Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:12:30 (5892)

1996-05-10 15:12:30# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Nú er hættan sú hvort maður muni hvar maður var staddur í ræðunni.

(Forseti (ÓE): Þá byrjum við bara upp á nýtt.)

Það var nefnilega það, hvort það sé ástæða til þess því að ég vitnaði einnig í mínu máli, virðulegi forseti, til ágæts manns sem við munum báðir eftir úr þinginu sem hafði þann hátt á að byrja alltaf á ræðum sínum að nýju ef nýr þingmaður rak inn höfuðið.

(Forseti (ÓE): Eigum við nokkuð að vera að því núna?)

Nei, ég held ekki. Ég held að við ættum ekkert að vera að því núna, en það væri afskaplega gott ef formaður efh.- og viðskn. væri mættur. Ég hafði að vísu í hótunum um það af því að ég veit að hann vill fylgjast mjög vel með öllum umræðum og hætta er á því að hann missi botninn úr ef hann heyrir ekki upphafið, að byrja aftur þegar hann kæmi, en ég sé að hann er mættur. Einhver hefur sennilega verið svo góður að segja honum frá því sem ég sagði á þessum fyrri klukkutíma sem ég talaði og vona þá að hann geti látið sér það nægja nema að sjálfsögðu ef hv. þm. skyldi biðja mig um það að flytja aftur fyrri helminginn, þá mundi ég gera það fyrir hann.

Virðulegi forseti. Ég var þar kominn máli mínu að ég var að ræða um það að eðlilegt væri að menn spyrðu sig að því hvaða máli ef einhverju það skipti fyrir laun almenns verkafólks og annarra launþega hvernig skipulag aðila vinnumarkaðarins væri, þ.e. hvort það væri með þessum hætti eða hinum. Ég skil ósköp vel að menn tengi það almennt ekki saman eða sjái í hendi sér að það kynni að hafa einhver áhrif á árangur launasamninga hvernig skipulagningu er fyrir komið þannig að menn eigi kannski ekki auðvelt með að sjá að það geti varðað beinlínis einhverju í kjörum hvort skipulagið væri svona eða á hinn veginn en það er einmitt svo og mig langar til að fara nokkrum orðum um það af hverju það er.

Þegar Alþýðusamband Íslands gerði þá samþykkt árið 1958 að breyta skipulagi sínu til nýs horfs var það ekki að ástæðulausu. Samþykktin sem gerð var var að skipulag Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar skyldi miða við að ganga út frá hverjum vinnustað sem grunneiningu og vinnustaðurinn myndaði þá félag starfsmanna sem þar ynnu. Síðan myndaði vinnustaðarfélagið landssamband með öðrum sambærilegum vinnustaðarfélögum í sömu atvinnugrein og viðkomandi landssamband sæi síðan um kjarasamninga á vinnumarkaði. Þannig yrði t.d. til landssamband allra þeirra sem störfuðu við fiskverkun og fiskvinnslu o.s.frv. og það landssamband, svo hægt sé að halda sér við það dæmi, sæi um kjarasamninga fyrir alla þá sem við fiskverkun og fiskvinnslu störfuðu.

[15:15]

