Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 17:23:59 (5947)

1996-05-13 17:23:59# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[17:23]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði að langar ræður sem hafa verið fluttar nú væru vörn minni hlutans. Ég hef kannað hver meðaltími er á viku hverri til ræðuhalda á Alþingi á þessu þingi og það mun vera 17 klukkustundir. 2. umr. í þessu máli sem er aðeins ein af þremur hefur þegar staðið í 25 klukkutíma. Hver maður hefur talað að meðaltali 100 mínútur og ef þeir fimm sem eru á mælendaskrá tala jafnlengi og hinir, þá jafngildir það því að 2. umr. taki tvær vikur af tíma þingsins. (Gripið fram í: Stórt mál.) Þegar hafa öll efnisatriði þessa máls komið fram. Í minnihlutaálitinu er að finna allar umsagnir sem komið hafa til nefndarinnar. Þess vegna er greinilegt, virðulegi forseti, að það er verið að tefja málið til að reyna að koma í veg fyrir að meirihlutaviljinn komi fram á löggjafarsamkomunni þrátt fyrir að það liggi fyrir að málið fari til nefndar að lokinni þessari umræðu.

Ég held að ég hafi þegar svarað öllum þeim spurningum sem til mín var beint nema kannski einni sem snertir vinnumatssjóð. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kjaranefnd taki til úrskurðar laun prófessora og jafnvel annarra háskólakennara sem njóta fjármuna úr vinnumatssjóði. Það kæmi þá bara fram í úrskurði nefndarinnar sem þarf að úrskurða samkvæmt lögum. Hitt er svo annað mál eins og ég hef margoft sagt, það hefur líklega fjórum sinnum komið fram í þessari umræðu, að varðandi framgangskerfið og vinnumatssjóðinn, þá eru það mál sem fyrst og fremst er fjallað um í bandorminum sem ekki er til umræðu hér og nú. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að þetta mál verði síðan aftur til umræðu í nefndinni á milli umræðna þannig að ljóst verði fyrir 3. umr. hvernig 22. gr. lítur endanlega út ef bandormurinn fær ekki afgreiðslu.