Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 10:32:25 (5869)

1996-05-10 10:32:25# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[10:32]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til 2. umr., frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Annað frv. liggur einnig fyrir þinginu um þessar mundir, frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og þessum tveimur frumvörpum er það sameiginlegt að í þeim er á óvenjuósvífinn hátt ráðist að launafólki. Þau eru sérlega vel til þess fallin að auka á úlfúð og átök á vinnumarkaði. Þau eru flutt í óþökk og andstöðu við samtök launþega. Að heita má öll félög opinberra starfsmanna sem og stéttarfélög á almennum vinnumarkaði hafa lýst andúð sinni á þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnu sem þar birtist.

Aðeins samtök vinnuveitenda hafa klappað hæstv. fjmrh. á kollinn og sagt að þetta sé bara nokkuð gott svona til að byrja með og ríkisstjórnin virðist ekki þurfa frekari stuðning. Klappið frá atvinnurekendum er e.t.v. nóg uppörvun fyrir þá. Fyrir vini sína í VSÍ er hún reiðubúin að leggja til atlögu við kjör launafólks í landinu.

Hvernig skyldi standa á því að hæstv. ráðherrar láta etja sér á foraðið? Þetta eru þó annars fremur dagfarsprúðir menn. Sumir segja skýringu þá að á fjörur hæstv. ríkisstjórnar hafi rekið alla leið frá Nýja-Sjálandi frú Ruth Richardson, fyrrv. fjármálaráðherra þess ágæta lands, en henni hafði þar þá nýlega verið hafnað eftir að hafa nánast lagt velferðarkerfi þarlendra í rúst. Hingað kom frú þessi raunar í sérstöku boði ríkisstjórnar Íslands en þar á bæ eru menn eins og flestir vita sífellt á gægjum eftir bjargráðum á erfiðum tímum. Ruth þessi boðaði það helst að stjórnvöld eigi að fara fram með leiftursókn, hratt og ákveðið, forðast allt samráð og koma fram með margt í einu. Þetta féll í góðan jarðveg. Hugmyndirnar keyptu hæstv. ráðherrar okkar fjármála og félagsmála að því er rætnar tungur segja fyrir 30 þorskhausa, sumir segja reynar 36 þorskhausa svo að öllu sé til skila haldið. Því er hér borið fram hvort frv. af öðru á hinu háa Alþingi og fingraförin leyna sér ekki eins og glöggt má sjá á áðurnefndum frumvörpum. Eitt frv. til var að vísu í farvatninu. Það var frv. til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en jafnvel einlægustu aðdáendum nýsjálensku frúarinnar mun hafa ofboðið og verður það frv. því ekki lagt fram að sinni. Það er geymt en væntanlega ekki gleymt og mun verða lagt fram á næsta þingi að mati ýmissa sem vel þekkja til.

Hér er ekkert skeytt um þó um skerðingu á samningsbundnum réttindum sé að ræða og samningar séu bundnir til áramóta í flestum tilvikum, heldur virðist það tækifæri einmmitt hafa verið gripið. Verkalýðshreyfingin í landinu hefur mótmælt og krafist þess að frumvörpin verði tekin út af borðinu en lýsir sig reiðubúna til endurskoðunar á gildandi lögum í tengslum við kjarasamninga en meiri hluti Alþingi skellir við skollaeyrum og virðist ætla að keyra frumvörpin í gegn þó ákaft sé mótmælt, bæði af minni hlutanum á Alþingi og ekki síður af launafólki í landinu. Slíku og þvílíku þarf hæstv. ríkisstjórn ekki að hafa áhyggjur af. Hún hefur mikinn meiri hluta í löggjafarsamkundunni og hann ætlar hún að notfæra sér í málinu. En hæstv. ráðherrarnir skulu hafa það hugfast að samningarnir verða lausir um næstu áramót og þá mun verkalýðshreyfingin ætla sér háar stríðsskaðabætur vegna þess sem hér hefur gerst. Þá er óvíst að sú óvera, sem ríkið telur sig vera að spara, m.a. með því að skerða biðlaunaréttinn, dugi langt til að koma til móts við kröfur opinberra starfsmanna.

