Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 18:14:06 (5861)

1996-05-09 18:14:06# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[18:14]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hef á umliðnum dögum velt því dálítið fyrir mér hvað liggi að baki þessari svonefndu stefnumörkun ríkisstjórnar í málefnum samtaka launafólks og að öðru leyti í þeirra réttindamálum. Ég hef velt þessu fyrir mér, kannski ekki síst í ljósi þess að flestir landsmenn tóku eftir því að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var býsna aðgerðarlaus fyrstu mánuði valdaferilsins og var það satt að segja þannig að menn voru ekkert allt of klárir á því hvaða ríkisstjórn væri við völd og hvaða ráðherra færi með hvaða málaflokk.

Nú bregður hins vegar svo við eftir níu mánaða meðgöngu eða svo að úr smiðju ríkisstjórnarinnar brýst fram hvert frv. á fætur öðru sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en að þar fari grímulaus árás á réttindi og starfskjör launafólks í landinu. Þetta gerist nokkurn veginn á sama tíma og ríkisstjórnin heldur því fram með nokkrum sanni að efnahagsástandið fari mjög batnandi, að landið sé að rísa, þjóðartekjur að aukast og hagvöxtur sömuleiðis. Það er sem glymji í mínum eyrum ræður hæstv. forsrh. um þau efni, hvernig allar aðstæður í okkar efnahagskerfi séu þannig að nú sé ástæða til bjartsýni, nú sé ástæða fyrir fólk að fagna gróandanum og vorinu í landsstjórninni og í okkar efnahags- og atvinnuumhverfi.

Það er einmitt á þessum tímapunkti, virðulegi forseti, sem skerðingarfrumvörpunum sem svo hafa verið nefnd með réttu, rignir yfir hið háa Alþingi. Þess vegna erum við að því á þessu ágæta og fallega vori að fjalla um mál sem satt að segja eru þannig að ég held að fæstir gangi til leiks með glaðværð eða ákefð heldur þvert á móti með bullandi vonbrigði í hjartarótunum. Það er með öðrum orðum ekki eins heitt í þessum hjartarótum og hjá ónefndum einstaklingi öðrum úti í þjóðfélaginu.

Spurningin er, virðulegi forseti, eins og ég gat um: Er um meðvitaða stefnumörkun að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar eða er þetta einbert hugsunarleysi? Er þetta bara einhver tilviljun eða er eitthvert óðagot á hæstv. ríkisstjórn? Ráðherrarnir hver af öðrum ryðjast fram með þessi mál og það er alger tilviljun að á sama tíma fer hæstv. fjmrh. mikinn --- ég vil láta þess getið, virðulegi forseti, af því að ég nefni hann sérstaklega að ég geri enga kröfu til þess að hann sitji hér, nákvæmlega ekki nokkra, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir. Ég skýri það ekkert nánar --- eða skyldi það nú vera? Ég get satt að segja ekki svarað því fyrir fullt og fast hvor ástæðan vegur þarna þyngra. Ég nefndi það að hæstv. fjmrh. fer mikinn með sín skerðingarfrumvörp, það sem hér er um rætt, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hafði uppi stór áform um annað frv. um skerðingu á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. En þar var hann tekinn til bæna eins og stundum áður af hæstv. forsrh. og rekinn til baka með það. Þess vegna var það ekki undarlegt að síðasti ræðumaður, hv. þm. Gísli S. Einarsson, skyldi brosa þegar hann sá hæstv. forsrh. birtast í dyrunum og kippa hæstv. fjmrh. í hliðarsal, því það hafa þingmenn svo sem upplifað áður að hæstv. forsrh. hefur þegar í óefni hefur verið komið látið hæstv. fjmrh. vita af því og rekið hann til baka með mál sem stefndu í voða. Það hefur þó ekki gerst enn þá. Það er hins vegar von til þess eftir sem áður að á næstu dægrum geti einhver sá aðili sem vald hefur til, getu og ráð, gripið til þeirra ráða að vísa hæstv. fjmrh. til betri vegar og þar með ríkisstjórninni allri.

