Úrvinnsla úr skattskrám

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:07:31 (5914)

1996-05-13 15:07:31# 120. lþ. 136.1 fundur 301#B úrvinnsla úr skattskrám# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Um miðjan sl. mánuð fór fram utandagskrárumræða að frumkvæði hv. þm. Svavars Gestssonar vegna reglugerðar sem fjmrh. hafði gefið út sem takmarkaði mjög birtingu, útgáfu og meðferð upplýsinga úr álagningar- og skattskrám. Í umræðunni var ráðherrann krafinn svara um hvort reglugerðin yrði dregin til baka. Við þá umræðu upplýsti fjmrh. að hann ætlaði að láta starfsmenn ráðuneytisins, skattstjóraembættið og tölvunefnd skoða málið áður en hann tæki ákvörðun um hvort umrædd reglugerð yrði afnumin. Niðurstaða í þetta mál verður að fást áður en þing fer heim enda liggur frv. fyrir hv. Alþingi um þetta efni. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort ákvörðun liggi fyrir um hvort reglugerðin verði dregin til baka og einnig hvort ráðherra telji að það dugi til að tryggja eðlilegan aðgang að álagningar- og skattskrám að reglugerðin verði dregin til baka eða telur ráðherra að til þurfi að koma lagabreyting?