En kannski er ekki í sambandi við afnám biðlaunaréttarins sérstaklega verið að hugsa um sparnað á ríkisfjármunum. Líklegra er að hér sé verið að búa í haginn fyrir áframhaldandi einkavinavæðingu. Biðlaunaréttur opinberra starfsmanna er nefnilega til óþæginda við þær breytingar.

Hér hefur áður verið tíundað í umræðunni hver ávinningur í ríkisfjármálum hefur orðið af því að gefa útvöldum einkavinum SR-mjöl, Lyfjaverslun ríkisins og fleira. Þrátt fyrir erfiða tíma má þó enn finna stofnanir í ríkiseigu sem vinahópurinn hefur ágirnd á. Því þarf biðlaunarétturinn að hverfa.

Það hefur verið margtekið fram í umræðunni, m.a. bæði af hæstv. fjmrh. og hv. formanni efh.- og viðskn. að í frv. um réttindi og skyldur sé ekki um að ræða skerðingu á samningsbundnum réttindum opinberra starfsmanna. Að vísu má það til sanns vegar færa en hér er óneitanlega um að ræða réttindi sem samningar byggja á og hefur það á undanförnum árum --- ég var því sérstaklega kunnug á níunda áratugnum --- verið notað óspart af samningamönnum ríkisins þegar opinberir starfsmenn hafa verið að bera laun sín saman við almennan vinnumarkað að það væri eðlilegt að laun þeirra væru lægri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Þeir hefðu svo verðmæt réttindi, æviráðningu, biðlaunarétt, meiri veikindarétt, betri barnsburðarrétt o.s.frv. að ekki væri óeðlilegt að launamunur væri allt að 20%. En nú finnst þessum sömu yfirvöldum allt í einu í lagi að taka þessi verðmætu réttindi bótalaust af stéttinni á miðju samningstímabili. Hver skyldi vera skýringin á því? Og þar erum við kannski komin að kjarna málsins. Hvað er það sem hæstv. ríkisstjórn er svo dýrmætt að fyrir þær sakir er tilvinnandi að hefja ófrið við launþega og hafna öllu samráði og koma fram gagnvart launþegahreyfingunni í landinu af ófyrirleitni og hroka?

Undanfarin ár hefur verið ríkjandi í landinu svonefndur stöðugleiki í launa- og kjaramálum. Hann hefur náðst vegna langlundargeðs launþega sem hafa viljað trúa því að með svokölluðum þjóðarsáttarsamningum æ ofan í æ hafi þeir verið að styrkja atvinnulífið, efla fjárhag fyrirtækja og þannig verjast atvinnuleysi. Nú þegar sú staðreynd virðist blasa við að hagur fyrirtækja stendur almennt með blóma, fyrirtæki hafa lækkað skuldir sínar um um það bil 20 milljarða á meðan skuldir heimila í landinu hafa aukist um á annað hundrað milljarða og laun eru nú með því lægsta sem þekkist í Vestur-Evrópu, þá spyrja launþegar hvort ekki sé nú lag til að endurgreiða þeim fórnarkostnaðinn. Svar ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Opinberir starfsmenn skulu sviptir réttindum og kjör þeirra á þann veg skert. Almennum verkalýðsfélögum skal gert nánast ókleift að beita samtakamætti sínum til að bæta kjör félagsmanna sinna. Með þessum frumvörpum er hæstv. ríkisstjórn að ráðast á launþegahreyfinguna í landinu með óvenjuósvífnum hætti undir því yfirskyni að hún sé að marka nýja starfsmannastefnu, auka valddreifingu og sveigjanleika í starfsmannahaldi, einfalda launakerfi og meira að segja auka jafnrétti. Í nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er samið einhliða af embættismönnum ríkisvaldsins en stéttarfélög sem málið varðar fengu hvorki að koma að samningu frumvarpsins né var þeim gefinn kostur á að koma með ábendingar þegar frumvarpið var í vinnslu. Þetta er mjög ámælisvert þegar verið er að fjalla um atriði sem varða samskipti ríkisvalds og starfsmanna þess.