Ég velti þessum meginspurningum fyrir mér, virðulegi forseti, kannski líka vegna þess að hvort það samráðsleysi og sú pólitík sem óneitanlega hlýtur að felast í því að reyna að hafa ekki samband eða samráð eða samstarf eða samtal við samtök opinberra starfsmanna á undirbúningsstigi þessara mála, kunni að vera hin nýja pólitík ríkisstjórnarinnar eða enn og aftur einhver endemis klaufaskapur, eitthvert óðagotið. Ég kem nánar að því á eftir. Þessi aðferðafræði, þ.e. að hæstv. fjmrh. talar ekki við sitt fólk, sína launamenn, segir auðvitað sitthvað um viðhorf yfirmanna til undirmanna, æðsta yfirmanns opinberra starfsmanna til sinna undirmanna, en einnig, og ég segi það eins og það er, held ég að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi með þessari nálgun kippt stoðum undan og eyðilagt alla möguleika á því að eðlileg þróun og eðlilegar breytingar geti átt sér stað á vinnuumhverfi og starfsumhverfi opinberra starfsmanna því að ég hygg ekki nokkur maður láti sér til hugar koma fyrir fram að neita því að ræða breytingar á gildandi lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frá 1954. Þvert á móti held ég að allir skynsamir menn séu tilbúnir til að ræða þau og reifa og þá ekki síst fulltrúar opinberra starfsmanna, trúnaðarmenn þeirra. Það er því ekki einasta þessi hroki, það að lyfta sér þrepinu ofar og segja fyrir verkum í litlu og stóru, heldur líka hitt að með þessari aðferðafræði er hugsanlega verið að gera það ómögulegt á næstu árum að fara í skynsamlega endurskoðun á gildandi lögum. Og virðulegur forseti heyrir það að ég geng auðvitað út frá því sem vísu að frv. sem við erum nú að ræða í 2. umr. nái ekki fram að ganga. Ég geng út frá því sem vísu að hið háa Alþingi muni hafa vit fyrir ríkisstjórninni í þessum efnum.

Það er ástæða til þess fyrir Alþingi og hv. alþm. að gaumgæfa það mjög alvarlega, ekki síst í þessu máli, hvernig mál eru lögð fyrir þingið frá framkvæmdarvaldinu. Er það svo að hið háa Alþingi og þá einkanlega hv. stjórnarþingmenn frá einum tíma til annars séu einungis einhvers konar pöntunarfélag sem láta að og lúta vilja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar hverju sinni án þess að æmta eða skræmta? Ég neita að trúa að svo sé. En í þessu máli alveg einkanlega er það algerlega nauðsynlegt til þess að menn reyni að viðhalda virðingu þingsins og sjálfs sín, að menn fari mjög gaumgæfilega ofan í það sem frá framkvæmdarvaldinu kemur. Í þessu tilfelli er framkvæmdarvaldið ekki óhlutdrægt eða hlutlægt apparat, ekki aðili sem leggur til lagasetningu eða frv. til laga til þess að stýra málum innan framkvæmdarvaldsins, skipa þeim á einn eða annan hátt og óska atbeina Alþingis til þess með nýjum lögum. Nei, í þessu tilfelli er um það að ræða að ríkisvaldið er annar tveggja samningsaðila. Hæstv. ráðherra semur við samtök BSRB með reglulegu millibili um kaup og kjör hinna síðarnefndu og einmitt við þær aðstæður, virðulegi forseti, ber hinu háa Alþingi að hafa á fulla gát. Raunar ætti það að vera svo, ef þrískipting valdsins væri virk og eðlileg, að Alþingi sjálft ætti að hafa frumkvæði að slíkri lagasetningu sem hér er um að ræða. Með öðrum orðum er staða framkvæmdarvaldsins, hæstv. fjmrh. sem aðalsamningamanns vinnuveitenda í þessu sambandi, sú að auðvitað getur hann aldrei verið hlutlægur í sínu mati og auðvitað er það fullkomlega óeðlilegt að annar aðili við samningaborð geti sett nánast þær leikreglur sem honum sýnist. Við slíkar aðstæður er allt tal um frjálsan samningsrétt út í bláinn og ómarktækt hjal. Menn hljóta að spyrja sig hvar lýðræðisgrundvöllur okkar liggur þegar málið er skoðað í þessu ljósi. Það mundi a.m.k. heyrast hljóð úr einhverju horninu ef Vinnuveitendasamband Íslands, svo að við búum bara til hliðstæðu við þetta, gæti nánast eftir pöntun sett almennar leikreglur um réttindi og skyldur starfsmanna sem að utan standa við hina eiginlegu kjarasamninga og hæstv. félmrh. mundi koma með þær með kurt og pí og keyra í gegn með sínum stjórnarmeirihluta.

