Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:34:27 (5882)

1996-05-10 14:34:27# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:34]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég get ekki annað en fagnað þeim meginhugmyndum sem fram koma í skýrslu nefndarinnar um breytingar á útvarpslögum og rekstri Ríkisútvarpsins. Ég fagna því einnig að það er samhljómur með þessari skýrslu sem við erum að ræða og skýrslu Ríkisendurskoðunar um Ríkisútvarpið, sérstaklega hvað varðar fjármögnun, innheimtu og dreifikerfi. Hins vegar sýnir þessi umræða og reyndar umræður undanfarandi ára hversu skammt við Íslendingar erum komnir í þróun fjölmiðla. Hún sýnir hversu tilhneigingin til afskipta af fjölmiðlum er mikil hjá okkur og hún sýnir líka hversu Ríkisútvarpið er fyrirferðarmikið á okkar fjölmiðlamarkaði.

Við þurfum að spyrja okkur þeirrar grundvallarspurningar: Á Alþingi og framkvæmdarvaldið yfir höfuð að vera að skipta sér af fjölmiðlunum? Ef við erum þeirrar skoðunar að það eigi að skipta sér af fjölmiðlunum, hver eiga þá þau afskipti að vera og hvernig á að fjármagna þau afskipti? Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi og framkvæmdarvaldið hafi hlutverki að gegna hvað varðar fjölmiðlana. Ég held að það hlutverk eigi að snúa að því að styðja innlenda fjölmiðla í samkeppni við erlent dagskrárefni, styðja innlenda dagskrárgerð sérstaklega fyrir sjónvarp því að þaðan kemur hin erlenda samkeppni. Þá er það spurningin: Hvernig ætlum við að fjármagna þessa starfsemi?

Mér sýnist á þeim tillögum sem fram hafa komið bæði frá Ríkisendurskoðun og þessari nefnd að nefskattur sé vænlegastur. Sú skýrsla sem hér er til umræðu sýnist mér leggja til grundvallar sem skipulag Ríkisútvarps á Íslandi það sem í gildi er í Bretlandi, það skipulag sem er hjá BBC. Það er rangt sem fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að það hafi ekkert gerst í útvarpsmálum á Bretlandi frá því að frú Margrét Thatcher kom þar til valda og Íhaldsflokkurinn. Þar hafa orðið gífurlega miklar breytingar, nýjar rásir frjálsra fjölmiðla, Channel 4, Sky News, kapalkerfi og mikill fjöldi útvarpsrása. Ég held hins vegar að þær breytingar sem þessi skýrsla boðar hefðu þurft að eiga sér stað fyrir svo sem fimm til sjö árum. Ef við á Alþingi ætlum að fylgjast með tækninni og fylgjast með þróuninni ættum við í dag að vera að ræða um það hvernig hið opinbera ætlaði að styrkja innlenda dagskrárgerð hjá frjálsum útvarps- og sjónvarpsstöðvum sem kepptu síðan sín á milli og nýttu sér þannig þá nýju tæknilegu möguleika sem margmiðlunin gefur í fjölmiðlaheiminum.