Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 21:01:55 (5862)

1996-05-09 21:01:55# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[21:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (frh.):

Virðulegi forseti. Eins og forseti gat réttilega um varð ég að gera hlé á ræðu minni um það viðfangsefni sem hér er til umræðu, frv. ríkisstjórnarinnar um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég var stutt á veg kominn í eiginlegri umfjöllun um frv. sjálft en hafði hins vegar farið nokkrum orðum um það hvað hugsanlega gæti að baki legið af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað varðar þann framgangsmáta og þá aðferðafræði sem birtist hv. þingheimi og þjóðinni allri í þeirri hrinu skerðingarfrumvarpa sem yfir þing og þjóð hafa dunið á síðustu vikunum. Eftir tiltölulega átakalitla byrjun, átakalítið upphaf þessa ríkisstjórnarsamstarfs virðist svo sem þessi ríkisstjórn, þessi helmingaskiptastjórn Framsóknar og Sjálfstfl., hafi ekki getað setið lengur á strák sínum heldur sé farin að sýna sitt rétta og eiginlega andlit. Ég rifjaði það eilítið upp, virðulegi forseti, hvernig reynsla þjóðarinnar hefur verið af samstjórn þessara tveggja flokka á árum og áratugum áður. Allt virðist fara í sama farið með svipuðum hætti og þá. Þessi ríkisstjórn ætlar í slag við samtök launafólks og þar af leiðandi launamenn alla í þessu landi.

Ég skildi þannig við í ræðu minni að ég kallaði eftir svari og geri enn, sérstaklega af hálfu formanns efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjáms Egilssonar, við því hvort, hvenær og hvernig stjórnarflokkarnir tveir, Framsfl. og Sjálfstfl., hefðu skilgreint og gert grein fyrir þessum stefnumiðum sínum, einkanlega í þeirri kosningabaráttu sem við upplifðum í apríl 1995 og hvort staðið hefði á skilti hv. þm. í hans kjördæmi og þá einkanlega á Sauðárkróki: Tökum nú á ríkisstarfsmönnum. Það er rétt að árétta það, ekki síst í ljósi þess að hv. ágætur þm. er mættur til leiks.

Einnig gerði ég það að umtalsefni og geri það enn frekar á eftir hversu sláandi það er og hversu æpandi sú þögn er sem birtist í fjarveru hv. þingmanna stjórnarflokkanna og ekki eingöngu fjarveru, heldur og ekki síður að þeir virðast múlbundnir, annaðhvort af áhugaleysi eða ótta. Þeir sýna engan áhuga á að taka þátt í efnislegri og upplýsandi umræðu. (VE: Þögn er sama og samþykki.) Virðulegi forseti, þótt ágætur forustumaður þessa liðs, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, hafi sérstaklega tekið fram og haft um það nokkur orð að það væri honum sérstakt ánægjuefni að hér gæfist tóm og tækifæri til þess að ræða þetta efnislega virðist hann ekki hafa gott taumhald á sínu liði því enginn stjórnarliða virðist hafa tekið mark á orðum hans. (Gripið fram í: Einar er kominn.) Ég fagna því sérstaklega að hér eru mættir til leiks tveir hv. þingmenn stjórnarsinna, hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Ég vænti þess að þeir taki til máls og leggi orð til þessarar umræðu.

Nú fer sá sem hér talar að verða undrandi mjög. Eitthvað er að gerast í herbúðum þeirra stjórnarliða ef svo fer fram sem horfir. Þeir virðast ætla sér að taka þó ekki sé nema á óbeinan þátt í þessari umræðu með því að sitja undir henni. Ég fagna því mjög, virðulegi forseti, að þeir virðast hafa tekið eitthvert mark á því sem ég sagði áðan, þ.e. að það væri lágmarksverkefni þeirra að koma að þessu máli, ekki síst í því ljósi að ég afþakka með öllu viðveru hæstv. fjmrh. Við þingmenn eigum ekkert sérstaklega að eiga orðastað við hann. Þetta er ekki hans mál. Þetta er fyrst og síðast mál þingsins. Og ég segi enn og aftur: Hæstv. fjmrh. sem hinn snari þáttur framkvæmdarvaldsins, sem annar tveggja samningsaðila, sem sá aðili sem opinberir starfsmenn eiga við í samningum um kaup og kjör á ekki að vera hér leiðandi afl og ráðandi afl um það hvernig hv. Alþingi, löggjafarsamkundan, skipar málum, skipar leikreglum um þessi samskipti á vinnumarkaði. Og það er af þeim sökum sem ég fyrst og síðast vil eiga orðastað við hv. almenna þingmenn, ef ég get orðað það svo, en ekki fulltrúa framkvæmdarvaldsins. Þess vegna gagnrýni ég það mjög ákveðið að þingmenn stjórnarflokkanna skuli ganga til leiks með þeim hætti að þeir í raun og sanni skulu vera eins konar atkvæðamaskínur eða pöntunarfélag fyrir hv. framkvæmdarvald því að hér er um virðingu Alþingis að tefla. Ég hlýt að árétta það, virðulegi forseti.

Svo er það hitt hvernig framsetning þessara mála öll hefur verið. Auðvitað fer ekki hjá því og allir taka eftir því að tónninn í nálgun þessa máls byggir fyrst og síðast á því að ríkisstarfsmenn séu starfsmenn hins opinbera. Allt of margir, það er einn tónninn, eru slóðar, það þarf að bæta þjónustuna, láta þá vinna og að skilvirkni hins opinbera kerfis sé með þeim hætti að þar þurfi að taka á. Það þarf að hrista upp í þessu liði, kalla það til starfa og láta það finna fyrir því hvers valdið er. Það þarf að láta það skynja og skilja að það þarf að vinna fyrir kaupinu sínu. Þetta er hinn gegnumgangandi rauði þráður. Aftur og aftur í andsvörum í þessari umræðu hefur það kveðið við í annars vegar andsvörum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og hins vegar andvörum hæstv. fjmrh. að þetta hafi verið brýn nauðsyn, að það hafi þurft að taka á þessu svokallaða ríkiskerfi sem skattborgarar standa undir og láta þetta lið vinna. Þess vegna einmitt hafi ekki verið undan því komist að leggja fram það frv. sem birtist hér. Þetta er sú taktík sem stjórnarliðar hafa haft uppi í aðdraganda þessa máls og er auðvitað ákaflega lágkúruleg, virðulegi forseti, og hvergi nærri veruleika mála eða sannleikanum sem okkur birtist sem til þekkjum innan hins opinbera kerfis. Og auðvitað í engu samræmi og samhengi við annars almenna þjóðfélagsumræðu og pólitíska umræðu um það hversu víðfeðmt hið opinbera kerfi eigi að vera, hvar það eigi að láta til sín taka og hvar ekki. Þessu er blandað saman með mjög lymskulegum hætti og látið í veðri vaka, bæði við kynningu málsins og aftur og aftur í andsvörum af hálfu þessara tveggja talsmanna ríkisstjórnarflokkanna, að það þurfi að taka á þessu liði.

