Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:49:38 (5946)

1996-05-13 15:49:38# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:49]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Við stjórnarandstæðingar ræðum nú af kappi um frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hvers vegna er vonandi öllum sem á hlusta ljóst. Ástæðan er bæði þau ótrúlegu vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð og hins vegar sjálft innihald tilvonandi laga.

Það er mjög athyglisvert að sitja á Alþingi þessa dagana og upplifa þá ókurteisi, skort á almennum mannasiðum og hroka sem vinnubrögð ríkisstjórnarinnar endurspegla. Ég sat á nefndarfundi í einni af starfsnefndum þingsins í fyrri viku þar sem aðstoðarmaður eins hæstv. ráðherrans sagði: ,,Það var að sjálfsögðu haft samráð við þá hagsmunaaðila sem málið varða. Það hafa átt sér stað margra mánaða samningaviðræður.`` Ég velti því fyrir mér hvort aðstoðarmaðurinn væri staddur á einhverri annarri plánetu, hvort hann áttaði sig ekki á því að sú sjálfsagða kurteisi að hafa samráð við viðkomandi aðila við lagabreytingar er ekki vinnuaðferð þessarar ríkisstjórnar, að minnsta kosti ekki ef hagsmunaaðilarnir eru launþegar þessa lands.

Hér er t.d. til meðferðar í þinginu frv. um framhaldsskólann þar sem samtök kennara voru gersamlega hunsuð við samningu þess. Við erum að ræða um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem fjmrh. sjálfur segist hafa haft samráð og útskýrir í ræðu sem hann flutti hér 19. mars með eftirfarandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hinn 23. ágúst sl. var nefndin um endurskoðun starfsmannastefnu ríkisins sett á laggirnar. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að endurskoða núgildandi lög, nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hinn 12. des. sl. var BSRB, BHMR og KÍ sent bréf þar sem m.a. var skýrt frá því að heildarendurskoðun á lögunum stæði fyrir dyrum og yrði henni hraðað. Jafnframt var óskað eftir hugmyndum frá samtökunum þremur að breytingum á lögunum. Svarbréf barst frá BSRB en ekki hinum samtökunum.

Hinn 6. febrúar sl. var samtökunum þremur kynnt meginmarkmið og meginefni þess frv. sem nú hefur verið lagt fram. Hinn 12. febr. sl. voru samtökunum send frumdrög að frv. eftir að þau höfðu verið kynnt ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna.`` Því miður, segir fjmrh., vildu samtökin ekki þiggja samráð eftir að frumvarpsdrögin höfðu verið lögð fram í ríkisstjórninn. --- Hvílík samráðstilboð. Krafa ríkisstarfsmanna er nefnilega alveg skýr, nefnilega að frv. verði vísað frá og ný endurskoðun eigi sér stað með aðild þeirra.

Sama samráðsleysið hefur einkennt vinnuna í kringum önnur umdeild mál sem hér eru til meðferðar og ber þar fyrst að nefna frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar var samráðsvinnan rofin í miðju kafi þannig að klippt var á samráð við öll verkalýðsfélögin í landinu. Nýjasta frv., sem er til meðferðar í allshn., er frv. til lögreglulaga og það er einnig brennt þessu marki. Nefnd var í gangi sem fékk ekki að ljúka störfum því að það lá svo mikið á að koma hálfköruðu, umdeildu frv. fram og inn í þingið.

Vissulega þekkjum við líka dæmi þess þar sem samráð hefur verið haft eins og í úthafsveiðinefndinni sem nú er rétt að ljúka störfum. Þar eru hagsmunaaðilarnir aðrir. Þar eru hagsmunaaðilarnir sjávarútvegurinn og þeir sem núna þykjast eiga fiskimið landsins.

Hvað er eiginlega að ríkisstjórninni? Nýlega var til umræðu á Alþingi frumvarp eða skýrsla menntmrh. um útvarpslögin og hún var búin til án samráðs við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, þ.e. Framsfl. Ég velti því fyrir mér hvort valdahroki sjálfstæðismanna og ríkisstjórnarinnar sé orðinn svo mikill að það er talið í lagi að hunsa allar reglur um manneskjuleg samskipti. Þetta eru hættumerki valdsins og vísbending um að nú sé nóg komið og að Sjálfstfl. þurfi að fá hvíld frá valdastólum. Þetta er valdahroki að mínu mati af verstu tegund.

Þessi framgangsmáti fær mig til að spyrja: Hvað gengur ríkisstjórninni eiginlega til? Hvers eiga launþegar að gjalda? Er ekki nóg að þessir launþegar búi við ein verstu kjör sem þekkjast í nágrannalöndunum, þ.e. mjög lág grunnlaun og allt of mikið yfirvinnuböl? Þarf einnig að sliga launþegana með því óöryggi og óvissu sem þessi framgangsmáti ríkisstjórnarinnar hefur valdið? Það liggur við byltingarástandi í þjóðfélaginu nú þegar allir eru sammála um að ytri aðstæður séu með skásta móti í langan tíma þrátt fyrir ríkisstjórnina.

Þetta frv. hefur verið sent út til fjölmargra aðila og það hefur þegar komið fram í umræðunni að aðeins einn umsagnaraðili er ánægður með frv., nefnilega Vinnuveitendasambandið. Vinnuveitendasambandið sem ásamt ríkinu borgar landsmönnum lúsarlaun, Vinnuveitendasambandið vill hrifsa æ meira til sín og vill nú herða ólina að launþegum þannig að möguleikar þeirra til baráttu og betri kjara verði skertir. Velflestar opinberar stofnanir eru í uppnámi, ef ekki út af þessu lagafrv., þá út af öðrum frv. sem hér eru til meðferðar og ég vil bara nefna nokkrar þessara stofnana. Ég get t.d. nefnt Ríkisútvarpið, alla grunnskóla landsins, alla framhaldsskóla landsins, Háskóla Íslands svo og aðra háskóla landsins, Póst og síma, ríkisbankana, lögregluna, sjávarútveginn í heild sinni, hvort sem litið er á smábátaeigendur eða ,,kvótaeigendur,`` Ríkisspítalana, heilsugæsluna, verkalýðshreyfinguna og svo mætti lengi telja. Við þessa upptalningu mætti að sjálfsögðu bæta kirkjunni en vandamál hennar verða varla skýrð með þessu frv. Fyrirhugar ríkisstjórnin kannski að koma af stað byltingu í þjóðfélaginu? Eða er hún kannski að gera eitthvað gott sem hagsmunaaðilarnir hanga bara á eins og fiskur á roði?

Þrátt fyrir efnislega gagnrýni mína á frv. svo og á annað það sem ríkisstjórnin er að gera skal fúslega viðurkennt að sumar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til eiga rétt á sér. Þær eru ekki allar alfarið vondar. En þær breytingar á hins vegar að semja um og vil ég þar t.d. nefna afnám æviráðningar.

Það sem er verst og hleypir illu blóði í allt og alla eru fyrst og síðast vinnubrögðin. Félagsmálafræðsluna í lagadeild Háskóla Íslands þarf e.t.v. að endurskoða til að þetta skáni, að minnsta kosti á meðan velflestir ráðherrar Sjálfstfl. eru lögfræðingar. Kannski þarf að koma fram með tillögu um fræðslu til ráðherra í mannlegum samskiptum. Eitthvað verður að gera. Þessi vinnubrögð, hæstv. forseti, eru að mínu mati ekki bjóðandi, hvorki Alþingi né vinnandi fólki í landinu.

Snúum okkur þá að efni frv. Það vantar ekki faguryrðin hjá hæstv. fjmrh. um tilgang þessa frv. Í ræðu sinni 19. mars sagði hann m.a. um markmið frv. og það hljómar allt mjög vel og ég ætla að gera honum það til tekna að lesa upp hvað hæstv. fjmrh. sagði: Markmiðið segir hann vera fjórþætt:

1. Að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

2. Að auka sjálfstæði en um leið ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana, og vald, bæti ég við.

3. Að gefa starfsfólki tækifæri til að vera umbunað eftir ábyrgð og hæfni í starfi.

4. Að færa ýmis ákvæði laganna frá árinu 1954 eins og um vinnutíma í nútímalegra horf.

Þetta hljómar kannski ekki allt mjög illa en þegar betur er að gáð er verið að gera ýmislegt annað og fleira. Það eitt að auka vald forstöðumanna á eftir, eins og ég kem að þegar ég ræði um 9. gr., að opna á geðþóttaákvarðanir varðandi laun og kjör.