Ástæðan fyrir því að tillaga var samþykkt um þessa skipan á þingi Alþýðusambands Íslands var sú að menn sáu þá hættu fyrir sér að ef þetta yrði ekki gert mundi verkalýðshreyfingin eiga mjög erfitt með að mynda sér það sem kallað er samræmd launamálastefna, þ.e. verkalýðshreyfingin mundi eiga ákaflega erfitt með að búa til stefnu þar sem ákveðið væri hvert launabilið ætti að vera á milli hinna einstöku stétta innan sömu atvinnugreinar. Þess vegna samþykktu menn þetta fyrirkomulag beinlínis í þeim tilgangi að verkalýðshreyfingin væri neydd til þess að mynda sér samræmda launamálastefnu því að samræmd launamálastefna þeirra sem kröfugerðina gera á vinnumarkaðnum er auðvitað grundvöllurinn fyrir því að það sé mörkuð einhver samræmd heildarlaunamálastefna í þjóðfélaginu. Þessir ágætu forustumenn Alþýðusambandsins árið 1958 sáu það fyrir sér að þetta yrði ekki gert nema með því móti, og við höldum við okkur við dæmið um fiskvinnsluna, að allir þeir sem ynnu t.d. í tilteknu frystihúsi, hvort heldur sem það væri fiskverkakonan sem stóð við að pakka, verkamaðurinn sem stóð í afgreiðslunni, skrifstofumaðurinn sem vann á skrifstofunni, vélstjórinn sem vann sem vélgæslumaður, löndunargengið sem vann við uppskipunina o.s.frv., væri í einu og sama félaginu. Þá mundi viðkomandi félag verða að taka ákvörðun um það við kjarasamningagerð hvaða laun hver og einn hópur ætti að hafa og hvert launabilið ætti að vera og yrði félagið að marka sínar kröfur þannig að launakerfið væri gagnsætt. Þetta var tilgangurinn með skipulagstillögunum sem samþykktar voru árið 1958 á þingi Alþýðusambands Íslands að reyna að mynda skipulag innan Alþýðusambandsins sem gerði það að verkum að svona samræmd heildarlaunastefna yrði mótuð. Það var svo að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að landssambönd viðkomandi atvinnugreina sæju um kjarasamningagerðina.

Því miður varð þetta ekki þróunin. Þróunin varð sú að stofnuð voru starfsgreinasambönd einstakra atvinnustétta, þ.e. sérstakt samband fyrir verkamenn og verkakonur og ófaglært verkafólk, sérstakt samband fyrir iðnaðarmenn, sérstakt samband fyrir verslunarmenn o.s.frv. Þetta gerði það að verkum að verkalýðshreyfingin gat aldrei mótað samræmda heildarlaunastefnu. Í staðinn fyrir að skipulag hennar væri sniðið þversum eins og lagkaka þannig að þeir sem kröfugerðina gerðu sæju lögin í kökunni, þ.e. hvað hver og einn hefði raunverulega í tekjur, þá var verkalýðshreyfingin byggð upp með eins konar þverskurði, þ.e. allir verkamenn saman, allir iðnaðarmenn saman, allir verslunarmenn saman o.s.frv. Og það lagði grundvöllinn að því að verkalýðshreyfingin hefur aldrei getað mótað sér samræmda launastefnu. Það veldur því líka að íslenska launakerfið er afskaplega ógagnstætt vegna þess að stór hluti kjarasamninganna gengur út á að ná kjarabótum sem ekki koma inn í taxtakaup og eru því ekki sambærilegar þegar menn reyna að bera saman kaup og kjör einstakra launastétta. Þetta hefur valdið því t.d. að dagvinnulaun í mörgum tilvikum eru stundum ekki nema um það bil 50% af raunverulegum launum sem fólk ber úr býtum og launamálakerfið er orðið svo flókið og erfitt að sjá í gegnum það og átta sig á því að menn gera sér ekki grein fyrir því hver er hinn raunverulegi launamunur í landinu sem er orðinn miklu meiri en menn vilja viðurkenna. Hann nær ekki bara inn í svokallaðar forréttindastéttir heldur margar launastéttir, og því meir sem þær hafa betri aðstöðu til að ná sínu fram, sótt kjarabætur sínar að miklu leyti í fomri slíkra greiðslna sem ekki koma fram í samanburði um kaup og kjör. Skipulag verkalýðshreyfingarinnar hefur því beinlínis áhrif á það með hvaða hætti launasamningar verða í landinu og hefur beinlínis áhrif á það á hverri stundu fyrir sig hvernig t.d. samspil hinna einstöku launahópa fer fram og hefur valdið því á Íslandi að launakerfið er afskaplega flókið og ógagnsætt og mjög erfitt fyrir einn starfshópinn að bera sig saman við annan og átta sig á mismuni sem er á starfskjörum þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar að það skipulag verkalýðshreyfingarinnar sem hún býr við í dag, þ.e. Alþýðusambandið er fyrst og fremst samtök landssambanda, hefur valdið þessu og hefði verið nær að fara að samþykktinni frá 1958 sem hefði orðið til þess að Alþýðusambandið og þar með þjóðfélagið hefði getað mótað sér samræmda heildarlaunastefnu. En þótt ég sé þeirrar skoðunar að Alþýðusambandið hafi ekki valið réttan kost í þessum efnum tel ég það ekki hlutverk mitt eða annarra hér á Alþingi að knýja slíka niðurstöðu fram með lögum. Við getum haft okkar skoðanir á því hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessum efnum, en þó að verkalýðshreyfingin, sem er frjáls félagasamtök eins og önnur frjáls félagasamtök í þessu landi, sé í skipulagmálum sínum ekki á réttri braut að okkar áliti, þá er það ekki okkar hlutverk að knýja þá á þá leið sem við teljum rétta með lögum. Það er okkar hlutverk að reyna að tala fyrir okkar máli, reyna að rökstyðja okkar mál, reyna að hafa áhrif á niðurstöðurnar ekki síst hjá hreyfingu eins og verkalýðshreyfingunni sem mörgum okkar er annt um. En það er ekki okkar hlutverk að skipa henni fyrir verkum.

