Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 22:31:17 (5867)

1996-05-09 22:31:17# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[22:31]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það verður hjákátlegra með hverjum deginum að horfa á hið ótrúlega vangæfa starf sem hæstv. ríkisstjórn og ráðgjafar hennar hafa unnið í þeirri viðleitni að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði. Þannig er nú komið að allur sá góði vilji og allt það jákvæða andrúmsloft sem var í upphafi þess starfs hjá báðum aðilum vinnumarkaðarins hefur nú fokið út í veður og vind og eftir stendur trausti rúin ríkisstjórn sem á þau ein eftirmæli skilin að hafa notað verkalýðshreyfinguna og launafólk til að ná fram ákveðnum efnahagslegum markmiðum en nýtir sér síðan við fyrstu hentugleika tækifærið til að afvopna hana svo hægt verði að halda kröfum launafólks í skefjum í betra efnahagsumhverfi.

Nú ætla ég að vona að hæstv. ríkisstjórn sýni sóma sinn í því áður en lengra er haldið að draga frumvörpin umdeildu til baka, að hún snúi frá villu síns vegar og reyni að vinna traust verkalýðshreyfingarinnar aftur þótt vissulega sé það rétt sem kom áðan fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að það væri mjög erfitt starf að vinna. En aðeins þannig væri möguleiki að vinna að þeim breytingum sem kunna að vera nauðsynlegar á samskiptareglum á vinnumarkaði og það verður að gefa sér tíma í slíka hluti. Það er reyndar leitun að öðrum eins klaufaskap og hæstv. félmrh. varð ber að í nefndarstarfinu um samskiptareglur á vinnumarkaði og hefur áður verið rakið í sölum Alþingis og það er einna helst að hæstv. fjmrh. slái hann út í vitleysunni með því frv. sem er til umræðu og aðdraganda þess.

Í nefndinni um samskiptareglur á vinnumarkaði ríkti framan af góður og jákvæður andi og bæði verkalýðshreyfing og atvinnurekendur voru fúsir til þess að vinna að því sameiginlega markmiði að skoða hvort ástæða væri til að endurskoða samskiptareglurnar. En hæstv. ráðherra lá svo mikið á að hann gat ekki beðið og nefndarstarfið sprakk í loft upp. Aðstoðarmaður ráðherrans skrifar síðan greinar í blöðin og kvartar yfir seinaganginum. 48 funda samráð hafi verið nóg og miklu meira en nóg. Hann skilur það líklega ekki frekar en hæstv. ráðherra vinnumarkaðarins, Páll Pétursson, að þeir hlutir sem voru til umræðu í margumtalaðri nefnd eru gífurlega viðkvæmur málaflokkur. Það kemur nefnilega til af því að samskipti aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld eru á sviði mannréttinda og það er alltaf viðkvæmt að hrófla við mannréttindum. Atvinnuréttindi flokkast undir mannréttindi og réttur manna til að stofna verkalýðsfélög, til að starfa í þeim og til að semja sameiginlega um kaup sitt og kjör flokkast líka undir mannréttindi.

Muna hæstv. ráðherrar þessarar bráðlátu ríkisstjórnar ekki eftir því hversu mörg ár það tók og hversu viðkvæmt mál það var að hrófla við mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar á sínum tíma? Það tókst ekki að hrófla við þeim þrátt fyrir áratuga langt starf í stjórnarskrárnefnd fyrr en árið 1995 en ákvæðin voru að stofni til frá 1874. Stjórnarskrárnefnd kom reyndar með tillögur árið 1983. 12 árum síðar er nýr mannréttindakafli samþykktur, árið 1995.

Um breytingarnar 1995 á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar stóð nokkur styrr þegar það loksins kom inn á borð Alþingis einmitt vegna þess að fólk er ekki alltaf sammála um mannréttindi. Það er ekki sammála um það hvort mannréttindi geta verið bæði félagslegs og einstaklings eðlis og fólk greinir á um mikilvægi hinna ýmsu flokka mannréttinda. Skerðingarfrumvörpin svokölluðu eru á þessum viðkvæmu réttarsviðum. Þau snúast bæði um einstaklingsbundin mannréttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg mannréttindi. Það virðist sem ríkisstjórnin hafi þá stefnu, a.m.k. í stefnuskránni og með markmiðssetningum í lagafrumvörpunum að auka einstaklingsbundnu réttindin á kostnað þeirra félagslegu. Það hefur hins vegar verið sýnt fram á það í umræðunni í þinginu að ekki einu sinni þessi málstaður hæstv. ríkisstjórnar stenst. Þegar allt kemur til alls er ríkisstjórnin kinnroðalaust tilbúin að traðka á hinum einstaklingsbundnu mannréttindum, hvort sem það er á sviði almenna eða opinbera vinnumarkaðarins. Á þetta hefur verið bent í fjölda umsagna um frumvörpin og það hefur margsinnis verið rakið í umræðunum.

Það er reyndar líka sýnt að markmiðin með frumvörpunum, tilgangurinn eða öllu heldur forsendurnar sem ríkisstjórnin byggir á voru vitlausar. Ein forsendan fyrir því að það þarf að mati ríkisstjórnarinnar að setja nýjar reglur á vinnumarkaði eru tíðar athugasemdir alþjóðastofnana af vinnumarkaðsmálum hér á landi. En af hverju hafa þau afskipti verið? Jú, þau hafa einmitt komið til vegna tíðra afskipta stjórnvalda af innri málefnum stéttarfélaga og aðila vinnumarkaðarins!

Önnur forsenda fyrir breytingunum á að vera tíð verkföll hér á landi á síðustu árum. Ég rakst hins vegar á þetta skemmtilega súlurit yfir tíðni verkfalla í hinum ýmsu löndum og ég sé ekki betur en það se fallin sú forsenda. Nú veit ég að það geta ekki allir, sem eru hér inni, séð þetta, þetta er smátt, en þetta er meðaltalsyfirlit yfir verkföll, yfir tapaða vinnudaga á 1.000 starfsmenn, í hinum ýmsu löndum í 23 löndum og fyrsta og minnsta súlan er Ísland. Þetta tekur yfir tímabilið 1985--1994. Þessi mynd er tekin upp úr tímariti sem heitir The Economist og þetta eru mjög nýlegar tölur. Tímaritið er frá 20. apríl 1996 fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða þetta frekar. Þetta er bara ósköp augljóst mál. Það eru einnig ýmis önnur lönd sem er engin skömm að líkja sér saman við í þessum efnum en Ísland er varla mælanlegt í þessu samhengi.

Ríkisstjórnin hefur látið Lagastofnun gera fyrir sig margumtalað álit þar sem sú ágæta stofnun var fengin til þess að segja álit sitt á því hvort lagafrv. um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur stangaðist á við alþjóðasamninga og einnig hvort það stæðust önnur ákvæði sömu laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Út af fyrir sig er svolítið spaugilegt að leggja fram frv. og biðja síðan um álit á því hvort það sé löglegt, hvort það standist alþjóðasamninga, stjórnarskrá, hvort það sé í samræmi við önnur ákvæði laganna. Það er kannski bara í takt við þá hraðsuðu sem hefur verið á öllum málum í tengslum við þessi frumvörp.

En það undarlega gerist að þrátt fyrir að einn helsti baráttumaður fyrir því að sett verði lög um innri málefni stéttarfélaga um árabil, prófessor Sigurður Líndal, sé annar þeirra sem völdust til að vinna verkið verður niðurstaðan samt sú að ákvæði í frv. brjóti gegn alþjóðasáttmálum á sviði vinnumarkaðar. Það staðfestist sem ítrekað var bent á í umræðum í þinginu og undirrituð ásamt fjölda stjórnarandstöðuþingmanna rakti ítarlega strax í 1. umr. um þessi frumvörp að þau brytu í bága við alþjóðasamþykktir, að lagasetningin fæli í sér brot á reglum um bann við íhlutun um innri málefni stéttarfélaga og það geri menn ekki í lýðræðisríkjum. En ríkisstjórnin skellti bara við skollaeyrunum. Hún böðlast áfram með gemlingana sína tvo og hlustar ekki á mótmæli.