[16:00]

Hvernig á að hvetja fólk til þess að gera betur í starfi sínu? Þar er nefnt sérstaklega að fólki verði boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma. Þar er vissulega gott mál á ferðinni en þetta er fyrir löngu orðið kjarasamningsatriði eins og ég bendi á nánar á eftir og lítið hefur miðað í þá átt að koma þessu á þrátt fyrir áratuga gömul markmið.

Þá er talað um að jafna réttindi ríkisstarfsmanna og annarra starfsmanna og þar er auðvitað fyrst og fremst farin sú leið að jafna réttindin niður á við. Það á að taka réttindi af ríkisstarfsmönnum til þess að þau jafnist á við starfsmenn hins almenna vinnumarkaðar þrátt fyrir að þessi réttindi hafi hingað til verið reiknuð inn í kjör og laun ríkisstarfsmanna. Ég kem nánar að þessu á eftir. Þetta á bæði við um fæðingarorlofið og fleiri atriði.

Þessi markmið og fyrirhugaðar leiðir til að ná þeim munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir réttarstöðu opinberra starfsmanna. Ég trúi þó ekki öðru jafnvel þótt þetta verði að lögum en að það verði tekið mið af því við gerð næstu kjarasamninga. En þó að svo verði gert er ég alls ekki sannfærð um að við Íslendingar viljum sjá það þjóðfélag sem ríkisstjórnin með Sjálfstfl. sem húsbónda og Framsfl. sem hjú eru að reyna að koma á, þjóðfélag þar sem þeim sterku er umbunað og þeim miður sterku er sturtað, samfélag þar sem þeir sem hafa valdið eru yfirmenn, geta drottnað yfir öðrum á duttlungafullan hátt.

Hæstv. fjmrh. viðurkennir að réttindi núverandi ríkisstarfsmanna verði ekki skert nema með samningum. En hvers eiga allir hinir að gjalda, þeir sem hafa ekki valdið, þeir sem eru ekki komnir í yfirmannsstöður, þeir sem ekki eru þegar komnir í stöðu hjá ríkinu? Er allt í lagi að láta þá, ungu kynslóðina, fá minna? Er ekki nóg komið varðandi álag á ungt fólk í þessu þjóðfélagi? Þetta unga fólk þarf nú að greiða námslánin sín að fullu. Unga fólkið þarf að greiða húsnæðislánin sín að fullu. Unga fólkið getur gert sér að góðu samkvæmt þessu frv. að fá skert biðlaun og óvissu og að öllum líkindum skert fæðingarorlof. Ég kem að þessu atriði nánar á eftir. Það er ekki alveg ljóst hvort þetta frv. þýðir skert fæðingarorlof en það er mjög mikil óvissa sem ríkir á því sviði.

Eiga ungu háskólakennararnir í Háskóla Íslands að gera sér að góðu að komast ekki upp í framgangskerfinu? Eru prófessorarnir ánægðir með að loka því af því að þeir sjálfir eru komnir í skjólið? Mér virðist eins og það sé fyrst og fremst ungt fólk og konur sem munu verða fyrir mestri kjaraskerðingu, þeir aðilar sem eru ekki við völd og eru því háðir duttlungum valdsherranna, hvort sem það er fjmrh. eða forstöðumenn ríkisstofnana en þar eru því miður of fáar konur.

Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá efnislegu gagnrýni sem hefur komið fram á frv. Ég ætla þó að grípa niður í upptalningu á helstu áhrifum frv. sem kemur fram í einni umsögn, þ.e. í umsögn Bandalags háskólamanna sem ég tel vera ákaflega vandaða umsögn. Ég mun koma að henni nokkrum sinnum, ekki síst vegna þess að Bandalag háskólamanna, BHMR, er annað af tveimur verkalýðsfélögum sem þetta frv. kemur helst við. En í þessari umsögn segir á bls. 5 frá helstu áhrifum á réttindi starfsmanna. Þeir vekja einnig athygli á því í umsögn sinni að frumvarpshöfundar sjá fyrir sér fimm tegundir starfsmanna ríkisins. Það er sem sagt í fyrsta lagi embættismenn með tímabundna skipun í fimm ár í senn. Í öðru lagi starfsmenn með réttarstöðu embættismanna ,,eftir því sem við á`` án þess að vera embættismenn. Í þriðja lagi er talað um almenna starfsmenn með ótímabundna ráðningu án flestra núgildandi réttinda. Í fjórða lagi verða það svo starfsmenn hlutafélaga í eigu ríkisins með óskilgreind réttindi og í fimmta lagi skipaðir starfsmenn samkvæmt bráðabirgðaákvæðum frv. með skert réttindi.

Um helstu áhrif frv. á þessa mismunandi hópa starfsmanna segir svo í umsögn Bandalags háskólamanna. Þá er það fyrst helstu áhrif á réttindi almennra starfsmanna. Starfsöryggi (ráðningarfesta) að mestu afnumið. Skipun sem ráðningarform er afnumin. Réttur nýrra starfsmanna til biðlauna er afnuminn. Réttur annarra starfsmanna til biðlauna skertur verulega. Réttur til forgangs að sama starfi ef stofnað aftur afnuminn. Réttur til fyrirframgreiddra launa er afnuminn. Réttur til yfirborgana skertur. Veikindaréttur settur í uppnám. Fæðingarorlofsréttur settur í uppnám. Réttur til maka- og lausnarlauna settur í uppnám.

Helstu áhrif á réttindi embættismanna. Starfsöryggi að mestu afnumið. Ótímabundin skipun sem ráðningarform afnumin. Kjör ákveðin utan kjarasamninga. Aðild að stéttarfélögum og þátttaka í starfi þeirra bönnuð. Réttur til biðlauna skertur verulega. Réttur til forgangs að sama starfi ef stofnað aftur er afnuminn. Réttur til yfirborgana er skertur.

Helstu áhrif á skyldur starfsmanna. Skylda að sæta framlengingu á uppsagnarfresti er aukin. Hverjum starfsmanni sett ný skylda: leiðbeiningarskylda. Skylt að hlíta breytingu á starfi og sæta kjaraskerðingu eftir uppsagnarfrest. Skylda starfsmanna að hlíta breytingum á starfi og þola skert starfskjör. Skylda embættismanns að hlíta flutningum á milli embætta. Skylda embættismanns að inna vinnuskyldu á bótatíma vegna stöðumissis. Sérstakar skyldur forstöðumanna vegna rekstrar og verkefna stofnunar.

Um þessa túlkun er víðtæk samstaða. Það má finna þessi atriði í mörgum þeirra umsagna sem okkur þingmönnum hafa borist um frv. og liggja hjá okkur í bunkum. Þrátt fyrir tilburði flutningsmanna og ekki síður hv. formanns efh.- og viðskn. sem heldur því öðru hverju fram í umræðunni að umræða um þetta mál og ræður okkar stjórnarandstæðinga hjálpi ríkisstjórninni. Ef sú fullyrðing er sönn er umhugsunarvert hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi. Virðir fólk ekki lengur almennar kurteisisreglur í mannlegum samskiptum eða vill þjóðin valdasjúka durta við stjórnvölinn sem troða á launþegum landsins, ekki síst ungu fólki og konum? Það getur vel verið að langar ræður séu fólki ekki að skapi. En því miður eru langar ræður eina vopnið sem stjórnarandstaðan hefur þegar réttlætiskennd hennar er misboðið. Það er von mín og trú að þjóðinni sé misboðið líka, jafnt opinberum starfsmönnum sem öðrum.

