Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:50:22 (5910)

1996-05-10 18:50:22# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var efnismikil ræða hjá hv. formanni efh.- og viðskn. og tekið á stórum málum. Mér sýnist hv. þm. vera á leiðinni að blanda sér í forsetakosningarnar, vildi upphefja eitthvað sem tengist þeim. Ég ætla ekki að fara út á þær brautir. Ég gæti alveg rifjað upp afskipti mín af þeim efnum sem hann vék að, verkfalli BHMR á sínum tíma og allt liggur það fyrir og er í mínu minni líka.

Varðandi kjaradóm 1992 vil ég ekki taka af um það efni. Ég sé ekki að það sé stórt mál í þessu samhengi sem við ræðum hér. Varðandi andmælaréttinn finnst mér ansi þröngur mælikvarði hafður uppi í frv. og skortir mjög mikið á að þar sé farið að eðlilegum leikreglum hvað hann snertir. Hitt er alveg dagljóst að réttur starfsmannsins til að halda starfinu, til þess að verjast hagræðingaraðgerum stjórnvalds, er ekki mikill og málskotsrétturinn kann að gilda í þrengstu merkingum þess orðs í vissum tilvikum.

Varðandi afleiðingar þessa frv. er ljóst að mat okkar hv. þm. Vilhjálms Egilssonar er mjög ólíkt á því. Ég ætlaðist ekki til þess að hann breytti sjónarmiðum sínum eða málflutningi róttækt vegna orða minna. Ég var ekki það bjartsýnn í þeim efnum en ég lít þessi mál talsvert öðrum augum en hv. þm. gerir.