Sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:42:11 (5940)

1996-05-13 15:42:11# 120. lþ. 136.1 fundur 306#B sala hlutabréfa í Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:42]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort þessi fyrirspurn var eitthvað óvenjuleg. En það á a.m.k. ekki að vera óvenjulegt á Alþingi að menn óski eftir því að ráðamenn þjóðarinnar komi til dyranna eins og þeir eru klæddir og segi hvert raunverulega er stefnt. Nú vitum við að formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem starfar á vegum ríkisstjórnarinnar hefur sagt, með leyfi forseta:

,,Það er í mörgum tilvikum skynsamlegt að breyta rekstrarformi fyrirtækja fyrst og gera þau að góðri söluvöru áður en þau eru seld. Nokkur ár geta liðið þarna á milli. Menn eiga að hafa þetta í huga. Reynsla erlendra sérfræðinga er eindregið sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag sé ætlunin að selja það. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.``

Nú er þess skammt að bíða að við ræðum á Alþingi einkavæðingu Pósts og síma eða breytingu fyrirtækisins í hlutafélag. Hæstv. ráðherrar hafa þann hátt á við þessar umræður að þeir forða sér úr þingsalnum þegar málefni annarra ráðherra eru til umræðu. En það er mjög mikilvægt að við þekkjum hvert hugur hæstv. fjmrh. stendur í þessum efnum og reyndar ráðherranna allra og ríkisstjórnarinnar allrar svo að ekki sé hætta á því að menn séu að blekkja þjóðina með þeim skrefum sem verið er að stíga.