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru frá 1954 eða meira en 40 ára gömul. Því er ljóst, þótt nauðsyn sé á að endurskoða lögin, að það er vandmeðfarið verk sem útheimtir samvinnu þeirra aðila sem málið varðar. Þótt réttur löggjafans til lagasetningar sé ótvíræður hefur það ekki gerst áður að lagt sé fram frv. til laga sem kveði á um skipulag á opinberum vinnumarkaði og unnið án samráðs við stéttarfélög starfsmanna.``

Þetta er allt gert undir því yfirskyni að verið sé að koma á umbótum og efla nútímalega stjórnarhætti. Skyldu þær vera svona, hugmyndir hæstv. fjmrh. og félmrh. hæstv., gleymum honum nú ekki, um nútímalega stjórnunarhætti? Ég held að slíkt detti engum í hug. Aðferðir af þessu tagi eiga ekkert skylt við nútímalega stjórnunarhætti. Þær eiga ekki einu sinni neitt skylt við almenna mannasiði heldur er ríkisstjórnin með þessu frv. og ekki síður með frv. um stéttarfélög og vinnudeilur að ganga erinda vinnuveitenda gegn hagsmunum almennra launamanna eins og hún hefur ósleitilega gert með niðurskurði til heilbrigðis- og félagsmála og stigmögnun óréttlætis í skattkerfi. Svokölluð þjóðarsátt hefur verið notuð til að rýra kjör almennings í landinu. Á svokölluðu stöðugleikatímabili hefur ákveðinn hópur manna sölsað undir sig eignir í þeim mæli að farið er að tala um tvær þjóðir í landinu. Það er að verða til raunveruleg fátækt í þessu landi, fátækt í þeirri mynd sem við höfum ekki horfst í augu við í marga áratugi. Margnefndum frumvörpum ríkisstjórnarinnar er ætlað að gera almennum launamönnum erfiðara fyrir að verjast þessari árás.

Hvernig eru svo þessar nútímalegu hugmyndir sem ríkisstjórnin er að setja með lögum á ráðningarkjör opinberra starfsmanna? Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að ekki er lengur skylt að auglýsa öll störf í opinberri þjónustu, ekki svo kölluð minni háttar skrifstofustörf, sendilsstörf og ræstingarstörf eins og höfundar frv. orðuðu það þó að réttsýnir menn í efh.- og viðskn. hefðu bjargað því orðalagi fyrir horn, en meiningin er enn til staðar og getur nú að því er sýnist forstöðumaður stofnunar skilgreint sjálfur hvað þarf að auglýsa og hvað ekki. Ég verð að segja að skilningur minn á lýðræði hefur m.a. verið sá að það ætti að vera í lögum að ekki mætti ráða í nein störf utan tímabundnar afleysingar nema að undangenginni auglýsingu. Mér finnst þessi breyting ekki vera í lýðræðisátt og ekki bætir það úr skák að aðeins er gert ráð fyrir tveggja vikna umsóknarfresti um laust starf sem þó hefur verið auglýst, a.m.k. í því víðlesna blaði Lögbirtingablaðinu. Hér er með öðrum orðum verið að draga úr skyldum stjórnvalda til að auglýsa laus störf og hafa samkeppni um hver hlýtur þau. Í stað þess er valin leið sem býður upp á geðþóttaráðningar. Mér blöskrar sá hugsunarháttur sem hér liggur til grundvallar og ef hann er nútímalegur, má ég þá biðja um að fá að vera púkó áfram. Þegar fólk hefur verið heppið og fengið vinnu hjá ríkinu hver eiga þá ráðningarkjörin að verða ef frv. nær fram að ganga? Það verður ekki betur séð en ráðherrar fái sjálfdæmi um hvernig form og efni ráðningasamninga verður. Það er með öðrum orðum tekið út af samningaborði starfsmanna og vinnuveitenda og þyrfti að setja skýrari reglur sem tryggðu rétt stéttarfélaga og starfsmanna í þessum efnum.