Að vísu er þessi líking ekkert voðalega góð, virðulegi forseti, því að á þessa leið hefur hæstv. félmrh. hagað sér og farið fram í öðru frv. sem hið háa Alþingi fjallar nú um, frv. um vinnulöggjöfina og breytingar á henni. Það er þó að sönnu ekki gert með jafnbersýnilegum og gagnsæjum hætti og hér. Þess vegna geri ég enga sérstaka kröfu til þess að eiga orðastað við annan aðalsamningamann ríkisvaldsins við opinbera starfsmenn um þau mál sem hér er um fjallað. Ég vil eiga orðastað, virðulegi forseti, við hv. alþingismenn og lít þannig til að hæstv. fjmrh. eigi sem allra minnst og nánast ekkert að koma að málinu úr þessu. Að vísu er erfitt við það að eiga í ljósi þess að hæstv. ráðherra er auðvitað kjörinn alþingismaður eins og við hin. En samkvæmt hinum þrönga og gullna vegi á málið að vera þannig að aðili sem hefur jafnríkra hagsmuna að gæta og hæstv. fjmrh. og á að gæta þeirra, eigi ekki að koma jafnafdráttarlaust að þessari lagasetningu og hann hefur gert. Ekki einasta semur hann frv. heldur er hann hér vakinn og sofinn yfir umræðum og gætir hjarðar sinnar. Þess vegna er það enn sárgrætilegra en ella þegar um er að ræða þetta mikið grundvallarmál um virðingu þingsins að hér í salnum er ekki að finna einn einasta, ekki einn, ekki hálfan hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna.

Ég vænti þess að hv. formaður efh.- og viðskn. sé ekki fjarri. Hann hefur setið bekkinn af mikilli samviskusemi. En fulltrúar hins stjórnarflokksins eru hér auðvitað ekki frekar en fyrri daginn. Auðvitað ætti að grípa til þess ráðs, ef umræðan á að fara í þann farveg sem raunar hv. áðurnefndur formaður efh.- og viðskn. nefndi í framsöguræðu sinni þar sem hann kallaði eðlilega eftir hispurslausri, hreinskiptinni og upplýsandi umræðu um þessi mál í þingsölum, að gera sömu kröfu og hæstv. forseti þingsins hefur gert með miklum myndarskap úr sínu sæti, þ.e. að krefjast ákveðinnar lágmarksviðveru hv. þm., stjórnarflokkanna þá einkanlega því að það er eftirtektarvert og fer ekki fram hjá nokkrum manni að það er engin tilviljun --- ég mun gera það nánar að umtalsefni á eftir --- það er engin tilviljun að hv. þingmenn Framsfl. sjást ekki í salnum og hafa ekki sést umliðna daga nema í mýflugumynd hlaupandi fram og til baka. Síðast þegar ég vissi var það þannig að enginn þeirra hefur uppi áform um að taka þátt í þessari umræðu, enginn þeirra er á mælendaskrá. En það kemur auðvitað ekki á óvart. (Gripið fram í.) Auðvitað skammast þeir sín. Það er hin eina rétta skýring. En það breytir því ekki, ef við gerum venjubundnar kröfur til eðlilegrar, lýðræðislegrar umræðu um jafn veigamikið mál og þetta, að þingið á samkvæmt öllum þeim leikreglum sem við búum við, stjórnarskránni sjálfri, að bera uppi umræðuna og bera síðan ábyrgð á þeim niðurstöðum sem í þessum málum verða eða verða ekki.