Menn hafa eðli máls samkvæmt staldrað eilítið við það, og ég gerði það með örfáum orðum í fyrri hluta ræðu minnar, hvernig þetta mál allt ber að. Hvernig á því stendur að hæstv. fjmrh. skuli hafa forðast eins og heitan eldinn að eiga tal við talsmenn opinberra starfsmanna. Það liggur auðvitað í augum uppi þegar forsendur máls eru skoðaðar og lesið er og rýnt í athugasemdir með frv. að það var aldrei lagt upp með það á neinu stigi málsins að til greina kæmi að eiga orðastað við samtök opinberra starfsmanna eða fulltrúa þeirra um það hvernig þetta frv. kæmi til með að líta út. Allar vanmáttugar afsakanir núna á síðari stigum í þá veruna að hæstv. fjmrh. hafi verið tilbúinn til þátttöku í einum fundinum eða fleirum þegar frv. var fram komið alskapað eru auðvitað ekki marktækar. Bara það eitt, virðulegi forseti, að þessi vinna skuli hafa verið hafin í ágúst, nánar tiltekið 23. ágúst 1995, og skipuð til þess nefnd að yfirfara lög um réttindi og skyldur starfsmanna þar sem þess var vandlega gætt að ekki kæmu þar að fulltrúar þeirra starfsmanna sem hlut eiga að máli og við eiga að búa og við eiga að lifa. Það segir okkur alla söguna. Það undirstrikar í raun þann þankagang, það viðhorf sem hæstv. ríkisstjórn hefur til þessara starfsmanna sinna. Auðvitað hefði það verið langeðlilegast, virðulegi forseti, strax á upphafsreit þessara mála. Og ég árétta og segi enn á ný að ég trúi því ekki að nokkur maður hafi ekki verið reiðubúinn til þess að takast á við það verkefni að endurskoða og fara yfir lögin frá 1954 með það í huga að laga þau að breyttum tímum. Þess í stað var farin sú leið að kalla að þessu verki aðila sem voru jafnlangt frá því að vera fulltrúar þeirra sem við eiga að búa, starfsmanna ríkisins, og nokkur kostur var. Og þessi vísbending á upphafsstigum þessarar vinnu segir okkur margt og framhald málsins undirstrikar rækilega að það hefur aldrei verið, var aldrei og mun ekki verða á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að ganga þannig til verka að þeir aðilar sem við eiga að búa komi nokkru sinni nærri þessu máli.

[21:15]

Aukin heldur, þegar gerð er grein fyrir mótmælum, athugasemdum, ábendingum og tillögum starfsmanna, er gjarnan gripið til þess ráðs í þessum ræðustóli að tala um sjálfstæði þings og sjálfstæði þingmanna, að þeir megi ekki undir nokkrum kringumstæðum láta undan þrýstingi aðila utan þings, fólksins í landinu, að þeir þurfi að taka sjálfstæða, afdráttarlausa afstöðu til mála ásamt eigin samvisku án þess að láta ytri öfl þar trufla sig. Það á hins vegar ekki við þegar fulltrúar framkvæmdarvaldsins, hæstv. ráðherrar, eiga hlut að máli. Þeim nægir það eitt að rétta upp litla fingurinn og þá dansar hjörðin.

Svo veltir maður því eilítið fyrir sér hvort það er þannig að ríkisstjórnin vilji í raun og trúi því þegar allt kemur til alls að sú stefnumörkun sem birtist í þessu frv. sé hin eina rétta. Ég er handviss um það og trúi því að margir hv. þingmenn, margir starfsmenn ríkisins hafi verið albúnir að ræða málið við viðsemjanda sinn, hæstv. ráðherra og hans fulltrúa, á jafnréttisgrundvelli, gaumgæfa það og skoða, athuga hvort væri samkomulagsgrundvöllur um að breyta tilteknum ákvæðum laganna frá 1954 og hugsanlega slá þar af ákveðnum réttindaþáttum en starfsmönnum yrði þá bættur skaðinn með hækkun í kaupi eða öðru. En menn fóru ekki þessa leið. Maður hlýtur að spyrja sig að því í þessu ljósi hvers vegna það var ekki gert því að þegar allt kemur til alls, þá er því ekki haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að hér sé verið að spara peninga. Hér er ekki um að ræða frv. sem á að spara sérstaklega í ríkisrekstrinum. Virðulegi forseti. Það dugir því ekkert í þessu máli fyrir hv. þingmenn Framsfl. sem að vísu hafa ekki komið við sögu og eiga kannski ekki eftir að gera það, að þylja þennan gamla söng um að það þurfi að taka á rekstrarhalla ríkissjóðs. Það hefur verið þeirra viðbára í nánast hverju einasta máli sem hér hefur borið á góma þegar á þá hefur hallað og rifjuð hafa verið upp þau fjölmörgu loforð Framsfl. fyrir síðustu kosningar. Þá hefur svarið gjarnan verið: ,,Fyrst er að koma rekstri ríkissjóðs í rétt horf og lækka viðvarandi halla á ríkissjóði.`` En nú á það ekki einu sinni við í þessu máli því að ekki hef ég heyrt hæstv. ráðherra né heldur talsmenn ríkisstjórnarinnar, talsmann ríkisstjórnarinnar vildi ég sagt hafa, halda því fram að þetta frv. sé sérstaklega borið fram til þess að spara peninga á ríkisstarfsmönnum, að það eigi að ná einhverjum x milljörðum með því að skerða kjör ríkisstarfsmanna eins og hér er lagt til. Það er ekki markmiðið a.m.k. í orði kveðnu þótt leiða megi rök að því að niðurstaðan, ef af niðurstöðu verður, komi til með að leiða til þess. Enn og aftur hlýtur maður því að velta fyrir sér til hvers leikurinn sé gerður. Af hverju þetta írafár? Af hverju þessi framsetningarmáti? Af hverju þessi slagur, þetta stríð við verkalýðshreyfinguna og alþýðusamtökin hér á landi?

Er ríkisstjórnin að sýna mátt sinn og megin eða er henni ekki við bjargandi þegar kemur að samskiptum helmingaskiptastjórnar við samtök launafólks með tilvísun til forsögu og fortíðar? Ekki síst hlýtur maður að velta þessum þætti málsins fyrir sér þegar litið er til þeirra miklu erfiðleikatíma sem þjóðin hefur þurft að þola í efnahags- og atvinnumálum, einkum og sér í lagi vegna ytri aðstæðna, þar sem mjög gott samráð einmitt við verkalýðshreyfinguna og samtök vinnandi fólks í landinu leiddi til þess í fyrsta lagi, þrátt fyrir kreppuna, að hægt var að halda úti viðunandi atvinnuástandi. Og það sem meira er, á þessum átta ára krepputíma tókst þjóðinni sameiginlega í tíð tveggja ríkisstjórna að berja niður verðbólgudrauginn. Það er einkum og sér í lagi að þakka fórnum launafólks, yfirvegun og skynsemi fulltrúa þessa fólks, forustumanna verkalýðshreyfingarinnar, að okkur tókst þetta. Maður hlýtur að spyrja, virðulegi forseti: Eru þetta þakkirnar? Er þarna verið að kvitta fyrir hið góða samstarf, fyrir það umburðarlyndi, þá skynsemi og yfirvegun sem verkalýðshreyfingin sýndi á kreppuárunum? Er núna verið að kvitta fyrir það þegar menn loksins sjá fram á bjartari og betri tíma í efnahags- og atvinnulífi? Eru þetta kveðjurnar frá hv. þingheimi til hinna lægst launuðu í landinu sem hafa þurft að bera byrðarnar á umliðnum árum á þessum erfiðleikatímum? Eru þetta þakkirnar? Er þetta sérstakt skeyti frá hv. þingmönnum Framsfl., talsmanni hans í efh.- og viðskn., Gunnlaugi Sigmundssyni og hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni til vinnandi fólks í þessu landi? Er þarna verið að þakka fyrir samferðina, hversu vel hafi til tekist á sjö ára krepputímabili þegar mönnum tókst að ná saman í friði um hverja þjóðarsáttina á fætur annarri, vil ég segja, til þess að treysta það að hér færi ekki allt úr böndum. Er það nokkur undra, virðulegi forseti, þó að þær raddir heyrist núna við þessar aðstæður, að viðbrögð vinnandi fólks við þessum þökkum, við þessum kveðjum forustumanna stjórnarflokkanna, hljóti að vera þau að þessu samráði um það að halda málum í böndum sé lokið. Svo segir orðrétt í einhverju þeirra plagga sem hér liggja fyrir: ,,Það er búið að slíta friðinn.`` Er það nokkur furða, virðulegi forseti, að þetta séu hin fyrstu viðbrögð vinnandi fólks í landinu gagnvart þeim kveðjum sem hér eru á borð bornar?