Lagastofnun tekur ekki undir alla þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni enda hefði þá fyrst fokið í flest skjól hjá hæstv. ríkisstjórn ef sá ágæti áðurnefndi prófessor hefði endanlega snúið baki við hugmyndum hennar. Það er nefnilega svo að hann hefur barist ötullega fyrir því í áratugi að koma böndum á ótemjuna eins og hann orðar það svo skemmtilega í þessu viðtali sem Morgunblaðið tók við hann fyrir tveimur árum en í skýringartexta með viðtalinu segir að Sigurður Líndal segi verkalýðshreyfinguna standa utan við lög og rétt og það sé höfuðverkefni við umbætur á stjórnskipun okkar að breyta þessu. Þetta viðtal birtist í ágúst 1993 og ég ætla að grípa niður á nokkrum stöðum í viðtalinu, með leyfi forseta, þar sem prófessorinn fjallar um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar, kjarasamninga og verkfallsvopnið. Hann segir:

,,Ég vil einnig setja mikið spurningarmerki við það hvort kjarasamningar séu yfirleitt frjálsir. Þeim er fylgt eftir með verkföllum og verkbönnum og alls kyns þumalskrúfuaðferðum. Eru það frjálsir samningar sem gerðir eru undir svona þvingunum? Ef samningur er ekki frjáls þá sé ég ekki hvaða munur er á honum og lögum og má jafnvel segja að lög séu sett með skaplegri hætti. Ég held að við komumst ekki hjá því að álykta að hér sé lögþvingun til aðildar að stéttarfélögum, lögin styðja þetta a.m.k.`` Og síðar: ,,Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin taki sér tak. Annaðhvort hrynur hún til grunna eða hún breytir um stefnu. Hún er í ákaflega einkennilegri stöðu á Íslandi. Hún er annars vegar hluti af stjórnkerfinu með því að menn eru þvingaðir til að vera í stéttarfélögum og með því að hún hefur með höndum margvíslegt stjórnvald, framkvæmdarvald í mörgum greinum, annaðhvort í raun eða með lögum. Hins vegar er hún utan stjórnkerfisins. Iðulega neitar verkalýðshreyfingin að lúta lögum, t.d. í verkföllum og ýmiss konar aðgerðum. Hún semur sig svo undan ábyrgð. Ef einhver ætlar svo að ná rétti sínum fram, þá hafa verkalýðsforingjar í hótunum, slíta viðskiptum t.d. við flugfélög og hafa uppi hreinan terrorisma þannig að menn og sérstaklega fyrirtæki eru hrædd við að leita réttar síns. Það er bara sagt: Gott og vel. Ef þið ætlið eitthvað að múðra, þá hafið þið verra af. Og ekki má gleyma því að verkalýðshreyfingin er búin að hlaða utan á sig óheyrilegu sjóðasukki, samanber öll launatengdu gjöldin og ítök þeirra í lífeyrissjóðum. Í þeim tilfellum þar sem mál eru rekin fyrir dómstólum er algengt að verkalýðsforingjar sendi dómstólunum tóninn. Þeir eru ekki innan ramma laganna.`` --- Og eftir að hafa rakið enn eina leið til að koma böndum á ótemjuna er bent á annan möguleika hvernig eigi nú að múlbinda skassið.

,,Hinn kosturinn er að setja lög um verkalýðshreyfinguna þar sem fram kæmi hvaða almannahagsmuna hún gætti. Settar yrðu reglur um innri málefni hennar og skýrgreint hlutverk hennar og réttarstaða. Ekki hefur hún sett sér slíkar reglur sjálf og ekki hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um þetta. Það má benda á að það eru til lög um mikilvæg félagsform eins og hlutafélög og samvinnufélög þar sem er hætta á misnotkun og öðrum vandræðum. Jafnvel væri æskilegt að hafa frávíkjanleg lög um frjáls félög. Þar yrðu ákvæði sem tryggðu lýðræði og rétt einstaklinganna gagnvart bákninu.``

Hér líkir prófessorinn stéttarfélögum við hlutafélög og samvinnufélög. Hann spyr sig hins vegar ekki að því hver eðlismunurinn sé á hlutafélögum og samvinnufélögum annars vegar og stéttarfélögum hins vegar. Hann spyr sig heldur ekki að því hvers vegna því sé nú svo komið að stéttarfélög njóti sérstakrar verndar gegn innri íhlutun í málefni sín í alþjóðasamningum. Hann spyr sig ekki að því. Enn aftar í viðtalinu segir:

,,Það vantar líka í lög ákvæði um að ekki megi misbeita verkfallsréttinum. Eini hemillinn á verkföll núna er að þeir komi auga á að þeir geti hugsanlega drepið sjálfan sig í falli viðsemjandans. Verkföll bera æ meiri svip fjárkúgunar svo sem marka má af því sem gerst hefur nýlega. Það var ekki fyrr búið að koma upp meðferðarstofnuninni á Sogni með ærnum tilkostnaði en allt logaði í vinnudeilum. Flugskýlið á Keflavíkurflugvelli var ekki fyrr komið í gagnið en verkföll skella á og ekki höfðu lögin um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði verið lengi í gildi er fulltrúarnir felldu niður störf og ekki má gleyma Herjólfi, því ágæta skipi. Það er augljóslega eitthvað að.``

Það skyldi þó ekki vera að það væri eitthvað að íslenskum atvinnurekendum. Það verður að segjast alveg eins og er að úr því að maður með þessar skoðanir á helgustu réttindum launafólks, sem hafa verið viðurkennd og skilgreind sem mannréttindi, telur frumvarpið ganga of langt og að það stangist á við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er nokkuð öruggt að svo sé. Maður getur að minnsta kosti verið nokkuð öruggur um að það sé ekki tekið of harkalega á tillögum ríkisstjórnarinnar. Hitt er annað mál að álit Lagastofnunar er enginn úrskurður og það veikir vissulega gildi þess álits að ekki skuli hafa valist óhlutdrægari einstaklingur eða óhlutdrægir einstaklingar til að vinna verkið. Þó að ég beri fulla virðingu fyrir skoðunum þess sem ég vitnaði í áðan er alveg ómögulegt að halda því fram að þar sé um hlutlausan aðila að ræða og það er enn ein ógæfa ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

[22:45]

Frv. sem hér er til umræðu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur ekki valdið minni úlfúð í samfélaginu en aðrar tilraunir hæstv. ríkisstjórnar til að breyta fyrirkomulagi á vinnumarkaði. Ekki aðeins vegna efnis þess heldur ekki síður vegna skorts á samráði við samtök opinberra starfsmanna.

Nú er það svo að hæstv. fjmrh. hefur margoft haldið því fram að samráð hafi verið haft. En hvað segir frv. um þetta? Það segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var af fjármálaráðherra 23. ágúst 1995 til þess að endurskoða í heild stefnu ríkisins í starfsmannamálum þess. Í nefndinni eiga sæti Eiríkur Tómasson prófessor, formaður, Inga Dóra Sigfúsdóttir stjórnmálafræðingur og Þórður S. Óskarsson vinnusálfræðingur. Ritari nefndarinnar er Stefán Stefánsson, starfsmaður Hagsýslu ríkisins. Við samningu frumvarpsins hefur nefndin notið aðstoðar þeirra Birgis Guðjónssonar skrifstofustjóra, Gunnars Björnssonar deildarstjóra og Önnu Sigríðar Örlygsdóttur lögfræðings, sem öll starfa á starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, auk Hauks Ingibergssonar, forstöðumanns Hagsýslu ríkisins og Einars Farestveit lögfræðings.``

Síðan segir: ,,Hinn 12. desember 1995 var samtökum ríkisstarfsmanna, þ.e. Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bandalagi háskólamanna --- BHMR og Kennarasambandi Íslands (KÍ), sent bréf þar sem m.a. var skýrt frá því að heildarendurskoðun á lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stæði fyrir dyrum. Tekið var fram að ætlunin væri að hraða endurskoðun á lögunum og var af þeim sökum óskað eftir hugmyndum samtakanna um breytingar á lögunum sem fyrst, auk þess sem þeim var boðið upp á viðræður um málið. Svarbréf barst frá BSRB en engin viðbrögð bárust við bréfinu frá hinum samtökunum tveimur. Í byrjun febrúarmánaðar 1996 var samtökunum þremur kynnt efni þess frumvarps, sem hér er lagt fram, og þeim skömmu síðar send drög að frumvarpinu til skoðunar. Í kjölfar þess hafa átt sér stað viðræður við fyrirsvarsmenn samtakanna og hefur verið höfð hliðsjón af athugasemdum þeirra við endanlega gerð frumvarpsins.``

Það er rétt að taka það strax fram að þessum fullyrðingum hefur margoft verið mótmælt af fulltrúum samtaka opinberra starfsmana þar sem því hefur verið neitað að nokkurt samráð hafi verið haft. Það er kannski hægt að spyrja sig að því hvort það sem hér var lýst og hér var lesið áðan upp úr frv. séu hugmyndir hæstv. ráðherra um samráð. Að setja á stofn nefnd með starfsmönnum sínum, með vinnusálfræðingi, lagaprófessor og stjórnmálafræðingi og leita síðan eftir áliti hjá opinberum starfsmönnum á þeirri vinnu með skilaboðum um að málinu þurfi að hraða. Ef þetta er samráð í huga hæstv. ríkisstjórnar er ég ekkert hissa á öllum þeim allsherjarmisskilningi sem nú hefur gripið um sig í þjóðfélaginu á milli samtaka launafólks annars vegar og hæstv. ríkisstjórnar hins vegar. Það hefur margoft verið á það bent í umræðum að í nágrannalöndunum tók sams konar vinna mörg ár. Ef ég man rétt tók hún allt frá fjórum árum og upp í 10 ár á Norðurlöndunum enda hafa hin Norðurlöndin virt það fyrirkomulag sem hér hefur ríkt lengi að haft sé samráð við samtök launafólks um málefni þeirra.

Á Íslandi á hins vegar að gera stórfelldar breytingar á þessum reglum, sem með sanni má segja að séu mannréttindaákvæði launafólks, á örfáum mánuðum. Það er beinlínis skelfilegt að ætla að keyra á þessum hraða með svo viðkvæmt mál í gegnum þingið, byrja nefndarstarf í lok ágúst eða fyrir tæpum níu mánuðum og ætla að vera búinn að koma málinu í gegnum þingið fyrir vorið. Ég verð að segja það alveg eins og er að hinar margumtöluðu klaufalegu aðfarir hæstv. félmrh., sem byrjaði þó á samráðstilraunum með einhvers konar tilbrigði við samráð, eru barnaleikur miðað við aðfarir hæstv. fjmrh. Aðferðir hans og ekki síður innihald breytinganna er í raun ógnvekjandi. Það er ógnvekjandi fyrir opinbera starfsmenn og afurðin, frv. sjálft, er í raun hálfu verra en það sem kollegi hans er að reyna að troða í gegnum þingið á þessum dögum. Það ber vott um skort á virðingu fyrir réttindum launafólks og samtaka þeirra. Ég ætla ekki að tönnlast enn eina ferðina á þeirri mannfyrirlitningu sem birtist í frv., skiptinguna í minni háttar og meiri háttar opinbera starfsmenn og allt það. Það hefur verið gert svo oft hérna að það er óþarfi að rekja það einn eina ferðina en á þetta hefur verið bent mjög oft og ekki síst hafa athugasemdir komið fram um þetta í umsögnum um frv. En það lýsir að mörgu leyti þeirri vinnu og þeirri aðferðafræði sem hefur verið notuð við að reyna að koma þessum breytingum á.

Í frv. er greint frá starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar og það má segja að efni frv. sé að nokkru leyti í samræmi við hana. Hún er í anda þess að auka ábyrgð stjórnenda og látið er að því liggja að það komi opinberum starfsmönnum vel í kaupi og kjörum. Talað er um aukinn sveigjanleika í starfsmannahaldi sem felst m.a. í því að stjórnendum ríkisstofnana verði gert auðveldara en nú er að miða fjölda starfsmanna við raunverulega starfsmannaþörf stofnunarinnar eins og það er orðað. Síðan segir að þetta verði tæpast gert nema með því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum.

Það á að stuðla að tilfærslu á fólki í störfum, bæði á milli einstakra stofnana ríkisins og á milli ríkisins, sveitarfélaga og einkafyrirtækja eins og segir í frv. Hérna staldraði ég lengi við í lesningu frv. því að þessi kafli í hinni nýju starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar bendir hreinlega til þess að á þeim bænum er litið á starfsfólk opinberra stofnana eins og hvern annan kvikfénað sem megi færa á milli stofnana og yfir til sveitarfélaga og einkafyrirtækja eftir þörfum. Hefur þessi ríkisstjórn ekki hugmynd um það að á undanförnum áratugum hefur verið að þróast eitthvað sem heitir réttindi launafólks, eitthvað sem heitir vinnuréttur, t.d. á sviði lögfræði? Og hefur hún ekki heyrt að þessum réttindum verður ekki kippt burtu með nýrri starfsmannastefnu og lagabreytingu í kjölfarið því það vill svo vel til að þessi réttindi hafa verið tryggð í stjórnarskrá lýðveldisins og í fjölda alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er skuldbundið af. Er það þetta sem hæstv. ríkisstjórn kallar nútímasjónarmið?

Áfram með starfsmannastefnuna. Hún ber reyndar einkenni hins góða vilja í sumum efnum þótt það sé á engan hátt hægt að sjá að framkvæmdin sé í takt við markmiðin og það er svo sem eins og annað sem einkennir alla þessa lagasetningu. Tökum kaflann um að það eigi að auka jafnrétti karla og kvenna. Það er fallegt markmið þótt ég efist reyndar um vilja þessara tveggja stjórnarflokka sem eru nú við stjórnvölinn til að koma slíkri stefnu í framkvæmd. Það þarf ekki annað en líta á kynjahlutföllin í ríkisstjórninni sjálfri til að sjá hver viðhorfin eru á þeim bænum. En ríkisstjórnin ætlar að jafna launakjör kvenna og karla hjá ríkinu og hún ætlar að gera það með því að ráðnir verði hæfustu einstaklingarnir til starfa án tillits til kynferðis.

Þetta er skopleg lesning, herra forseti, því að þessi rök hafa einmitt verið notuð áratugum saman þegar konur hjá ríkinu hafa kvartað yfir því að þær njóti ekki sömu möguleika og karlar, t.d. í stöðuveitingum eða launum. Þetta eru nákvæmlega sömu rökin og ekkert í starfsmannastefnunni tryggir að á þessu verði breyting. Þvert á móti hefur það sýnt sig að konur hafa farið varhluta af góðmennsku forstöðumanna stofnana þegar kemur að launum sem eru utan kjarasamninga og því er borin von að þær komi til með að njóta sérstakrar velvildar forstöðumanna ríkisstofnana nú frekar en áður. Ef það nægði að setja sér svona falleg markmið væri heimurinn öðruvísi en hann er, herra forseti.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar en víkja þess í stað að sjálfu frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég ætla ekki að fara yfir allar greinar þess. Sumum þeirra hafa verið gerð mjög góð skil og reyndar sumum mun meira en öðrum. En áður en að efnislegri umfjöllun kemur þá langar mig aðeins til að velta vöngum yfir ætterni þeirra hugmynda sem birtast í frumvörpunum.

Það hefur verið bent á það í umræðunni að ættir aðferðafræði ríkisstjórnarinnar megi rekja til nýsjálenskrar leiftursóknar og það hefur verið bent á það að ríkisstjórnin kallaði sérstaklega á ráðgjafa frá því landi, fyrrv. fjármálaráðherra, Ruth Richardson, til þess að kenna Frónbúum hvernig ætti að vinna í anda nýsjálenskrar leiftursóknar. Það fer ekki á milli mála að ætternið má að nokkru leyti rekja í herbúðir atvinnurekenda sem einnig hafa fengið til sín framkvæmdastjóra nýsjálenskra atvinnurekenda, Steve Marshall, til að kenna þeim hvernig þeir ættu að vinna til þess að koma á hinu nýsjálenska módeli. Í raun má sjá merki hinnar nýsjálensku leiftursóknar mun skýrar í frv. hæstv. fjmrh. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en í frv. hæstv. félmrh. sem byggir að nokkru leyti á fyrirmynd frá Norðurlöndunum þótt aðferðafræðin þar sé vissulega í stíl þeirra Nýsjálendinga.

Það þarf svo sem ekki að koma nokkrum á óvart að sjónarmið atvinnurekenda séu ofar á forgangslista Sjálfstfl. en réttindi launafólks. Það kemur mér a.m.k. ekki á óvart. En það er svo að sjónarmið þessara tveggja andstæðu póla, launafólks og atvinnurekenda, eru sjaldnast hin sömu. Það er hins vegar að mínum dómi sorglegt að sjá Framsfl. ganga nákvæmlega sömu leiðina, að tala máli atvinnurekenda og hunsa algerlega sjónarmið launafólks og samtaka þeirra og það ætti svo sannarlega að verða mörgum kjósendum þess flokks umhugsunarefni.