[10:45]

Það hefur hingað til verið okkur ríkisstarfsmönnum huggun harmi gegn, þótt við höfum yfirleitt verið á lægri launum en fólk í sambærilegum störfum á almennum vinnumarkaði, að við höfum þó fengið laun samkvæmt lögum eða kjarasamningum. Launakerfið hefur verið tiltölulega gagnsætt og kjörorðið sömu laun fyrir sömu vinnu yfirleitt í heiðri haft. En nú bregður svo við að forstöðumaður getur einhliða ákveðið að starfskraftar eins séu verðmætari en annars og umbunað starfsmönnum eftir eigin geðþótta. Við þekkjum öll sem höfum unnið á stórum vinnustöðvum elskuvinafélagið. Það eru þeir sem alltaf eru að tala upp í eyrun á yfirmanninum, það sem þeir halda að honum þóknist best. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að úr þessum hópi verðir valdir þeir sem njóta þessara sérstöku launauppbóta. Ég verð að segja það sem mína skoðun að þeir sem vinna best og sjálfstæðast koma ekki ævinlega úr þessum hópi. En svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Það má fyrirvaralaust segja upp öllum yfirborgunum án þess að það teljist jafngilda uppsögn sem er nokkuð sem ekki tíðkast í almennum vinnurétti þar sem uppsögn vinnuveitenda á yfirborgun er almennt talin jafngilda riftun eða uppsögn á ráðningarsamningi í heild sinni.

Stefnan í frv. virðist vera að breyta þessari réttarstöðu og slíta yfirborgun úr samhengi við önnur ráðningarkjör. Ef starfsmaður segir hins vegar upp sjálfur vegna riftunar á yfirborgunarsamningi þá má hann sæta því að þurfa að bíða í 40 daga eftir að komast á atvinnuleysisbætur ef hann er ekki búinn að fá vinnu er uppsagnarfresti lýkur. Og enn á þetta eftir að verða nútímalegra. Tökum dæmi af starfsmanni sem hefur verið ráðinn við framhaldsskóla úti á landi og lofað launauppbót við ráðningu en er svo sviptur henni, við skulum segja eftir þriggja mánaða starf, vegna þess að fjárhagsáætlun skólans hefur verið gerð af of mikilli bjartsýni. Hann segir sjálfur upp og ætti samkvæmt orðanna hljóðan að hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest. En skólastjórnandinn telur að það geti valdið skólanum vandræðum að missa þennan ágæta kennara á miðjum vetri og þá er hann í fullum rétti til að ákveða að framlengja uppsagnarfrestinn um aðra þrjá mánuði. Hvað er hér á ferðinni í nafni nútímalegs hugsunarháttar? Erum við búin að taka aftur upp ákvæði um vistarbönd? Mér finnst þetta nú vera næsti bær við að gera fólk að niðursetningum. Og að við skulum vera að lögleiða slíkt á árinu 1996 tel ég algjörlega forkastanlegt. Það var í gömlu lögunum slíkt ákvæði ef horfði til auðnar í heilum stéttum. En ég hélt að inn í löggjöf nú á tímum ætti slíkt ákvæði sem hægt er að beita gegn einstaklingum ekkert erindi.

Gert er ráð fyrir að fyrirframgreiðsla launa verði afnumin, a.m.k. hjá þeim sem ráðnir verða eftir gildistöku laganna. Á þeim dögum þegar verðbólgan geisaði voru þessi réttindi okkur auðmjúkum þjónum ríkisins, sem að jafnaði vorum á launakjörum sem voru langt út úr myndinni, mikils virði og vonandi þurfum við ekki að upplifa slíka tíma aftur. En ef þeir skyldu renna upp þá er og verður fyrirframgreiðslan mikils virði. Það verður ekki annað séð en að ríkisstarfsmenn séu með þessari breytingu ekki aðeins sviptir hefðbundnum kjörum heldur settir lakar en launamenn almennt. En það á kannski að vera þeim huggun harmi gegn að áfram er gert ráð fyrir að þeir komist í orlof, þ.e. ef um semst við forstöðumanninn.

Þeir sem hefja störf eftir gildistöku þessara laga mega sæta því að heyra beint undir lög nr. 19/1979, um lágmarksrétt launafólks vegna sjúkdóms eða slysaforfalla og njóta greiðslna í fæðingarorlofi samkvæmt 15. til 16. gr. laga nr. 119/1993, eða ef um annað semst í kjarasamningum. Ekki er hægt að skilja annað af frv. Það hefur komið fram í umræðum sá skilningur að bráðabirgðaákvæði tryggi einnig rétt þeirra sem kunna að hefja störf eftir gildistöku laganna og mér finnst að það þurfi að taka þar af allan vafa ef það er meining höfunda laganna að þessi ákvæði nái til allra og líka þeirra sem hefja störf eftir gildistöku laganna.

Í núgildandi lögum er dálítið fornaldarlegt ákvæði um að starfsmenn skuli greiða tvöfalt fyrir hverja þá stund sem þeir eru fjarverandi án gildra forfalla og hefur oft verið bent á að þetta ákvæði væri gamaldags og ætti sér enga hliðstæðu á almennum vinnumarkaði. En í þessu nútímalega frv. sem hæstv. ríkisstjórn leggur svo mikila áherslu á að gera að lögum á einmitt að halda í þetta ákvæði. Þar eiga þó ríkisstarfsmenn enn að vera ofurlítið sér á báti og borga það dýrum dómum ef þeim skyldi nú t.d. einhvern tíma detta í hug að fara í setuverkföll.

Nokkrir hv. þm., meira að segja úr stjórnarandstöðu, hafa í þessum umræðum talað af nokkuð mikilli léttúð um skipun í starf eða æviráðningu og hefur mátt skilja það að þetta væri nú eitt af því sem væri púkó og þyrfti að afnema. Þeir hafa sumir hverjir gefið í skyn að ríkið sæti uppi með einhvern hóp af æviráðnu og óhæfu fólki sem stæði allri góðri þjónustu fyrir þrifum. Ég verð að segja að alla mína starfsævi hef ég verið opinber starfsmaður og ég hef aldrei orðið vitni að því að óhæfur maður fengi skipun í starf. Þvert á móti hefur verið mælt með skipun fyrir það fólk sem hefur staðið sig vel í starfi og stofnunin vill gjarnan halda í. En skipunin hefur þann kost í för með sér að hún ver fólk sem á annað borð vinnur störf sín vel gegn duttlungaákvörðunum yfirmanns sem starfsmaður fer í taugarnar á, t.d. vegna pólitískra skoðana eða félagsmálaþátttöku en slík tilvik eru þekkt, herra forseti. Skipunin hefur hins vegar aldrei varið fólk sem hefur brotið af sér í starfi enda á hún ekki að gera það. En samkvæmt þessum lögum getur forstöðumaður alltaf losað sig við starfsmann á þeim forsendum að hann sýni ekki fullnægjandi árangur í starfi og á slíkt er ekki hægt að leggja neina þekkta mælistiku. Og þar á ofan virðist málskotsréttur hafa verið takmarkaður mjög frá því sem nú er. Ég verð að segja að ég hefði haldið að nútímaleg lög um réttindi og skyldur ættu að auka starfsöryggi fólks en ekki að skerða það. En þar er ég auðvitað bara púkó eins og oftar. Nútímalegar hugmyndir snúast greinilega ekki um gagnkvæmt traust og starfsöryggi samkvæmt uppskriftinni frá Nýja-Sjálandi.

