Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 20:32:45 (5953)

1996-05-13 20:32:45# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[20:32]

Lúðvík Bergvinsson (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var þar kominn ræðu minni að ég hafði farið yfir og veitt hv. formanni efh.- og viðskn., Vilhjálmi Egilssyni, kennslustund í mannréttindum og slíkum fræðum og var þar kominn í máli mínu sem ég var að byrja að fjalla um hina nýju starfsmannastefnu.

Virðulegi forseti. Það verður að vekja athygli á því að hvorki hæstv. fjmrh. né hv. formaður efh.- og viðskn. eru í salnum. (Gripið fram í: Við hvern er maður að tala?) Virðulegi forseti. Ef maður ætlar að snúa einhverjum af þessum hv. þm. á sitt band getur það reynst mjög erfitt ef enginn þeirra er viðstaddur.

(Forseti (RA): Forseti mun láta vita að óskað er eftir nærveru þessa ráðherra og þingmanns.)

Ég þakka hæstv. forseta. Ég verð að rifja það upp þar til hv. formaður efh.- og viðskn. mætir í salinn og hæstv. fjmrh., að ég vakti athygli á því hér áðan að í salinn mætti einn framsóknarmaður en það hafði ekki gerst fyrr í þessari umræðu. Ég man eftir því að á haustdögum var auglýst eftir Framsfl. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi auglýst eftir Framsfl. einhvern veginn með þeim orðum að hann hafi síðast sést í selskinnsjakka. Ég get upplýst það að ég er búinn að finna einn hér í salnum. Um sexleytið var einn framsóknarmaður í salnum. Ég get því komið þeim upplýsingum til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að a.m.k. einn hv. framsóknarmaður er fundinn.

Virðulegi forseti. Er eitthvað að frétta af ferðum formanns efh.- og viðskn.?

(Forseti (RA): Nei, það er ekkert að frétta frekar.)

Hæstv. fjmrh. er ekki í salnum og ekki heldur formaður efh.- og viðskn., svo það er spurning hvort það sé ástæða til að halda áfram þessari umræðu á meðan svo er.

(Forseti (RA): Forseti hefur von um að hv. formaður efh.- og viðskn. komi senn.)

Það þykir mér vænt um að heyra. Hins vegar má kannski reikna með að þó að stjórnarmeirihlutinn hafi kannski ekki stúderað þetta frv. mjög mikið þá þekki formaður efh.- og viðskn. eitthvað til málsins og þannig að ég gæti farið yfir hina nýju starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar þar til hv. þm. kemur.

Virðulegi forseti. Hin nýja leiðsögn úr fjmrn. birtist hér á bls. 15 í greinargerð með margumræddu frv. og er hin nýja starfsmannastefna tilgreind í sex liðum. Ég ætla að drepa aðeins niður í lið nr. tvö. Þar segir m.a., með leyfi forseta, undir kaflaheitinu ,,Aukinn sveigjanleiki í starfsmannahaldi``:

,,Stjórnendum ríkisstofnana verði gert það auðveldara en nú er að miða fjölda starfsmanna við raunverulega starfsmannaþörf stofnunar. Það verður tæpast gert nema með því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Slíkt kallar m.a. á endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá verði stuðlað að aukinni tilfærslu á fólki í störfum, bæði á milli einstakra stofnana ríkisins og á milli ríkisins, sveitarfélaga og einkafyrirtækja.``

Kemur þá í salinn hv. formaður efh.- og viðskn. og hv. þm. Pétur H. Blöndal, helstir talsmenn peningastefnu Sjálfstfl. En ég verð enn og aftur að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að hér finnst ekki frekar en fyrr framsóknarmaður. En það sást til eins um sexleytið í dag. (VE: Veist þú eitthvað um það hverjir eru framsóknarmenn ...?) (Gripið fram í: Þarna er nú einn.) Ég kann vel að meta athugasemd hv. þm.