En það er ekki bara að rekja megi ættir þessara hugmynda ríkisstjórnarinnar til atvinnurekenda og Nýsjálendinga. Ég vil enn og aftur vitna í ágætan lagaprófessor, Sigurð Líndal. Að þessu sinni vitna ég í grein sem fjallar um stefnu í launa- og starfsmannamálum ríkisins. Hún er úr Vísbendingu frá árinu 1994. Höfundur byrjar á því að rekja sögu opinberra starfsmanna og til fróðleiks og vonandi að einhverju leyti til gamans þá ætla ég að grípa niður í þann kafla greinarinnar til að byrja með, með leyfi forseta:

,,Ef skyggnst er í söguna verður ljóst að sá hópur manna sem nú kallast ríkisstarfsmenn á annars vegar rót að rekja til hirðar konungs sem hlaut fast skipulag á hámiðöldum, bundið sérstökum lögum og hins vegar til hersins. Innan hirðar og hers ruddi riddarahugsjónin sér rúm og mótaði það hugarfar að sýna bæri konungi og kirkju hollustu og rækja bæri skyldur við þjóðfélagsþegnana af alúð. Hér liggja rætur embættishugsjóna Evrópu sem áttu drjúgan þátt í að efla og styrkja starfshæft stjórnkerfi þótt auðvitað yrðu einatt skil milli hugsjónar og veruleika eins og jafnan.`` Síðan segir: ,,Eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd voru sýslumenn kjarni hirðarinnar og jafnframt embættiskerfisins. Þeir sinntu þeim grunnskyldum ríkisins að halda uppi lögum og reglum, að tryggja öryggi þjóðfélagsþegnanna og innheimta skatta. Síðar eða nánar tiltekið á 18. öld tók ríkið að hafa veruleg afskipti af atvinnuvegum og ýmiss konar þjónustu í anda þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið kameralismi og þá má segja að nokkuð hafi rýmkað um starfsmannahald ríkisins.

Ekki er ástæða til að rekja söguna frekar en því minni ég á þetta að í hollustu og agahugsjón hirðlaganna liggja rætur þeirrar löggjafar sem lengst af hefur gilt um embættismenn hér á landi --- áherslan hefur legið á hollustu þeirra við ríkið og skyldur við þegnana.``

Síðar í greininni er annar kafli sem er með yfirskriftinni ,,Aukin skilvirkni með einfaldari löggjöf`` og þar segir, með leyfi forseta:

,,Til þess að ná fram þeim markmiðum að gera starfsemi ríkisins sem skilvirkasta verður að einfalda löggjöfina. Fátt stendur liðugri framkvæmd og hagræðingu meira fyrir þrifum en flókin og óljós löggjöf. Og þá sýnast ofanrituðum eftirtalin úrræði einna helst koma til álita:

Að ákvarða hlutverk ríkisins --- og þá um leið ríkisstofnana --- greinilegar en gert er.

Einkavæðingu fylgir``, reyndar gengur höfundur út frá því að einkavæðing sé sjálfsagður og eðlilegur hlutur, ,,að starfsmönnum ríkisins hlýtur að fækka.

Þar sem ríkið kann að reka almenna atvinnustarfsemi áfram taki það vinnuafl á frjálsum vinnumarkaði.

[23:00]

Afleiðing þessa verður veruleg breyting í skipulagi stéttarfélaganna og stéttarfélagasambanda. ASÍ, BSRB og BHMR sameinast, leggjast niður eða gerbreytast. Einhvers konar vinnustaðafélög og starfsgreinasambönd koma í staðinn.``

Og síðar segir: ,,Þeir sem annast valdstjórn ríkisins og aðra grundvallarstarfsemi sæti einhliða ákvörðun þess um kjaramál og hafi engan verkfallsrétt. Það er ekki í neinna þágu að lama óhjákvæmilegan rekstur ríkisins. Andi kjaradeilna á þar ekki heima. Hann dregur mátt úr starfseminni, íþyngir ríkisbákninu, eykur útgjöld, leggst síðan á skattgreiðendur og skerðir þannig lífskjör þjóðarinnar. Hvað kosta þær kjaradeilur sem eru að verða einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar? Stundum hvarflar að ofanrituðum að átök sem stéttarfélög og raunar margir aðrir hagsmuna- og þrýstihópar efna til og eiga að bæta stöðu hag þeirra sem að standa bitni í reynd á lífskjörum þeirra og um leið þjóðarinnar allrar, haldi þeim niðri og hafi þannig öfug áhrif.``

Síðan segir í greininni: ,,Og nú er ég kominn að upphafinu: Meðal ríkisstarfsmanna verður að kveða niður þann kjaradeilu- og fjandskaparanda sem um langt skeið hefur verið ríkjandi en efla í þess stað þann hollustu- og þjónustuanda sem mótaðist innan ríkis og kirkju á miðöldum og hefur þrátt fyrir allt löngum fyllt embættishugsjón Vesturlanda.``

Nú má alls ekki misskilja mig svo að ég sé að gefa í skyn að sá ágæti maður sem hér er vitnað til sé höfundur þeirra reglna sem ríkisstjórnin vill koma á enda hefði ég ekkert fyrir mér í slíkri fullyrðingu. Hitt er annað mál að skyldleiki er nokkur með þessum hugmyndum. Munurinn er kannski sá fyrst og fremst að prófessorinn segir sínar skoðanir umbúðalaust og hreint út. Hann segir það hreint og beint að það ,,verður að kveða niður þann kjaradeilu- og fjandskaparanda sem um langt skeið hefur verið ríkjandi en efla í þess stað þann hollustu- og þjónustuanda sem mótaðist innan ríkis og kirkju á miðöldum og hefur löngum fyllt embættishugsjón Vesturlanda.`` Það er ekki verið að telja fólki trú um að breytingarnar séu nútímalegar. Það er hreint út sagt vísað til dýrðar miðalda og ekkert múður með það. En ég held ég láti lokið tilvitnunum í þennan ágæta lagaprófessor og snúi mér að öðru.

Efnisatriðin sem gagnrýna má í þessu frv. eru ótalmörg. En ekki síður er ýmislegt aðfinnsluvert við sjálfa lagasetninguna og aðdraganda hennar eins og áður hefur verið vikið að. Það hlýtur að vera grundvöllur góðrar löggjafar að þingmenn viti hvað þeir eru að gera þegar þeir fjalla um frv. sem fram hafa verið lögð, að frv. séu það skýr að ekki fari á milli mála hverju er verið að breyta eða á hvern hátt.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt þá aðferð sem ríkisstjórnin notar til að koma vinnulöggjafabreytingunum í gegn. Það er verið að vinna skyld mál hvort í sínu horninu og það þarf hreinlega mjög mikinn áhuga og mjög mikla fyrirhöfn til að fá heildaryfirsýn yfir breytingarnar sem verið er að gera. Öll þessi mál hefði að sjálfsögðu þurft að vinna í samhengi ella er einungis stórhætta á misræmi sem hefur reyndar nú þegar sýnt sig á milli einstakra frv. sem snerta þetta svið. Eitt dæmi mætti nefna. Samkvæmt frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skal skipa embættismenn til fimm ára og undir þann hatt skal ríkissáttasemjari settur. Um leið er kveðið svo á um í frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem að sjálfsögðu er verið að semja á sama tíma að ríkissáttasemjari skuli skipaður til fjögurra ára. En ef við skoðun bandorminn sem fylgir frv. um réttindi og skyldur þá skal ríkissáttasemjari skipaður til fimm ára. Þetta er gott dæmi um það hvernig löggjöf lítur út sem er hrint í gegn á allt of skömmum tíma. Það kann ekki góðri lukku að stýra og mér er reyndar nokk sama þó hægt sé að svara þessari hringavitleysu með því að sérlög gangi framar almennum lögum eins og það er líklega orðað í lögskýringarfræðum Ármanns Snævarrs. Það á einfaldlega ekki að flýta sér að setja lög um svo viðamikið réttarsvið og hér er verið að tala um og þessi vinnubrögð eru til háborinnar skammar. Ég vil nefna annað dæmi um vitleysuna í þessari löggjöf, um ósamræmið. Í 27. gr. frv. segir svo, herra forseti:

,,Nú hefur embættismanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og skal mál hans þá þegar rannsakað af nefnd sérfróðra manna eða að hætti opinberra mála,`` --- hún var reyndar felld út þessi síðasta setning: ,,eða að hætti opinberra mála,`` --- ,,svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu.``

Í 2. mgr. 29. gr. segir hins vegar, með leyfi forseta:

,,Embættismanni skal víkja úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar skv. 27. gr.`` --- þeirri sem ég var að lesa úr hér rétt áðan --- ,,kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir.``

Herra forseti. Þýðir þetta að ef tveir menn eru grunaðir um að hafa t.d. dregið að sér fé og mál beggja er skoðað hjá þessari nefnd sérfróðra manna og ef annar þeirra reynist sekur en hinn ekki, að þá sé rétt að víkja báðum úr starfi að fullu? Ég fæ ekki skilið það öðruvísi með því að lesa þessar tvær greinar saman. Hvers konar réttlæti er það og til hvers í ósköpunum er nefndin að rannsaka málið ef það nægir til réttlætingar á því að víkja manninum að fullu, að rétt hafi verið að víkja honum um stundarsakir? Þetta eru tveir ólíkir hlutir. Þetta er undarleg og óskiljanleg lagasetning. Ég get reyndar bent á fleiri ótrúleg dæmi um þessa nýju lagasetningatækni ríkisstjórnarinnar.

Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er dómendum veitt sérstök vernd gegn brottvikningu úr starfi. En þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana. Þó má veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar skulu eigi missa neins í af launum sínum.``

Svo mörg voru þau orð stjórnarskrárinnar og eins og allir hér inni eiga að vita þá mega landslög ekki stangast á við stjórnarskrána. En hæstv. ríkisstjórn er líklega annarrar skoðunar eða a.m.k. sá sem samdi bandorminn sem fylgir frv. til laga um réttindi og skyldur. Í bandorminum segir m.a. í athugasemdum þar sem fjallað er um afnám æviráðningar, með leyfi forseta:

,,Í 1. mgr. 23. gr. starfsmannalagafrv. er lagt til að lögfest verði sú meginregla að skipun í embætti verði framvegis tímabundin til fimm ára í senn. Af þessum sökum er lagt til að öllum sérákvæðum um ótímabundna skipun í embætti verði breytt í samræmi við meginreglu starfsmannalagafrv. utan skipun í dómaraembætti sem óvarlegt þykir að tímabinda með hliðsjón af 61. gr. stjórnarskrárinnar ...`` o.s.frv.

Frumvarpshöfundi þykir óvarlegt að setja lagaákvæði sem stangast á við skýrt ákvæði stjórnarskrárinnar. En líklega þýðir það að honum þyki það ekki útilokað. Ég get a.m.k. ekki skilið þessar athugasemdir öðruvísi en svo.

Ég ætla að láta þessi dæmi nægja um ósamræmi og óvönduð vinnubrögð í þessari lagasetningu en ítreka þá skoðun mína enn og aftur að eina leiðin fyrir hæstv. ríkisstjórn til þess að sleppa sómasamlega frá þessu klúðri er að draga frv. til baka og reyna að vanda sig a.m.k. betur áður en reynt er að gera umdeildar og viðkvæmar breytingar á lögum. Það eru þó lágmarkskröfur, herra forseti, að menn vandi sig.

Eitt atriði í lögunum hefur valdið miklum deilum eins og svo mörg önnur og þar er ég að vitna til annars hluta laganna sem fjallar um embættismenn. Bandalag háskólamanna hefur bent á ýmis atriði vegna þessa kafla og gagnrýnt þau, m.a. áhrif breytinganna á kjör þeirra sem skulu falla undir Kjaradóm og kjaranefnd. Í umsögn BHM segir m.a., með leyfi forseta, á bls. 18 og 19.

,,Áhrifin á réttarstöðu þessara starfsmanna ríkisins eru margþætt og alvarleg. Frv. þetta, sem felur í sér skerðingu á réttindum starfsmanna ríkisins og aukningu á skyldum þeirra er sett fram í nafni ,,jafnréttis`` til að afnema meint ,,misrétti`` milli starfsmanna ríkis og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Rökstuðningur höfunda frv. fyrir meintu misrétti er fullur af rangfærslum en höfundarnir ganga lengra og halda því fram að lög nr. 38/1954 eigi eingöngu við um félagsmenn BSRB og BHMR (bls. 21) og að það stangist á við ákvæði 65. gr. stjórnarskrár um jafnrétti og stríði einnig gegn ákvæðum 74. gr. um félagafrelsi. Eins og rakið hefur verið er gildissvið laganna nr. 38/1954 alls ekki bundið við félagsmenn tiltekinna samtaka eða stéttarfélaga. Rökstuðningur höfundanna er þannig rangur.``

Síðar segir: ,,Frv. gengur einnig á 74. gr. stjórnarskrárinnar með því að svipta stóran hóp félagsmanna bandalagsins og jafnvel þorra félagsmanna í sumum stéttarfélögum réttinum til að vera í stéttarfélagi. Svo langt er gengið í frv. að ákvarðanir um það hverjir verði þannig sviptir grundvallarmannréttindum getur verið verið geðþóttaákvörðun forstöðumanns í stofnun eða fjmrh. Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og með aðild að áðurgreindum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að hafa ekki afskipti af innri málefnum stéttarfélaga, virða rétt þeirra til að ráða málum sínum sjálf og virða samnings- og verkfallsrétt þeirra án óeðlilegra og ónauðsynlegra afskipta. Í frv. er þrátt fyrir þetta gert ráð fyrir stórum hópi félagsmanna í aðildarfélögum Bandalags háskólamanna, til viðbótar við þann hóp sem tekinn var úr félögunum með lögum nr. 120/1992, verði meinað að taka þátt í starfi stéttarfélaga í framtíðinni. Þessi hópur verði sviptur félagafrelsi og um leið rétti til að taka þátt í verkföllum til að knýja á um bætur á kjörum sínum í félagslegum aðgerðum. Það að undanþiggja fjölda ríkisstarfsmanna þannig verkfallsrétti stríðir einnig gegn 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Gengið er skrefi lengra og þessi hópur er einnig sviptur tjáningarfrelsi að hluta, a.m.k. þegar deilur og aðgerðir standa um kaup og kjör launamanna. Þetta stenst ekki ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Enginn vafi er á því að þessi hluti frv. stríðir gegn almennum viðhorfum til efnisákvæða stjórnarskrár og alþjóðasamþykkta um félagafrelsi og svipting á tjáningarfrelsi með ofangreindum hætti stríðir einnig gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.``

Í umsögn stéttarfélags lögfræðinga segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 22. gr. frv., sbr. umsögn fjmrn. með frv., mun embættismönnum fjölga talsvert, en það er í andstöðu við þá þróun sem hefur verið á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeim starfsmönnum ríkisins sem ekki hafa verkfallsrétt verði fjölgað. Er það í andstöðu við 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu.``

Síðan segir: ,,Í frv. er gert ráð fyrir því að starfsmaður teljist annaðhvort embættismaður eða annars konar starfsmaður. Því fer þó fjarri að skýrlega komi fram hverjir munu teljast til embættismanna og hverjir ekki.``

Síðan segir: ,,Ekki kemur glöggt fram í frv. hver tilgangurinn er með tímabindingu skipunar embættismanna. Verður að telja þá óvissu sem felst í tímabundnum skipunum embættismanna leiða til aukins óstöðugleika og geri ráðherrum auðveldara með að beita geðþóttaákvörðunum við skipun þeirra á fimm ára fresti. Ekki verður séð að 2. mgr. 23. gr. frv. breyti hér nokkru um, en samkvæmt athugasemdum er henni ætlað að stuðla að stöðugleika í röðum embættismanna, sem telst æskilegur. Ekki verður séð að þessi tilhögun sé í samræmi við yfirlýstan tilgang frv. um að ,,... samkvæmt frv. [verði] ríkisstarfsmönnum tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa við almennt í skiptum við vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði.`` (Almennar athugasemdir V, bls. 21). Telja verður að ákvæði frv. feli í sér óþolandi óvissu fyrir embættismenn þegar dregur að lokum skipunartíma um áframhaldandi skipun í embætti. Einkum á þetta við um fólk á síðasta hluta starfsævi sinnar.``

[23:15]