Það er ekki ætlun mín að fara í allar greinar þessa frv. en þó verð ég að vekja athygli á nokkrum greinum enda þótt fleiri hafi komið inn á þær í umræðunni. Þá vil ég fyrst nefna 9. gr. frv. en þar segir m.a., og ég styðst við textann í brtt. meiri hlutans:

,,Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum, öðrum en embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaunum, sem samið er um samkvæmt 1. mgr., vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þessum ákvörðunum má breyta hvenær sem er en sé breytingin starfsmanni í óhag tekur hún ekki gildi fyrr en að liðnum uppsagnarfresti þess starfsmanns sem hún varðar.``

Þarna er eins og ég sagði áðan verið að opna á gerræðislegar ákvarðanir forstöðumanna og maður veltir þess vegna fyrir sér: Er þetta þá kerfið sem hæstv. fjmrh. talaði um á síðasta vorþingi, þegar við ræddum um launajöfnun kynjanna, og einnig fyrr í vetur, að það ætti að koma á kerfi þar sem sporslurnar svokölluðu mundu hverfa, þar sem allt væri á yfirborðinu? Með þessu móti virðist vera ætlunin að lögfesta núverandi fyrirkomulag, en það er að mínu mati þveröfugt við það sem hæstv. fjmrh. hefur haldið fram og þveröfugt við kröfu okkar kvennalistakvenna sem við höfum sett fram m.a. í þeim tveim tillögum á Alþingi sem þingkona Kvennalistans, Kristín Halldórsdóttir, las upp í ræðu sinni um þetta mál fyrr í umræðunni. Ég mun því ekki endurtaka þá ræðu eða fara í þau þingskjöl hér en ég tel að það sé virkilega umhugsunarvert hvað ríkisstjórnin er að gera að þessu leyti. Við höfum lagt áherslu á að allt eigi að vera uppi á yfirborðinu, sýnilegt og einfalt. Að öðrum kosti þori ég að fullyrða að þessi 9. gr. mun enn auka launamuninn á milli karla og kvenna í þjóðfélaginu. Ég fullyrði þetta þrátt fyrir það að í greininni standi svart á hvítu í niðurlagi 9. gr.: ,,Ákvarðanir forstöðumanna skv. 2. mgr. skulu fara eftir reglum sem fjmrh. setur þar sem m.a. skal kveðið á um að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun.`` Ég vil segja þetta vegna þess að ég er sammála álitsgerð BHMR um þetta atriði en þar segir m.a.: ,,Alls ekki verður séð að heimildir til ráðherra og forstöðumanna til að yfirborga eftir reglum sem fjmrh. setur muni leiða til meira launajafnréttis milli kvenna og karla. Yfirborganir og hvers kyns aukagreiðslur eru í dag greiddar í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Heimildirnar eru fyrir hendi en ekkert virðist koma í veg fyrir að geðþótti, duttlungar og klíkuskapur ráði ferðinni. Virkur samningsréttur og virkir kjarasamningar sem báðir aðilar virða eru lykillinn að því að útrýma launamisrétti og láglaunastefnunni.``

[16:15]

Ráðherrann virðist sem sagt sjá hættuna á því að þessar yfirborganir fari í þennan hefðbundna farveg og setur þessa klausu inn. En hvers vegna skyldi hún virka frekar en jafnréttislögin hafa gert hingað til? Og hvernig er þessu ætlað að virka og hver á að hafa eftirlit með þessu, hæstv. fjmrh.? Að mínu mati er þessi aðferð alger sýndarmennska og ég vil í þessu sambandi minna á að nýlega bað Kristín Ástgeirsdóttir, hv. þingkona Kvennalistans, um upplýsingar um það hvaða athugasemdir voru gerðar af nefnd Sameinuðu þjóðanna við framkvæmd Íslendinga á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda voru kallaðir á fund hennar í janúar í New York. Þá kom fram margs konar brýning til stjórnvalda sem þeir ættu að taka til sín betur en þetta frv. bendir til. Ég vil aðeins nefna þrjú atriði sem þar voru nefnd, fyrst hæstv. fjmrh. situr hér og heyrir vonandi til mín.

Í fyrsta lagi hvetur nefndin íslensk stjórnvöld til þess að halda áfram skilgreindum aðgerðum sínum varðandi launajöfnuð kynjanna fyrir sambærileg störf og að stuðla að launajöfnuði á öllum sviðum atvinnulífs samkvæmt tilmælum nr. 13. Jafnframt fer nefndin fram á að í skýrslum sem sendar verða hér eftir verði upplýsingar um þetta atriði þegar fjallað er um niðurstöður yfirstandandi starfsmats. Á það legg ég mjög mikla áherslu þar sem starfsmat er nú að fara í gang að þetta verði haft í huga og að gerð verði grein fyrir þessum niðurstöðum í næstu skýrslugerð.

Í öðru lagi leggur nefndin til að aðgerðum verði hrint í framkvæmd svo fljótt sem verða má, t.d. með því að samþykktar verði skýrar starfsáætlanir er tryggi að konur verði tilnefndar í stöður þar sem ákvarðanir eru teknar og sem stuðli að því að þær gegni leiðandi hlutverkum á öllum sviðum atvinnulífs. Ég get ekki séð að ef það á að fara að búa til margs konar stéttir embættismanna og loka þar á milli að það verði konum til mikillar hvatningar.

Í þriðja lagi telur nefndin að ekki sé nægjanlegt að endurskoða lög um fæðingarorlof til þess að ná markmiðum um jafnara vægi fjölskylduábyrgðar milli karla og kvenna. Nefndin leggur því til að stjórnvöld grípi til annarra ráðstafana til þess að auka þátttöku karla í heimilisstörfum og umsjón barna og tillit sé tekið til eðlis launaðra starfa, bæði karla og kvenna innan og utan veggja heimilisins. Það verður ekki séð af þessu þar sem bæði virðist eiga að fara að skerða fæðingarorlof og ekki á að koma neitt sem bendir til að vinnutími verði sveigjanlegri þar sem það er þegar kjarasamningsatriði og virðist ekki hafa virkað. Það verður því ekki séð að hæstv. ríkisstjórn taki þessi tilmæli alvarlega og ég skora því á hann að endurskoða þessa 9. gr., bæði með tilliti til þessara duttlungafullu greiðslna sem eiga að verða í höndum forstöðumanna og ekki síst með tilliti til jafnréttis kynjanna.

Þá vil ég næst vekja athygli á 12. gr. frv. sem varðar veikindaforföll og fæðingarorlof. Þótt nokkuð sé deilt um túlkun á þessari grein virðist ljóst að bæði rétturinn til fæðingarorlofs og veikindaforfalla eru settir í uppnám. Fólk veit ekki nákvæmlega hver réttarstaðan er og það hefur skapað verulega óvissu.

Varðandi 12. gr. frv. ætla ég að taka mér það bessaleyfi, herra forseti, að vitna stuttlega í umsögn Félags háskólakennara um þá grein. Þar segir m.a.:

,,Í 12. gr. frv. er tekið fram að starfsmenn eigi rétt til launa í fæðingarorlofi, eftir því sem fyrir er mælt í lögum og eftir atvikum, ákveðið eða umsamið. Í athugasemdum við greinina segir að þetta muni þýða að réttindi þeirra fari með sama hætti og annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði og greiðslur í fæðingarorlofi fari því samkvæmt lögum um almannatryggingar. Hér er því um töluverðar breytingar að ræða. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að þeir sem falla undir núgildandi ákvæði haldi þeim réttindum uns laun í veikindaforföllum eða fæðingarorlofi hafa verið ákveðin eða um þau samið.``

Væntanlega er þarna verið að vísa til þeirrar endurskoðunar í lögunum um fæðingarorlof sem nú er í gangi. Það litla sem heyrst hefur af því starfi bendir ekki til þess að réttindi þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði muni batna, heldur virðist það vera ætlunin að jafna niður á við eins og það hefur verið kallað. Þessi grein boðar því mikla afturför. Opinberlega hefur því verið haldið fram af hálfu fulltrúa fjmrn. að ekki sé ætlunin að breyta núgildandi fyrirkomulagi um fæðingarorlof. Ef það er rétt er eðlilegra að segja það skýrt í lögum hver lágmarksrétturinn er og heimilt sé að semja um betri rétt. Óeðlilegt er að kveða á um það í bráðabirgðaákvæði að greinin gildi ekki. Á sama hátt þyrfti að mínu mati að taka á veikindaréttindum.

Af þessu tilefni hefur Kristín Ástgeirdóttir, þingkona Kvennalistans, lagt fram brtt. um þetta mál og hún mun gera grein fyrir henni sjálf í umræðunni síðar. Brtt. miðar að því að lágmarksrétti til fæðingarorlofs sé gefin lagastoð.

Í sambandi við fæðingarorlof vil ég einnig vekja athygli á því að fyrir þinginu eru nú til meðferðar tvær þingsályktunartillögur um fæðingarorlof sem þegar hafa verið sendar til umsagnar og til framfara horfa. Og það væri vissulega skemmtilegra eða viðkunnanlegra ef hægt væri að vera viss um að það væri á þeim nótum sem ríkisstjórnin er að hugsa fremur en á þeim að jafna niður á við. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að vitna fyrst í till. til þál. sem ég flutti ásamt öðrum þingkonum Kvennalistans á þskj. 307 fyrr í vetur, en þar segir m.a.:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að láta semja frumvarp til laga um fæðingarorlof sem byggist á eftirfarandi markmiðum:

Að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði.