Ég var þar kominn, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, í máli mínu að ég var að vekja athygli á 2. tölulið á bls. 15 í greinargerð með frv. en þar segir meðal annars að það ,,verði stuðlað að aukinni tilfærslu á fólki í störfum, bæði á milli einstakra stofnana ríkisins og á milli ríkisins, sveitarfélaga og einkafyrirtækja.``

Þetta verður vart skilið öðruvísi en svo að fela eigi hinum og þessum aðilum verkefni sem nú eru í höndum ríkisins. Það má ljóst vera að í þessu birtist m.a. sú hugsun sem hvílir að baki því frv. sem hér er til umræðu. Fyrst og fremst er markmið frv. að taka til endurskoðunar þann biðlaunarétt sem opinberir starfsmenn hafa nú. Það birtist sérstaklega skýrt hér því það er verið að tala um að færa til fólk í störfum bæði á milli einstakra stofnana ríkisins og á milli ríkisins, sveitarfélaga og einkafyrirtækja. Ef starfsfólk verður fært til sveitarfélaga eða einkafyrirtækja þá mundi það þýða samkvæmt núgildandi reglum að hinn svokallaði biðlaunaréttur yrði virkur svo það er ljóst hvað felst í þessum lið starfsmannastefnunnar.

Í 3. lið á bls. 15 er verið að tala um einföldun á launakerfi og aukinn sveigjanleika í launakjörum. Það á að einfalda launakerfi ríkisins ef marka má það sem hér kemur fram, með leyfi forseta, ,,t.d. á þann hátt að aðeins verði samið um tiltekin grunnlaun og lágmarksréttindi starfsmanna í kjarasamningum, jafnframt því sem afnumdar verði sumar þær uppbætur á laun er nú tíðkast, svo sem laun fyrir ,,ómælda yfirvinnu``.``

Með öðrum á að afnema þau réttindi sem felast í ómældri yfirvinnu.

,,Í staðinn fái stjórnendur ríkisstofnana svigrúm til að ákvarða einstökum starfsmönnum laun eftir sérhæfni og menntun sem nýtist í starfi, svo og eftir ábyrgð og frammistöðu hvers og eins.``

Þessi makalausa málsgrein hefur nú fengið talsverða umfjöllun á hinu háa Alþingi en það liggur ekkert fyrir um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að útfæra þessa stefnu sína. Það er kannski ekki ástæða til að orðlengja það frekar en þessi 3. tölul. segir kannski meira en margt annað um þessa stefnu. Það á að afnema þau réttindi sem nú eru í gildi og svo eftir einhverjum geðþóttaákvörðunum þá skal nú reynt að koma til móts við a.m.k. einstaka menn eftir ,,sérhæfni og menntun`` og svo eftir ,,ábyrgð og frammistöðu`` hvers og eins.

Einhver hv. þm. hafði orð á því fyrr í umræðunni að hann þakkaði sínum sæla fyrir að þetta ætti ekki við um þingmenn. Ef það ætti að meta þá eftir frammistöðu hvers og eins, gæti myndin tekið að breytast verulega hér í þinginu. (PHB: Það er gert á fjögurra ára fresti.) Það eru kosningar á fjögurra ára fresti, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Reyndar er eftirfarandi tekið fram svona til að reyna að réttlæta þessa gjörð, með leyfi forseta:

,,Þessar ákvarðanir styðjist við almennar reglur og málefnaleg sjónarmið þannig að fyllsta jafnræðis verði gætt, t.d. milli karla og kvenna, við ákvörðun slíkra viðbótarlauna.``

Það er gott til þess að vita að ætlunin sé að eitthvað í þessu frv. skuli byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Það er nauðsynlegt að taka það fram í frv.

Ég ætla að vitna aðeins, herra forseti, í 5. tölulið. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Jafnrétti milli karla og kvenna sem starfa hjá ríkinu verði aukið með því m.a. að jafna launakjör þeirra. Nauðsynlegt er og að tryggja að breytingar þær, sem lýst er hér að framan, bitni ekki á konum fremur en körlum ...``

Ég held það rétt að lesa þetta aftur: ,,Nauðsynlegt er og að tryggja að breytingar þær, sem lýst er hér að framan, bitni ekki á konum fremur en körlum.`` Það er alveg ljóst að þessar breytingar munu bitna á konum og körlum en það er reynt að tryggja að skerðingin verði þó ekki áberandi meiri hjá konum. Það er náttúrlega alveg makalaus hugsunarháttur sem hér birtist. En það virðist ekki skerða ró hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Jafnframt verði stefnt að því að vinnutími verði sveigjanlegri en nú er og dregið verði úr óhóflegri yfirvinnu ...``