Getur verið að markmið um að fjölga embættismönnum sé kannski í anda stefnunnar um aukna möguleika kvenna hjá opinberum stofnunum? Gæti það verið tilgangurinn að jafna launakjör karla og kvenna hjá ríkinu eins og það er orðað í frv.? Ef það er tilgangurinn þá er hæstv. ríkisstjórn enn einu sinni á villigötum. Mér barst í dag eins og reyndar fleiri þingmönnum bréf frá fjölda kvenna sem starfa hjá Háskóla Íslands. Eins og kunnugt er ætlar ríkisstjórnin að gera prófessora að embættismönnum og a.m.k. einhverjir þeirra eru ánægðir með það og telja það geta veitt þeim hærri laun en þeir hafa í dag. Að minnsta kosti sá ég viðtal við einn slíkan í Alþýðublaðinu í gær eða í dag og þar kemur þetta sjónarmið einmitt fram. En í bréfinu sem ég fékk í dag kveður við annan tón. Bréfið er stílað til menntmrh., Björns Bjarnasonar, og er dagsett 8. maí sl. Þar segir, með leyfi forseta:

Á fundi í Prófessorafélagi Háskóla Íslands 25. mars sl. var samþykkt með einu mótatkvæði að vinna að þeirri breytingu á frumvarpi til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins að prófessorum yrði bætt inn í upptalningu á embættismönnum eða með öðrum orðum að þeir yrðu embættismenn. Aðeins þriðjungur prófessora við háskólann var á þessum fundi og margir sem ekki voru þar telja sig ekki félagsmenn í samtökum sem ekki eru formlegt félag innan Félags háskólakennara. Engu að síður var þessi samþykkt gerð og henni síðan fylgt eftir af miklum skörungsskap eins og alþjóð hefur orðið vitni að á síðustu vikum.

Félag háskólakennara er enn þá stéttarfélag prófessoranna og gangi þeir úr því hefur það eftirfarandi afleiðingar fyrir þá sem eftir eru:

a. Félag háskólakennara er í raun svipt verkfallsvopni sínu þar sem stór hópur félagsmanna má ekki fara í verkfall og mun starfa áfram ef til verkfalls kæmi.

b. Framgangskerfið sem metið hefur verið til launaprósenta í kjarasamningum háskólakennara undanfarin ár er lagt rúst.

c. Afnám framgangskerfisins mun bitna á öllum yngri starfsmönnum háskólans þar sem konur eru fjölmennastar.

Háskólaráð þar sem aðeins prófessorar mega sitja sem fulltrúar deilda hefur ályktað að staða prófessora háskólans sem embættismanna skipti sköpum fyrir þróun Háskóla Íslands sem háskóla og rannsóknarstofnunar.

Félag háskólakennara hefur borið á móti þessu opinberlega og við undirritaðar teljum okkur skylt að benda á afleiðingar þessara breytinga fyrir jafnréttismál innan Háskóla Íslands.``

Síðar í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Síðasta áratuginn hefur konum fjölgað í hópi kennara og sérfræðinga Háskóla Íslands en það hefur gengið mjög hægt.``

Þetta er í samræmi við þá þróun sem alls staðar annars staðar er þekkt í öðrum löndum. Síðan segir:

,,Sem dæmi má nefna að af 72 lektorum við háskólann eru konur 35 eða 48,6%, af 134 dósentum eru 24 konur eða 17,9% og af 148 prófessorum eru þær 9 talsins eða 6,1%. Það verður að segjast eins og er að konur hafa átt örðugt uppdráttar innan Háskóla Íslands. Prófessorar einir eiga rétt til setu í æðstu valdastofnunum háskólans og þeir skipa í valdamiklar nefndir þar sem ýmist situr engin kona eða konur eru í miklum minni hluta. Sjónarmið kvenna bæði hvað varðar stefnumótun háskólans almennt og mótun hans sem vinnustaðar koma lítið fram og jafnréttisumræða hefur verið lítil. Konur á Íslandi bera meiri þunga af heimili og börnum en karlar þeirra almennt og háskólamenntaðar konur eru þar engin undantekning.``

Síðar segir: ,,Framgangskerfi við Háskóla Íslands er aðeins níu ára og síðan það var tekið upp hafa 38 karlar orðið prófessorar í krafti þess en þrjár konur. Ef prófessorar verða embættismenn núna er valdakerfi háskólans í núverandi mynd og áhrifaleysi kvenna á stjórnun og mótun vinnustaðarins staðfest. Við teljum þessar breytingar eitt hið mesta bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum innan háskólans. Við skorum á háskólayfirvöld að endurskoða afstöðu sína og Alþingi að taka þetta til alvarlegrar athugunar. Það getur ekki verið ábyrgt að rétta hlut eins hóps í Félagi háskólakennara með því móti að skertir séu möguleikar fjölda annarra félagsmanna samtímis.``

Undir þetta bréf skrifar 41 kona, flestar lektorar eða dósentar við Háskóla Íslands. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að uppfylla hina fínu starfsmannastefnu sína um jafnrétti kvenna og karla í Háskóla Íslands? Hún ætlar að sjálfsögðu að gera það með viðhorfsbreytingu, töfraorðinu sjálfu. Hún ætlar líklega með viðhorfsbreytingu að bæta upp þetta mesta bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum innan háskólans.

Ég ætla að víkja aðeins að ákvæðum frv. um starfsöryggi. Það hefur lengi verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar og launafólks á almenna markaðnum að auka starfsöryggi á þeim hluta vinnumarkaðarins. Í þessu skyni hefur margoft verið farið fram á það af hálfu samtaka launafólks að Ísland fullgilti samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda. Þessu hafa atvinnurekendasamtökin hafnað algjörlega. Þau vilja hafa sveigjanleikann í lagi eins og þau kalla það. Hingað til hafa stjórnvöld ekki viljað taka af skarið enda hafa þau því miður allt of sjaldan einhverja pólitík í málefnum launafólks. Þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um starfsöryggi nær til alls vinnumarkaðarins og hún felur það fyrst og fremst í sér að þar er launafólki tryggt ákveðið málsmeðferðarkerfi við uppsagnir. Því er tryggt að það sé skylt að rökstyðja uppsögn ef eftir því er óskað og í sumum tilvikum á fólk rétt á endurráðningu ef uppsögn hefur verið talin ólögmæt. Eins og þeir sem þekkja til almennra reglna hér á vinnumarkaði vita mundi slíkt kerfi stórbæta réttarstöðu launafólks a.m.k. á almenna markaðnum. Sú sem hér stendur hefur ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur lagt fram till. til þál. um að þessi samþykkt verði fullgilt en hún hefur því miður ekki enn komist á dagskrá þingsins. Samþykktin er af mörgum talin lágmarksréttur. En þótt hún sé lágmarksréttur og talin vera það mjög víða í löndunum í kringum okkur þá mundi hún þó gerbreyta stöðu íslensks launafólks til batnaðar á sviði starfsöryggis.

Starfsöryggismál opinberra starfsmanna hafa verið skömminni skárri en á almenna markaðnum. En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því að jafna aðstöðuna í þessum málum, að nútímavæða í þessum málum? Ætlar hún að bæta stöðuna á almenna markaðnum og færa starfsöryggismálin þar til nútímalegra horfs? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hún ætlar að rýra starfsöryggi opinberra starfsmanna í staðinn og jafna þannig aðstöðuna niður á við. Þetta á t.d. við um málsmeðferðarkerfi við uppsögn sem felst m.a. í áminningu áður en til brottrekstrar kemur. Það var reyndar upphaflega meiningin að hafa ákvæði þess eðlis að heimila forstöðumanni að veita áminningu. En það gefur jú auga leið að slíkt ákvæði felur ekki í sér nokkurn einasta rétt fyrir starfsmanninn. Því er ekki hægt að tala um starfsöryggi í því sambandi. Nú hefur ákvæðinu reyndar verið breytt í þá veru að það sé skylt að veita skriflega áminningu en hins vegar er ákvæðið að öðru leyti þess eðlis að forstöðumanni er mjög auðveldlega gert kleift að losa sig við starfsmann, svo víðtæk er upptalningin um það hvað starfsmaðurinn þarf í raun og veru lítið að gera af sér til að vinna sér inn áminningu sem hefur síðan í för með sér uppsögn. Það er vægast sagt mjög víðtækt svið og erfitt að sleppa við áminningu ef forstöðumaðurinn hefur áhuga á því að veita hana.

