Lækkun húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:29:58 (5931)

1996-05-13 15:29:58# 120. lþ. 136.1 fundur 304#B lækkun húshitunarkostnaðar# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:29]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Varðandi þær spurningar sem núna komu um Landsvirkjun, þá er það stjórnar þess fyrirtækis að taka ákvörðun um það hvort fyrirtækið vilji nota þá fjármuni sem það hefur til þess að greiða niður orkuna. Eftir því hefur ekki verið óskað af hálfu iðnrn. En bein ósk frá iðnrn. kom bæði til Orkubús Vestfjarða og til Rafmagnsveitu ríkisins um að þetta skyldi gert og var orðið við þeirri ósk. Það er alveg rétt, og ég tek undir það, að það hefur ekkert mikið verið gert í þessum efnum. Það hefur þó verið reynt, þrátt fyrir hækkanir, að koma í veg fyrir að þær yrðu meiri en raun bar vitni.

Varðandi skipulag orkumálanna gerir maður sér vonir um að með aukinni hagkvæmni í dreifingu, vinnslu og flutningi orkunnar sé hægt að ná fram sparnaði sem eigi að geta skilað sér til neytenda. Stórir orkusamningar hafa verið gerðir og það hefur komið fram nokkuð glöggt við þessa umræðu varðandi stækkunarsamninginn um Ísal að gert er ráð fyrir því að um aldamót geti raunverð raforkunnar farið lækkandi um 3% á ári.