Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:31:07 (5902)

1996-05-10 18:31:07# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:31]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sinni ítarlegu ræðu spurði þingmaðurinn m.a. að því hvers vegna prestar væru komnir í þennan virðulega hóp embættismanna. Mig langaði til að fá að skýra aðeins fyrir honum að það á sér nokkuð sérstakar skýringar vegna þess að í þeim deilum sem BHMR gekk í gegnum á árunum 1987--1989 gerðist það að prestar komust að því að þeir voru í rauninni í óþolandi stöðu með sinn samningsrétt og verkfallsrétt. Í fyrsta lagi fannst þeim ekki tekið tillit til sinnar sérstöðu í kjarasamningum og í öðru lagi sáu þeir að í rauninni gátu þeir ekki notað verkfallsréttinn vegna þeirrar miklu sérstöðu og þeirrar þjónustu sem þeir veita fólki. Þess vegna varð það niðurstaða þeirra að fara þess á leit að komast undir þáverandi kjaradóm sem síðan var skipt upp í Kjaradóm og kjaranefnd.

Ég vildi fá að skýra þetta fyrir þingmanninum. En það er annað vandamál hér á ferð varðandi prestana vegna þess að í því lagafrv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir því að skipan embættismanna verði einungis til fimm ára. Og í bandorminum margnefnda er ein grein, þ.e. 24. gr., um veitingu prestakalla, breyting á lögum um veitingu prestakalla, þar sem gert er ráð fyrir því að embætti presta verði veitt til fimm ára.

Nú er það svo að formaður Prestafélagsins hefur skrifað hv. efh.- og viðskn. ítarlegt bréf þar sem hann bendir á að slík skipan sé í andstöðu við Ágsborgarjátninguna og kirkjuskipan Kristjáns III sem hefur verið við lýði í Skálholtsumdæmi frá árinu 1541, svo ég upplýsi hv. þm. um hinar sögulegu staðreyndir. Það er sem sagt álit Prestafélagsins að þetta komi ekki heim og saman. Annars vegar vilja þeir vera í hópi embættismanna en hins vegar kemur sú grundvallarregla sem þar er miðað við ekki heim og saman við köllun presta og þeirra skilning á sínu hlutverki og embætti.