Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:50:09 (5896)

1996-05-10 15:50:09# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:50]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Það er aldeilis, virðulegi forseti, hvað opinberir starfsmenn eru allt í einu orðnir ríkir. Þeir eiga bara hvorki meira né minna en 3 millj. kr. inni hjá öðrum landsins þegnum. Það er ekkert smáræði. Þeir gætu e.t.v. fengið hjálp hv. þm. Péturs Blöndals til þess að innheimta svo maður tali nú ekki um að ávaxta allt þetta fé. Eitt er víst að ekki mundi hv. þm. Pétur Blöndal ávaxta það í hlutabréfum því hann hefur sjálfur sagt að ekki bæru þau háa vexti. Ekki mundi hann ávaxta það í ríkisskuldabréfum. Sjálfur hefur hann sagt að ríkið eigi ekki að skipa svona stóran sess á markðinum. Ekki mundi hann fara með það til útlanda því að hv. þm. er afskapflega þjóðhollur maður. Mér dettur ekki í hug hvar hann ætti að ávaxta þetta allt saman. En þeir sem hér eru geta gert sér góðar vonir. Þeir eiga að sögn þingmannsins 3 millj. góðar inni hjá hverjum einasta landsmanni öðrum og geta fengið hjálp hans til innheimtu og ávöxtunar. Það verður mikið að gera hjá hv. þm. Pétri Blöndal í framtíðinni, svo mikið að ég efast um að hann komist til þess að afgreiða vitlausa fjármagnstekjuskattinn sem hann er að fjalla um í hv. efh.- og viðskn.