Ég orðaði það svo, virðulegi forseti, hvort hluti skýringarinnar á þessari nálgun ríkisstjórnarinnar gæti verið óðagot, að hér væri ekki um meðvitaða stefnumörkun að ræða því að hér ræki hver tilviljunin aðra og um samráðsleysi ráðherra væri að ræða. Um það skal ég ekkert fullyrða og get það svo sem ekki. En mikið skelfing held ég hins vegar, virðulegi forseti, að væri affarasælt og happdrjúgt fyrir fulltrúa Alþingis í fjmrn., hæstv. fjmrh., að stíga eilítið þó ekki væri nema skamma stund í fótspor undirmanns síns, ráðuneytisstjóra fjmrn. Ég sá í blaði sem nefndist Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, að Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri hafði farið í starfsþjálfun í einn mánuð norður á Akureyri og tekið þar við starfi skattstjóra um skamma hríð til þess að brúa þar ákveðið bil sem upp kom. Með leyfi forseta segir ráðuneytisstjórinn orðrétt í þessu viðtali:

,,Það var einstaklega holl tilbreyting að gegna starfi skattstjóra þó ekki væri nema stuttan tíma.`` Og síðan: ,,Í fjmrn. eru skattamálin eitt sérsviðanna sem jafnt og þétt er unnið að. Þar eru skattalögin og skattareglurnar sem hæst rísa, en framkvæmd skattamálanna hvílir meira í höndum starfsfólks ríkisskattstjóra og skattstofanna. Ég átti því margt ólært í skattaframkvæmd og á það raunar enn þá. Í daglegum önnum í ráðuneytinu sýnist mér að stundum gleymist að taka nægjanlegt tillit til ýmissa framkvæmdaatriða skattalaga. Einföld breyting á lögum getur valdið skattkerfinu og ekki síður almennum skattgreiðendum töluverðri vinnu og vangaveltum.``

Ég bið virðulega þingmenn að setja inn í staðinn fyrir ,,skattgreiðendur`` og ,,skatta``: ,,starfsemi`` og ,,starfsfólk ríkisins``. Ég held einmitt að hæstv. ráðherra hefði mjög gott af því að feta í fótspor undirmanns síns, ráðuneytisstjórans og fara út á meðal þeirra þúsunda starfsmanna ríkisins sem í erli dagsins eru að sinna sínum daglegu störfum og til þess skynja það og skilja hvaða verk þetta fólk hefur með höndum, hvaða þjónustu það er að sinna, við hvaða kjör það býr og að hann átti sig á því að það er ekki eingöngu í skattamálunum sem starfsmenn fjmrn., ráðgjafar ráðherrans og hæstv. ráðherra sjálfur, eiga margt ólært heldur ekki síður í hinum daglega rekstri ríkisins og kjörum og vinnuumhverfi þúsunda ríkisstarfsmanna. Það er er nefnilega alveg laukrétt sem virðulegur ráðuneytisstjóri segir hér: ,,Í daglegum önnum í ráðuneytinu sýnist mér að stundum gleymist að taka næganlegt tillit til ýmissa framkvæmdaatriða skattalaga``, eða til ýmissa framkvæmdaatriða í rekstri og þjónustu ríkisins og umhverfis starfsmanna ríkisins.

Ég get ekki stillt mig um það heldur, virðulegi forseti, að staldra við annað atriði í annars upplýsandi viðtali við Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóra í fjmrn. Hann gerir í þessu viðtali grein fyrir störfum sínum sem skattstjóri á Akureyri og nýjum uppgötvunum. Það er allt gott um það að segja. En hann segir orðrétt þegar kemur að þjónustu við almenning, með leyfi forseta:

,,Einn þáttur í starfsemi skattstofunnar á Akureyri sem vakti sérstaklega athygli mína er sú þjónusta sem skattstofan veitir skattgreiðendum. Í því sambandi tel ég til fyrirmyndar að starfsmenn veita fjölmörgum framtalsaðstoð og leggja sig fram um að greiða götu þeirra sem upplýsinga leita.``

Áfram heldur hann, með leyfi forseta:

,,Þá tel ég það einnig til eftirbreytni að starfsfólk skattstofunnar hefur í samvinnu við verkalýðsfélögin við Eyjafjörð og víðar staðið fyrir framtalsnámskeiðum fyrir einstaklinga. Af viðtölum mínum við málsvara stéttarfélaganna heyrist mér að þetta hafi mælst vel fyrir.``

Enn og aftur segi ég ekki annað en það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra mætti ganga í smiðju undirmanns síns, hlýða honum betur og rækilegar yfir hvernig staðið er að verki á vettvangi, úti í fyrirtækjunum, úti í hinum fjölmörgu þjónustufyrirtækjum, meðal fólksins, því að fjölmargir þættir sem þetta frv. sem við ræðum hér tekur til, lúta einmitt að málum eins og þau birtast fólki frá degi til dags, ekki eingöngu að því sem snýr að buddu þess sjálfs heldur ekki síður að hvata og möguleikum þeirra til að veita altæka og góða þjónustu. Um það snýst þetta mál.

[21:30]