[18:30]

Auðvitað má nákvæmlega það sama segja um flokk hæstv. fjmrh. Að undanskildum margnefndum formanni efh.- og viðskn., hyggst ekki einn einasti þingmaður Sjálfstfl., mér vitanlega, taka þátt í þessari umræðu eða telur sig hafa neitt til hennar að leggja. Það er eftirtektarvert, virðulegi forseti. Það segir enn og aftur það sem ég gat um áðan. Það segir okkur dálítið um það hvort menn þurfa ekki að staldra við á þessum vettvangi og huga að margnefndri virðingu Alþingis. Eða er það með þeim hætti, virðulegi forseti, að hv. þm. stjórnarflokkanna, sumir hverjir nýkomnir til þings eftir glæsta kosningasigra, líti á það sem hlutverk sitt fyrst og síðast að mæta hér til atkvæðagreiðslu í hópi 60-menninga og rúmlega það og ýta á græna takkann? Ætla þeir ekki að standa til svara hér um þessi hin stóru mál eða bera í raun nokkra ábyrgð á því, aðra en þá að ýta á græna takkann? Þetta er verulegt áhyggjuefni í okkar lýðræðisþjóðfélagi og við slíkar aðstæður verður hv. þm. orða vant þegar almenningur, launafólk, spyr sem svo hvort virðingu hins háa Alþingis fari hrakandi. Það er nefnilega alger misskilningur sem hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., sagði hér í sinni framsögu á fyrsta degi þessarar umræðu, þar sem um var rætt og á það bent hvort stjórnarmeirihlutinn ætlaði ekki að taka tillit til ábendinga tugþúsunda launamanna í þessu þjóðfélagi sem birtast í þinggögnum og umsögnum stéttarfélaga og gerð hefur verið rækilega grein fyrir. Þá var svar hv. þm. efnislega þetta: Nei, hér er um það að ræða að alþingismenn haldi sjálfstæði sínu og þingið haldi sjálfstæði sínu og taki þær ákvarðanir sem því sýnast skynsamlegar frá einum tíma til annars en láti ekki pressu og þrýsting aðila utan þings hafa þar óeðlileg áhrif. Þetta má satt vera að hluta til en hann gleymdi hinni hlið þessa máls og hún er þessi: Er þá ekki jafnóeðlilegt og jafnvel fráleitara að þessi sami þingmeirihluti, þetta sama þing taki nánast við pöntunum frá hinum samningsaðilanum, hæstv. fjmrh., sem segir nánast fyrir um það hvernig þessar leikreglur á vinnumarkaði milli fjmrh. og fjmrn. annars vegar og samtaka opinberra starfsmanna hins vegar skuli fram ganga? Með öðrum orðum á að sýna sjálfstæði þingsins í hvívetna að mati hv. þm. Vilhjálms Egilssonar þegar um er að ræða skynsamlegar og eðlilegar ábendingar frá samtökum tugþúsunda en það á ekki við þegar Alþingi ætlar að vega og meta á hlutlægan og eðlilegan hátt ábendingar, tillögur og athugasemdir frá samtökum launafólks. Þetta eru hin stóru skilaboð. Ég get ekki annað en brosað, virðulegi forseti, þegar ég sé hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mæta til fundar. Kviknar þá von í brjósti mér um að væntanlega grípi nú einhver hv. þm. stjórnarflokkanna til þess ráðs að taka þátt í umræðunni hér á síðari stigum seinna í þessum mánuði. En við sjáum hvað setur með það.