Þess vegna er það sem ég legg áherslu á að margt, eða við skulum heldur segja sumt, í þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt á Alþingi sem varða réttindi launafólks er út af fyrir sig skynsamlegt. Og margt af því sem skynsamlegt er í þessum frumvörpum er ég sannfærður um að verkalýðshreyfingin sjálf hefði fallist á og meira að segja haft frumkvæði um að taka upp ef hún hefði fengið frið til þess. Til dæmis hefur skipulag verkalýðshreyfingarinnar, þótt það sé með þeim hætti sem ég hef lýst, ekki komið í veg fyrir að hægt sé að gera vinnustaðarsamninga á þeim vinnustöðum sem slíkt leyfa, eins og t.d. hjá Ísal, ríkisverksmiðjunum og víðar. Alþýðusambandið sjálft hefur því verið að laga til heima hjá sér til þess að geta náð þeim árangri sem bætt skipulag hefði auðveldað. En þó svo það sé sitthvað í þessum frumvörpum sem gæti horft til heilla, og ég er sannfærður um að verkalýðshreyfingin mundi vilja taka upp á sína arma ein og óstudd ef hún fengi frið til þess, þá lít ég svo á að það sé ekki heldur okkar hlutverk að leiða það í lög nema ósk um það komi frá stéttarsamtökunum sjálfum, nema menn telji að til þess að vernda þau réttindi sem þeir hafa náð samkomulagi um innan sinna vébanda og við viðsemjendur sína þurfi lagasetningu. Þá og aðeins þá eigum við alþingismenn að taka slíkum erindum en við eigum ekki að taka við þeim frá ríkisstjórninni þegar slíkum lausnum er pakkað inn í aðrar og látnar fylgja með öðrum sem við vitum að verkalýðshreyfingin öll er gersamlega andvíg. Og ég legg enn frekar áherslu á viðvörunarorð mín áðan. Þær aðgerðir sem nú er gripið til valda að vísu ekki því að það sem er til ráðstöfunar í buddunni hjá fólki skerðist á líðandi stundu. Og fólk segir kannski sem svo: Skiptir þetta þá nokkru máli? Er ekki miklu verra þegar ríkisstjórn grípur til aðgerða sem skerða kjörin heldur en þegar ríkisstjórn grípur til aðgerða af þessu tagi sem ekki mælast í buddunni okkar? Ég vara við slíkum hugsunarhætti vegna þess að þó að ríkisstjórn skerði kjör með tímabundnum aðgerðum eins og allar ríkisstjórnir hafa gert fyrr eða síðar, þá hefur einmitt skipulag verkalýðshreyfingarinnar og þeir möguleikar sem hún hefur haft til að bregaðst við valdið því að fólk hefur getað sótt aftur þá kjaraskerðingu sem hefur verið beitt, jafnvel eftir einhvern tíma. En nú er verið að snúa þessu við. Nú er verið að taka réttinn til viðbragða af fólki svo að kjaraskerðingin geti komið á eftir og menn hafa þá engin tæki til þess að taka á móti eða reyna að rétta sinn hlut. Þannig að sú aðgerð sem nú er verið að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart verkalýðshreyfingunni er miklu alvarlegri en þær aðgerðir sem ég og fleiri í öllum flokkum höfum gripið til einhvern tíma á okkar ferli og hafa kannski fækkað þeim krónum sem eftir hafa orðið í buddunni. Sú aðgerð sem nú er verið að grípa til er breyting á frambúðarskipulagi verkalýðshreyfingarinnar og frambúðarúrræðum hennar og það er engin tilviljun að félmrh. hefur lýst því yfir að hann viji fá þetta í gegn núna vegna þess að þessar breytingar verði að hafa átt sér stað áður en kjarasamningar renna út á komandi hausti. Og þetta eru svo grímulaus orð að menn hljóta að sjá hvað maðurinn á við.