Að tryggja ungbörnum umönnun beggja foreldra á fyrsta æviárinu með því að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði í áföngum.

Að gera foreldrum kleift að taka fæðingarorlofið á lengri tíma með hlutagreiðslum að eigin vali.

Að tryggja öllum mæðrum hvíldartíma fyrir fæðingu.

Að tryggja feðrum sérstakt fæðingarorlof í tvær vikur eftir fæðingu barns sem ekki skerðir fæðingarorlof móður.

Að fæðingarorlof verði lengra eftir fjölburafæðingu.

Að fæðingarorlof ættleiðandi foreldra, uppeldis- og fósturforeldra lengist í áföngum til jafns við fæðingarorlof annarra foreldra.

Að endurskoða fjármögnun fæðingarorlofs þannig að stofnaður verði sérstakur fæðingarorlofssjóður sem allir atvinnurekendur, jafnt í opinberum rekstri sem einkarekstri, greiði til ákveðið hlutfall af launum allra launþega, svokallað fæðingarorlofsgjald.`` --- Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að leggja vel við eyrun því að það gæti komið ríkinu mjög vel ef slíkur sjóður yrði stofnaður.

Að síðustu leggjum við til að markmiðið verði: ,,Að bæta kjör foreldra í fæðingarorlofi þannig að launþegar haldi sínum launum úr fæðingarorlofssjóði. Að auki greiði Tryggingastofnun ríkisins áfram fæðingarstyrk vegna þess kostnaðarauka sem fæðing barns hefur í för með sér. Þetta eigi við um fæðingar allra barna.``

Þetta eru skref fram á við. Ég hef lokið við að vitna í þessa þáltill. og ef við hefðum fæðingarorlofslög í þessum dúr væri það skref fram á við. En að skerða rétt til fæðingarorlofs nú yrði að mínu mati mjög alvarlegt mál. Það mundi annaðhvort hafa áhrif til hins verra á samskipti og tengsl foreldra og barna hjá þeim sem áfram eignast börn en jafnframt er ég hrædd um að skerðing á fæðingarorlofi mundi hreinlega hafa áhrif á viðkomu þjóðarinnar eins og gerst hefur bæði á Ítalíu og Frakklandi. Þar eru konur næstum því hættar að eignast börn.

Hin þáltill. sem ég vil líka nefna er flutt af Ögmundi Jónassyni og Steingrími J. Sigfússyni og fjallar um fæðingarorlof feðra. Þótt hún taki í raun og veru aðeins á einum þætti af þeim sem þáltill. okkar kvennalistakvenna gerir sýnir það að það skuli koma fram tvær þáltill. á þessu þingi um þessi mál að hér er um brýnt hagsmunamál ungs fólks í dag að ræða, mál sem verður að taka réttum tökum. Það má alls ekki skerða fæðingarorlof eins og mér virðist að ætlunin sé að gera með þessu frv.

Þá vil ég næst koma að 13. gr. frv. þó að ég hafi komið stuttlega að henni áðan. Hún fjallar um að fólki sé gert kleift að fá sveigjanlegan vinnutíma. Orðrétt:

,,Starfsmenn eiga rétt á sveigjanlegum vinnutíma samkvæmt ákvörðun forstöðumanns stofnunar enda verði slíku við komið að skaðlausu.`` Það er kannski þess vegna sem ekkert hefur gerst í vissum málum. Eða mjög lítið. Að minnsta kosti vil ég taka undir það sem Bandalag háskólamanna segir í umsögn sinni um þetta mál. Það er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að starfsmenn eigi rétt á sveigjanlegum vinnutíma verði því við komið en hliðstætt ívilnandi ákvæði er í 25. gr. gildandi laga fyrir konur og heilsuveila. Fyrir um 20 árum var ákveðið að færa á svið kjarasamninga ákvæði varðandi vinnutíma starfsmanna og má því segja að 25. gr. hafi í raun dagað uppi og 13. gr. frv. sýni fortíðaráráttu höfundanna á sama hátt og t.d. 11. gr.``

[16:30]

Ég vil í þessu sambandi taka undir þetta en vil benda á að í framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er talað um að það sé stefnan að í sem flestum ríkisstofnunum komist á sveigjanlegur vinnutími. Og ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að ég lagði fram skriflega fyrirspurn um þetta atriði fyrir nokkrum mánuðum og það er ekki enn komið svar. Ég velti því fyrir mér hvers vegna ekki er enn komið svar. Er ekkert að gerast í þessum málum? Er það þess vegna sem ráðherrann telur nauðsynlegt að setja ákvæði um þetta í lög? Kannski er það svo. Ég vil endilega gefa honum tækifæri hér á eftir til að svara því hvað þarna er á ferðinni.

Hæstv. forseti. Ég vil þá halda áfram að gera grein fyrir einstökum greinum þessa frv. og athugasemdum mínum við þær. Er ég þá komin að 22. gr. frv. sem fjallar um embættismenn. Ég vek um leið athygli á því að það eru mjög margir sem hafa gert þessa grein að umtalsefni í umræðunni. Í þessari grein er talið upp hverjir verða embættismenn og hverjir ekki. Af því að ég vil að ræða mín verði sem styst af tillitssemi við þingheim og þjóðina ætla ég ekki að lesa upp alla greinina. Ég vek aðeins athygli á henni af því að upptalningin varðar þá starfsmenn sem örugglega eiga að verða embættismenn. Það er einkum tíundi liðurinn sem mesti styrinn stendur um eins og er. Þar segir að þeir aðrir verði embættismenn sem skipaðir eru í störf samkvæmt öðrum lögum, svo og þeir er gegna störfum sem öldungis verður jafnað til embætta þeirra manna sem getið er í 1.--9. tölulið.

Ég vitna hér í brtt. meiri hlutans þar sem út hafa verið tekin orðin ,,þeir sem skipaðir eru í störf af forseta Íslands``. Þessi grein eins og hún hljómar nú samkvæmt brtt. meiri hlutans er mjög óljós. Ég vil sérstaklega gera hér að umtalsefni hvernig þessi óvissa snýr að Háskóla Íslands eins og fleiri hafa gert í þessari umræðu og reyndar háskólunum yfirleitt. Ég vil nefna Háskóla Íslands sérstaklega vegna þess að hann er stærsta menningarstofnun þjóðarinnar og jafnframt einn stærsti vinnustaður landsins. Hann er því að mínu mati enginn venjulegur vinnustaður. Það að háskólinn skuli vera klofinn í herðar niður út af einni grein í frv. er í raun og veru mjög athyglisvert og mjög alvarlegt. Mér sýnist að í uppsiglingu séu núna meiri háttar átök sem á ekki að sæma stofnun af þessu tagi. Stofnun sem fyrir einum til tveimur mánuðum kom fram með þá yfirlýsingu að hún vildi gerast sjálfseignarstofnun, þ.e. stofnun sem vill vera sem óháðust ríkisvaldinu.

Hér í umræðunni hefur verið vitnað í ýmis bréf sem hafa borist í hendur okkar alþingismanna síðustu daga. Ég ætla að leyfa mér að endurtaka eitthvað af efni þeirra bréfa því þarna er um mjög athyglisverða atburðarás að ræða sem lýsir kannski vel þeim vanda sem þetta frv. kallar á í ýmsum stofnunum þjóðfélagsins. Ég vil í fyrsta lagi nefna bréf það sem kannski allt írafárið varð út af en það er bréf sem stílað var á Björn Bjarnason menntmrh., dags. 28. mars 1996, og er frá Sveinbirni Björnssyni rektor. Þar er vísað til fundar háskólaráðs þar sem lagt var fram bréf frá prófessor Guðmundi Magnússyni, formanni Prófessorafélags Íslands við Háskóla Íslands. Hann greinir þar frá fundi í félaginu þann 25. mars þar sem þetta prófessorafélag óskar eftir því að prófessorar teljist embættismenn og verði taldir upp í þessu frv. sem slíkir. Rektor segir: ,,Þessari bókun er hér með komið á framfæri við menntmrh. með von um stuðning við þennan vilja háskólaráðs.``

Þann 6. maí barst hins vegar bréf frá Félagi háskólakennara. Tilefnið er þetta umdeilda frv. Ég ætla að leyfa mér að lesa það bréf svo til í heild sinni því það skýrir stöðu málsins að verulegu leyti, með leyfi hæstv. forseta:

,,Verði frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ásamt frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem fylgir því óbreytt að lögum mun framgangskerfi háskólakennara verða lagt í rúst. En slík einhliða breyting á lögum háskólans mun hafa víðtæk áhrif á kjör háskólakennara til hins verra en fullyrt hefur verið að ný lög eigi eftir að breyta kjörum ríkisstarfsmanna.