Að auki er kveðið svo á í frv. að ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt því verði ekki skotið til æðri stjórnvalda nema öðruvísi sé mælt fyrir í einstökum ákvæðum laganna. Þetta er kannski hluti af nútímavæðingunni. Spyr sá er ekki veit. Í 40. gr. er ákvæði um skerðingu á félagafrelsi embættismanna sem hefur reyndar lítillega verið vikið að hér áður. Samkvæmt því er þeim óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Um þetta segir í umsögn BHM á bls. 21, með leyfi forseta:

,,Í þessari grein er embættismönnum ekki aðeins bannað að taka þátt í verkfalli eða sambærilegum aðgerðum, enda er sá réttur bundinn við aðild að stéttarfélagi, heldur er gengið skrefi lengra og þessi hópur er einnig sviptur tjáningarfrelsi að hluta, a.m.k. þegar deilur og aðgerðir standa um kaup og kjör launamanna.`` Þarna er enn rakið það sem áður hefur verið minnst á og var rakið í umsögn stéttarfélags lögfræðinga að slíkir hlutir standast ekki ákvæði stjórnarskrár. Og enn og aftur hefur verið minnt á það sem vissulega hlýtur að vera alvarlegur hlutur.

Það er reyndar mjög undarlegt að telja þessi ákvæði frv. sem hér hefur verið minnst á vera í anda nútímalegra viðhorfa. Ekki síst með tilliti til þess að félagafrelsi hefur nú nýlega, það var í fyrra, verið sérstaklega tryggt í stjórnarskránni og hefur þessi ríkisstjórn sýnt því mikinn áhuga að tryggja betur félagafrelsi í stjórnarskránni. Ekki síður er þetta undarlegt með tilliti til þeirra fjölmörgu alþjóðasamninga sem ríkið er skuldbundið af um félagafrelsi og ég hreinlega nenni ekki að telja upp eina ferðina enn úr þessum ræðustóli, ég er búin að gera það svo oft. En það er kannski rétt að gera samt sem áður tilraun til að upplýsa hina ágætu ríkisstjórn, þótt hún sé reyndar ekki hér til staðar frekar en fyrri daginn, um það að félagafrelsisnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur mikið vægi í túlkun á félagafrelsisákvæðum og reyndar er það beinlínis tekið fram í áliti Lagastofnunar að félagafrelsisnefnd Aþjóðavinnumálastofnunarinnar hafi sérstakt vægi í túlkun ákvæða um félagafrelsi. Hún hefur talið að hluti félagafrelsisins sé rétturinn til að semja sameiginlega og að sjálfsögðu rétturinn til að fara í verkföll.

Það var umræða um þessi mál á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1994 ef ég man rétt. Þar var til umfjöllunar sérstök skýrsla sem sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar lét gera og var til umræðu á þinginu. Þar er alveg sérstakur kafli sem fjallar um réttinn til að fara í verkföll. Bent er á það í þeirri bók, og það kom reyndar mjög skýrt fram í umræðum á þinginu, að það sé á engan hátt hægt að líta á félagafrelsi án samhengis við þau tæki sem nauðsynleg eru til að verja það. Það vill oft vera þannig að ríkisstjórnin sem nú er við lýði hampar félagafrelsi og þá einkum sjálfstæðismenn. Líklega má telja framsóknarmenn með í þeirra hópi núna. Þeir hampa félagafrelsinu öðrum megin frá. Þeir hampa því þeim megin frá þegar verið er að tala um rétt manna til að stofna félög. Að ég tali nú ekki um rétt manna til að brjóta upp og stofna svokölluð ,,gul félög`` sem hefur verið að gerast hér á undanförnum árum í auknum mæli, þ.e. að brjóta upp þau stéttarfélög sem til staðar eru. Hins vegar hefur sá hinn sami hópur manna ekki verið jafnhrifinn af félagafrelsinu þegar kemur að hinum endanum. Þegar kemur að þeim tækjum sem þarf og þeim tækjum sem heimilt er að nota til að fylgja félagafrelsinu eftir. Félagafrelsið er einskis virði án aðgerða til að fylgja því eftir. Það er beinlínis ekki hægt og á engan hátt rétt, eins og félagafrelsisnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur svo réttilega bent á, að slíta þetta úr samhengi. Slíta annars vegar úr samhengi réttinn til að stofna stéttarfélög, til að semja sameiginlega, og síðan til þess að fylgja eftir kröfum sínum með verkföllum ef með þarf. Það er í raun og veru ekki hægt að segja annað en að mannréttindi sem ekki er hægt að fylgja eftir, ekki er hægt að fara alla leið með, hljóta bara að vera skrum eitt. Hvers virði er í raun og veru rétturinn til að stofna og ganga í stéttarfélög ef það er bannað með lögum að verja þennan rétt með þeim tækjum sem getur þurft til og hafa verið viðurkennd sem lögleg tæki til þess að verja þennan rétt? Slíkar takmarkanir hljóta vægast sagt að vera mjög varasamar og að mínu mati teljast þær á engan hátt til nútímalegra vinnubragða, herra forseti, eins og svo margoft er vitnað til í ræðustóli af hæstv. ráðherrum.

[23:30]

Það er eitt annað atriði sem ég vildi koma inn á og hefur margoft verið talað um í sölum Alþingis á undanförnum dögum. Það eru tengslin milli kjarasamninga annars vegar og hins vegar milli lögbundinna réttinda opinberra starfsmanna. Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefur haldið því fram að umsömdum réttindum sé ekki raskað. Þessu hefur hæstv. ráðherra margoft tönnlast á í þinginu. Það virðist einhvern veginn vera þannig að hæstv. ráðherra fær ekki skilið það umhverfi sem opinberir starfsmenn búa við. Öllu heldur er ég farin að hallast að því nú á síðari tímum þessarar umræðu að hann vilji ekki skilja það og hann ætli sér ekki að skilja það og hann ætli sér hreinlega að láta á það reyna. Réttarumhverfi hjá opinberum starfsmönnum er að mörgu leyti mjög ólíkt því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum þar sem stærstur hluti kjaranna er festur í kjarasamninga. Að hluta til er hann bættur upp með ráðningarsamningum, munnlegum eða skriflegum, en einungis minni hlutann er fjallað um í lögum þannig að vægið er allt annað. Á meðan búa opinberir starfsmenn við það að réttindi þeirra eru miklu meira lögbundin en réttindin á almenna markaðnum og kjarasamningar hafa þar í raun og veru miklu minni þýðingu efnislega séð. Þetta er í sjálfu sér ekkert öðruvísi en gengur og gerist í mörgum öðrum löndum og kemur til vegna sérstöðu opinberra starfsmanna að mörgu leyti sem hefur verið í gegnum tíðina.

Ég vil nefna sem dæmi að í kjarasamningum opinberra starfsmanna er hvergi eftir þeim heimildum sem ég hef verið að reyna að leita eftir og leita þar ráða þeirra sem gerst til þekkja um samningana er hvergi kveðið á um uppsagnarfrest starfsmanna. Það er hins vegar kveðið á um það í lögum að þeir sem eru ráðnir eigi tiltekinn uppsagnarfrest. Miðað við kenningu og hugmyndafræði hæstv. fjmrh. þá mætti svipta opinbera starfsmenn uppsagnarfresti vegna þess að það eru ekki umsamin réttindi. Hann hlýtur þá að vera um leið að segja það úr því að hann heldur að svo sé þá þurfi ekki ef slíkt væri gert, ef það dytti í hæstv. ráðherra, annað eins hefur dottið í kollinn á honum að rífa uppsagnarfrestinn af opinberum starfsmönnum þá hlýtur hann að geta gert það með sömu rökum. Það eru ekki umsamin réttindi og það er náttúrlega algerlega fráleitt að fara að bæta fólki eitthvað sem það á ekki rétt á eftir því sem hæstv. ráðherra telur. Á meðan höfum við á almenna markaðnum þannig umhverfi að þar eru ítarleg ákvæði um það í hverjum einasta kjarasamningi hvernig uppsagnarfresti skuli háttað. Þetta er gott dæmi um að það er náttúrlega fráleitt að halda því fram að lögbundin réttindi opinberra starfsmanna séu ekki hluti af þeirra kjaralega umhverfi og séu ekki umsamin réttindi vegna þess að að sjálfsögðu byggjast hin umsömdu réttindi, sem ráðherrann heldur að séu bara í kjarasamningum, á því hvernig lagalega umhverfið var á þeim tíma þegar samið var. Það er á engan hátt hægt að skilja það öðruvísi. En þrátt fyrir að á þetta hafi verið mjög ítarlega bent og mjög ítarlega farið yfir þetta í umsögnum frá fjölda samtaka á opinbera markaðnum og frá þeim lögmönnum sem hvað best þekkja réttarsviðið á þeim bænum hefur hæstv. ráðherra enn þverskallast við og neitar því að fara að þessu enda liggur því miður ekki fyrir um þetta frv. neitt álit á því hvort það sé löglegt eða hvort það standist ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðasamninga eða hvort það stangist mögulega á við önnur ákvæði laganna innbyrðis. Eins og ég og aðrir hafa bent á þá veitir ekki af því að slíkt álit yrði fengið því að það eru gífurlega margir hnökrar á þessu frv., hreinlega tæknilegir hnökrar að ekki sé talað um ósköpin sem innihaldið er.

