Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:33:39 (5903)

1996-05-10 18:33:39# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:33]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að fara að níðast á prestastéttinni, hinni geistlegu stétt. Það stendur ekki til af minni hálfu að gera það. En ég á mjög erfitt með að sjá rökin fyrir því að prestarnir séu teknir sérstaklega út úr umfram t.d. heilbrigðisstéttir sem rækja vissulega mjög þýðingarmikil störf en njóta þó ákveðinna réttinda, m.a. varðandi verkfallsrétt þó að takmarkanir megi þar á setja eins og við þekkjum. Ég vek athygli á því að það kemur fyrir að messufall verður og menn lifa það jafnvel af. Það er ekki talin nein goðgá þótt það gerist stöku sinnum eða í sambandi við önnur þau vissulega þýðingarmiklu störf sem prestastéttin vinnur. En ég hef séð umsögn frá Prestafélagi Íslands um þetta efni og kynnt mér hana og ég tók eftir því að í henni var ákveðinn ótti við að lenda enn frekar undir biskupsvald, ef ég hef skilið umsögnina rétt. Það kunna auðvitað að vera í ljósi umræðu undanfarinna mánaða einhver sjónarmið þar uppi sem ég þekki ekki. Ég taldi bara ekki ljóst að prestastéttin fremur en ýmsir aðrir féllu með eðlilegum hætti undir meginskilgreiningu samkvæmt greinargerð frv. um æðstu stjórn ríkisins og öryggisgæslu.