Það er dálítið kúnstugt, virðulegi forseti, þegar maður veltir upp umræðum hér á Alþingi á síðustu árum, oft býsna hávaðasömum umræðum um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, að skoða núna framgangsmáta réttindamála opinberra starfsmanna. Sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, að þessir tveir sömu flokkar hafa básúnað það og haft býsna hátt um það oft og einatt að við þurfum að standa á eigin fótum og móta okkar eigin stefnu. Íslandi allt! Útlend áhrif eru skaðleg og skelfileg og leiða allt í ógöngur. Samt sem áður er það þannig að í sumum tilfellum er það einmitt aðild okkar að alþjóðasamtökum sem er einasta haldreipi og vörn vinnandi fólks í þessu landi. Það er orðið þannig, virðulegi forseti, að EES-samningurinn og meira að segja, svo ég klæmist nú aðeins, tilskipanir frá Brussel eru vörn fyrir vinnandi fólk í þessu landi gegn helmingaskiptastjórns íhalds og Framsóknar. Þannig er það m.a. um lög sem samþykkt voru 1993 og lúta að aðilaskiptum á vinnumarkaði. Það þýðir á mæltu máli að ef ríkið ætlar að hlutafélagsvæða Póst og síma eða aðrar stofnanir eru þau kannski einn stærsti bremsufaktorinn fyrir vinnandi ríkisstarfsmenn hjá þessum fyrirtækjum sem hægt er að grípa í, sem hægt er að nota sem þröskuld gegn þessari rúllandi árás ríkisvaldsins og stjórnarflokkanna á kjör þessa fólks. (Gripið fram í: Varstu ekki ráðherra?) Jú, ég er einmitt, virðulegur þingmaður, að fagna því sérstaklega að nú skulum við hafa þetta haldreipi. En það sem ég er að rifja upp, hv. þingmaður, er að annar stjórnarflokkanna, Framsfl., er gjörsamlega að tapa sér. Hann ætlaði persónulega og prívat að passa upp á það að ekki yrði gengið á rétt vinnandi fólks í landinu. Og að menn mundu gæta þess í löggjafarstörfum sínum að það yrði tryggt. En nú er það einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að þessi samningur, EES-samningurinn og afleiddar ákvarðanir ESB á tilteknum sviðum, m.a. á þessu sviði sem ég nefndi hér áðan og varðar vinnuumhverfi starfsfólks, er það haldreipi sem launafólk grípur í. Já, hún er kúnstug veröldin. Og ekki nóg með það. Sem betur gerir aðild okkar að ýmsum alþjóðasamtökum öðrum það líka að verkum að það er bremsufaktor á ríkisstjórnina. Hún kemst ekki lengra þótt hún fegin vildi. Bæði eru það alþjóðlegir samningar sem lúta að mannréttindaákvæðum og einnig höfum við lögtekið sem betur fer ýmis tilmæli frá vinnumálastofnuninni í Genf sem gera það að verkum að ríkisstjórnin kemst ekki eins langt og hún annars ætlaði sér. Ég nefni sem dæmi um hið fyrrnefnda, EES-tilskipanirnar, að menn hlógu að því í öllu þjóðfélaginu þegar hver fréttatíminn af öðrum var undirlagður af fréttum um að vænta mætti tilskipunar frá ESB um hámark yfirvinnu. Hvað birtist í þessu frv. hér? Þar sem enn er haldið í gamla forna farið og þar sem knýja má opinbera starfsmenn til að vinna yfirvinnu eftir geðþótta yfirmanna? Nei, menn komast hins vegar ekki alla leið eins og þeir ætluðu. Og það skín í gegnum frv. og segir í raun og veru berum orðum í athugasemdum með því og greinargerð stjórnarflokkanna að þeir gátu ekki farið hærra í kröfugerð sinni um yfirvinnu opinberra starfsmanna og skuldbindingar af þeim toga vegna þess að ESB leyfði ekki hærra þak. Þeir urðu að lækka þakið frá upphaflegum markmiðum. Þannig að vinnuverndin kemur að utan. Við þurfum með öðrum orðum leita ásjár í Brussel til að stoppa af forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar á Íslandi, íhald og Framsókn, í skefjalausri árás sinni á launafólk. Hefði nokkur trúað þessu fyrir nokkrum missirum eða árum? Ég held ekki. En svona er nú lífið samt. Ég vek sérstaka athygli á því að meira að segja hörðustu andstæðingar aðildar að ESB, ég hlýt að hlusta á þau viðhorf eins og önnur, átta sig á því að nú er svo komið að hið íslenska stjórnvald er svo veruleikafirrt í árásum sínum á réttindi launafólks að það á sér eina vörn og það er Brussel. Mikil er skelfingin. Réttarverndin að utan. Það er ekki að undra þótt Framsfl. fari að hugsa sinn gang upp á nýtt og athuga stefnuskrána og hugmyndafræðina. Vitaskuld erum við hér að reyna að nálgast þetta mál þrátt fyrir allt með efnislegum hætti og reyna að greina það og skynja hvernig við getum bætt þjónustu ríkisins við þegna landsins en á sama tíma gert vel og jafnvel betur við opinbera starfsmenn. Það því grátlegt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin skuli hafa farið fram með þeim hætti í endurskoðun á gömlum ákvæðum frá 1954 að sæði tortryggni og andstöðu skuli hafa leitt til þess að efnislegri og vitrænni umræðu verður ekki viðkomið. Þú ræðst ekki á mann, lemur hann í gólfið og segir svo: Eigum við að spjalla um þetta? Þannig fara menn ekki að. En þannig hafa menn nálgast þetta mál. Auðvitað stendur viðkomandi maður upp og verst, hann fer ekki að ræða málið í rólegheitum.

Ég hef staldrað við það, virðulegi forseti, því það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þessarar umræðu allrar, hvað ríkisstjórninni gengur til. Er hún alvond eða er þetta tilviljun? Förum nú aðeins víðar yfir sviðið. Ég nefndi sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Maður þarf ekki að hugsa langt aftur í tímann eða lengi um viðhorf ríkisstjórnarinnar til velferðarkerfisins til að átta sig á því að þau eru með þeim hætti að menn hljóta að staldra við. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að styrkja þetta velferðarkerfi. Það hefur aldrei nokkrum stjórnarþingmanni dottið í hug að halda því fram. Að vísu fyrir kosningar en eftir kosningar hefur ekki bólað á slíkri speki. Þannig að allar tilraunir stjórnarandstæðinga til að nýta góðærið til að styrkja og styðja velferðarkerfið í þessu landi hafa runnið út í sandinn. Þetta er því allt á sömu bókina lært þegar þetta mál er skoðað heildstætt. Þetta er sama sagan og 1974--1978 og 1983--1987. Þetta er sama sagan núna, 1995--1999. Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn sérhagsmuna. Það birtist ekki eingöngu í afstöðunni til velferðarkerfisins, það birtist í tvíburabróður þessa frv. sem við erum að fjalla um hér, frv. um einkavæðingu Pósts og síma. Þar kemur þetta allt fram, þar er beinagrindin klæðlaus. Þar eru hlutirnir sagðir eins og þeir eru. Þar ætlar ríkisstjórnin að hlutafélagavæða þetta þjónustufyrirtæki sem hefur skilað ríkissjóði 1,5 milljörðum á ári í arð. Skilar hér rekstri og raunar gjaldskrá sem er ein lægsta í gervallri Evrópu. Þar ætlar ríkisstjórnin, þótt hún fari bakdyramegin að því máli, að láta það fyrirtæki, Stefán Guðmundsson, hv. þm., að láta það fyrirtæki beint í hendur karlanna með pípuhattana. Beint í hendur karlanna sem eru við Hafnarstrætið og eiga hér samgöngufyrirtæki önnur. Með öðrum orðum skipafélag og flugfélag. Auðvitað liggur það alveg í augum uppi, virðulegi forseti, og það veit hv. þm. Stefán Guðmundsson. Auðvitað liggur ekkert annað að baki þeirrar formbreytingar sem nú er í burðarliðunum og á líka að keyra í gegn á þessu vorþingi. Það á að formbreyta Pósti og síma, þessu ágæta þjónustufyrirtæki sem skilar arði í ríkissjóð og lægsta verði símtala í gervallri Evrópu og láta fyrirtækið beint í hendur kolkrabbans. Hverjum dettur annað í hug? Og af því að ég nefndi nú hv. þm. Stefán Guðmundsson sérstaklega, virðulegi forseti, þá geri ég það vegna þess að ég hef á því trú og tilfinningu fyrir því að hann sé réttsýnn maður sem trúi þrátt fyrir allt á hið rétta í lífinu og sanngirni og jöfnuð. (Gripið fram í: Rökstyddu það.) Ég rökstyð það einfaldlega með því að ég og þingmaðurinn erum samferða í hv. samgn. þingsins og ég sé það, virðulegi forseti, hversu illa honum líður og hversu fámáll hann verður þegar þessi málefni ber þar á góma. Hann verður alveg hreint ómögulegur maður. Ég skil það vel því auðvitað veit hver einasti maður, virðulegi forseti, að það að formbreyta Pósti og síma frá og með næstu áramótum þýðir bara eitt. Hv. þm. Stefán Guðmundsson og aðrir stjórnarþingmenn verða settir hér í sætið sitt og sagt að ýta á græna takkan þegar menn ætla að selja fyrirtækið fyrir spottprís til fjölskyldnanna fjórtán. Mundu mín orð, virðulegi forseti. Stefán Guðmundsson, hv. þm., mun sitja hér í sínu sæti eða öðru eftir útdrætti og ýta á þennan græna takka ef hann ætlar ekki að sporna við strax á frumreiti málsins. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að honum eigi eftir að líða mun verr í ágætri samgn. þegar fram líða stundir í þessu stjórnarsamstarfi og menn fara raunverulega að sýna sinn rétta lit, sitt innra eðli og ætla að fara að gefa fyrirtækið. Þannig að þetta mál, formbreytingin á Pósti og síma, er auðvitað eins og viðlag við það frv. sem við ræðum hér.