Svo ég víki að því frv. sem hér liggur fyrir má e.t.v. segja að munurinn á frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem við ræðum nú og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem væntanlega verður á dagskrá síðar sé að í viðskiptum sínum við starfsmenn ríkisins er ríkisvaldið ekki bara að setja almennar leikreglur. Það er ekki bara að setja almennar leikreglur sem eiga að gilda um allt launafólk heldur er það líka í hlutverki vinnuveitandans sem er að tala við starfsfólk sitt. En sá munur er á þessum vinnuveitanda og öðrum vinnuveitendum að þessi vinnuveitandi, ríkið, hefur líka löggjafarvaldið í sínum höndum. Hæstv. ríkisstjórn ætlar nú að beita því löggjafarvaldi sem hún hefur, t.d. umfram Vinnuveitendasamband Íslands, til þess að takast á við starfsmenn sína án samkomulags. Og ég spyr: Hvað haldið þið að mundi gerast ef Vinnuveitendasambandið hefði í sínum höndum auk samningsréttarins löggjafarvaldið líka? Ef Vinnuveitendasambandið gæti sem atvinnurekandi sett lög á starfsfólk sitt, á viðsemjendur sína, til viðbótar þeirri aðstöðu sem Vinnuveitendasambandið hefur sem samningsaðili? Þið getið ímyndað ykkur hvað mundi geta gerst. Alþingi, eða réttara sagt ríkisvaldið, er mjög sérstakur vinnuveitandi sem hefur réttindi langt umfram nokkurn annan vinnuveitanda. Sú sérstaða er að þessi vinnuveitandi einn hefur löggjafarvald þannig að hann getur knúið fram vilja sinn gagnvart starfsmönnum sínum með lögum án þess að leita samráðs eða samninga. Og vegna þess að þessi vinnuveitandi, íslenska ríkið eða ríki hvar sem er, hefur þetta vald umfram alla aðra vinnuveitendur, ber ríkinu að hugsa sig tvisvar um áður en það grípur til þess úrræðis að beita slíku valdi gagnvart viðsemjendum sínum til viðbótar því valdi sem ríkið hefur sem samningsaðili við þá. Og það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til. Hún grípur ekki bara til þess valds sem hún hefur til að setja nýjar almennar leikreglur fyrir aðila vinnumarkaðarins, fyrst og fremst til takmörkunar á réttindum launafólks sem ná til allra. Ríkisstjórnin ætlar líka í krafti þingmeirihluta síns líka að nota sitt lagasetningarvald til þess að grípa til sérstakra aðgerða sem eiga að skerða réttindi starfsfólksins sem hjá þessum vinnuveitanda starfar og það án samráðs við starfsfólkið sem hjá þessum vinnuveitanda starfar. Þetta er munurinn á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að beita á almennum vinnumarkaði og þeim aðgerðum sem hún er að beita í þessu frv. Hér er ríkisstjórnin í hlutverki vinnuveitenda að nota lagasetningarvaldið til þess að taka réttindi af fólki sem vinnur fyrir þetta sama ríkisvald í störfum víðs vegar um landið. Þetta gerir ríkisstjórnin í andstöðu við samtök opinberra starfsmanna, í andstöðu við starfsfólk sitt sem á hátíðis- og tyllidögum er hrósað fyrir að vera mannauðurinn, mesta auðlegð íslenskrar þjóðar upp á framtíðina. Til þessara úrræða er gripið.