Í lögum um Háskóla Íslands eru ákvæði þess efnis að lektor með þriggja ára starfsreynslu geti fengið framgang í stöðu dósents hafi hann til þess hæfi að áliti dómnefndar og að dósent með fimm ára starfsreynslu geti fengið framgang í embætti prófessors hafi hann til þess hæfi að áliti dómnefndar.

Nú er gert ráð fyrir að prófessorar verði embættismenn í skilningi áðurnefnds frv. og jafnframt að dósent geti ekki fengið framgang til embættis prófessors sbr. 147.--148. gr. fyrrnefnds fylgifrv. Félag háskólakennara er stéttarfélag allra kennara við Háskóla Íslands og annarra háskólamenntaðra starfsmanna Háskóla Íslands og stofnana hans og stjórn þess mótmælir því að framgangskerfið verði eyðilagt. Stjórnin telur að eyðilegging þess valdi háskólanum ómældum erfiðleikum og mótmælir því harkalega að þessi réttindi séu tekin af félagsmönnum.

Sérstaklega finnst stjórninni ámælisvert að framgangskerfi háskólakennara verði eyðilagt með einu pennastriki án þess að nokkur umræða hafi farið fram um framtíð þess innan háskólans eða utan. Frumvarpið, ef að lögum verður, sviptir starfsmenn ríkisins víðtækum réttindum bótalaust. Auk þess koma ofangreindar breytingar sem viðbótarskerðing á félagsmenn Félags háskólakennara. Stjórn Félags háskólakennara skorar á ríkisstjórnina að draga fyrrnefnd frumvörp til baka og ef hún gerir það ekki skorar stjórnin á hv. alþingismenn að greiða atkvæði gegn því að þau verði að lögum.``

Þarna virðist vera átt við frumvarpstextann eins og hljómaði í upphafi þar sem skýrt kemur fram að það eru fyrst og fremst forsetaskipaðir starfsmenn ríkisins sem áttu að vera embættismenn en það kemur ekki að sök vegna þess að það er einnig vitnað í fylgifrv. þar sem skýrt kemur fram að framgangur milli dósents og prófessors verði ekki heimilaður.

En sagan er ekki búin og það er ekki síður næsta bréf sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Það barst menntmrh. þann 8. maí 1996. Það bréf undirritar 41 kona sem vinna við Háskóla Íslands. Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta bréf upp í heild sinni og vekja athygli á hvað þær eru að segja.

,,Á fundi í Prófessorafélagi Háskóla Íslands þann 25. mars var samþykkt með einu mótatkvæði að vinna að þeirri breytingu á frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að prófessorum yrði bætt inn í upptalningu á embættismönnum eða með öðrum orðum að þeir yrðu embættismenn. Aðeins þriðjungur prófessora við háskólann var á þessum fundi og margir sem ekki voru þar telja sig ekki félagsmenn í samtökum sem ekki eru formlegt félag innan Félags háskólakennara. Engu að síður var þessi samþykkt gerð og henni síðan fylgt eftir af miklum skörungsskap eins og alþjóð hefur orðið vitni að síðustu vikur.

Félag háskólakennara er enn þá stéttarfélag prófessoranna og gangi þeir úr því hefur það eftirfarandi afleiðingar fyrir þá sem eftir eru:

a. Félag háskólakennara er í raun svipt verkfallsvopni sínu þar sem stór hópur félagsmanna má ekki fara í verkfall og mun starfa áfram ef til verkfalls kæmi.

b. Framgangskerfið sem metið hefur verið til launaprósentna í kjarasamningum háskólakennara undanfarin ár er lagt í rúst.

c. Afnám framgangskerfisins mun bitna á öllum yngri starfsmönnum háskólans þar sem konur eru fjölmennastar.``

Síðan kemur atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á og ég mun gera hér að umtalsefni.

,,Háskólaráð, þar sem aðeins prófessorar mega sitja sem fulltrúar deilda, hefur ályktað að staða prófessora við Háskóla Íslands sem embættismanna skipti sköpum fyrir þróun Háskóla Íslands sem háskóla og rannsóknastofnunar. Félag háskólakennara hefur borið á móti þessu opinberlega og við undirritaðar teljum okkur skylt að benda á afleiðingar þessara breytinga fyrir jafnréttismál innan háskólans.``

Síðan koma nokkrar mikilvægar upplýsingar sem ég vil vekja athygli á því ég hef verið að flytja um þetta fyrirlestra sl. tíu ár og hérna eru tölur til staðfestingar því vandamáli sem ég mun gera hér að sérstöku umtalsefni sem er valdakerfi háskólans. En áfram segir í bréfi umræddra háskólakvenna:

,,Konur hafa verið vaxandi meiri hluti stúdenta einkum í hug- og félagsvísindum síðustu árin. Síðasta áratuginn hefur konum sömuleiðis fjölgað í hópi kennara og sérfræðinga Háskóla Íslands. En það hefur gengið hægt. Sem dæmi má nefna að af 72 lektorum við Háskóla Íslands eru konur 35 eða 48,6%, af 134 dósendum eru 24 konur eða 17,9% og af 148 prófessorum eru aðeins níu konur eða 6,1%. Það verður að segjast eins og er að konur hafa átt örðugt uppdráttar innan Háskóla Íslands. Prófessorar einir eiga rétt til setu í æðstu valdastofnun háskólans og þeir skipa í valdamiklar nefndir þar sem ýmist situr engin kona eða konur eru í miklum minni hluta. Sjónarmið kvenna, bæði hvað varðar stefnumótun háskólans almennt og mótun hans sem vinnustaðar, koma lítið fram og jafnréttisumræða hefur verið lítil.``

Þá segir að lokum í þessu bréfi:

,,Framgangskerfið við Háskóla Íslands er aðeins níu ára og síðan það var tekið upp hafa 38 karlar orðið prófessorar í krafti þess en þrjár konur. Ef prófessorarnir verða embættismenn núna er valdakerfi háskólans lokað í núverandi mynd og áhrifaleysi kvenna í stjórnun og mótun vinnustaðarins staðfest. Við teljum þessar breytingar eitt hið mesta bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum innan háskólans. Við skorum á háskólayfirvöld að endurskoða afstöðu sína og Alþingi að taka þetta til alvarlegrar athugunar. Það getur ekki verið ábyrgt að rétta hlut eins hóps í Félagi háskólakennara með því móti að skertir séu möguleikar fjölda annarra félagsmanna samtímis.``

[16:45]

Það er hérna eitt bréf enn sem væri virði þess að lesa upp í heild sinni. Það er bréf frá vísindanefnd háskólaráðs, dagsett 8. maí 1996. Ég ætla að spara tíma og koma aðeins að einum þætti þessa máls því ég mun gera hann að umtalsefni í fyrirspurnum mínum til fjmrh. á eftir. Í fyrsta lagi vil ég nefna eina setningu þar sem stendur: ,,Nefndin telur`` --- og þar er ég að tala um vísindanefnd háskólaráðs --- ,,að tillögurnar um breytingar innan háskólans einkennist af fljótræði í meðferð viðkvæms máls sem kallar á ígrundun og athugun ýmissa aðila, ekki síst innan skólans sjálfs. Ljóst er að ef af þessum breytingum verður munu þær hafa víðtæk áhrif á starfsemi háskólans. Nauðsynlegt er að reyna að sjá þau áhrif fyrir og taka mið af þeim við endanlegar ákvarðanir.`` Ég ítreka þetta.

Þá segir enn fremur í bréfi vísindanefndar: ,,Ef allt þykir benda til að prófessorar verði embættismenn samkvæmt hinu nýja skipulagi telur vísindanefnd algert forgangsatriði að framgangskerfinu verði ekki lokað við dósentmörkin eins og tillögurnar gera ráð fyrir. Nefndin telur að reynslan af framgangskerfinu á síðustu árum sé góð og kerfið hafi ekki verið misnotað til að veita mönnum starfsframgang umfram það sem þeir hafa unnið til. Framgangur hefur fyrst og fremst byggst á mati á rannsóknarafköstum háskólakennara og sérfræðinga og hefur tvímælalaust virkað sem hvati til framsóknar og aukinna afkasta í rannsóknum.