Enda var það þannig á fundi títtnefndrar samgn. í morgun þar sem menn voru að ræða þau mál og raunar var það þannig að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni tók það út með meirihlutaatkvæðum, eins og það er orðað. Hann afgreiddi málið með öðrum orðum í nefndinni til 2. umr. og hér inn í þingsal. En til þess að menn héldu nú laginu lagði stjórnarmeirihlutinn fram brtt. við upphaflega frv. um hlutafélagsvæðingu Pósts og síma. Hvað gerði þá stjórnarmeirihlutinn og meira að segja, virðulegi forseti, hv. þm. Stefán Guðmundsson líka þótt hann hafi ekki sagt margt? Það var þetta: Biðlaunaréttur og annar almennur réttur skal taka mið af þeim lögum sem þá munu gilda. Með öðrum orðum, fyrst á að keyra í gegn þessa skerðingu og síðan eiga 2.400 starfsmenn Pósts og síma að súpa af því seyðið. Þeir áttuðu sig á því núna á síðustu stigum málsins í samgn. að þeir kæmust ekki upp með að segja söguna hálfa, þeir yrðu að segja hana alla. Er það furða, virðulegi forseti, þó hv. þm. Stefán Guðmundsson hafi ekki sagt mikið við þær aðstæður. Ég er ekki undrandi á því. (VE: Hann er nú nokkuð brattur sýnist mér.) Virðulegi forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson er alltaf brattur. Það verður nú ekki af honum tekið.

[21:45]

Það er hins vegar annað í þessu máli Pósts og síma sem verður ekki skilið frá þessari umræðu og það er þetta: Í því frv. er kveðið á um að ekki verði heimil sala hlutafjár ríkisins í fyrirtækinu sem verður eini eignaraðilinn, nema Alþingi samþykki. Hins vegar er í þessu sama frv. grein sem segir að hæstv. samgrh. sé heimilt að skipta þessu hlutafélagi upp í jafnmarga búta og honum dettur í hug. Með öðrum orðum, að búa til dótturfyrirtæki, dótturdótturfyrirtæki, frændafyrirtæki og ég veit ekki hvað og hvað. Það segir ekkert um það og enginn hefur getað svarað því fyrir fullt og fast hvaða réttaráhrif þetta hefur fyrir starfsmenn hins nýja hlutafélags. Þó öllum sé boðið starf hjá hinu nýja hlutafélagi nú um þessi áramót, Pósti og síma hf., þá kemur ekkert í veg fyrir að hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, taki ekki ákvörðun um það 5. janúar að búa til Póstinn hf. og segja upp öllum starfsmönnum sem þar hafa unnið. Frv. og löggjöfin sem við munum væntanlega samþykkja, þó ég voni að svo verði ekki, um Póst og síma hf. mun ekki hafa nein réttaráhrif þar á. Það er hinn glerharði veruleiki málsins, virðulegi forseti, sem ég held að hv. þm. Stefán Guðmundsson viti allt um. Þess vegna þegir hann sem aldrei fyrr.

Í frv. um Póst og síma eru fleiri samsvaranir við það frv. sem við erum hér að ræða. Þar gengur aftur þessi plagsiður, þessi ósiður sem virðist ríða húsum á hinu háa Alþingi, að menn hálfkara verkið. Menn eru að skella inn í þingið frumvörpum sem menn hafa ekki leitt til lykta og forðast eins og heitan eldinn eins og rauðan dauðann að svara eðlilegum áleitnum spurningum um afdrif og áhrif slíkra lagafrv. ef samþykkt verða. Virðulegi forseti, sem dæmi um þetta sleifarlag framkvæmdarvaldsins er að breytingartillögur meiri hluta samgn. í málefnum Pósts og síma eru þannig að meiri hluti samgn. og væntanlega stjórnarmeirihlutinn neyddist til þess að fresta um þriggja mánaða skeið þessari hlutafélagvæðingu vegna þess að frv. var upphaflega þannig úr garði gert að það vissi enginn hver átti að bera út póstinn frá 1. júní til loka september. Nú er búið að leysa það mál enda benti stjórnarandstaðan á þetta gat í þessari frumvarpsvinnu. En þetta er svona örlítið dæmi um það hvernig verklagi og vinnubrögðum er þar háttað.

Enn fremur er skilið við það mál þannig að það er náttúrlega ekki hægt að kalla það neitt annað en reddingu í horn --- ég bið forseta að fyrirgefa það orðbragð --- þegar enn ein breytingartillaga meiri hluta samgn. í frv. um Póst og síma hf. hljóðar í þá veru að þriggja manna nefnd sem í upphaflegu frv. átti að undirbúa og samhæfa stofnun þessa hlutafélags fær nú altækt umboð. Það er bara sagt berum orðum að þessi þriggja manna nefnd sem samgrh. ætlar að skipa fái vald löggerninga. Það þýðir í raun að ákvarðanir þessarar þriggja manna nefndar sem ég veit ekkert hverjir munu skipa, um launakjör starfsmanna --- það er enn þá galopið --- eru ígildi lagasetningar eða reglugerðarsetningar. Stjórnarmeirihlutinn ætlar að afgreiða Póst og síma málið með því að vísa því til einhverra manna úti í bæ. Þeir gefast upp við að svara þessum spurningum. Hv. þm. gefast upp við að svara þessum spurningum sjálfir og segja: ,,Við skulum bara láta menn úti í bæ sjá um þetta.`` Þeir gefa þeim altækt vald, ekki löggjafarvald þó, en reglugerðarvald til að skipa málum eins og þeim sýnist best í samstarfi við 2.400 starfsmenn sem eru í uppnámi, fá engin svör og vita ekkert hvað bíður þeirra eftir áramót. Nei, það eiga einhverjir menn úti í bæ að ljúka þessu verkefni fyrir hv. þingmeirihluta þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er auðvitað verklag eða vinnubrögð, virðulegi forseti, sem er ekki nokkurt lag á.

En þetta er svo sem í stíl við annað og í anda þess frv. sem við erum að ræða um hér. Menn geta til að mynda staldrað við eitt veigamikið atriði í frv. sem menn hafa eðlilega rætt nokkuð ítarlega. Það er þessi heimild til yfirborgana. Ég ætla fyrir mína parta ekkert að kveða upp úr um það hvort það hafi verið alvond hugmynd í upphafi, hvort það sé hugsanlegt að vinna eitthvað úr slíkri hugmynd þannig að gagn yrði að. Það kann vel að vera. En eins og hún er framsett í frv. og í þessum lagatexta sem við erum að ræða og vinna með, þá er hún gjörsamlega gagnslaus. Það er ekki nokkur bragur á því og ekki nokkur möguleiki á því, virðulegi forseti, að hið háa Alþingi afgreiði það mál eins og hér um ræðir.

