Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 21:09:46 (5958)

1996-05-13 21:09:46# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[21:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af erindisbréfum og breytingu á þeim. Þetta er spurning um ákveðna festu í starfi viðkomandi starfsmanns. Yfirleitt er það nú þannig að viðkomandi starfsmenn kjósa frekar að fá erindisbréf heldur en hitt, jafnvel þótt að starfssvið þeirra geti breyst í tímans rás.

Ákvæði 40. gr. hefur verið í lögum frá 1915 og ekki verið talið andstætt mannréttindum sem samkvæmt ræðu hv. þm. eru nú töluvert eldri uppfinning en lögin sem hafa gengið hingað til.

Varðandi biðlaunaréttinn ... (ÖJ: Eruð þið ekki að nútímavæða?) hvort hann væri stjórnarskrárvarinn eignarréttur, þá kom dálítið spánskt fyrir sjónir að stéttarfélög gætu samið stjórnarskrárvarinn eignarrétt frá einstaklingum. Ég skil nú ekki hvernig hv. þm. kemst að þeirri niðurstöðu. Ekki síst vegna þess að hv. þm. er löglærður maður og ræða hans um mannréttindi og brot á stjórnarskránni og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar vekja reyndar upp ákveðnar spurningar varðandi hv. þm. vegna þess, eins og hv. þm. veit sem háskólamenntaður maður, að þá er það nú einu sinni þannig að í háskóla lærir maður hvað maður veit lítið og lærir líka að bera virðingu fyrir því litla sem maður veit. (Gripið fram í.) Það var ekki alveg að heyra á hv. þm. að hann bæri mikla virðingu fyrir því sem hann veit.