Síðan segir, virðulegi forseti, í 6. tölul.:

,,Ríkið og stofnanir þess verði ,,fyrsta flokks`` vinnuveitendur.``

Ég veit ekki betur, virðulegi forseti, en að frv. komi úr smiðju hæstv. fjmrh. sem er væntanlega vinnuveitandi þeirra opinberu starfsmanna sem nú starfa hjá ríkinu. Þetta er því væntanlega einhvers konar yfirlýsing um það að hæstv. fjmrh. sé í dag ekki fyrsta flokks vinnuveitandi, því að hann ætlar að taka sig saman í andlitinu og gera betur en hann hefur gert hingað til. Það er varla hægt að skilja þetta öðruvísi ef markmiðið er að gera ríki og stofnanir þess að fyrsta flokks vinnuveitanda. Reyndar er þessi starfsmannastefna þess eðlis að það væri öllum fyrir bestu að menn sæju sóma sinn í því að draga frv. til baka og að snúa sér að því að koma saman einhverri vitrænni starfsmannastefnu. Sennilega er kannski það skásta sem er að finna í þessu frv. á bls. 14. Þar segir m.a. að endurskoðun starfsmannastefnu ríkisins í heild sé í sjálfu sér risavaxið verkefni. Það er nákvæmlega málið. Menn hefðu átt að gefa sér meiri tíma til að endurskoða starfsmannastefnu sem tekur til u.þ.b. 25 þús. manns og hefðu átt að taka meira mark á þessari málsgrein sem þó er þarna að finna.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er mættur í salinn. Ég var að segja frá því áðan að um sexleytið kom í salinn framsóknarmaður af því að ég var að rifja það upp að á haustdögum auglýsti hv. þm. eftir framsóknarmönnum. Um sexleytið var hér einn og ég sé ekki betur en hér sé kominn annar. Ég held að það sé rétt að halda til haga því sem rétt er. Hér er kominn hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson úr Framsfl. Það skyldi þó ekki vera að hann ætli að taka til máls í þessu máli. (VE: Ég hélt að hv. þm. ætlaði að telja Steingrím J. Sigfússon með framsóknarmönnum.) (SJS: Í guðs bænum ekki.) Ég var að upplýsa hv. þm. um að í dag hefði sést til framsóknarmanna þar sem ég vissi af þeirri auglýsingu sem hann hafði sent frá sér.

[20:45]

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þessa starfsmannastefnu, heldur snúa mér að einstaka greinum. Reyndar er frv. þannig uppbyggt að ef taka ætti hverja grein fyrir sig mundi sumarið sennilega ekki duga til þess að fara yfir þetta svo eitthvert vit væri í. En ég ætla að bera niður, virðulegi forseti, í 10. gr. breytingartillagnanna. Í breytingartillögum frá meiri hluta efh.- og viðskn. er að finna nýja skilgreiningu á hugtakinu ,,föst laun``. Með hugtakinu föst laun segir svo, með leyfi virðulegs forseta, í brtt. á þskj. 887:

,,Með hugtakinu föst laun er í þessum lögum átt við föst laun fyrir dagvinnu án viðbótarlauna samkvæmt 2. mgr. 9. gr.`` Þessi breyting er kúvending frá því sem verið hefur og skilgreining á föstum launum allt önnur en hingað til hefur tíðkast og byggir á dómi í svokölluðu Landssmiðjumáli. Þessi skilgreining er breyting frá því sem var í upphaflegu útgáfunni. Þar var að mestu leyti byggt á þeirri skilgreiningu sem er að finna í umræddum dómi, en í umræddum Landssmiðjudómi segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stefnandi var forstjóri Landssmiðjunnar og verður að telja að með samkomulagi hans við iðnrn. hafi sú fasta greiðsla sem hann fékk í mánaðarlaun fyrir yfirvinnu, hvort sem vinna hans reyndist meiri eða minni í tímum talið, orðið hluti af þeim föstu launum sem starfanum fylgdu.``