Eigi háskólinn að geta laðað til sín nýja starfsmenn sem líklegir eru til afreka í komandi tíð og haldið í þá lektora og dósenta sem standa sig hvað best í starfi hljóta það að teljast nöturleg skilaboð að þeir eigi ekki möguleika að komast í þær stöður sem eftirsóknarverðastar eru við skólann.``

Síðar segir það sem ég tel mjög mikilvægt. Þá er verið að tala um --- ég er að reyna að stytta mál mitt --- hvað það sé vont mál að leggja niður framgangskerfið. Þá segir: ,,Skal jafnframt í því efni annars vegar bent á að ýmsir hafa beinlínis ráðið sig til lektors- og dósentsstarfa í fullvissu um að þeir ættu eftir að geta sótt um framgang til prófessorsembættis og hins vegar er vakin athygli á að þessi breyting mundi sérstaklega bitna á konum sem hafa gert sér vonir um að bætast senn í afar fámennan hóp kvenprófessora skólans. Benda má á að meðal yngri kennara og sérfræðinga eru allmargar konur.``

Síðan er atriði um vinnumatssjóð sem ég vil spyrja hæstv. fjmrh. sérstaklega um á eftir. Ég sé að hann situr í hliðarsal og ég vil að hann hlusti nú vel. Það segir í þessu bréfi vísindanefndar: ,,Jafnframt leggur vísindanefnd áherslu á að allir kennarar og sérfræðingar hafi sama aðgang í vinnumatssjóð og verið hefur. Sé hugmyndin sú að skerða kjaratengdan rétt prófessora til að sækja um rannsóknarlaun úr vinnumatssjóði má gera ráð fyrir að ýmsir afkastamiklir prófessorar lækki í heildarlaunum allt eins þótt þeir kynnu að hljóta talsverða hækkun grunnlauna. Ljóst má vera að í hópi prófessora ekki síður en meðal annarra starfsmanna er þörf á þeim rannsóknarhvata sem í vinnumatssjóðum felst.``

Ég ætla ekki að vitna meira í þetta bréf vísindanefndar háskólans, en vek athygli á því að hér er allt í uppnámi um það í fyrsta lagi hverjir verða embættismenn, ekki bara af háskólakennurum heldur öllum skipuðum kennurum jafnt í grunnskólum sem framhaldsskólum og í öðru lagi virðist ljóst að framgangskerfið er í uppnámi. Sem betur fer virðist sú hreyfing hafa orðið innan háskólans að allir háskólakennarar eru að átta sig á því hvað er í þessu frv. og nú eru viðbrögðin að streyma inn. Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni það sem kom fram í bréfi kvennanna og það er hið karlstýrða valdakerfi háskólans. Ef þessi viðbrögð og þetta frv. endurspeglar ekki að það sé þörf á að endurskipuleggja valdakerfi háskólans, þá veit ég ekki hvað gerir það. Við höfum á undanförnum dögum verið að afgreiða úr hv. menntmn. frv. til laga um framhaldsskóla þar sem kippa á fulltrúum kennara og nemenda út úr skólanefndum á þeirri forsendu að þeir eigi ekki að ákvarða um eigin kjör eða um starf sitt. Hér höfum við aftur háskólaráð sem í raun og veru væri sambærilegt við það að í skólanefndum sætu bara skólastjóri og yfirkennarar því að ekki sitja kennararnir þarna og stjórna stofnuninni, heldur aðeins toppur ísjakans, þeir háskólaprófessorar sem eru deildarforsetar. Eins og ég sagði áðan hef ég verið að vekja athygli á þessu allt frá árinu 1986 og reyna að hvetja til lýðræðislegri stjórnunar á háskólanum. En það má kannski segja um háskólann eins og aðrar stofnanir að þeir sem hafa völdin, sitja í valdastöðunum, munu ekki hvetja til breytinga. Því vil ég hvetja hæstv. fjmrh. og Alþingi að hugsa um hvað hér er að gerast og að það taki skipan háskólaráðs til gagngerðrar endurskoðunar um leið og fylgifrv. sem á að taka upp í sumar verður lagt fram. Og einnig að þá verði tryggt að framgangskerfið verði til áfram. Ég tel að það verði aldrei eining innan háskólans nema það gerist þó að það sé ljóst að það er hægt að gera það með ýmsu móti. Ég nefni að framgangskerfið getur verið til áfram með því að allir háskólakennarar verði embættismenn, að engir háskólakennarar verði embættismenn eða það verði bara prófessorarnir og það verði opnað á milli dósents og framgangs í prófessor.

En ég vil aftur vekja athygli á því að þó að frv. eins og það stendur núna hafi þær afleiðingar að allir skipaðir kennarar háskólans verði embættismenn, þá er nokkuð ljóst að það er ekki ætlunin að hafa hið endanlega ástand þannig ef marka má fylgifrv. Ég vil einnig vekja athygli á því að þó að þetta frv. yrði veruleikinn, að þetta sé raunverulega það sem ríkisstjórnin og fjmrh. vill hafa og mun keyra í gegn, þá eru við háskólann einnig ýmsir starfsmenn sem ekki eru skipaðir en heita samt lektorar og prófessorar. Þá er mín spurning: Hvernig á að tryggja stöðu þessara starfsmanna? Munu þeir eiga rétt á framgangi eins og aðrir? Á kannski að gera þá að embættismönnum líka? Þetta er mjög óljóst eins og frv. er núna. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. þó að það hafi aðrir gert í umræðunni á undan: Hvernig sér hann fyrir sér lausn þessa máls? Hyggst hann láta háskólann sjálfan í sumar eða hvenær það svo sem verður, koma með breytingartillögur á háskólalögum sem eiga að fara inn í bandorminn eða fylgifrv. eða ætlar hann að afgreiða þetta frv. núna þó að það sé ekki ætlunin að sú skipan verði varanleg sem það í raun og veru lögfestir? Þetta er eitt dæmi um þá lausu enda sem eru í þessu frv. Ég fagna því að það virðist vera hugmynd fjmrh. að lögfesta ekki fylgifrv. á þessu þingi, en það er samt mjög einkennilegt hvers vegna hann er að lögfesta þetta frv. á þennan hátt ef það er ekki ætlunin að láta þessa skipan verða þá endanlegu. Það væri einnig mjög fróðlegt að fá fram til samanburðar í þeirri vinnu sem á sér stað í tengslum við fylgifrv. hvernig nágrannalöndin skipa þessum málum, ekki síst háskólar á Norðurlöndum.

Það er eitt atriði enn sem ég vil vekja athygli á í sambandi við embættismenn og með tilvísun í ályktun vísindanefndar háskólaráðs, það bréf sem ég nefndi áðan. Í 39. gr. frv. er fjallað um að laun og önnur starfskjör embættismanna, séu ákvörðuð af kjaranefnd. Þýðir þetta að háskólaprófessorar eða háskólakennarar sem verði embættismenn ef einhverjir verða það --- þetta er því miður svona óljóst --- þýðir þetta að þeir háskólakennarar sem verða embættismenn geti áfram sótt um í vinnumatssjóð eða ekki? Þetta skiptir verulegu máli því að eins og kom fram í bréfi vísindanefndar er ljóst að að öðrum kosti mundu að minnsta kosti þeir prófessorar sem eru afkastamestir í rannsóknum verða fyrir verulegum launaskerðingum eða skerðingum á heildartekjum. Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að þessi atriði verði alveg skýr áður en hafist er handa við þá vinnu sem fram undan hlýtur að vera í Háskóla Íslands varðandi tillögur að breytingu á fylgifrv.

Einnig vil ég nefna í þessu sambandi umsögn sem kemur fram um 39. gr. frv. hjá Bandalagi háskólamanna, þar sem það er dregið í efa að þær aukagreiðslur sem eigi að koma til embættismanna standist. Það er vitnað í núverandi lög um kjaranefnd og það er sagt á bls. 11 í umsögn Bandalags háskólamanna, með leyfi forseta:

,,Þess vegna virðist hugmyndin um heimildir ráðherra til að yfirborga forstöðumenn/embættismenn stríða gegn meginhugsuninni að baki laga nr. 120/1992, og gengur frv. raunar í berhögg við þau lög.`` (Fjmrh.: Hefur hv. þm. skoðað breytingartillögu meiri hlutans?) Um þetta atriði? Um 39. gr.? Ég hélt mig vera búna að því, hæstv. fjmrh., en ég skal athuga á eftir hvort þar er eitthvað markvert á ferðinni. (VE: Það er ekki hægt að greiða viðbótarlaun til embættismanna.) Það er ekki hægt að greiða viðbótarlaun til embættismanna, segir hv. formaður efh.- og viðskn. Þýðir það þá ekki, hæstv. fjmrh., að vinnumatssjóðurinn verður lokaður fyrir embættismenn? Ég vil gjarnan fá svar við þessu. Þetta skiptir verulegu máli því ég get ekki litið á vinnumatssjóðinn sem annað en einhvers konar viðbótarlaun. Ég held að þetta skipti háskólaprófessora verulegu máli varðandi afstöðu þeirra til þess hvort þeir vilja vera embættismenn eða ekki.

