Lækkun húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:31:38 (5932)

1996-05-13 15:31:38# 120. lþ. 136.1 fundur 304#B lækkun húshitunarkostnaðar# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:31]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að ítreka að þessi svör eru mér mikil vonbrigði. Mér finnst að það sé ekki verið að vinna eins og ætti að gera að því að lækka orkukostnað heimilanna þar sem hann er hæstur. Það er út af fyrir sig ánægjulegt til þess að vita að það muni verða lækkun á raunkostnaði orkunnar um aldamót. En þá verður farið að ganga nokkuð á nýtt kjörtímabil þannig að það uppfyllir ekki þær væntingar sem við höfðum margir, við myndun þessarar ríkisstjórnar, um að það tækist að lækka orkukostnaðinn í landinu. Ég verð því að ítreka það til hæstv. iðnrh. sem ég veit að er maður sem vill taka á málum og ég ber fyllsta traust til hans, að hann geri gangskör að því að finna leiðir til þess sem fyrst að lækka orkukostnaðinn svo að um munar. Ég held nefnilega að bið til aldamóta geti orðið ýmsum býsna erfið og ekki síst þeim byggðum sem þurfa að búa við þetta háa og erfiða orkuverð.