Hæstv. fjmrh. hefur verið þráspurður um hvaða verklags- og vinnureglur eigi að miða við þegar forstöðumenn stofnana ætla að fara að umbuna Pétri eða Páli. Mikil æpandi þögn er eina svarið sem mætir manni. Ég hlýt að árétta mjög alvarlega og rækilega við talsmann ríkisstjórnarinnar í þessu máli, hv. þm. Vilhjálm Egilsson, spurninguna um hvaða reglum eigi að vinna eftir þegar kemur að því að forstöðumenn ríkisstofnana fara að umbuna Pétri eða Páli fyrir vel unnin störf. Ég geri raunar meiri kröfur en svo að hv. þm. svari mér því hér með sínum hugmyndum í örfáum orðum. Ég held að hv. þm. hljóti að gera kröfur um það að milli umræðna fáist slíkar reglur niður á blað. Annars eru þetta bara orðin tóm. Hér eru menn að halda því fram --- ég get auðvitað ekki lagt neitt mat á það --- að þetta verði geðþóttaákvörðun forstöðumanna, að þeim líki betur við hinn en þennan. Ég neita fullkomlega að trúa því að það sé hugmyndafræðin þarna á bak við. En á meðan höfundar þessa frv. og stuðningsmenn þess geta ekki svarað því tiltölulega skýrt hvernig á að fara með þessar yfirborganir, ef við orðum það svo, þessar aukagreiðslur, þá hljóta menn að gagnálykta að það eigi að fara hina vondu leið geðþóttaákvörðunar. Ég krefst þess að í þessari umræðu, þessari lotu, gefi hv. þm. Vilhjálmur Egilsson okkur einhverjar hugmyndir, þó ekki væri meira, um það hvernig hann sér það fyrir sér að forstöðumenn lítilla eða stórra ríkisstofnana nýttu sér þessar heimildir. Það er langt í frá auðvelt mál.

Virðulegi forseti. Hinn fjölmenni stjórnarmeirihluti í þingsal hefur nú kallað til aukafundar í hliðarsal. Fagna ég því mjög að þeir ráða þar ráðum sínum. Þeir komast kannski að þeirri niðurstöðu að þeir ætli að taka þátt í umræðu þótt síðar verði í þessum mánuði. En það eitt að þeir skuli stinga saman nefjum, jafnvel um það mál sem hér um ræðir, er fagnaðarefni.

Ég staldra eilítið við Framsfl. Ég get ekki annað, virðulegi forseti. Það er vegna þess að það er ekki nema eitt ár frá því kosningar voru og allt þetta fólk í fyrirrúmi sem þá þvældist fyrir Framsfl. og fylktist raunar um hann í stórum stíl --- hann var flokkur upp á ein 20% eða meira jafnvel --- er bara týnt og tröllum gefið. Það var bara einnar nætur gagn. Fyrirgefðu nú orðbragðið á nýjan leik, virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja hvar hinir vösku sveinar og meyjar Framsóknar séu, þau sem öllu ætluðu að umbylta og breyta í okkar íslenska samfélagi. Þau ætluðu að létta álögum á fjölskyldum þessa lands. Virðulegur forseti verður að fyrirgefa þó að ofarlega í huga mínum séu til að mynda þingmenn á borð við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og hv. þm. Hjálmar Árnason sem voru meðal annarra ágætra andstæðinga minna í Reykjaneskjördæmi. Loforðalistinn í þá daga ætlaði engan endi að taka. Aldrei varð ég þess heldur var eitt andartak, virðulegi forseti, að það stæði neitt sérstaklega á svörum hjá þessu fólki eða að það væri tiltakanlega feimið við að lýsa viðhorfum sínum til hinna ýmsu mála. Hvers vegna þá allt í einu núna, virðulegi forseti? Er þetta fólk upptekið við önnur störf? Hvernig stendur á því að t.d. þessir tveir nýju þingmenn sem státuðu af býsna glæstum sigri í þessu næstfjölmennasta kjördæmi landsins láta sig algjörlega vanta? Þeir eru ekki með. Þeir skila bara auðu. Eða aðrir ágætir andstæðingar, frambjóðendur Sjálfstfl. sem í þessu sama kjördæmi, virðulegi forseti, skiluðu ef ég man rétt ekki færri fimm þingmönnum inn á þing og 43--45% atkvæða eða jafnvel meiru. (Gripið fram í: 39%.) Guði sé lof að það var nú ekki meira. Hvar eru þeir? Eru þeir líka komnir í þagnarbindindi? Hvar er þeirra rödd í þessu stóra máli sem hér um ræðir? Höfðu þeir sérstaklega á orði á fundum í Hafnarfirði, Kópavogi eða í Reykjanesbæ, Keflavík, að það stæði sérstaklega til að ráðast að kjörum ríkisstarfsmanna? Hv. þm. Kristján Pálsson sem er einn fimm þingmanna Sjálfstfl. í þessu kjördæmi, er hér við þessa umræðu. Kannski hann upplýsi það hér í andsvari á eftir á hvaða skilti það hafi verið og hvar hann hafi sérstaklega lofað því í kosningabaráttunni hvernig ætti að ráðast að réttindum opinberra starfsmanna. Hvort hann hafi ekki farið ítarlega yfir það á þessum fjölmörgu kosningafundum. Ég hlýt að vera býsna gleymin því ég man ekki til þess að hann hafi nefnt það aukateknu orði. Þvert á móti stóð nú gjarnan út úr þeim bunan, blessuðum frambjóðendum Sjálfstfl., um það hvað þeir ætluðu að gera fyrir fólkið. (Gripið fram í: Þú hefur ekki verið á réttum fundi. Það er enginn ...) Ja, það er fróðlegt. Ég hef þá verið á einhverjum alröngum fundi. Það hefur verið þá í mettuðum reykherbergjum sem hv. þm. Kristján Pálsson hefur sagt fyrir um það hvernig hann ætlaði að taka í lurginn á ríkisstarfsmönnum og skerða kjörin þeirra. En það væri fróðlegt ef hann segði okkur hv. þm. frá því hvar í kosningastefnuskánni, hvar á kosningafundum og hvenær og hvernig hann lýsti þeim viðhorfum sínum að nú yrði að taka á þessum skrattans --- fyrirgefðu orðbragðið, virðulegi forseti --- ríkisstarfsmönnum. Ég bíð í ofvæni og vænti þess, virðulegi forseti, að það sé rúm hér fyrir hann í andsvaratíma á eftir. Ég bíð a.m.k.spenntur.

[22:00]