Spurningin er auðvitað þessi: Ef hér er ekki um óðagot að ræða þá er hér um klára og kvitta stefnu ríkisstjórnar að ræða. Nýtt verklag, ný vinnubrögð. Hvaða skilaboð eru það sem þessi ríkisstjórn er að senda launafólki núna þegar góðærið hefur gengið í garð? Núna þegar landið er að rísa. Nei, þá er nákvæmlega talin ástæða til þess af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, af hálfu þessarar helmingaskiptastjórnar, að leggja til atlögu, að skerða kjörin, minnka réttindin. Taka nú í hnakkadrambið á samtökum launafólks, á þessum tugþúsundum í landinu. Láta nú launamenn finna til tevatnsins og skynja það og skilja hvar völdin eru í þessu samfélagi. Ekki hitt, sem allir reiknuðu satt að segja með, að þegar góðærið rynni upp mundu landsherrarnir freista þess að miðla einhverju af hinum nýju verðmætum út til þjóðarinnar, bæta kjörin hjá launafólkinu sem hefur borið hina þungu byrðar efnahags- og atvinnukreppu umliðinna ára. Nei, því er ekki að heilsa. Það á að láta kné fylgja kviði. Góðærið á með öðrum orðum, virðulegi forseti, að fara eitthvað allt annað. Það er einhver annar aðili í þessu samfélagi sem á að njóta ágóðans af betri tíð í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hver það er nákvæmlega veit ég ekki en það er aldeilis ljóst að það er ekki launafólkið, það eru ekki opinberir starfsmenn. Það eru ekki félagar í Verkamannasambandi Íslands, það eru yfirleitt ekki launamenn í þessu landi. Frv. þau sem eru á borðum þingmanna þessa dagana og eru til umræðu hér hvert af öðru eru með alveg skýrum og klárum skilaboðum. Þau eru alveg skýr og klár og enginn mælir á móti því. Það á að herða tökin. Það á að skerða kjörin. Auðvitað þarf þetta ekki að koma neinum á óvart, virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hin íslenska þjóð hefur upplifað einhver ár undir forustu þessara tveggja stjórnmálaflokka. Reynslan og sagan segja okkur það ótvírætt að þegar þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Framsfl. ganga saman í eina sæng brýst út það versta í þeim báðum. Þar verður einhver sú blanda að landsfeðurnir verða hreint alveg ómögulegir. Ég rifja ekki upp annað en reynslu þjóðarinnar af samstarfi þessara tveggja flokka 1983--1987 þar sem þeir voru m.a. að glíma við verðbólguna og tókst það auðvitað ekki. Hins vegar voru þeir meira og minna allan þann tíma í stórum slag við verkafólk í þessu landi, samtök verkafólks. Svo ég fari aðeins aftar í tímann, virðulegi forseti, og rifji upp 1974--1978 sem er nú kannski enn þá gleggra dæmi. Því gleymir ekki nokkur maður sem þá var kominn til vits og ára hvernig verklagið var á þeim bænum á þeim tíma hjá þessum tveimur sömu stjórnmálaflokkum, Framsfl. og Sjálfstfl. Það var stanslaust stríð, stanslausar árásir á kjör launafólks. En ég veit líka, virðulegi forseti, að forustumenn þessara flokka nú og þá muna það eins og gerst hafi í gær hverjar urðu lyktir þess stjórnarsamstarfs. Hver var hinn stóri dómur kjósenda eftir þau fjögur ár 1978? Ég held að Sjálfstfl. gleymi ekki og þaðan af síður Framsfl. þeirri rassskellingu sem íslenskir kjósendur veittu þessum tveimur núverandi og þáverandi stjórnarflokkum í kosningunum í maí 1978. En þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur og enn og aftur virðast þessir tveir sömu flokkar fara í sama farið og var hér á árum og áratugum áður. Auðvitað verður niðurstaðan ekki öðruvísi en þá, virðulegi forseti. Þessi löngu fjögur ár frá kosningunum 1995 líða, það kemur að því að 8. apríl 1999 rennur upp. (Gripið fram í: Guði sé lof.) Guði sé lof, segir hv. þm. og tek ég heils hugar undir það. Ætti maður þó ekki að leggja nafn drottins við hégóma, þ.e. þessa ríkisstjórn. En þetta er nú sú pólitíska umgjörð sem ég held að sé alveg nauðsynlegt að hafa í huga í þessu sambandi. Ég tel, virðulegi forseti, að margt bendi til þess að ríkisstjórnin muni ekki klára þennan slag, sama hversu blessaður virðulegur hæstv. fjmrh. er þaulsætin hér við þessa umræðu, því innri styrkur þessarar stjórnar er auðvitað ákaflega lítill þegar allt kemur til alls. Hann er ákaflega lítill. Þessi varadekk svokölluðu eru ekki hér. Enda kannski ekki reiknað með því að þau séu hér til að ræða málið og verja sína ráðherra, til að fylgja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eftir. Kannski eru þessi varadekk eingöngu til þess að koma og ýta á græna hnappinn. Sennilega er það nú þannig. En afstaða ríkisstjórnarinnar eins og forvera hennar 1983--1987 og 1974--1978 er auðvitað afstaða til vinnunnar, til vinnandi fólks í þessu landi. Og sú afstaða er öllum lýðum ljós. Ríkisstjórnin kann með öðrum orðum ekki að meta vægi og mikilvægi hins vinnandi fólks og framlag þess til verðmætasköpunar og betra samfélags. Það á að deila og drottna, það er lykilorðið af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Fallvalt er það gengið, virðulegi forseti, þegar upp er staðið.