Þar kemur fram að að baki fastra launa stendur ekki bara dagvinna án viðbótarlauna, heldur einnig yfirtíð og sú óunna yfirtíð sem hugsanlega hafði verið samið um að hann fengi greidda. Þetta ákvæði hefur áhrif á 34. og 35. gr. frv. því þar er að finna notkun á hugtakinu föst laun sem hefur þá allt annað innihald en það hafði í upphafi. Í 34. gr. segir svo, með leyfi forseta, og er þar fjallað um biðlaunaréttinn:

,,Nú er embætti lagt niður og skal þá embættismaður jafnan fá föst laun, er embættinu fylgdu, greidd í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í 12 mánuð, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.``

Hugtakið föst laun í 34. gr. hefur því allt annað efnisinnihald en það hafði þegar frv. var lagt fram. Þegar frv. var lagt fram var byggt á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í Landssmiðjudómnum svokallaða, en í 10. gr. segir svo í upphaflega frv.:

,,Með hugtakinu ,,föst laun`` er átt við föst laun fyrir dagvinnu, ásamt viðbótarlaunum skv. 2. mgr. 9 gr.`` Fellt hefur verið út ákvæðið um viðbótarlaun þannig að biðlaunaréttur er enn frekar skertur en ætlunin var í upphafi. Það verður að segjast alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki til fyrirmyndar þegar frasar koma frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. á við þessa: ,,Réttur til biðlauna verður sá sami og í núverandi lögum. En þó verður gerð sú breyting að frá þeim dragast önnur laun sem starfsmaðurinn kann að öðlast á biðlaunatímanum.`` Það er búið að fara svo oft yfir þetta að allir gera sér grein fyrir því að biðlaunarétturinn getur ekki verið sá sami ef síðan á að draga frá þau laun sem viðkomandi starfsmaður, sem ætti rétt á biðlaunum, fengi frá öðrum vinnuveitanda. Það er engum til framdráttar að svona texti skuli fylgja með í frv.

Virðulegi forseti. Þótt ég hafi ekki hugsað mér að rekja hverja einustu grein er nauðsynlegt að bera niður annað slagið í þessu frv. Ég ætla að bera næst niður í 27. gr. Þar er að finna ég segi ekki skondið ákvæði, en það er mjög erfitt að átta sig á því hvaða hugsun liggur að baki því. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nú hefur embættismanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi og skal mál hans þá þegar rannsakað af nefnd sérfróðra manna eða að hætti opinberra mála, ef ástæða þykir til, svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu.

Í nefnd, sem rannsaka skal mál embættismannsins skv. 1 mgr., skulu eiga sæti þrír menn, sérfróðir um stjórnsýslu. Fjármálaráðherra skipar nefndina, þar af formann hennar og varamann hans til fjögurra ára í senn. Aðrir nefndarmenn taka sæti í nefndinni í hvert sinn og skal annar þeirra tilnefndur af þeim ráðherra sem í hlut á en hinn af samtökum ríkisstarfsmanna sameiginlega. Ef samtökin koma sér ekki saman skal fjármálaráðherra skipa nefndarmanninn án tilnefningar. Nefndin skal láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir.``

Virðulegi forseti. Hér er að finna það merkilega ákvæði að fjmrh., vinnuveitandi, ætlar að skipa formann og varaformann þeirrar nefndar sem á að rannsaka mál embættismanns sem vikið er frá eða veitt lausn um stundarsakir. Aðili málsins ætlar með öðrum orðum að hafa það hlutverk að skipa nefnd sem ætlar að fjalla um aðgerðir hæstv. fjmrh. eða starfsmanna hans. Slíkt fyrirkomulag þekkist varla nokkurs staðar á byggðu bóli og er varla til í nokkurri hugmyndafræði nema þá hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr.

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði verður ekki skilið nema í samhengi við 29. gr. en þar segir m.a. í 2. mgr.:

,,Embættismanni skal víkja úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar skv. 27. gr. kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir.`` Sem sagt, ef sú nefnd sem ráðherra skipar kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja embættismanni frá starfi um stundarsakir skal víkja honum úr embætti að fullu. Það má líkja þessu við það að ef kærumál berst lögreglu og hún tekur þá ákvörðun að taka málið til rannsóknar, skuli dómari a.m.k. gera manninum sekt í viðkomandi dæmi. Í þessu tilviki dugar ákvörðun um það hvort rétt hafi verið að veita manni lausn frá embætti um stundarsakir til þess að veita honum lausn frá embætti að fullu. Slík hugmyndafræði er þess eðlis að í raun og veru er það með ólíkindum að menn skuli setja þetta í opinbert plagg. Ef þetta væri geymt einhvers staðar í skúmaskotum fjmrn. myndu menn kannski skilja þetta. En þetta er opinbert, þetta geta allir lesið. Hér er að finna þessa stjórnarstefnu.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að halda áfram að bera niður í þessu einstaka plaggi, þ.e. frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í 19. gr. er að finna ekki síður merkilegt ákvæði sem vísað hefur verið til, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skal hann þó halda óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í embætti eða jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. 46. gr.``

Virðulegi forseti. Mig langar að bera aðeins niður í umsögn um frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá Stéttarfélagi lögfræðinga og þá sérstaklega um 19. gr. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Félagið varar við þeirri veigamiklu breytingu frá gildandi lögum sem lögð er til í frumvarpinu um að mögulegt verði að skipa starfsmanni að vinna verk sem eru utan verksviðs hans og leitt getur til skerðingar á launakjörum og réttindum hans. Hér er um dulbúna brottvikningarheimild að ræða fyrir forstöðumenn. Ótvírætt er, samkvæmt gildandi lögum, að starfsmanni er ekki skylt að þola breytingar á verksviði sínu, t.d. verður lögfræðingi ekki gert skylt að sjá um ræstingar. Þá telur félagið að 19. gr. frumvarpsins geri ákvæði 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins marklausa.``

Virðulegi forseti. Mig langar að beina þeirri spurningu til formanns efh.- og viðskn. hvort erindisbréf sem veitt eru á grundvelli 2. mgr. 8. gr. hafi í sjálfu sér ekkert gildi. Samkvæmt 19. gr. er hægt að breyta þessu eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Mér þætti vænt um að heyra skýringu hv. formanns efh.- og viðskn. Ég verð að játa að ég sé ekki að þetta fari saman. Ef menn verða að hlíta því að taka við störfum sem víkja frá verksviði þeirra og hægt er að breyta þessu sisvona með einfaldri ákvörðun er svo sem alveg tilgangslaust að vera að standa í því að gefa út erindisbréf. Því hefur 2. mgr. 8. gr. lítið vægi ef hún er borin saman við 19. gr.

Virðulegi forseti. Ég fór í dag örlítið yfir mannréttinda\-ákvæði og helstu sjónarmið sem liggja að baki því að þjóðir, a.m.k. hins vestræna heims, hafa almennt viðurkennt mannréttindi og líta svo á að þar sé um að ræða reglu sem ekki verður breytt með einfaldri löggjöf ef undan er skilin sú ríkisstjórn sem nú situr. Mér er því bæði ljúft og skylt að bera aðeins niður í litla grein sem er merkt nr. 40. Í henni kemur fram að embættismönnum er óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Ég fæ ekki séð annað en að skýring á þessu ákvæði samkvæmt orðanna hljóðan hljóti að leiða til þess að tjáningarfrelsi embættismanna sé skert verulega. Sé þeim óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli og að stuðla að eða taka þátt í öðrum sambærilegum aðgerðum hlýtur að felast í ákvæðinu að þeim sé óheimilt að tjá sig sérstaklega um slíkar aðgerðir. Ástæða þess að ég fjalla frekar um þessa grein en aðrar er sú að það er ekki nema ár síðan hér var endanlega lögfest í stjórnarskrá regla um skoðana- og tjáningarfrelsi. Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort það er ástæða til að lesa allt saman upp sem kemur fram í greinargerð. En ég held að þeim tíma sem fer í að upplýsa hv. formann efh.- og viðskn. um mannréttindi og skýringu á þeim, sé mjög vel eytt.

