Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 22:29:14 (5866)

1996-05-09 22:29:14# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[22:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti ekki von á því að hv. þm. mundi þora að endurtaka yfirlýsingu sína frá því í fyrradag þegar hann lýsti því yfir að með þessu frv., með þessari löggjöf, væri Alþingi að sýna mátt sinn og megin. Dettur hv. þm. það í hug, virðulegi forseti, að nokkur trúi honum? Að það sé að frumkvæði þingsins eða vegna stefnumörkunar þingsins sem þessar leikreglur eru settar og að 19 breytingartillögur, orðalagsbreytingar og eitthvað smotterí úr efh.- og viðskn. undirstriki mátt þingsins. Ég trúi því ekki eitt andartak, virðulegi forseti, að hv. þm. láti sér til hugar koma að nokkur, einn einasti maður, ekki hann sjálfur, trúi því að Alþingi sé einhver frumkvæðisaðili í þessu máli. Auðvitað veit öll þjóðin og þingheimur að það er maðurinn sem gjarnan situr hér sem er að leggja þessar línur. Hann ætlar sér að taka þennan pakka með sér sem hv. þm. og 40 aðrir ætla að afgreiða með því að ýta á græna takkann og setjast að borðinu með fólkinu sem hér situr uppi og segja: ,,Þetta eru leikreglurnar, gott fólk. Alþingi er búið að ákveða þetta. Svona höfum við þetta.``

Nei. Hv. stjórnarmeirihluti er hér ekkert annað en pöntunarfélag. Að hv. þm. skuli láta sér detta í hug að halda þessu fram. Ég segi aftur ... (VE: Það var alltaf svona þegar þú varst ráðherra.) Það var aldrei svona þegar ég var ráðherra. Það veit hv. þm. Að láta sér detta í hug að bera það á borð að þessi málatilbúnaður sé dæmi um það hversu þingið er sjálfstætt. (Gripið fram í: Bara slökkva á honum.) Slökkva á honum, já. Það væri rétt að slökkva á málinu öllu, held ég.