En það er ekki eingöngu í beinum samskiptum við launamenn sem þetta viðhorf til launafólks birtist. Það er ekki eingöngu í þessu frv. hér né heldur frv. um vinnulöggjöfina, né heldur inngöngu í frv. um Atvinnuleysistryggingasjóð sem væntanlegt er. Né heldur í hugmyndum og áformum um frv. um skerðingu á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þetta birtist í miklu, miklu fleiri málum, virðulegi forseti. Þetta birtist m.a. í skattamálunum. Það birtist glögglega í nálgun ríkisstjórnarinnar hvað varðar álagningu fjármagnstekjuskatts þar sem ríkisstjórnarflokkarnir annars vegar og stjórnarandstöðuflokkarnir hins vegar tókust á um það með hvaða hætti menn leystu það verkefni sem þjóðin hefur kallað eftir um árabil að skattleggja þá einstaklinga sem hafa notið og njóta umtalsverðra tekna vegna innstæðna í bönkum.

[18:45]

Það var sjónvarpsumræða um þau mál og ég ætla ekki að endurtaka hana hér í löngu máli. En í stórum dráttum birtist auðvitað stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þeim veruleika að ekki var unnt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að taka upp skattlagningu á þá einstaklinga í þessu samfélagi sem hafa umtalsverðar vaxtatekjur nema um leið yrði lækkaður skattur á aðra einstaklinga og raunar marga þessa sömu sem hafa umtalsverðar tekjur af arði og söluhagnaði. Niðurstaðan varð raunar þannig í mörgum tilfellum þegar upp var staðið að þetta réttlætismál um að skattleggja þá sem taka inn stórar fúlgur í vaxtatekjum reyndist þróast í þá veruna að fjármagnseigendur lækkuðu í sköttum. Þeir lækkuðu í sköttum þegar upp var staðið. Í þessu máli um fjármagnstekjuskattinn birtist það enn og aftur, virðulegi forseti, hvar áherslur ríkisstjórnarinnar eru, hverra hagsmuna þeir gæta fyrst og síðast. Raunar var það þannig með fjármagnstekjuskattinn þegar allt kom til alls að upp úr kafinu komu þeir hver af öðrum, einn, tveir, þrír og fleiri sem sögðu að þrátt fyrir allt hefðu þeir aldrei viljað leggja á skatt á vexti. Þeir hefðu látið ginna sig til þess vegna þess að þeir hefðu trúað að um það væri sátt í þinginu milli allra stjórnmálaflokka að gera það, þjóðin væri að krefjast þess. En fyrst stjórnarandstöðuflokkunum hefði dottið til hugar að leggja til aðra aðferð, tekjujafnandi aðferð til þessarar skattlagningar þá væru þeir lausir allra mála. Í því máli var það nefnilega þannig og að sumu leyti mætti taka það til eftirbreytni, virðulegi forseti, að ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna, m.a. hv. þm. Árni M. Mathiesen, orðuðu það eitthvað í þessa veru: Þar sem stjórnarandstaðan hefur lýst yfir andstöðu sinni við þá aðferð sem stjfrv. gerir ráð fyrir og sem ég hafði með semingi samþykkt í mínum þingflokki er ég laus allra mála. Þá get ég sagt það hér opinberlega hverjum sem heyra vill að ég er á móti málinu, ég vil engan vaxtaskatt. Mikið lifandis skelfing vildi ég, herra forseti, að við gætum þá yfirfært þetta viðhorf yfir á það mál sem hér er um að ræða. Að þegar menn áttuðu sig á því að það er aldeilis engin sátt um þetta mál hér í þinginu og ekki úti í þjóðfélaginu kæmu þeir hér hver af öðrum, þegar þeir hafa tíma og tök til, hv. þm. stjórnarinnar, og segðu ... (EOK: Við komumst ekki að.) Komist ekki að. Jú, ég skal með ánægju, virðulegi þingmaður, gefa þeim kost á að komast hér að fljótt og vel ef þeir sæju ástæðu til að setja sig á mælendaskrá og sýndu þannig lit í að vilja taka þátt í ítarlegri og opinni umræðu um málið. Virðulegi forseti, hv. þm. hefur sennilega verið í hliðarsal þegar ég beindi þeim orðum til hans eða vitnaði til þess að hann hafi sagt hér í upphafsræðu sinni að hann fagnaði og kallaði eftir málefnalegri og ítarlegri umræðu um þessi stóru mál. Ég tók upp hans orð í mínum málflutningi og kallaði einmitt eftir hinu sama. Í grófum dráttum hygg ég að til viðbótar þeim sem þegar hafa talað eru einir sjö eða átta þingmenn á mælendaskrá. En ekki einn einasti samflokksþingmaður hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og þaðan af síður hefur nokkrum þingmanni Framsfl. látið sér koma til hugar að leggja nokkuð til þessara mála. Ég hlýt því enn og aftur, virðulegi forseti, að kalla eftir því hvar þessi umræða er, þessi ítarlega umræða, þessi skoðanaskipti sem hv. framsögumaður efh.- og viðskn. kallaði eðlilega eftir. Ég tek undir það og kalla mjög eindregið eftir því að við heyrum viðhorf stjórnarþingmanna til þessa máls. Kannski koma þá einhverjir upp úr kafi, eins og ég sagði hér áðan, og segja hug sinn allan. Segja sem svo: Fyrst stjórnarandstaðan er á móti þessu er ég laus allra mála. Eins og gerðist með vaxtaskattinn. Við sjáum hvað setur, virðulegi forseti. En það er auðvitað ekki eingöngu í skattamálunum. Þjóðin fylgist auðvitað með því hvernig þessi ríkisstjórn gætir vel að öllum leikreglum sé nú til haga haldi í sjávarútvegsmálunum, að kvótakóngarnir missi nú ekki spón úr sínum aski. Gætir mjög vel að því að sívaxandi og eðlileg krafa um veiðileyfagjald þar sem tryggt er m.a. að þjóðin, launamenn í þessu landi, njóti beins afraksturs af þessari eign sinni, fiskinum í sjónum. Láti það virka sem 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna segir um eignarrétt þjóðarinnar á fiskimiðunum. Eins og sakir standa, virðulegi forseti, eru þau því miður lítið annað en orðin tóm. Á þeim vettvangi hef ég ekki orðið þess var að ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að rjúka fram með krafta í kögglum og láta til sín taka. Nei, það má ekki því það breytir auðvitað þeirri skipan mála sem menn þekkja. Það kunna einhverjir stórir karlar að fyrtast við, einhverjir karlar með pípuhatta, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson orðaði það hér svo skemmtilega. Það gæti styggt einhverja slíka. Þannig að þar má ekki rugga bátnum. Þar er enginn sveigjanleiki, engin framsýni, engin nútímavæðing í deiglunni og ekki fram undan væntanlega. Nei, ég á tæpast von á því. Eða í landbúnaðarmálunum? Er einhver sem hefur heyrt því hvíslað að hæstv. ríkisstjórn hafi uppi einhver áform um að létta fátæktarfjötrunum af bændum þessa lands og nútímavæða það kerfi? Nei, því hafa fáir heyrt hvíslað. Vissulega vil ég sýna sanngirni og segja hlutina eins og þeir eru að hv. framsögumaður efh.- og viðskn. hefur annað slagið ýjað að því en ævinlega verið barinn í kaf og litlu getað áorkað í þeim efnum. Þar skulu kjörin kyrr og engu má breyta.

