Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:35:28 (5904)

1996-05-10 18:35:28# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ein af meginspurningunum sem við höfum verið að glíma við í þessari umræðu allri hvort slík skipting ríkisstarfsmanna í embættismenn og aðra eigi við einhver skynsamleg rök að styðjast. Það hefur einmitt verið gagnrýnt. En það sem ég er fyrst og fremst að vekja athygli þingmannsins á er að hvort sem litið er á störf presta eða stöðu kirkjunnar, þá er hún býsna sérstök. Og hún kemur ekki heim og saman við meginhugsun þessa frv.

Hv. þm. vék að því að það gerðist að það yrði messufall í ýmsum sóknum og af ýmsum orsökum. Ég get ekki annað en rifjað upp að því miður hafa samskipti ríkisins og ríkisstarfsmanna verið með þeim hætti að BHMR gekk í gegnum tvö verkföll 1987 og 1989, annað þeirra varði í þrjár vikur og hitt sex vikur. Það gefur auðvitað auga leið þjónusta sú sem prestar veita getur varla beðið þó að ýmislegt annað megi kannski bíða á meðan. Hið sama gildir auðvitað um ýmsar aðrar stéttir, en mergurinn málsins er sá að þetta var þeirra mat. Þeir fóru fram á það að komast undir Kjaradóm. Ríkisvaldið varð við þeim óskum og prestar hafa reyndar fengið nokkra leiðréttingu á sínum kjörum, einn þeirra hópa sem hafa verið nokkuð leiðréttir þótt betur megi gera. Og það er ástæðan fyrir því að m.a. prófessorar halda að þeir sæki gull í greipar kjaranefndar. En það á eftir að koma í ljós hvernig þau mál þróast.