[17:00]

Hæstv. forseti. Ég hef gert að sérstöku umtalsefni hvernig þetta óljósa, illa samda frv. kemur við eina ríkisstofnun, nefnilega Háskóla Íslands, sem ég þekki sjálf mjög vel. Í ljós kemur að frv. tekur ekki á málum þessarar stofnunar á viðunandi hátt og reyndar er stefnuleysið alls ráðandi þar sem svo virðist sem allir skipaðir háskólakennarar verði embættismenn án þess að það sé ætlunin. Eða er það ætlunin? Það er ekki á hreinu og hefur ekki verið upplýst í þessari umræðu. Ef það er ekki ætlunin, þá spyr ég enn og aftur: Hvers vegna á að lögfesta það eins og það er núna?

Einnig tek ég undir það sem kemur fram í umsögn Bandalags háskólamanna að alls ekki er glöggt af frv. hver tilgangurinn er með því að tímabinda skipun embættismanna. Er raunverulega um tímabundnar ráðningar að ræða eða verður það reglan að framlenging komi til eins og gefið er í skyn? Ég vísa nú beint í umsögn Bandalags háskólamanna, en þar segir á bls. 18, með leyfi forseta:

,,Ekki verður séð að þessi tilhögun sé í samræmi við yfirlýstan tilgang frv. um að ,,samkvæmt frv. [verði] ríkisstarfsmönnum tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa við almennt í skiptum við vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði.`` Telja verður að ákvæði frv. feli í sér óþolandi óvissu fyrir embættismenn þegar dregur að lokum skipunartíma um áframhaldandi skipun. Einkum á þetta við um fólk á síðasta hluta starfsævi sinnar. Í því sambandi er rétt að taka fram að samkvæmt drögum að frv. til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem kynnt voru í febrúar sl., er gert ráð fyrir að fólk sem hættir störfum fyrir 65 ára aldur missi hluta lífeyrisréttinda sinna, en þeir sem starfi eftir 65 ára aldur fái sérstaka umbun. Þessi breyting mundi setja stöðufestu embættismanna í sérstakt uppnám eftir 60 ára aldur og auka umtalsvert líkur á því að þeir misstu starfið vegna kostnaðar við lífeyrisréttindi.``

Þetta atriði þarf einnig að vera skýrt áður en stéttir eins og háskólakennarar segja álit sitt endanlega á því hvort þeir vilja vera embættismenn eða ekki.

Þá vil ég að lokum spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji eðlilegt að flytja frv. sem gerir alla skipaða kennara að embættismönnum, ekki bara við Háskóla Íslands heldur alla skipaða kennara almennt í skólakerfinu, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað í háskólanum um að gera háskólann að sjálfseignarstofnun. Hlýtur ekki slík stofnun að vilja vera sem óháðust ríkisvaldinu í launalegum efnum sem öðrum? Það er ekki síst í þessu ljósi sem yfirlýsing rektors og prófessorafélagsins um að prófessorar verði embættismenn vekur furðu.

Herra forseti. Það er alveg ljóst í mínum huga hvers vegna ríkisstjórnin keyrir þetta mál fram með því offorsi sem þjóðin hefur orðið vitni að. Skýringin kemur reyndar fram í minnihlutaáliti efh.- og viðskn. en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Augljóst er af öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar í þessu máli að eitt aðalatriði frumvarpsins er að afnema biðlaunarétt. Ástæða þess að ríkisstjórnin leggur svo mikla áherslu á afnám þess réttar er fyrirhuguð hlutafjárvæðing ríkisstofnana. Hér ber hæst Póst og síma, en frumvarp um það efni er nú í meðförum Alþingis. Samkvæmt því frumvarpi fer um biðlaunarétt samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Verði þetta frumvarp að lögum, sem afnemur biðlaunaréttinn, þýðir það að starfsmenn Pósts og síma missa þann rétt, en gildistaka þess frumvarps er síðar en frumvarps um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Afnám biðlaunaréttarins er einnig mikilvægt fyrir ríkisstjórnina vegna fyrirhugaðra breytinga á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög en komið hefur fram í dómum að biðlaunaréttur telst lögverndaður réttur og hafa dómsmál unnist af því tilefni við formbreytingu ríkisstofnana. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða og skýrir þetta m.a. hörku ríkisstjórnarinnar við að keyra málið í gegn með þeim hætti sem hún stefnir að.``

Herra forseti. Ég gæti farið í mun fleiri greinar þessa frv. til að sýna fram á að hér er um hálfkarað frv. að ræða sem hefur marga lausa enda og að í þessum vinnubrögðum birtist bæði hroki og ögrun eins og ég hef sagt áður. Ég ætla að sleppa því að fara í fleiri einstakar greinar, en benda í lokin á lokaorðin í umsögn BHM um frv. þar sem ég tel mjög mikilvægt að þetta álit BHM sé skjalfest í þingtíðindi á sama hátt og álit BSRB sem hér hefur þegar verið gerð grein fyrir því að þessi tvö félög eru eins og ég sagði áðan stærstu verkalýðsfélögin sem hér eiga hlut að máli. Ég mun nú lesa lokaorð í umsögn BHM um þetta frv., með leyfi forseta:

,,Bandalag háskólamanna bendir efh.- og viðskn. Alþingis á eftirfarandi meginatriði varðandi þetta frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins:

1. Samráð um endurskoðun laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefur ekki verið virt.

2. Frv. miðar einhliða að því að skerða ráðningarréttindi starfsmanna ríkisins og samningsrétt stéttarfélaga þeirra án þess að bæta þá skerðingu með nokkrum hætti. Þvert á móti eru boðuð áform um enn meiri skerðingu á réttindum ríkisstarfsmanna með drögum að frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur.

3. Frv. miðar að því að afnema ráðningarfestu og biðlaun ríkisstarfsmanna, þrátt fyrir að laun þeirra hafi um áratuga skeið verið þeim mun lakari til að greiða fyrir þessi og önnur réttindi starfsmanna.

4. Með frv. er gengið á mikilvæg grundvallarmannréttindi starfsmanna ríkisins sem bæði eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland á aðild að.``

Ég vek athygli á þessu: Gengið á réttindi sem eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland er aðili að.

,,5. Frv. viðheldur flestum skyldum starfsmanna ríkisins umfram aðra launamenn og eykur þær í sumum tilvikum.

6. Með frv. er ýmist beint eða óbeint ýtt til hliðar ákvæðum stjórnsýsluréttar þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ríkisstarfsmönnum ekki tryggð sama vernd gegn misbeitingu valds og öðrum landsmönnum.``

Einnig segir í lokaorðum, með leyfi forseta:

,,Bandalag háskólamanna telur brýnt:

að setja almenna löggjöf um ráðningarréttindi allra launamanna sem tryggi þeim sambærileg ráðningarréttindi og gilda á Norðurlöndum,

að endurskoða lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna með það fyrir augum að efla samnings- og verkfallsrétt opinberra starfsmanna og aðlaga að þeim almenna samningsrétti sem nú gildir í landinu,

að endurskoða að þessu gerðu lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkisins og koma fram með frv. til laga um þau atriði sem aðilar ná sátt um.

Bandalag háskólamanna leggur eindregið til að frv. þetta verði dregið til baka. Bandalagið vill enn ítreka mikilvægi samráðs milli heildarsamtakanna og ríkisvaldsins um allar breytingar á réttindum starfsmanna ríkisins og lítur svo á að ríkisvaldið verði að una því að gera engar aðrar breytingar en þær sem báðir aðilar geta unað sæmilega sáttir við. Ánægðir starfsmenn eru forsenda öflugrar starfsemi ríkisins.``

Undir þetta álit ritar Marta Ásdís Hjálmarsdóttir fyrir hönd stjórnar og miðstjórnar Bandalags háskólamanna.

