Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:35:17 (5935)

1996-05-13 15:35:17# 120. lþ. 136.1 fundur 305#B skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá fyrirspyrjanda að það eru nokkar vikur síðan skýrsla um jafnréttismál eða uppkast að skýrslu um jafnréttismál kom í félmrn. frá Jafnréttisráði. Þessi skýrsla hefur verið þar til yfirferðar og það þurfti að gera á henni ofurlitlar breytingar, þ.e. fyrst og fremst málfarsbreytingar. Hún er farin úr félmrn. og komin til Alþingis. Ég hefði átt von á því að hún væri á borðum okkar í dag eða næstu daga. En hún er eftir því sem ég best veit farin úr ráðuneytinu og kemur til með að liggja fyrir innan örstutts tíma.

Hvað varðar starfsmatið, þá skilaði nefnd áliti um starfsmat, eins og hv. þm. er sjálfsagt kunnugt. Það mál var tekið til meðferðar í ríkisstjórn og við fengum, hæstv. fjmrh. og ég, umboð til þess að meðhöndla málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Bréf barst frá starfshópnum um starfsmatið. Því var svarað 2. apríl sl. þegar fram voru lagðar tillögur um framvindu tilraunaverkefnis um starfsmat. Bréfinu var svarað á föstudaginn var og í svarinu segir m.a.:

,,Ráðuneytið fellst á aðalatriði tillagnanna og mun í framhaldi af því ráða starfsmann í samráði við starfshópinn til að vinna við verkefnið. Jafnframt mun ráðuneytið leita eftir vinnuframlagi frá Reykjavíkurborg og Skrifstofu jafnréttismála.``

Málið er því í sæmilegum gangi og ég vonast eftir því að vinna við hið raunverulega starfsmat hefjist innan fárra vikna.