[15:30]

Það skiptir kannski ekki meginmáli, herra forseti, að deila um það hvort kjaraskerðingaráhrifin af þessum ráðstöfunum verði meiri eða minni, hvort þau séu prósentinu meiri eða minni. Það sem er mergurinn málsins er að þetta er ekki ráðstöfun sem gerð er í samningi, þetta er ekki ráðstöfun sem gengur yfir alla þjóðfélagsþegna jafnt eins og lög eiga að gera. Þetta er ráðstöfun sem eingöngu nær til þess fólks sem starfar á vinnustöðum ríkisins. Það eitt út fyrir sig er auðvitað stærsta gagnrýnisatriði okkar stjórnarandstæðinga. Hér er verið að nota lagavaldið sem ríkisstjórnin hefur í krafti þingmeirihluta síns til þess að ná fram kjaraskerðingu hjá starfsmönnum ríkisins sem er meiri kjaraskerðing en verið er að setja á almennt launafólk með almennum lögum frá Alþingi. Hvort kjaraskerðingin er prósentunni meiri eða minni er ekki aðalatriðið, ekki heldur hvort hún er meiri hjá þessum starfshópi en hinum, heldur sú aðferðafræði sem hér er beitt.

Ríkisstjórnin segir að það sé yfirlýstur tilgangur sinn með frv. að jafna réttarstöðu á vinnumarkaði. En er það gert? Það hefur verið að draga úr réttarstöðu opinberra starfsmanna eins og hæstv. fjmrh. rakti áðan um afnám æviráðningar í reynd. En á sama tíma hefur verið að aukast réttur starfsfólks á almennum vinnumarkaði, t.d. réttur um samning við vinnuveitanda sinn um starfslok og ýmis önnur réttindi sem þeir hafa sem ekki starfa í þágu hins opinbera. Er verið að jafna þetta? Er verið að færa opinberum starfsmönnum t.d. til jöfnunar einhver þau réttindi sem starfsfólk á almennum markaði hefur aflað sér í áranna rás? Nei. Það er ekki verið að því. Í hverju er jöfnunin þá fólgin? Hún er fólgin í skerðingu. Hún er bara fólgin í því að skerða það sem opinberir starfsmenn hafa haft og hafa í dag. Ég hef aldrei heyrt það kallað jöfnun. Ég mundi t.d., herra forseti, ekki kalla það jöfnun þótt, svo við tökum dæmi, einir 30 sm yrðu skornir af þeim sem hér stendur til þess að hann væri ekki hærri í loftinu en hv. þm. Ólafur Haraldsson. Ég kallaði það ekki aðgerð til jöfnunar. En það er einmitt það sem verið er að gera í tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Jöfnunin sem talað er um er fólgin í því að taka af réttindum opinberra starfsmanna án þess að heimila þeim að fá á móti þau réttindi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa veitt starfsfólki á þeim bæ.

