Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:53:50 (5898)

1996-05-10 15:53:50# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:53]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði að fólk yrði ekki vart við áhrifin á buddu þess á líðandi stund. Það verður enginn var við það að hann hafi misst biðlaunarétt fyrr en hann hefur verið rekinn. Það verður enginn var við það að hann hafi misst æviráðningu fyrr en honum hefur verið sagt upp. Þá verða menn varir við hvað þetta kostar. Það verður enginn var við í buddu sinni skerðingu á réttindum fyrr en til réttindanna þarf að grípa. Ég lagði einmitt áherslu á að fólk finnur ekki fyrir þeirri réttindaskerðingu sem á sér hér stað, í buddunni á líðandi stund. En það fær að finna fyrir henni í framtíðinni, bæði vegna réttindamissisins sjálfs og vegna þeirra takmarkana sem verið er að setja á frelsi samtaka launafólksins til að ganga erinda þess. Hv. þm. á að fara rétt með.

Hann, virðulegi forseti, mundi svo sannarlega finna fyrir því ef biðlaunaréttur alþingismanna yrði afnuminn fyrir næstu kosningar.