Aðalatriði þessa máls er að hér er verið að knýja í gegnum þingið frumvörp sem fela í sér skerðingu á réttindum sem kjarasamningar sem í gildi eru út árið byggja á. Svona vinnubrögð eru, hæstv. forseti, ekki sæmandi í lýðræðisþjóðfélagi. Það átti auðvitað að endurskoða lögin um réttindi og skyldur í samvinnu við stéttarfélög opinberra starfsmanna. Ekki bara fleygja í þau einhverjum frumvarpsdrögum og segja að þau gætu skoðað þetta og mættu kannski gera einhverjar athugasemdir. Frv. yrði lagt fram eftir nokkra daga. Auðvitað er það ekki hæstv. fjmrh. landsins sæmandi að koma þannig fram við sitt starfsfólk og samtök opinberra starfsmanna hlutu að bregðast harkalega við.

Hér í lokin ætla ég, með leyfi forseta, að lesa lokaorð úr umsögn Bandalags háskólamanna um þetta frv.:

,,Bandalag háskólamanna bendir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á eftirfarandi meginatriði varðandi þetta frumvarp um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins:

1. Samráð um endurskoðun laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefur ekki verið virt.

2. Frumvarpið miðar einhliða að því að skerða ráðningarréttindi starfsmanna ríkisins og samningsrétt stéttarfélaga þeirra án þess að bæta þá skerðingu með nokkrum hætti. Þvert á móti eru boðuð áform um enn meiri skerðingu á réttindum ríkisstarfsmanna með drögum að frumvarpi um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur.

3. Frumvarpið miðar að því að afnema ráðningarfestu og biðlaun ríkisstarfsmanna, þrátt fyrir að laun þeirra hafi um áratuga skeið verið þeim mun lakari til að greiða fyrir þessi og önnur réttindi starfsmanna.

4. Með frumvarpinu er gengið á mikilvæg grundvallarmannréttindi starfsmanna ríkisins sem bæði eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum samskiptum sem Ísland á aðild að.

4. Frumvarpið viðheldur flestum skyldum starfsmanna ríkisins umfram aðra launamenn og eykur þær í sumum tilvikum.

5. Með frumvarpinu er ýmist beint eða óbeint ýtt til hliðar ákvæðum stjórnsýsluréttar þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ríkisstarfsmönnum ekki tryggð sama vernd gegn misbeitingu valds og öðrum landsmönnum.

Bandalag háskólamanna telur að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis beri að hugleiða alvarlega afleiðingar af þessari aðför að réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins. Verði frumvarp þetta að lögum verða kjör almennt og sérstaklega réttindi ríkisstarfsmanna á Íslandi lakari en í allri Norður-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Það mun knýja suma hópa til þungra aðgerða en aðrir munu leita til annarra landa með dýrmæta sérþekkingu sína. Bandalag háskólamanna lítur á það sem skyldu sína að verja réttindi og kjör félagsmanna sinna með öllum tiltækum ráðum. Einskis verður látið ófreistað í baráttunni gegn þessum ólögum.``

Hingað til efh.- og viðskn. Alþingis hafa borist umsagnir frá öllum félögum opinberra starfsmanna allt í kringum landið, þessi stóri bunki hér og til viðbótar frá fjölmörgum félögum á almennum vinnumarkaði Þessar umsagnir eru nánast allar í þessa veru.

Þeir koma í haust, hét leikrit sem einu sinni var sýnt í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir. Ef þetta frv. verður að lögum á þessu þingi, sem allt lítur nú út fyrir, vona ég að hæstv. ríkisstjórn hafi það hugfast að Bandalag háskólamanna og öll hin félögin sem hafa skilað hliðstæðum umsögnum til efh.- og viðskn. vegna þessa frv. og lítið mark hefur verið tekið á til þessa koma í haust.