Síðan er deilt um hvort ýmis réttindi sem opinberir starfsmenn hafi haft umfram t.d. þá sem eru á almennum vinnumarkaði hafi verið metin í launum og virðist vera að Sjálfstfl. undir forustu hæstv. fjmrh. haldi því fram að það sé ekkert samband þar á milli. Fyrr á þessu þingi lagði einn þingmaður Sjálfstfl., hv. þm. Pétur Blöndal, fram frv. á Alþingi þar sem lagt var til að lífeyrisréttindum alþingismanna yrði breytt og þau lífeyrisréttindi sem alþingismenn hafa yrðu sett svipuð og eru hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Og hvað sagði flm.? Flm. sagði að forsendan fyrir því að þetta væri gert væri það að laun alþingismanna yrðu hækkuð um allt að 40% vegna þess að þessi breyting á sérréttindum alþingismanna kallaði á það, til þess að gera þá jafnstæða gagnvart umhverfinu, að launin yrðu hækkuð. Og um hvað? Um allt að 40%, sagði hv. þm. Þetta var matið á þeim sérréttindum sem við höfum. Vissulega hafa opinberir starfsmenn réttindi á ýmsum sviðum umfram almenna launamenn og ef þau réttindi yrðu afnumin, hvernig geta menn þá haldið því fram að opinberir starfsmenn munu ekki gera þá sömu kröfu og hv. þm. gerði fyrir hönd sjálfs síns og okkar hinna þegar hann flutti þetta frv.? Að það yrði þá bætt upp í launum. Ég er kennarasonur og man ósköp vel eftir því þegar ég var að alast upp sem stráklingur að það þóttu mikil forréttindi á þeim tíma að geta gengið að öruggri atvinnu, þurfa ekki að lúta því sem t.d. sjómenn og verkafólk vestur á Ísafirði laut á þeim tíma að þurfa að ganga stóran hluta ársins atvinnulaust. Það þótti sjálfsagt og eðlilegt að kennarar sættu sig á þeim tíma við lág laun, miklu lægri laun en t.d. stéttir með sambærilega menntun á hinum almenna vinnumarkaði hlutu, bara vegna þess að það var svo mikið lagt upp úr örygginu. Það var svo mikið lagt upp úr örygginu þegar flestöll starfssvið í opinberri þjónustu voru stofnuð. Og þó svo að þjóðfélagið hafi breyst og atvinnuörðugleikarnir séu ekki lengur þeir sömu og áður var og atvinnuöryggi opinberra starfsmanna sé af þeim sökum ekki jafnmikilvægt og áður var hefur sá launagrunnur sem lagður var á þessum árum, þegar það var viðurkennt að það væru forréttindi á atvinnuleysistímum að vera í starfi hjá því opinbera, ekki verið leiðréttur. Það eimir því vissulega enn eftir af því að þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa en einkum þó höfðu umfram aðra og fólust ekki síst í öruggum lífeyrissréttindum, í atvinnuöryggi á erfiðum tímum, atvinnuleysistímum, voru og eru metin inn í kaup þeirra enn þann dag í dag. Það hefur aldrei verið leiðrétt.