Ég vil, herra forseti, vitna lítillega í skýrslu, sem ég hef undir höndum og mér hefur reynst drjúg í undirbúningi fyrir það að reyna að átta mig á þessu frv. og þeim ósköpum sem við stöndum hérna frammi fyrir. Þessi skýrsla var gerð af Frederich Eberstiftung í Brussel og fjallar um opinberar vinnumarkaðsreglur í sex löndum. Þetta er samanburðarathugun um reglur á opinberum vinnumarkaði í Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Austurríki, Svíþjóð og Bretlandi. Því miður gafst mér ekki tími til að lesa alla þessa skýrslu því að hún hefði vissulega verið þess virði. Ég á örugglega eftir að gera það síðar því að hún fjallar í nokkuð ítarlegum atriðum um ýmis atriði hins opinbera vinnumarkaðar í þessum sex löndum. Hún kemur m.a. inn á áhrif þeirra breytinga sem hafa verið á opinberum vinnumarkaði á réttarstöðu opinberra starfsmanna. Þar er t.d. sérstakur kafli um áhrif á stöðu kvenna vegna þess að það hefur einhvern veginn orðið þannig að þær hafa oft og tíðum farið verst út úr auknum sveigjanleika og auknu frjálslyndi á vinnumarkaði ef svo má að orði komast.

Hér er líka mjög ítarlegur kafli um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna sem væri vissulega þess virði að fara í gegnum áður en kemur að umræðunni um lífeyrismálin sem verður vonandi ekki í bráð og helst aldrei. Þessi skýrsla nær yfir tveggja ára tímabil, hún er gerð á árunum 1991 og 1993. Markmið hennar er að gera kerfisbundna skoðun á fyrirkomulagi samningamála á opinberum vinnumarkaði en eins og kunnugt er hafa verið gerðar breytingar á reglum um opinbera vinnumarkaðinn víðar en er verið að reyna að gera á Íslandi á síðustu árum. Það hafa verið kröfur um það víðar en hér að það sé hagrætt í ríkisrekstri og það sé sparað þannig að vandamálið sem slíkt, sem menn hafa staðið frammi fyrir og allir viðurkennt að þurfi á einhvern hátt að taka á, hefur verið þekkt víðar en hér. Þess vegna er að mörgu leyti mjög fróðlegt að skoða það hvernig þetta hefur verið gert annars staðar.

Í þessari skýrslu er að finna ýmis atriði um það og ég vil sérstaklega grípa niður í þau sem snúa að verkfallsréttinum og undanþágu frá verkfallsréttindum og ekki síst með það að leiðarljósi að verkfallsrétturinn er í mínum huga ein af helgustu réttindum launafólks og hann á undir engum kringumstæðum að skerða og það eiga ekki að vera undanþágur frá honum nema hægt sé að réttlæta með einhverjum mjög mikilvægum atriðum.

Ef við grípum ofan í kaflana um það hvernig verkfallsréttinum er háttað í þessum löndum, sem ég held að hafi flestöll gengið í gegnum einhverja endurskoðun á þessum reglum á síðustu árum, þá segir t.d. um Ítalíu að það er í raun og veru réttur til verkfalla á opinbera vinnumarkaðinum á Ítalíu og hann er mjög hátt skrifaður sem mannréttindi og sem réttindi sem eru jafnframt tryggð í stjórnarskrá. Þeir bera greinilega meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en við. Síðan segir að árið 1990 hafi ný lög verið sett um verkföll og að með þeim lögum verði að tryggja sérstakar starfsgreinar sem er litið á að séu einstaklega mikilvægar fyrir borgarana að séu starfandi. En síðan kemur setning sem er mjög víða þegar vitnað er til þessara landa: ,,Þessar takmarkanir eru ákveðnar í samningum`` þannig að samtök launafólks koma að því að ákveða hvaða takmarkanir þeim séu settar. Þetta er á Ítalíu. Það hefur hingað til ekki verið talið vera fyrirmyndarríki. Svona getum við rakið okkur áfram.

Næsta landið sem hér er vitnað í er Holland. Þar segir að það sé sami réttur opinberra starfsmanna til þess að gera verkföll og á almenna og opinbera markaðnum. Þar séu hins vegar sérstakar takmarkanir eða hömlur settar fyrir heilsugeirann ef við getum orðað það svo og þær takmarkanir eða þær hömlur snúist fyrst og fremst um fyrirvarann á verkfallsboðuninni. Síðan segir að í Hollandi hafi lögregla og slökkvilið ekki rétt til þess að fara í verkföll. Þetta er í samræmi við það sem hefur almennt verið viðurkennt að það megi gera almennar takmarkanir ef um sé að ræða mál sem snerta hagsmuni og öryggi ríkisins eða mjög ríka almannahagsmuni.

Um Austurríki segir: Hver sem er í Austurríki, hvort sem það er á opinbera eða almenna markaðnum, getur boðað verkfall, jafnvel herinn og lögreglan hafa boðað til verkfalla þar í landi. Reyndar er sagt hér að frekar fá verkföll hafi verið boðuð á þessu sviði en það sé mjög mikilvægt að hafa jafnan til staðar þann möguleika að boða til verkfalla og þá hótun að slíkt sé hægt ef þess er talin vera þörf.

Um verkfallsréttinn í Svíþjóð segir: Verkfallsréttur er til staðar án nokkurra sérstakra reglna þar um fyrir opinbera markaðinn í Svíþjóð. Sérstakar takmarkanir á verkfallsréttinum, sem komu niður á opinberum starfsmönnum, voru afnumdar árið 1976 í sérstökum lögum þar um. Síðan segir þar, sem er hinni íslensku ríkisstjórn svo mjög framandi: Þrátt fyrir þetta hafa aðilar vinnumarkaðarins gert samninga um takmarkanir eða hömlur á verkfallsréttinum eins og í tengslum við sérstaka hópa starfsfólks sem er nauðsynlegt að séu starfandi. Og enn er ítrekað: Slíkar takmarkanir eru alltaf ákveðnar af sjálfum aðilum vinnudeilunnar.

Um Bretland, sem hefur ekki hingað til talið vera fyrirmyndarríki launamannsins, segir að ekki sé almennt gerður neinn skilsmunur á milli almenna og opinbera markaðarins varðandi verkfallsboðun eða aðra löggjöf á vinnumarkaði. Samt hafa verið gerðar tilraunir af ríkisstjórn Íhaldsflokksins til þess að takmarka verkföll þegar um er að ræða mjög mikilvæga þjónustu. Síðan segir að þessar tilraunir ríkisstjórnarinnar stangist gegn mjög ríkri breskri hefð á þessu sviði.

Einu takmarkanirnar sem þeir virðast viðurkenna á verkfallsréttinum eru lögregla og herinn. Þeir hafi ekki rétt til að fara í verkföll.

Herra forseti. Það kemur óneitanlega upp í hugann við lestur þessara reglna og þess sem kemur fram í skýrslunni um það hvernig ástandið er í öðrum löndum í kringum okkur að það er eitthvað mjög sérstakt sem er að gerast á íslenska vinnumarkaðnum. Það er eitthvað öðruvísi sem er að gerast hér en mjög víða annars staðar. Það er allt önnur þróun þó að hæstv. ríkisstjórn reyni sí og æ að vísa til þess að það sé einvörðungu verið að gera það sem þegar hefur verið framkvæmt og talið sjálfsagt og viðurkennt úti í hinum stóra heimi. Það hefur mjög oft komið fram í umræðunni að það sé verið að nútímavæða vinnumarkaðinn, það sé verið að drösla gervallri verkalýðshreyfingunni inn í nútímann með góðu eða illu. En ég vil spyrja að lokum, herra forseti: Hvaða nútími er það sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að draga fólk inn í? Nútími hvaða landa er það sem hér er verið að taka upp? Ég tel reyndar að sú skýrsla sem ég las upp úr áðan sýni eins og svo margt annað fram á það að í þessu frv. birtist draugur fortíðar en ekki framtíðar og það hlýtur að vera krafa hverrar skynsamrar manneskju að frv. sé tekið út af borðinu. Það er illa samið, það er óvandað og það er andstætt hagsmunum launafólks.