Það rifjast upp, virðulegi forseti, að hér fyrr í dag fór fram dálítið hressileg utandagskrárumræða. Þá brá svo við að þingsalurinn fylltist af fólki og hæstv. forseti átti í mesta basli með að koma að öllum þeim þingmönnum sem hér vildu leggja eitthvað til málanna. Verstir eða erfiðastir, skulum við hafa það, voru samflokksmenn hæstv. fjmrh. Hæstv. forseti varð að grípa til þeirra ráða að skammta tímann svo naumt að menn töluðu hér í skeytastíl á 15--30 sekúndum. Þeir hafa sennilega talað yfir sig í þessari umræðu, hv. þm. stjórnarflokkanna. En mikið lifandis skelfing væri ánægjulegt ef sú ósk hv. formanns og framsögumanns efh.- og viðskn. rættist að þeir birtust jafnvígreifir og þeir voru hér í hádeginu í 15 sekúndna ræðunum sínum, legðu orð í belg og lýstu viðhorfum til þess stóra máls sem hér um ræðir.

Við fáum þessi merki frá ríkisstjórninni í hverju málinu á fætur öðru. Og enn og aftur staldrar maður við og spyr sjálfan sig og veltir vöngum. Var það eitthvað sem fór fram hjá fólki? Voru einhver skilti í kosningabaráttunni 1995 í mars og apríl, einhver veltiskilti eða blaðaauglýsingar eða sjónvarpsauglýsingar frá flokknum með fólk í fyrirrúmi og hinum með mannúðina og mildina að leiðarljósi sem sögðu eitthvað á þá leið: Þessir flokkar ætla að skerða kjör ríkisstarfsmanna? Þessir flokkar ætla að fara í réttindamálin og taka þau föstum tökum. Þeir ætla að herða krumlurnar á ríkisstarfsmönnum. Ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, að hafa séð slík skilti. Það kann að vera að þau hafi verið uppi á Sauðárkróki eða í Skagafirðinum og hv. framsögumaður efh.- og viðskn. hafi farið fram með þeim hætti í sínu kjördæmi, Norðurl. v. En mig rekur ekki minni til þess að menn hafi haft mjög hátt um þetta í mínu kjördæmi, Reykjaneskjördæmi. Meira að segja held ég að ég geti fullyrt að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið að básúna þetta í tíma og ótíma og verið að gera fólki rúmrusk með meldingum af því taginu. Nei, það er langur vegur frá. Auðvitað datt engum í hug af hálfu stjórnarflokkanna að segja hug sinn allan í þessum efnum þá fremur en núna. Þeir voru í felum með þetta mál og í þessu efni eins og svo mörgum öðrum sem á dagana hafa drifið hafa þeir auðvitað komið í bak sinna kjósenda, þessara 65% kjósenda, sem veittu þeim brautargengi og kusu þá til að fara með forustu landsmálanna. Því þetta var ekki sagt fyrir kosningar. Ég bið hæstv. forseta að koma því til hv. þm. fyrir mig að hann rifji upp á hvaða skiltum það stóð að ný ríkisstjórn með atbeina Sjálfstfl. ætlaði nú heldur betur að taka í lurginn á þessum ríkisstarfsmönnum, stokka upp hjá þessum ríkisstarfsmönnum og skerða réttindi þeirra.

(Forseti (ÓE): Það var ætlunin að fresta fundi um sjöleytið. Forseti vill því spyrja hv. ræðumann hvort hann muni ljúka ræðu sinni á næstu mínútum.)

Nei, ræðumaður mun ekki gera það.

(Forseti (ÓE): Þá biður forseti ræðumann að fresta ræðu sinni við heppileg kaflaskil á næstu mínútum.)

Virðulegi forseti. Ég held að þetta séu ágæt kaflaskil til að ljúka þessum hluta ræðunnar. Menn geta þá rifjað upp hver með öðrum hvenær og hvernig hv. ríkisstjórnarflokkar hafi lýst þessum viðhorfum sínum, þessari stefnumörkun í kosningabaráttunni fyrir ári. Það getur vel verið að í matarhléinu geti hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagt mér frá skiltinu á Sauðárkróki sem á stóð: Skerðum kjör ríkisstarfsmanna.