Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:40:25 (5906)

1996-05-10 18:40:25# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Merkustu tíðindin í andsvari hæstv. fjmrh. varða, að ég tel, að hann dregur í raun frv. um sérlög, breytingu á sérlögum til baka. Það er ekki lengur uppi á borði. Það stendur ekki til að lögfesta það á þessu þingi, segir hæstv. ráðherra, sem þýðir að sú óvissa er uppi á meðan það hefur ekki verið lögfest að sá hópur sem fellur undir tölulið 10 í 22. gr., sem varðar flokkunina á milli embættismanna óbreyttra, er langtum stærri en markað er í þessum tveimur frumvörpum.

Varðandi framgangsmálið innan háskólans er það svo að stefnan er alveg skýr. En mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara skýrt um það hvort hann ætlaði að fylgja fram þeirri stefnu sem liggur í núverandi 22. gr. og 148. gr. frv. um sérkjör. Ætli hann ekki að fylgja því fram, er breytt staða uppi og þarf þá að taka tillit til þess. Einfaldast og eðlilegast er að sjálfsögðu að taka ekki mark á séróskum núverandi prófessora við Háskóla Íslands sem í rauninni hafa ekkert efnislega til síns máls annað en það að þeir búa við bág kjör út frá sanngirnissjónarmiðum litið.

Síðan kom þetta með OECD, einkaframtakið og umhverfismálin. Við þurfum alveg sérstaka umræðu í það, virðulegur forseti. Aðeins þetta: Frjáls viðskipti og þetta kerfi sem nú er innsiglað innan World Trade Organisation innan GATT-kerfisins sem við kölluðum svo, Alþjóðaviðskiptastofnunin heitir hún, er að bæta við vanda umhverfis jarðar í stórfelldum mæli. Það kerfi, ef það gengur eftir, mun gera út af við a.m.k. allt mannlíf á jörðinni ef það fær að mala áfram. Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ekki verið tekið undir kröfuna um það að taka umhverfismálin sérstaklega til umræðu hliðstætt því sem gerðist í Úrúgvæ-lotunni. Það er ekkert sem er í undirbúningi þar að lútandi. Það er vörudreifingin sem hefur forgang með þeirri mengun sem tilheyrir, með þeirri umhverfiseyðingu sem til heyrir.

(Forseti (GÁS): Forseti vill minna á að hér erum við í andsvörum en ekki almennum ræðuhöldum.)