Ég vil, hæstv. forseti, vekja athygli á því að af þeim 26 aðilum sem undirrita þessa umsögn eru 15 konur. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu og fagna um leið að konum innan BHM virðist vera að vaxa fiskur um hrygg. Þær eru komnar til valda þar og ég vona að þetta sé merki um að eitthvað sé að gerast í verkalýðshreyfingunni almennt. Að minnsta kosti virðist eitthvað vera að gerast innan BHM.

Herra forseti. Ég hef ekki mjög langa þingreynslu að baki. Því er ég kannski ekki dómbær á það hvort þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð eiga sér mörg fordæmi eða ekki. Hitt er þó kýrskýrt að þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og í raun varla samboðin stjórnvöldum í siðmenntuðu lýðræðisþjóðfélagi. Það þykir sjálfsagt að hafa náið samráð við aðila í sjávarútvegi til að breytingar á fiskveiðistjórnuninni komi aldrei aftan að fólki jafnvel þó að stefna stjórnvalda virðist hverfa æ lengra frá 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, nefnilega þeirri sem segir að það sé þjóðin sem á fiskimiðin en ekki þeir sem voru með veiðireynslu vorið 1984 þegar aflamarkskerfið komst á. Þarna skulu vinnubrögðin vera kurteisleg og samskiptin kurteisleg jafnvel þó að þessar nýju ákvarðanir leiði til þess að skógurinn týnist fyrir trjánum. En gagnvart starfsmönnum ríkisins hvort sem það eru kennarar eða ríkisstarfsmenn almennt, þá þarf enga kurteisi. Samráð er í algeru lágmarki og farið er fram með hvert málið á fætur öðru í algerri ósátt við viðkomandi stéttir.

Ég velti því fyrir mér enn einu sinni hvað það er sem rekur stjórnvöld út í þessi vinnubrögð. Er þetta skortur á þolinmæði og vissan um öruggan meiri hluta? Skýrir öryggi valdsins þetta eða er sannfæring herranna í Sjálfstfl. svo sterk að það skuli gera allt sem mögulegt er til að frjálshyggjubreytingarnar á stjórnkerfi ríkisins nái fram að ganga? Eða er þetta kannski bara óhjákvæmilegt viðnám hjá þessum starfsmönnum, kennurum og ríkisstarfsmönnum af því að þeir vilja ekki láta skerða sín kjör fremur en nokkrir aðrir? Ég tel að það sé alveg ljóst að það er fyrri skýringin sem hér á við og ef það er eitthvað til í seinni skýringunni, þá er mjög eðlilegt að um breytingar á kjörum verði samið. Löggjafa ber vissulega að setja lagarammann utan um slíka samninga en auðvitað er æskilegast að slíkur lagarammi sé saminn í samráði við viðkomandi aðila. Að öðrum kosti er hætta á að viðkomandi félög hafi veikari stöðu til að semja eða til að selja réttindaskerðingar sem er þegar búið að taka af þeim með lögum.

Það sem verra er, réttindaskerðingin sem frv. hefur í för með sér er mest hjá þeim sem í framtíðinni koma til með að vera kennarar eða ríkisstarfsmenn, þeirra sem ekki eru þegar orðnir stjórar, forstöðumenn, háskólaprófessorar eða yfirmenn. Þetta er því ekki síst aðför að ungu fólki og konum sem af einhverjum undarlegum ástæðum eru síður í yfirmannsstöðum hjá ríkinu sem annars staðar á vinnumarkaði þrátt fyrir að þær séu meiri hluti ríkisstarfsmanna. Virk mótspyrna unga fólksins á Funklistanum á Vestfjörðum, mótmæli og virk mótspyrna kvenkennara við Háskóla Íslands, svo og mótmæli framkvæmdastjórnar BHM með sinn fríða flokk kvenna í forustu, eru táknræn um það sem er að gerast að mínu mati í þessu þjóðfélagi. (VE: Kvennalistinn hefði átt að bjóða fram með Funklistanum en ekki á móti honum.) Það er aldrei að vita hvort við náum ekki saman um stjórn, bíddu bara rólegur. (Gripið fram í.) (VE: Eða það hefur verið mæðrahyggja.) Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan fá frið til þess að halda áfram ræðu minni.

[17:15]

(Forseti (RA): Hv. 19. þm. Reykv. hefur orðið.)

Að mínu mati er eins og ég sagði áðan unga fólkið og konur í landinu loksins að vakna til vitundar um að það er ekki hægt að ganga lengra á þessari braut, það verður að sýna virka mótspyrnu. Þetta frv. er að mínu mati eitt skrefið enn sem hrokafullir valdhafar Sjálfstfl. og Framsfl. ganga gegn launþegum þessa lands, ekki síst konum og ungu fólki, og þessa þróun verður að stöðva.

Herra forseti. Það er mér verulegt áhyggjuefni hvert þetta þjóðfélag stefnir undir forustu núv. stjórnvalda. Hinn harði heimur frjálshyggjunnar blasir við en mannleg gildi samhjálpar og samvinnu verða undir á æ fleiri sviðum. Við kvennalistakonur komum inn á vettvang íslenskra stjórnmála fyrir 13 árum m.a. til þess að gera þjóðfélagið manneskjulegra og jafnréttissinnaðra, setja mannréttindi og samábyrgð í öndvegi. Kvennalistinn vill nýta reynslu og krafta kvenna til jafns við karla í þágu samfélagsins alls. Það er alveg ljóst að þetta frv. er ekki skref í þá átt. Þetta frv. treður á opinberum starfsmönnum, ekki síst þeim sem ekki eru stjórar og þar eru konur í meiri hluta. Ég tek því undir orð fulltrúa stjórnarandstöðunnar á Alþingi, svo og talsmanna BHM, BSRB og verkalýðshreyfingarinnar almennt um að vísa eigi frv. frá.

Áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, vil ég vekja athygli á enn einu atriði sem frv. hefur fengið mig til þess að hugsa um. Hvers vegna hlustar ríkisstjórnin á álit Lagastofnunar háskólans en ekki á gjörvalla verkalýðshreyfinguna eða lögfræðinga hennar, t.d. um það hvort frv. brýtur stjórnarskrána, alþjóðasamninga eða mannréttindasáttmála? Jú, væntanlega er það vegna þess að það er ekki sama hvaða álit er fengið, túlkun hvers á stjórnarskránni eða mannréttindasáttmálum er lögð til grundvallar? Samkvæmt stjórnskipan okkar er það hlutverk dómstóla að skera úr um ágreining af þessu tagi en væntanlega er ekki hægt að vísa frv. til dómstóla. Ég vek samt sem áður athygli á því að það er viðurkennt meðal hæstaréttardómara að þeir geti verið --- hvað á ég að segja --- frjálslyndir eða íhaldssamir samanber t.d. það hvernig hæstaréttardómarar eru ráðnir í Bandaríkjunum. Þar tíðkast opinberar yfirheyrslur og farið er í gegnum skoðanir viðkomandi dómara á hinum ýmsu málum því að vitað er að það skiptir máli hvaða hæstaréttardómarar dæma í ýmsum málum. Þó að ég sjái ekki hvað réttlæti það að meiri hluti félmn. leitaði álits Lagastofnunar háskólans um þessi frumvörp, þá er vert að ítreka að ég er alls ekki að andmæla því áliti sem fram kom hjá Lagastofnun háskólans. Ég er aðeins að vekja athygli á því að það eru gerðar athugasemdir bæði við þetta frv. og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur um að þarna er verið að brjóta mannréttindi og alþjóðasamninga og það er mjög alvarlegt mál. Að mínu mati eru það fyrst og fremst dómstólar og Hæstiréttur sem hafa umboð umfram aðra til þess að túlka stjórnarskrána í þessu ljósi. Ég tel að þarna sé atriði á ferðinni sem formlega er ekki viðurkennt að skipti máli, en samt sem áður vita allir að það skiptir máli. Ég vil í þessu máli vísa sérstaklega til nýútkominnar bókar eftir Donald Dworkin sem heitir The Moral Reading of the Constitution eða siðferðislegur lestur á stjórnarskránni, þar sem þessi mál eru tekin til mjög alvarlegrar umfjöllunar. Ég tel að Alþingi Íslendinga þurfi verulega að hugsa sig um hvaða áliti það tekur mark á og hvenær og hvers vegna.

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í sambandi við frv. á ekki að þola og því munum við stjórnarandstæðingar nota rétt okkar til að mótmæla með löngum og ítarlegum ræðum á Alþingi í þeirri von að fólkið í landinu átti sig á því hvað er að gerast og að ríkisstjórnin neyðist til að draga þessi frumvörp til baka og vinna þau betur í samráði við viðkomandi aðila.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.