[21:00]

Grunnreglan um tjáningarfrelsi kemur fram í upphafi 2. mgr. 11. gr. breytingarlaganna við stjórnarskrána. Ég er að lesa hér upp úr grg. með síðustu stjórnarskrárbreytingu. Þar er mælt fyrir um að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Þetta orðalag er það sama og kemur í upphafi núgildandi 72. gr. stjórnarskrárinnar ef frá er talið að þar er tekið fram að þessi réttur til að láta í ljós hugsanir sínar eigi við að það sé gert á prenti. Með orðalagi grunnreglunnar í frv. er þannig ekki aðeins ætlast til að frelsi til að tjá sig nái til prentaðs máls í bókstaflegum skilningi heldur einnig til annars ritmáls, t.d. í rafrænu formi og jafnframt mælts máls hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi, fundum eða annars á almannafæri. Þetta frelsi er þó ekki unnt að binda við tjáningu í rituðu eða mæltu máli heldur nær það allt eins til tjáningar án orða t.d. í formi listrænnar tjáningar eða látbragðs. Þegar hugað er að orðalagi grunnreglunnar í 2. mgr. 11. gr. frv. sem fjallar um tjáningarfrelsi má sjá að þar er aðeins mælt fyrir um rétt manns til að tjá hugsanir sínar en ekki minnst berum orðum á hvort ákvæðið verndi einnig rétt til að taka við tjáningu frá öðrum eða miðla skoðunum þeirra áfram ef þær verða ekki taldar hugsanir hans sjálfs í bókstaflegum skilningi.

Í 3. mgr. 11. gr. frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum. segir svo: ,,Er gengið út frá því að grunnreglan um rétt manna til að tjá sig í þeim skilningi sem um ræðir að framan geti sætt ýmiss konar undantekningum.`` Í síðari málslið 2. mgr. 11. gr. er þó tekið af skarið um að undantekningar megi ekki vera af þeim toga að þær feli í sér ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi. Meginreglan sem hér birtist, virðulegi forseti, er sú að tjáningarfrelsi beri að skýra rúmt og að með banni við ritskoðun og öðrum sambærilegum tálmunum er hér nánar tiltekið átt við að ekki megi lögfesta reglur sem fela í sér að maður verði knúinn til þess að leita opinbers leyfis fyrir fram til að tjá skoðun sína við aðra. Er þannig gengið út frá að almennt verði þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem geti talist heimilar eftir 11. gr. frv. að koma fram á þann hátt að þeim verði fyrst og fremst beitt eftir að tjáning hefur átt sér stað líkt og gerist við málsókn, til að koma fram viðurlögum vegna meiðyrða sem felast í þegar föllnum ummælum.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða fyrir efh.- og viðskn. að láta kanna hvort að þetta ákvæði fái samrýmst þessu tiltekna ákvæði stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir hin ýmsu mál hvað þetta varðar en hef þó kannski ekki komið að því hvað felst í biðlaunaréttinum svokallaða og hvort að það sé heimilt að afnema hann með frv. sem hér er lagt fram, verði það að lögum.

Mig langar í lokin að vísa örlítið í einn okkar fremsta sérfræðing á sviði eignarréttar. Gaukur Jörundsson segir á bls. 77. í bók sinni Um eignarnám --- þetta er útgáfa frá 1969 --- með leyfi forseta: ,,... aflahæfi og atvinnuréttindi manna, en á þau verður að líta svo að rök standi til að aflahæfi manna og atvinnuréttindi njóti verndar sem eign skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar.`` Ef þessi kenning prófessorsins fær staðfestingu hjá dómstólum þá er ljóst að einföld lagabreyting eins og sú sem hér er stefnt að mun ekki duga til að breyta þeim biðlaunarétti sem að er stefnt. Því hefði ég haldið, virðulegi forseti, að það hefði verið meiri manndómsbragur í að freista þess ná einhverri sátt við opinbera starfsmenn um biðlaunaréttinn heldur en að reyna með einhvers konar tilraun að afnema biðlaunaréttinn í þeirri von að dómstólar muni á síðari stigum viðurkenna að það hafi verið heimilt.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en vil ítreka þær áskoranir sem nú þegar hafa komið fram hjá flestum ræðumönnum og flestum stjórnarandstæðingum sem hafa talað í þessu máli, um að ríkisstjórnin dragi þetta blessaða frv. til baka og reyni að móta vitræna starfsmannastefnu.