Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:48:43 (5886)

1996-05-10 14:48:43# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:48]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það vekur nokkra athygli að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. er ekki minnst einu orði á Ríkisútvarpið. Þrátt fyrir það hefur ekkert lát verið á skýrslum á undanförnum árum um Ríkisútvarpið. Ég kannast ekki við að nokkur einasta ríkisstofnun önnur sem megi búa við þvílík afskipti af sínum innri málum og Ríkisútvarpið. Við hljótum að spyrja: Hvernig stendur á þessu?

Mín skýring er sú að innan Sjálfstfl. er hópur sem sér miklum ofsjónum yfir styrk þessa fjölmiðils og er sífellt að reyna að finna leiðir til þess að sauma að Ríkisútvarpinu. Hvers vegna? Við hljótum að spyrja okkur að því. Er verið að gera breytingar á ríkisútvarpi og sjónvarpi á Norðurlöndunum eða á BBC eins og hér hefur verið orðað? Ég kannast ekki við það. Er kominn tími til að þessi ágæta og mikilvæga ríkisstofnun fái að taka sjálf á sínum innri málum eins og er reyndar verið að gera núna með ákveðinni úttekt sem þar á sér stað? Nei. Hæstv. menntmrh. vill breyta hlutverki Ríkisútvarpsins og þeim aðstæðum sem það býr við. Hér eru að baki einhverjar furðulegar hugmyndir. Ég hlýt að spyrja: Er Ríkisútvarpið svona mikið fyrir á markaðnum? Komast aðrar stöðvar ekki að? Væri ekki nær að þessar stöðvar, útvarp og sjónvarp, reyndu að standa sig í samkeppninni, reyndu að standa sig á markaðnum því að það gera þær alls ekki.

Það rifjast upp fyrir mér að fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson sem var menntmrh. á árunum 1985--1987 komst þannig að orði að sú fjölmiðlabylting sem þá væri í þann veginn að hefjast hefði nú leitt til þess að það væri verið að hella úr amerískum ruslatunnum yfir almenning hér á landi. Hafi þau ummæli átt við á þeim tíma, þá eiga þau ekki síður við nú því að ég verð að segja það sem mína skoðun að efni þessara stöðva er ekki til mikils sóma. En það er reyndar þeirra réttur að flytja það efni sem þær vilja svo lengi sem það er innan marka laga. Þá er ég ekki síst að hugsa um klám og ofbeldi sem ég fæ ekki betur séð en ríði þar húsum.

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla felur í sér tillögur sem munu takmarka möguleika Ríkisútvarpsins til að sinna sínu mikilvæga þjónustu-, menningar- og öryggishlutverki. Er einhver ástæða til þess? Hefur Ríkisútvarpið ekki sinnt þessu hlutverki? Minnast menn ekki mikilvægi þess t.d. í Vestmannaeyjagosinu eða þegar slysin áttu sér stað á Súðavík og Flateyri?

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er þess eðlis að það á að standa vörð um það. Ríkisútvarpið er einfaldlega besti fjölmiðillinn og það er það sem þessir aðilar virðast ekki geta sætt sig við.