Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:58:47 (5889)

1996-05-10 14:58:47# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:58]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka sérstaklega hv. þm. Árna Johnsen fyrir hans ræðu vegna þess að hann lýsti því yfir að allt sem er í skýrslunni og eru aðalatriðin þar væri heldur slæmt þannig að það er greinilegt að það er mikill ágreiningur um skýrsluna, ekki bara á milli stjórnarflokkanna heldur líka innan Sjálfstfl. Það vekur athygli að hv. þm. Hjálmar Jónsson sem lét sig þessi mál mjög skipta á síðasta kjörtímabili, hefur setið afar þögull í þessari umræðu.

Það sem vekur að öðru leyti athygli varðandi þessa skýrslu er í fyrsta lagi, og það er það alvarlega við hana, að hún tefur fyrir brýnum umræðum um Ríkisútvarpið. Það þurfa að fara fram umræður um Ríkisútvarpið. Það þarf að breyta útvarpslögum. Það þarf að skilgreina menningarlegar skyldur Ríkisútvarpsins mikið betur en gert er í lögunum eins og þau eru nú. Það þarf að skilgreina öryggisskyldur Ríkisútvarpsins. Það þarf að skilgreina skyldur Ríkisútvarpsins við dreifbýlið og við sjómenn á hafi úti svo dæmi séu nefnd. Ég óttast að skýrslan eins og hún er og tilkomin verði til þess að tefja fyrir þessum brýnu umræðum og það tel ég að sé megingalli hennar. Þess vegna er ég ósammála framsóknarmönnum um það að skýrslan geti orðið góður umræðugrundvöllur. Hún er ekki góður umræðugrundvöllur. Fyrst þarf að henda skýrslunni. Síðan á að hefja umræður.

[15:00]

Í öðru lagi tel ég það alvarlega við þessa skýrslu að hún hefur dreift spurningarmerkjum í kringum Ríkisútvarpið. Það hefur aldrei áður gerst að menntmrh., ekki einu sinni frá Sjálfstfl., hafi sett fram skýrslu sem setur spurningarmerki í kringum alla tilveru og stöðu Ríkisútvarpsins. Í skýrslunni eins og hún er er bara eitt sem Ríkisútvarpinu er ætlað. Það er að útvarpa jarðarfarartilkynningum. Að öðru leyti er greinilega ekki ætlunin að Ríkisútvarpið geri nokkurn skapaðan hlut. Það er mjög alvarlegt mál, hæstv. forseti, að yfirlýsing af þessu tagi, tortryggni af þessu tagi í garð Ríkisútvarpsins birtist frá hæstv. menntmrh. Það hefur enginn menntmrh. gert jafnlítið úr Ríkisútvarpinu og núv. hæstv. menntmrh. með þessari skýrslu.

Vandinn hefur auðvitað lengi verið sá að það hefur verið erfitt að treysta eðlilega sambúð Sjálfstfl. og Ríkisútvarpsins. Ég hef stundum orðað það að á undanförnum árum hafi verið allgóð sátt um Ríkisútvarpið með nær öllum pólitískum öflum í landinu nema hluta Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur því miður oft og tíðum verið aðalvandamál Ríkisútvarpsins og það virðist ætla að koma á daginn í þessu máli líka. Þess vegna segi ég það að lokum, hæstv. forseti, að það er úrslitamál að Alþingi Íslendinga þar sem meiri hlutinn er sammála í þessu máli taki þetta mál af menntmrh. og fari í að endurskoða útvarpslögin því að honum er greinilega ekki treystandi fyrir því fjöreggi menningarinnar sem Ríkisútvarpið á að vera.