Þeir eru að vísu fleiri þessir þingmenn en þeir sem ég hef hér tiltekið. Ég staldraði eðlilega nokkuð við ágætan þingmann af Norðurl. v. sem hefur att nokkru kappi við formann efh.- og viðskn., Vilhjálm Egilsson sem hefur náttúrlega aldrei farið með löndum í því sambandi eða falið það að hann vill ríkiskerfið feigt. Hann vill frelsi markaðarins og frjálshyggjunnar sem mest. Ég veit það af því ég hef góða agenta fyrir norðan. Þeir hafa einmitt tekist á um það af mikilli hörku, hann og hv. þm. Stefán Guðmundsson. Ekki síst í því ljósi er því enn undarlegra að það skuli tæpast slitna á milli þeirra slefan núna þegar kemur að þessu. Og aftur bið ég afsökunar á orðbragðinu, virðulegi forseti. (VE: Herra forseti er nú þingmaður kjördæmisins.) Hann getur þá væntanlega borið vitni um það þegar hann fær ráðrúm til og losnar við skyldur forsetaembættisins. En fleiri eru þingmenn Framsóknar sem hér er sérstaklega kallað eftir. Til dæmis hæstv. iðnrh. sem stundum situr hér lengst til hægri í sínum stól. Hann var ekki ósnotur loforðalistinn sem hann fór fram með um borg og bý í aðdraganda kosninga. (VE: Varst þú ekki næstum því búinn að kjósa Framsfl.?) Það munaði bara engu. Og fylgifiskur hans, Ólafur Örn Haraldsson, sem flaut inn með hæstv. iðnrh. í flaumi loforða, hann er líka sáralítið hér. Ekki hef ég heyrt hann hafa mörg orð um að það þurfi endilega að hirta opinbera starfsmenn, hvorki fyrr né síðar. Svo kemur að hinum vaska sveini, hv. þm. Guðna Ágústssyni, sem er eðlilega mjög á varðbergi gagnvart körlunum með pípuhattana. Hann þekkir þá. Hann var formaður bankaráðsins og situr í bankaráði Búnaðarbankans og veit að þeir eru mættir í anddyrinu, hanga á hurðarhúninum og vilja inn í þennan banka. Þess vegna er hann á varðbergi. Hvar er hann núna þegar þörf er á honum? Af hverju mætir hann ekki hér til leiks? Hann sem staðið hefur vörð um hagsmuni bankastarfsmanna og um hagsmuni bankanna yfirleitt og vill mynda skjaldborg gegn körlunum með pípuhattana. Nú eru þeir komnir hér inn á gafl. Af hverju kemur hann ekki til skjalanna, virðulegi forseti? (Gripið fram í: Hann er að kynna sér norska kúakynið.) Það er að vísu alveg hárrétt, virðulegi forseti, einhverju öðru hefur hann að sinna en þessum hinum stóru málum í andartakinu. Ég neita hins vegar að trúa því að þessi vaski maður sem í þessum sama ræðustóli fyrir réttu ári lýsti með mjög myndrænum hætti, að vísu kannski öfgafullum, kjörum fólks á Suðurlandi á þann veg að þar færi fólk á milli bæja og hefði hvorki ofan í sig né á og nagaði þar girðingarstaura vegna sárrar fátæktar. Hann hefur algerlega lagt þá ræðu á hilluna. Ég hef ekki heyrt hana haldna hér síðan í apríl. (Gripið fram í: Varstu að tala um Ódáðahraunið?) Nei, það var í hinni blómlegu sveit sem hann á uppruna sinn í, hvort það var í Biskupstungum eða Landsveitinni, ég kann ekki frá því að segja. En einhverjir voru þeir girðingarstaurarnir sem voru illa nagaðir þar. En hann er ekki mættur. Hann er ekki með okkur í þessari umræðu, virðulegi forseti, nema stöku sinnum vegna skyldu sinnar á forsetastóli. Þannig væri hægt að halda lengi áfram varðandi þessa vösku sveit framsóknarmanna sem geystist inn í þingsali eftir glæstan kosningasigur og ætlaði allt að laga og öllu að breyta en er nú gengin í björg með íhaldinu. Fólk í fyrirrúmi, það var þá.

Ég segi hins vegar eins og er af því að ég hef nokkra reynslu af því, mestan part bitran en þó ekki að öllu leyti, að vinna með íhaldinu að ég trúði því að til að mynda menn eins og hv. þm. Egill Jónsson sem er þekktur fyrir að standa fast í ístaðinu þegar kemur að því að hrófla við bændastéttinni. Þá má ekkert gerast. Hingað og ekki lengra, segir þá hv. þm. Egill Jónsson. Af hverju fer hann ekki í varnarsveitina gegn hinum launþegum þessa lands, opinberum starfsmönnum? Af hverju passar hann ekki upp á takkana hér, hina grænu takka og gætir að því að ríkisstjórnin fari ekki fram með þeim hætti sem hér er gert. Ég trúi því enn, því hann fer nú hægt yfir stundum hv. þm., að á honum sé von, hann mæti í varnarsveitina og standi með okkur gegn þessum nýfrjálshyggjumönnum sem engu vilja eira. Eða þá hv. þm. Árni Johnsen sem er þekktur fyrir að rísa upp ef hróflað er við hagsmunum Vestmanneyinga. Af hverju mætir hann ekki í varnarliðið líka með okkur hv. stjórnarþingmönnum og gætir að þessum nýfrjálshyggjugaurum sem engu eira?

Virðulegi forseti. Er von að maður spyrji: Hvar er þessi varnarsveit sem tekur til hendinni þegar á móti blæs? Þeir eru týndir og tröllum gefnir. Eðlilega hlýtur maður líka að kalla eftir hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sem þó að sönnu hefur staðið sig og staðið uppréttur í hinu skerðingarfrumvarpinu, þ.e. frv. um vinnulöggjöfina. Þar ætlar hann ekki, ef ég hef skilið hann rétt, að kokgleypa þá sendingu sem úr fjmrn. kemur. Af hverju er hann ekki viðstaddur? Þessi vaski forustumaður sjómanna til margra ára. Af hverju tekur hann ekki höndum saman við samtök launafólks í varnarbaráttunni gegn nýfrjálshyggjunni? Ég kalla sérstaklega eftir honum og öllum hinum sem ég hef hér nefnt til sögu. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á að þeir setjist hér niður eins og prúðir fermingarpiltar og ýti á græna takkann þegar kallið kemur frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni eða hæstv. fjmrh. Ég neita að trúa því og í því ljósi ræði ég þetta frv. að það verði ekki að veruleika. Því hér er ekki um neitt glens að ræða, virðulegi forseti, og við erum að ræða hér um sjálfstæði og virðingu þingsins. Við erum að ræða það hér hvort stjórnarskráin okkar, sem er grundvöllur okkar samfélagsskipunar, sé einfaldlega orðin tóm eða mark á takandi. Víst segir sagan okkur það að á stundum þegar hv. þm. þykir það henta vísa þeir gjarnan til 48. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að þingmaður sé engu öðru bundinn en eigin sannfæringu. En þegar alvaran blasir við fer oft ansi lítið fyrir þessari sannfæringu. Ég neita algerlega að trúa því, virðulegi forseti, að 40 hv. þm. af 63 hjá löggjafarsamkomu þjóðarinnar hafi sannfæringu fyrir því í hjarta sínu að þeir séu að gera rétt, að þeir séu að gera rétt með því að samþykkja þennan bastarð, þetta frv. sem hér liggur fyrir. Því neita ég fullkomlega og byggi það ekki síst á því að menn og konur með vonda samvisku eru gjarnan í felum, segja lítið, helst ekki neitt. Það á við um allan skarann, öll varadekkin, langstærstan hluta þeirra 40 þingmanna stjórnarinnar sem við búum hér við illu heilli.

Ég sagði að menn skyldu ekki taka það létt að við búum við stjórnarskrá um þrískiptingu valdsins og þrískipting valdsins er þannig eins og öllum er kunnugt að við höfum hér Alþingi og forseta Íslands sem fara með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið og síðan dómendur með dómsvaldið. Raunar er það þannig, þó ég ætli ekki að fara í einhvern meting um það, að stjórnarskráin segir líka og gefur mjög til kynna að af þessum þremur er Alþingi eðlilega veigaþyngst enda upphafið. Og í fjarveru forseta er það til að mynda þannig að þá fara þeir þremenningar með forsetavald, hæstv. forsrh., forseti Hæstaréttar og forseti sameinaðs þings og í þeim tilfellum er auðvitað forseti sameinaðs þings í forsæti. Það er því þannig, og menn skulu taka þann hlut mjög alvarlega, að hið háa Alþingi á ekki, getur ekki og má ekki taka við einhverjum sendingum og kokgleypa þær frá framkvæmdarvaldinu, einkum og sér í lagi þegar þannig er um hnútana búið að framkvæmdarvaldið á hlut að máli, er annar samningsaðila í samningum um kaup og kjör. Á þeim vettvangi, á þeim stundum er það skylda löggjafarvaldsins að koma að málinu með frumkvæði og með beinum hætti. Þess vegna segi ég enn og aftur, virðulegi forseti, hin eðlilegustu vinnubrögð hefðu verið þau að leyfa aðilum sjálfum að semja um þetta sín á milli, gaumgæfa það og kanna til þrautar hvort að samningsgrundvöllur hafi verið um tiltekin mál, tilteknar breytingar, tiltekna aðlögun. Ef ekki, ætti það að vera að frumkvæði þingsins, ef menn töldu á því brýna nauðsyn, að gerðar yrðu á þessu breytingar og leikreglur samdar þannig að viðunandi væri.

