Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 13:58:03 (5878)

1996-05-10 13:58:03# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[13:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Útvarpslögin hafa verið í endurskoðun um langt skeið eins og kemur fram í samantekt sem birt er fremst í skýrslunni sem hér er til umræðu. Í þessari samantekt frá starfshópnum segir jafnframt að nauðsynlegt sé að móta útvarpslög af víðsýni eigi ákvæði þeirra að standast tímans tönn og taka mið af örum tæknibreytingum.

Það er greinilegt, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson rakti rækilega áðan, að hæstv. menntmrh. hefur ekki talið að víðsýni hafi einkennt störf þeirrar vinnunefndar sem fyrirrennari hans í embætti skipaði til að fjalla um sama mál. Hann hefur hunsað afrakstur þeirrar nefndar. Og ekki er víðsýnin mikil í Framsfl. að mati hæstv. ráðherra, en það kom reyndar fáum á óvart. Hann hefði þó mátt sýna þessum samstarfsmönnum sínum þá kurteisi að leyfa þeim að tilnefna svo sem einn fulltrúa í endurskoðunarnefndina. En það skiptir kannski ekki meginmáli í hvaða flokki það fólk er sem annast endurskoðun útvarpslaga ef unnið er af heilindum og tillit tekið til ólíkra sjónarmiða ef niðurstaðan er með þeim hætti að hægt er að taka mark á henni og ræða hana efnislega. Þessi skýrsla sem hér er til umræðu er því miður ekki með þeim hætti og ber þess greinilega merki að höfunda hennar hefur skort þá víðsýni sem þeir telja sjálfir að nauðsynlegt sé að hafa. Það væru hins vegar eðlileg vinnubrögð þegar ræða á og gera tillögur um starfsemi Ríkisútvarpsins að fulltrúar allra þeirra flokka sem eiga að taka ákvörðun um framtíð stofnunarinnar og setja lög þar um komi að vinnunni. En samráð og samvinna er nokkuð sem þessari ríkisstjórn er ekki tamt að sýna.

Þá er hjá starfsfólki Ríkisútvarpsins mikil þekking sem mér virðist ekki hafa verið nýtt heldur er leitað í smiðju Ríkisendurskoðunar sem vissulega er ágætt, en Ríkisendurskoðun býr þó varla yfir sambærilegri sérþekkingu á málefnum Ríkisútvarpsins og margir starfsmenn þess. Í plagginu er í orði kveðnu haldið í lögbundið hlutverk Ríkisútvarpsins og að stofnunin skuli leggja sérstaka rækt við innlenda dagskrárgerð. Í skýrslunni eru margar setningar um göfugt hlutverk ríkisfjölmiðils í þágu menningar og fræðslu. Um nauðsyn þess að flytja landsmönnum trúverðugar upplýsingar í formi frétta, hlutlausra gilda og viðmiða í umfjöllun sinni um atburði líðandi stundar eins og það er orðað.

En það dugir ekki að setja háleit markmið ef stofnuninni er síðan gert ókleift að ná þeim markmiðum. Þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni eru með þeim hætti að stofnunin mun ekki geta rækt hlutverk sitt ef eftir þeim er farið. Ríkisútvarpið mun ekki geta keppt á jafnréttisgrundvelli við aðrar útvarpsstöðvar þótt það sé eitt af yfirlýstum markmiðum. Hvernig má það gerast ef aðrar útvarpsstöðvar eiga að sitja einar að auglýsingamarkaðnum? Og það eiga þær að gera til að auka svigrúm þeirra til þess að stunda innlenda dagskrárgerð. Það er hins vegar engin trygging fyrir því að auglýsingatekjurnar skili sér með þeim hætti að þær verði ekki notaðar til kaupa á vinsælu erlendu afþreyingarefni. Það gengur ekki upp að skerða tekjustofna Ríkisútvarpsins verulega á sama tíma og óskað er eftir öflugri starfsemi og aukinni innlendri dagskrárgerð.

Nefskattur á alla Íslendinga sem náð hafa 16 ára aldri á að koma í stað afnotagjalda og tekna af auglýsingum samkvæmt skýrslunni. Nú nema þessar tekjur rétt tæpum tveimur milljörðum kr. á ári og eftir þeim upplýsingum sem við höfum eru það minni tekjur en t.d. Stöð 2 hefur til sinnar starfsemi eins og áðan kom fram.

[14:00]

Hinn möguleikinn sem er nefndur er að Alþingi ákveði árlega í fjárlögum hverjar tekjur Ríkisútvarpsins eigi að vera. Þetta hlýtur þó fyrst og fremst að vera spurning um hlutverk Ríkisútvarpsins og síðan hver tekjuþörfin er til þess að mögulegt verði að sinna hlutverkinu svo að vel megi fara. Höfundum skýrslunnar þykir nauðsynlegt að minna á Ríkisútvarpinu beri að tryggja að gjöld verði ekki hærri en áætlaðar tekjur og rekstur að jafnaði hallalaus. Til að svo megi verða má stofnunin ekki samkvæmt tillögum nefndarinnar skuldbinda sig um of fram í tímann sem er auðvitað illframkvæmanlegt. Í skýrslunni er hvatt til þess að stofnunin auki kaup á efni af sjálfstæðum framleiðendum en virðist þó ekki mega gera samninga við þá til langs tíma. Slíkar kvaðir eru ekki á einkareknum stöðvum.

