þess að ávarpa hv. þm. en stundum getur þeim sem hér stendur orðið það heitt í hamsi að það gleymist eitthvað í ávörpum, herra forseti. 74. gr. stjórnarskrárinnar hefst þannig:

    ,,Rétt eiga menn að stofna félög ..., þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.``

    Frv. gengur á þennan hátt á stjórnarskrárbundinn rétt með því að gera ráð fyrir því að svipta stóran hóp félagsmanna í Bandalagi háskólamanna og jafnvel þorra félagsmanna í sumum stéttarfélögum réttindum til að vera í stéttarfélagi. Svo langt er gengið í frv. að ákvörðun um það hverjir verði þannig sviptir grundvallarmannréttindum getur verið geðþóttaákvörðun forstöðumanns í stofnun eða fjmrh. Þetta eru þung orð, herra forseti. Þetta er þungur áfellisdómur og það er örðugt að skynja eða skilja að hv. formaður efh.- og viðskn. hafi lesið þessi ákvæði upphátt án þess að skilja þau alvarlegu atriði sem hér standa.

    Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu en mér sýnist augljóst að gildissvið nýrra laga verði mun þrengra en nú er. Það mun ekki ná til allra þeirra þátta sem lögin taka nú til. Markmið frv. hefur því gersamlega glatast við samningu þess, þ.e. að jafna rétt starfsmanna ríkisins við það sem gerist á almennum markaði. Með frv. þessu er verið að draga úr og fella niður skyldur stjórnvalda til að auglýsa störf, hafa um þau samkeppni og ráða þann hæfasta til starfa. Það er verið að bjóða upp á leið sem getur leitt til geðþóttaákvarðana í stöðuveitingum hjá ríkinu. Þessi stefnubreyting getur ekki leitt til jafnaðar en leiðir að mínu mati til lakara starfsöryggis starfsmanna.

    Herra forseti. Þótt eitthvað hafi fallið út af réttum ávörpum án þess að ég gerði mér það ljóst hef ég að eigin áliti haft uppi gagnrýni á fyrirliggjandi frv. Stærsti ágallinn er að það hefur ekki verið haft samráð við þá aðila sem þetta frv. lýtur að. Ég er þess fullviss að ef menn hefðu gefið sér tíma og beitt eðlilegum vinnubrögðum hefði verið unnt á eðlilegan máta, þ.e. í komandi kjarasamningum, að ná þeim árangri sem menn lögðu upp með. Ég má til með í lokin að vitna, með leyfi forseta, í umsögn Bandalags háskólamanna um frv. til laga þessara um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem fjallar um yfirvinnuskyldu. Í grein gildandi laga segir:

    ,,Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem yfirboðarar telja nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim sem gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur þriðjungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.

    Í 17. gr. frv. er gert ráð fyrir að forstöðumenn ákveði vinnutíma starfsmanna, þó aðeins að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.``

    Í 2. mgr. 17. gr. segir: ,,Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum og annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.``

    Þarna er um verulega breytingu að ræða og ég trúi því ekki að hv. meirihlutamenn í efh.- og viðskn. hafi áttað sig á því hvað þeir eru að leggja til að gert verði. Almenn lögbundin skylda starfsmanna til yfirvinnu af því tagi sem hér greinir um er afar hæpin vinnuréttarlega séð, ef hún stenst þá yfirleitt stjórnarskrá landsins. Sú breyting sem gerð er á greininni varðar aðeins formbundna aðlögun að vinnutímatilskipun Evrópusambandsins sem nú mun fela í sér alþjóðaréttarlega skuldbindingu hér á landi. En það væri fráleitt að halda því fram að höfundar hafi gerst nútímalegir við endurskoðun á þessari grein sem minnir fremur á úrelt hjúalög en nútímavinnuréttarsamband.

    Herra forseti. Ég hef aðeins í nokkrum atriðum vitnað til yfirlýsinga og ályktana þar sem hinir fjölmennu hópar eða stéttarfélög hafa gefið umsögn, sent áskorun til alþingismanna, til ríkisstjórnar Íslands með beiðni, með ósk, með neyðarópi um að draga frumvörp þau til baka sem hér er um rætt, ekki bara um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur einnig um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég er ítrekað búinn að nefna að þetta verði dregið út af borðinu. Ég er búinn að biðja hæstv. fjmrh. að verða við því svo hann komist hjá því að sitja hér á þingi fram í næsta mánuð til að hlusta á þær ræður og upp lesin skjöl sem þingmenn hafa undir höndum. Það skortir ekki efnið eins og kom fram í þeirri litlu vísu sem ég fór með fyrir hæstv. ráðherra í upphafi máls míns. Og það mun ekki duga hvorki einn mánuður eða tveir til að ná krafti úr stjórnarandstöðuþingmönnum sem standa saman eins og einn maður um að ná þessum frumvörpum öllum saman út af borðinu.