Svo er fleira í stjórnarskránni sem einnig er ástæða til að staldra við á þessum tímapunkti undir þessum kringumstæðum. Menn eiga ekki að fara létt með það þegar rætt er um þessa sannfæringu því að hv. þm. vinna drengskaparheit að stjórnarskránni. Þeir eiga að standa við það drengskaparheit. Ég neita þess vegna að trúa því að menn séu settir hér niður eins og kornabörn og látnir ýta á græna takka.

Síðan liggur það einnig í augum uppi, virðulegi forseti, að þinginu er falið það vald og það verkefni að fylgjast með framkvæmd löggjafarinnar sem þýðir í raun og sanni að þinginu er gert það skylt að fylgjast með framkvæmdarvaldinu, hvernig það innir verk af hendi, hvernig það færir fram þau lög sem Alþingi hefur sett. Ég held að engum blandist hugur um það að Alþingi, hið háa Alþingi hefur verið býsna rólegt í tíðinni, skulum við segja, þegar kemur að þessu stóra verkefni. Og það liggur í augum uppi hvers vegna það er. Það er vegna þess að við höfum öfug formerki á þessu valdi. Það liggur m.a. í þeim veruleika sem ég held að við hljótum að þurfa að ræða hér mjög rækilega á hinu háa Alþingi, þ.e. hvort ekki sé fullkomlega óeðlilegt til lengri tíma litið að framkvæmdarvaldið skuli hafa hér atkvæðisrétt sem þýðir í raun að hæstv. ráðherrar skuli vera þingmenn. Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að það sé ekki eðlilegt. Þarna á að skilja nokkuð rækilega á milli. Hvort það í raun leysti þetta bráðavandamál sem við er að eiga einmitt núna, þ.e. það vandamál að hv. þm. stjórnarflokkanna taka við öllum skilaboðum sem frá framkvæmdarvaldinu koma og hlaupa eftir öllum duttlungum og geðþótta hæstv. ráðherra, skal ég ekkert um segja. En það væri þó tilraun í þá átt. Það er grafalvarlegt mál, ekki síst í þessu máli, þegar hér blasir við allsnakið og beinabert að þingið þarf að láta til sín taka í stað þess að hlaupa á eftir fyrirmælum frá handhöfum framkvæmdarvaldsins, í þessu tilfelli samningamanni ríkisins og fulltrúa atvinnurekandans, í viðræðum við opinbera starfsmenn.

Ég vil trúa því, virðulegi forseti, þótt það kunni að hljóma sem fullkomin öfugmæli, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sé mér sammála um þetta. Þess vegna vil ég gjarnan að hann láti sannfæringu sína ráða í þeim efnum og þeir hætti eilítið að tala saman, hann og hæstv. fjmrh.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið nokkrum orðum um hina pólitísku kringumstæður þessa máls. Ég hef sagt það hreinskilnislega að sumt af því efnislega í þessu frv. er með þeim hætti að allir vitibornir menn hefðu verið tilbúnir að ræða það á jafnréttisgrundvelli, á hinum rólegu nótum og leita á því lausnar. Það liggur fyrir yfirlýst af hálfu t.d. forsvarsmanna launþegahreyfingarinnar. Það hefur margsinnis verið ítrekað hér af hálfu forsvarsmanna stjórnarandstöðuflokkanna. Til að mynda þáttur eins og æviráðning og breytilegt launakerfi. En þetta gera menn ekki með valdboði að ofan. Það er bara ekki flóknara en svo, virðulegi forseti. Um leið og farið er að vinna að málinu með þeim hætti, ekki síst þetta mál, sem lýtur beinlínis að beinum samskiptum starfsmanna og vinnuveitenda, þá er búið að slíta sundur friðinn. Þá er búið að sá kornum efasemdanna, tortryggninnar þannig að það verður engin sátt og enginn samstarfsgrundvöllur og það er kannski ekki síst versti þáttur og versta afleiðing þessa málatilbúnaðar. Ég vil hins vegar trúa því, virðulegi forseti, að ef hv. stjórnarþingmenn lesa frv. og setja sig inn í þá umræðu sem hér á sér stað, munu þeir margir hverjir átta sig og taka undir með okkur sem höfum sagt sem svo: Eigum við ekki að leggja þetta til hliðar í augnablikinu? Eigum við ekki að gefa okkur ráðrúm og tíma til þess að ná áttum með fulltrúum starfsmanna? Eigum við ekki að setjast að samningaborði og gaumgæfa hvort einhverjir þættir í þessu frv. eða einhverjir þættir sem hér er ýjað að og eru nefndir séu þess eðlis að unnt sé að semja um þá. Ég held þrátt fyrir allt að það sé hægt að koma í veg fyrir þann mikla skaða sem annars hefur þegar orðið í samskiptum vinnuveitandans og starfsmanna, ríkisins og opinberra starfsmanna.

[22:15]

Það er einungis einn aðili, virðulegi forseti, sem getur bjargað málinu, komið þessum samskiptum í eðlilegt horf á nýjan leik og það er hið háa Alþingi þannig að ábyrgðin er á okkar herðum. Það mun ekki standa á okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar að reyna að leiða þetta mál til farsælla lykta þannig að við slítum ekki sundur friðinn endanlega, stefnum ekki þessu þjóðfélagi í hörkuátök á haustdögum. Við megum ekki við því. Ég hef sagt það áður og trúi því að landið er að rísa. Okkar möguleikar eru góðir ef vel er á spilum haldið. En við leysum ekki úr læðingi nýja möguleika og bætta afkomu íslenskra fjölskyldna með því að hefja stríð milli valdamanna og almenns launafólks. Það mun einungis leiða til einnar niðurstöðu. Það mun einungis leiða til þess að málin fara úr böndum. Það mun einungis leiða til þess að allir tapa. Ég trúi ekki öðru en því að skynsamir menn muni leiða þegjandalegum stjórnarmeirihluta það fyrir sjónir að hér eru menn á alvarlegum villigötum. Enn þá er tími til þess að sjá villu síns vegar og komast á tvo fætur á nýjan leik. Menn verða að plástra sár sín og byggja trúnaðartraustið upp á nýjan leik. Ég sem hér stend er eindreginn andstæðingur þessarar hæstv. ríkisstjórnar og hef ekki nokkra trú á því að hún komi til með að leiða mál til farsældar fyrir launafólk og almenning í landinu. Ég veit til að mynda að í hjarta sínu er hv. þm. Stefán Guðmundsson sem situr í hliðarsal mér hjartanlega sammála. Það er hans sannfæring. Honum líður illa og þannig er það um fleiri hv. þm. (Gripið fram í: En Einar Oddur?) Af hverju koma þeir ekki út úr skápnum og segja bara frá því einfaldlega að þeim líði illa (ÖS: Einar, út úr skápnum.) og taka átt í þessari vösku varnarsveit sem stjórnarandstaðan hefur myndað til varnar réttindum og kjörum vinnandi fólks í þessu landi.