Þá má einnig velta því fyrir sér hvort skýrsluhöfundar hafa farið yfir þá verktakasamninga sem hafa verið gerðir hjá Ríkisútvarpinu á undanförnum árum og séð hvort þar er í raun um ódýrari kost að ræða eða hvort sú vinna hafi skilað góðum árangri. Hver man ekki eftir krökkunum sem dregnir voru fram í tíð Hrafns Gunnlaugssonar og látnir stjórna umræðuþáttum sunnudag eftir sunnudag um þau málefni sem hæst bar hverju sinni. Þvílík hörmung. Ætli við hefðum ekki fengið meira fyrir aurinn þá ef fréttamenn Ríkisútvarpsins hefðu séð um þættina?

En það eru ekki allir nefndarmenn sammála í niðurstöðunni, t.d. um það hvort fella eigi út auglýsingaþáttinn í starfsemi stofnunarinnar. Í séráliti hv. þm. Tómasar Inga Olrich segir um gildi auglýsinga, með leyfi forseta:

,,Rétt er að taka nokkurt tillit til þeirrar staðreyndar að hér á landi er löng hefð fyrir auglýsingastarfsemi Ríkisútvarpsins sem hefur selt auglýsingar frá upphafi hljóðvarps- og sjónvarpsrekstrar. Í augum neytenda um allt land er auglýsingasala Ríkisútvarpsins því hluti af upplýsingaþjónustu við almenning sem löng hefð er fyrir.``

Þessa upplýsingaþjónustu sem neytendur og atvinnulífið hafa fengið og vissulega greitt fyrir að hluta með afnotagjöldum sínum á að afnema samkvæmt tillögum nefndarinnar að frátöldum þeim hv. þm. sem ég nefndi áðan. Það má spyrja hvort eðlilegt sé í ljósi samkeppninnar sem mikið dálæti er haft á í skýrslunni að þvinga einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila til að kaupa afnot af einkastöðvum þegar auglýsa þarf og hvort sú þvingun verði ekki til þess að draga verulega úr hlustun á Ríkisútvarpið og möguleikum þess til að koma öðru efni til skila. Fólk sem vill fylgjast með auglýsingum, sem eru eðlilegur þáttur í þjóðlífinu, verður þá í raun þvingað til þess að fylgjast með einkastöðvum á kostnað Ríkisútvarpsins.

Það eru ýmsar hliðar á þessu máli sem höfundar skýrslunnar hafa greinilega ekki velt fyrir sér þrátt fyrir yfirlýsta víðsýni sína og einstakt dálæti á mætti samkeppninnar. Afnám auglýsinga skal ekki ná til tilkynninga sem snerta öryggi landsmanna og þjóðarheill. En hvar á að draga þau mörk og hvernig á að tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt nauðsynlegu öryggishlutverki sínu ef þá að draga úr þeirri skyldu að senda til landsins alls? Nú skal þessi skylda vera að ná til sem flestra sem er afskaplega loðið og óljóst hlutverk. Hverjir eru það sem eiga að verða út undan? Eru það t.d. sjómenn? Það er einkennilegt að lesa þá fullyrðingu sem sett er fram í skýrslunni á bls. 72 að Ríkisútvarpið hafi ekkert öryggishlutverk umfram aðra ljósvakamiðla nema skólaútvörp og átaksútvörp, að Ríkisútvarpið hafi enga sérstöðu að þessu leyti.

Hugmyndir starfshópsins eru að samtengja alla ljósvakamiðlana og búa til eitt öryggiskerfi með því og væntanlega fá þá almannavarnir eða Veðurstofan eða aðrar öryggisstofnanir heimildir til þess að rjúfa útsendingar þeirra ef þurfa þykir. Slík samtenging útvarpsrása á hættutímum er vissulega kostur en ég fæ ekki séð hvernig þessi möguleiki á alfarið að koma í stað þess margþætta hlutverks á sviði öryggismála sem þróast hefur hjá Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu.

Það er mjög mikilvægt að velta fyrir sér hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er á tímum aukinnar samkeppni og velta því fyrir sér með hvaða hætti því hlutverki verður best sinnt og einnig og ekkert síður hvaða áhrif ríkisfjölmiðill getur haft á það hvernig aðrir fjölmiðlar meðhöndla efni sitt. Hæstv. ráðherra nefndi það hér að 960 þús. sem greidd hefðu verið fyrir skýrsluna væru ekki há upphæð. Það væri ekki bruðl með almannafé. Þá ætla ég að benda hæstv. ráðherra á það að Landssamtök áhugafólks um flogaveiki fá 400 þús. kr. styrk frá ríkinu, Styrktarfélag Parkinsonssjúklinga fær 200 þús. kr. á þessu ári, Alnæmissamtökin fá 500 þús. kr. á þessu ári og þótti ýmsum nóg um.