Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 22:24:44 (5864)

1996-05-09 22:24:44# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[22:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek því með fullum fyrirvara að hv. þm. líði eitthvað sérstaklega vel án þess að ég geti fullyrt nánar um það. (Gripið fram í.) Það voru orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en ekki mín. En hitt er annað mál að ég kom að því aftur og aftur í ræðu minni að við viljum nálgast þetta mál af fullri sanngirni. Við viljum ræða það á jafnréttisgrundvelli þegar verkalýðshreyfingunni og samtökum opinberra starfsmanna hefur verið gefinn kostur á því á upphafsreit að ræða málið. Menn geta ekki núna, vegna hinna klaufalegu vinnubragða, neitt nálgast þau viðfangsefni sem menn væru tilbúnir að takast á við sum hver hugsanlega og leysa og laga og aðlaga þannig að það er hins skelfilega niðurstaða málsins.

Æviráðningin. Af hverju er hv. þm. ævinlega að hnykkja á henni aftur og aftur? Hefur nokkur þingmaður eða nokkur þjóðfélagsþegn út af fyrir sig viljað hamra á því að það sé mál sem við þurfum að búa við um aldur og ævi? Nei. Málið er einfaldlega að þetta eru réttindi sem þarf að semja um, þau kosta. Þetta er ekkert flóknara en það. Það er auðvitað mergur máls og lykillinn að því. Það sama gildir um launakerfið og ég hlýt að árétta það, virðulegi forseti.

Hv. þm. skautaði léttilega fram hjá því í gleði sinni eins og honum leið vel, hvaða reglur það eru sem menn eiga að taka mið af þegar kemur að því að yfirborga einstaka ríkisstarfsmenn. Hvaða heimildir, hvernig eru þær, hversu rúmar og eftir hvaða línum á að fara þegar forstöðumenn stofnana eiga að fara að borga Pétri meira en Páli eða öfugt.