Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:51:39 (5897)

1996-05-10 15:51:39# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þakkarvert að það kom fram hjá hv. þm. að það mun enginn opinber starfsmaður taka eftir því í buddunni þegar búið er að samþykkja þessi lög sem hér eru til umfjöllunar í frumvarpsformi. Það er nefnilega alveg laukrétt. Æviráðningin verður afnumin. Það gildir fyrir þá sem verða ráðnir nýir. Fólk sem hættir vegna þess að störf þeirra eru aflögð mun fá sín biðlaun. Breytingin verður í þá átt að fólk fær ekki samtímis full laun og biðlaun. Það mun enginn sem ætlar að taka fæðingarorlof eða veikindarétt missa nokkurs hlutar. En það gæti hins vegar verið, hv. þm., að það tæki einhver eftir þessu í buddunni vegna þess að það kæmi meira í hana, þegar búið er að opna heimild fyrir viðbótarlaun. Ég hygg þess vegna að þessi umræða leiði það betur og betur í ljós að sá hræðsluáróður sem búinn er að vera uppi á ekki við nein rök að styðjast. Þetta er nefnilega einmitt að hjálpa málinu og hjálpa ríkisstjórninni svo mikið og fylgi hennar er að aukast dag frá degi og fylgi við þetta mál er að aukast dag frá degi vegna þess að fólk er að sjá það að allur þessi málatilbúnaður er bara út í loftið.

Ég fagna því alveg sérstaklega að hv. þm. skuli draga það fram að það muni enginn missa nokkurn skapaðan hlut og þetta sé svona nánast spurningin um akademíska útreikninga eitthvað fram í tímann annars vegar og hins vegar spurning um hvernig menn ræða saman á vinnumarkaðinum milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins.