Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:47:31 (5909)

1996-05-10 18:47:31# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:47]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég saknaði eins kafla úr ræðu hv. þm. Það var að rifja upp sex vikna verkfall BHMR árið 1989, þá samninga sem þá voru gerðir og afskipti hv. þm. af þeim samningum á löggjafarsamkomunni í framhaldi af því og þann lærdóm sem hv. þm. dró af þeim afskiptum.

Ég vil síðan rifja það upp með hv. þm. að á árinu 1992 stóð hann að mig minnir að lagasetningu um Kjaradóm og kjaranefnd þar sem biskup og prestar féllu undir Kjaradóm og kjaranefnd að eigin ósk. Að minnsta kosti var hann ekki á móti þeirri lagasetningu. Mig minnir að hann hafi greitt atkvæði með því á sínum tíma en spurning er hvort hann sé farinn að snúa baki við biskupi sínum.

Varðandi stjórnsýslureglurnar vegna uppsagnanna er farið eftir stjórnsýslulögunum og þau höfð til fyrirmyndar þar sem það á við eðli máls samkvæmt, þ.e. ef uppsögn á rætur að rekja til einhverra persónulegra ástæðna sem snerta viðkomandi starfsmann er að sjálfsögðu bæði andmælaréttur og málskotsréttur, en þar sem uppsögnin á rætur að rekja sem ekki snerta viðkomandi starfsmann persónulega, svo sem vegna hagræðingar, er eðli málsins samkvæmt ekki um málskotsrétt eða andmælarétt að ræða.

Það er rétt hjá hv. þm. að tekjur íslensku þjóðarinnar þurfa að sjálfsögðu að vera með því sem best gerist og þetta mál er því mikið framfaramál vegna þess að það gerir ríkiskerfi okkar hagkvæmara og öflugra þannig að það sé betur í stakk búið til þess að ná viðhlítandi árangri. Undir ræðu hv. þm., sem kom víða við, verð ég að viðurkenna það að ég lét mig dreyma um þá björtu framtíð sem við eigum í vændum ef við samþykkjum þetta og fleiri góð mál sem frá ríkisstjórninni koma þessa dagana.