Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:07:21 (5891)

1996-05-10 15:07:21# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Mér finnst hins vegar málshefjandi vera á einhverri annarri bylgjulengd en aðrir ræðumenn og tala um þetta mál á allt öðrum forsendum en allir aðrir sem hér hafa rætt þetta mál, algjörlega ómálefnalega og bara með útúrsnúninga og stóryrði sem hann getur ekki rökstutt með nokkrum hætti og endurtekur síðan sömu rulluna í síðara sinni sem sannar hvað hann hefur veikan málstað að verja. (Gripið fram í.) Ég svaraði því áður, lýsti afstöðu minni varðandi langbylgjusendana og fleiri atriði sem hv. þm. nefndi og þarf ekki að endurtaka það og er einkennilegt að hann skuli halda áfram þessum útúrsnúningi sínum um þetta mál. Engum skýrslum hefur verið ýtt til hliðar. Það hafa verið lögð fram sjónarmið í þessari skýrslu. Engu frv. hefur verið fleygt. Þeir sem hafa fleygt frumvörpum eru væntanlega þingmenn sjálfir ef þau hafa ekki verið afgreidd á þingi.

Allt frá 1987 hafa menn unnið að því að endurskoða útvarpslögin. Á ég að skilja hv. þm. og upphafsmann umræðunnar þannig að hann telji ekki brýnt að endurskoða útvarpslögin eins og aðrir sem hafa tekið til máls? Það hafa setið fjölmargar nefndir á vegum fjölmargra menntamálaráðherra, gert tillögur til Alþingis um breytingar á útvarpslögunum sem hafa ekki náð fram að ganga. Það þýðir ekki að þeim hugmyndum hafi öllum verið hafnað eða þeim tillögum hafi verið kastað á glæ. Þvert á móti held ég að það hafi sannast og sérstaklega í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að það er visst áhyggjuefni fyrir Ríkisútvarpið að lúta forsjá Alþingis þar sem menn sitja með jafnþröngsýn sjónarmið og hann hefur í þessu máli.

Ég hef hvað eftir annað hvatt til þess gagnvart útvarpinu að það komi með hugmyndir um það hvernig eigi að laga starfsemi þess að breyttum aðstæðum sem nú eru og allir eru sammála um að séu og Alþingi hefur margsinnis áréttað að það þurfi að breyta útvarpslögunum. Ég hef ekki fengið enn, en vona að það komi, tillögur frá Ríkisútvarpi um það hvernig á að laga starfsemi þess að breyttum aðstæðum. Áhyggjuefni mitt er það að umræður og málflutningur á borð við það sem Sighvatur Björgvinsson flutti verði hættulegast fyrir Ríkisútvarpið af því að menn hengi sig í einhverja hortitti í skýrslum eða smáatriði og sjái ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að starfsumhverfi Ríkisútvarpsins er gerbreytt og það þarf að laga stofnunina að þessu aðstæðum. Ef okkur tekst að gera það verður henni borgið. Ef við gerum ekkert, ef við bíðum og ræðum málin á þeim forsendum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði, þá jafngildir það því að mínu mati að við erum að leggja stein í götu framþróunar Ríkisútvarpsins. Við viljum ekki horfa á þær staðreyndir sem við blasa á þessu verksviði og tökum ekki á málum og leggjum ekki í þá ferð sem þarf að fara. Skynsamleg sjónarmið eru reifuð í þessari skýrslu, þar líta menn á þetta í þessu stærra samhengi, miklu stærra samhengi en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og benda á leiðir fram á veginn. Það er það sem við eigum að gera og það er skylda okkar sem stefnumótandi aðila í löggjöfinni um starfsemi Ríkisútvarpsins og ég vona að það takist á þessu kjörtímabili betur en tekist hefur á undanförnum kjörtímabilum allt frá 1987 þegar menn hófu fyrst að gera tilraunir til þess að endurskoða útvarpslögin og hrinda þeim í framkvæmd. Þegar hv. þm. Svavar Gestsson var menntmrh. held ég að frv. um breytingar á útvarpslögunum sem náði aldrei fram að ganga hafi verið lagt þrisvar fram. Það er full ástæða til að ræða þessi mál og reyna að lyfta sér upp úr því fari sem hér hefur verið en aldrei hefur tekist og tekst ekki ef málflutningur á borð við það sem hér hefur einkennt málflutning hv. þm. Sighvats Björgvinssonar á að ráða ferðinni. Það er vísasti vegurinn til þess að Ríkisútvarpið staðni og síðan verði sú stöðnun að afturför og enginn árangur náist.