Ég sá hjá hagfræðingi BSRB samanburð sem væri e.t.v. ástæða til að rekja hér. En það er víst ekki hægt, virðulegi forseti, því að Alþingi er ekki enn komið á það tæknilega svið að geta brugðið upp myndum eða öðru slíku sem þykir sjálfsagt á öllum öðrum fundum nú til dags en í þessari virðulegu stofnun. Ég sá ekki alls fyrir löngu niðurstöðu af athugun sem hagfræðingur BSRB kynnti á launakjörum í opinberri þjónustu og í nákvæmlega sambærilegum störfum úti á hinum frjálsa vinnumarkaði. Þar var um umtalsverðan launamun að ræða hjá öllum aðilum, mismunandi mikinn eftir starfssviði og menntun en yfirleitt mjög mikinn. Sá launamunur skýrist auðvitað af því að menn hafa talið opinbera starfsmenn hafa réttindi umfram aðra, hversu verðmæt sem þau réttindi eru í dag. Til allrar guðs lukku höfum við ekki upplifað atvinnuleysistíma líkt og þá sem ég kynntist í minni bernsku nokkuð lengi þannig að atvinnuöryggið sem starf veitir í opinberri þjónustu er ekki jafnverðmætt í dag og það var þá. Það getur vel verið að hæstv. ríkisstjórn takist að taka þessi réttindi af opinberum starfsmönnum þrátt fyrir mótmæli stéttarfélaganna. Halda menn þá að það verði látið eins og ekkert sé næst þegar samningar verða lausir og opinberir starfsmenn mæta á vettvang með kröfur sínar? Skyldi það nú ekki vera að bótakröfurnar yrðu hærri en fyrirhöfninni nemur fyrir hæstv. ríkisstjórn? Ég er alveg sannfærður um að ef opinberir starfsmenn horfast í augu við að það er verið að setja þá í sumum réttindum á sama bás og aðra í þessu þjóðfélagi, en á öðrum sviðum skör og jafnvel skörum lægra en aðrir launamenn búa við, þá eiga þeir ekki nema eitt svar eftir. Þá eiga þeir ekki eftir nema það svar að krefjast þess að þeim sé bætt þessi aðgerð í launum.

Virðulegi forseti. Þótt ástandið sé þannig í dag, sem ég vissulega harma, að fólk virðist ekki skilja félagslegar aðgerðir ríkisstjórna af því að það kemur ekki við pyngjuna, fólk virðist ekki skilja neitt nema það sem hefur áhrif á budduna og það strax, þó að svo sé og það kunni kannski að valda því að verkalýðshreyfingin eigi erfitt með að beita samtakamætti sínum þegar réttindi hennar til starfa eru skert, þá er ég ekkert hræddur um að verkalýðshreyfingin eigi eftir að lenda í erfiðleikum með að hvetja fólk fram á völlinn í haust þegar fólkið vill fá þessar réttindaskerðingar bættar í beinhörðum peningum. Þá öfunda ég ekki hæstv. ríkisstjórn og allra síst hæstv. fjmrh., sem nú er horfinn á braut, af þeim aðgerðum sem hann þarf þá að kunna að mæta. Ég vona að stjórnarliðar hafa enn heila hugsun í höfðinu, a.m.k. sá þm. Framsfl. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur haft þau orð um að hann væri með hjarta úr gulli og er nú farið að falla nokkuð á það gull. Ég trúi því ekki að þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki vit á því að sjá að við þessar aðstæður væri skynsamlegast hjá þeim að hverfa frá því að afgreiða þessi frumvörp á vorþingi, bæði skerðingarfrumvörpin, en bjóða þess í stað verkalýðshreyfingunni til viðræðna um þessi mál í sumar undir þeim formerkjum að menn gefi sér tíma til haustsins til þess að ná sameiginlegri lendingu. Eins og staðan er núna er ég er sannfærður um að verkalýðshreyfingin væri, þegar hún væri laus við vinnuveitendur af bakinu því að það eru þeir sem ráða ferðinni, reiðubúin til þess að gera skynsamlegt samkomulag við Alþingi um lagabreytingar sem tryggja að skipulag og starfshættir íslenskrar verkalýðshreyfingar gætu færst meira til nútíðarhorfs en gömlu lögin frá 1938 gera e.t.v. ráð fyrir.

Herra forseti. Það er margt sem ég á eftir ósagt. En ætli ég reyni þá ekki að koma aftur og ræða um það þegar lengra líður.